‚Þeir geri það er geta‘
1 Eitt sinn þegar Jesús var að ræða við lærisveina sína um hjónabandið sagði hann að það væri gjöf að vera einhleypur. Síðan sagði hann: ‚Þeir geri það er geta.‘ (Matt. 19:10-12, Biblían 1859) Nokkrum árum síðar skrifaði Páll postuli um kosti þess að vera einhleypur og hvatti aðra til að fylgja fordæmi sínu og halda áfram að vera ógiftir. (1. Kor. 7:7, 38) Margir nú á dögum hafa ákveðið að vera einhleypir og njóta góðs af. Hvaða kosti hefur það í för með sér?
2 Þjónað „hindrunarlaust“: Páll skildi að einhleypi gæfi sér tækifæri til að þjóna Jehóva „hindrunarlaust.“ Eins er það nú á dögum. Einhleypur bróðir getur sótt um að fara í Þjónustuþjálfunarskólann. Sá sem er einhleypur er líka almennt frjálsari til að hefja brautryðjandastarf, læra annað tungumál, flytja þangað sem þörfin er meiri, þjóna á Betel eða fá önnur þjónustusérréttindi. Hann gæti haft meiri tíma og fengið fleiri tækifæri til að sökkva sér niður í einkanám og hugleiðingu og til að tala við Jehóva í innilegri bæn. Oft hefur sá, sem er einhleypur, meiri tíma til að gefa af sjálfum sér og hjálpa öðrum. Allt þetta er honum „til góðs.“ — 1. Kor. 7:32-35, Biblían 1859; Post. 20:35.
3 Það veitir blessun á ýmsum sviðum að þjóna Jehóva þannig hindrunarlaust. Einhleyp systir skrifaði eftir að hafa verið í Kenía í 27 ár: „Ég átti svo marga vini og það var svo mikið verk að vinna. Við gerðum margt saman [og] heimsóttum hvert annað. . . . Þar sem ég var einhleyp gat ég notfært mér það frelsi sem því fylgir og verið upptekin í boðunarstarfinu. Það hefur gefið mér mikla gleði og ánægju.“ Hún bætir við: „Með árunum hefur samband mitt við Jehóva styrkst.“
4 Notum gjöfina rétt: Jesús sagði að þeir sem kjósi að vera einhleypir ættu að gera það „vegna himnaríkis.“ (Matt. 19:12) En eins og með allar gjafir, þá verður að nýta sér einhleypi á réttan hátt til að hafa gagn og gaman af. Með því að nýta sér rétt það tækifæri, sem einhleypi er, og með því að treysta á visku og mátt Jehóva, hafa margir ógiftir einstaklingar áttað sig á gildi þess að vera einhleypur.