Settu þér andleg markmið
1 Það verða mikil sérréttindi að fá að lofa Jehóva um alla eilífð! En til að ná því marki getum við sett okkur ýmis andleg markmið núna til að vinna að. Það gerir okkur kleift að beita kröftum okkar viturlega. (1. Kor. 9:26) Hvaða markmið gæti verið raunhæft fyrir þig að setja þér?
2 Biblíunám: Undirbýrðu þig fyrir allar samkomur? Ef þú gerir það, gefurðu þér þá tíma til að rannsaka og íhuga námsefnið? Þegar þú ferð til dæmis yfir vikulegt námsefni Varðturnsins eða efni bóknámsins strikarðu þá aðeins undir svörin eða flettirðu upp ritningarstöðum sem vitnað er í og veltir fyrir þér heimfærslu þeirra? Gætirðu haft það sem markmið að athuga nánar nokkur atriði úr vikulega biblíulestrinum fyrir Guðveldisskólann? Það kostar tíma og erfiði að grafast eftir andlegum sannindum en umbunin er mikil. — Orðskv. 2:4, 5.
3 Safnaðarsamkomur: Annað markmið er að sækja allar safnaðarsamkomur reglulega. Með því að koma nægilega snemma til að eiga félagsskap við trúsystkini og taka þátt í upphafssöngnum og bæninni áttu þátt í að efla andann í söfnuðinum. Við gætum einnig kappkostað að svara á hverri samkomu og reynt að bæta svör okkar. Ef til vill geturðu bent á hvernig ritningarstaður í greininni á við efnið eða heimfært það upp á daglegt líf. — Hebr. 10:24, 25.
4 Boðunarstarfið: Við tökum miklum framförum í starfinu þegar við setjum okkur markmið. Hefur þú sett þér það markmið að ná vissum tímafjölda í boðunarstarfinu í hverjum mánuði? Sumum finnst það gagnlegt. Eða gætirðu tekið framförum í vissum greinum þjónustunnar svo sem að nota Biblíuna í starfinu hús úr húsi, fara í fleiri árangursríkar endurheimsóknir, keppa að því að stofna biblíunámskeið eða að kenna á áhrifaríkari hátt á biblíunámskeiðum?
5 Foreldrar, hvetjið þið börnin ykkar til að setja sér markmið í þjónustunni við Jehóva? Hjálpið þeim að skilja að það að þjóna sem brautryðjandi, trúboði eða Betelíti gefur þeim frábært tækifæri til að sýna hve þakklát þau eru Jehóva. — Préd. 12:1.
6 Ef við grannskoðum þjónustu okkar, setjum okkur andleg markmið og reynum síðan að ná þeim njótum við enn meiri gleði í þjónustunni og erum öðrum hvatning. — Rómv. 1:12.