Sýnum ‚föðurlausum‘ kærleika og umhyggju
1 Jehóva er „faðir föðurlausra.“ (Sálmur 68:6) Umhyggjan fyrir velferð þeirra kemur fram í fyrirmælunum sem hann gaf forn-ísraelsku þjóðinni: „Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra.“ (2. Mósebók 22:22, 23) Lög Guðs fólu enn fremur í sér tillögur um hvernig ætti að aðstoða þau við öflun efnislegra nauðsynja. (5. Mósebók 24:19-21) Í hinni kristnu skipan eru sannir tilbiðjendur minntir á „að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra“ (Jakobsbréfið 1:27) Hvernig getum við líkt eftir kærleika og umhyggju Jehóva gagnvart þeim sem alast upp hjá einstæðu foreldri eða á trúarlega skiptu heimili?
2 Andleg þjálfun: Ef þú ert einstætt foreldri eða átt maka, sem er ekki í trúnni, getur þér reynst erfitt að hafa reglubundinn biblíunámstíma með börnunum þínum. En regluleg og innihaldsrík fræðsla frá Biblíunni er grundvallaratriði ef þau eiga að verða yfirvegað og þroskað fólk. (Orðskviðirnir 22:6) Einnig er nauðsynlegt að ræða við þau á hverjum degi um andleg málefni. (5. Mósebók 6:6-9) Stundum gætirðu misst móðinn en gefstu ekki upp. Biddu Jehóva um styrk og leiðsögn þegar þú ‚elur [börnin þín] upp með aga og umvöndun Drottins‘ — Efesusbréfið 6:4.
3 Ef þú þarft á einhverri aðstoð að halda við að axla biblíulega ábyrgð þína láttu þá öldungana vita. Þeir gætu komið með hagnýtar uppástungur eða hjálpað þér að koma á góðri andlegri venju innan heimilisins.
4 Hvernig aðrir geta hjálpað: Á fyrstu öldinni varð Tímóteus ötull þjónn Jehóva þótt hann hafi alist upp á trúarlega skiptu heimili. Markviss viðleitni móður hans og ömmu við að kenna honum hin helgu rit í barnæsku hefur án efa átt stóran þátt í að svo varð. (Postulasagan 16:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15) Samt hafði hann einnig gagn af félagsskap við aðra kristna menn þar á meðal Pál postula sem sagði um Tímóteus að hann væri ‚elskað og trútt barn sitt í Drottni.‘ — 1. Korintubréf 4:17.
5 Eins er það heillavænlegt nú á tímum þegar andlega þroskuð trúsystkini sýna föðurlausum drengjum og stúlkum í söfnuðinum kærleika og umhyggju. Þekkirðu þau öll með nafni? Talar þú við þau á samkomum safnaðarins og við önnur tækifæri? Bjóddu þeim að fara með þér út í starfið. Ef til vill getur þú boðið þeim stundum ásamt einstæða eða trúaða foreldrinu að vera með ykkur í fjölskyldunáminu eða þegar þú hyggur á heilnæma afþreyingu. Þegar þetta unga fólk lítur á þig sem vin þá eru meiri líkur á því að þau líki eftir fordæmi þínu og taki hvatningu þína til greina. — Filippíbréfið 2:4.
6 Jehóva er mjög umhugað um föðurlausa drengi og föðurlausar stúlkur og hann umbunar kærleiksríka viðleitni okkar til þess að hjálpa þeim að tileinka sér sannleikann. Margir, sem ólust upp hjá öðru foreldrinu eða á trúarlega skiptu heimili, fengu slíka uppörvun og þjóna nú trúfastlega sem brautryðjendur, safnaðarþjónar, öldungar, farandumsjónarmenn, trúboðar eða í Betelfjölskyldunni. Við skulum öll leita leiða til að láta verða „rúmt“ um föðurlausa í hjarta okkar, með því að líkja eftir himneskum föður okkar. — 2. Korintubréf 6:11-13.