Regluleg samkomusókn gengur fyrir
1 Kristnar fjölskyldur láta reglulega samkomusókn ganga fyrir. En það getur reynst þrautin þyngri í hinu daglega amstri. Eru húsverkin, vinnan eða skólinn farin að ganga á þann tíma sem tekinn hefur verið frá fyrir tilbeiðsluna á Jehóva? Við eigum auðveldara með að hafa rétta forgangsröð ef við lítum á málin út frá sjónarhóli Jehóva. — Ef. 5:10.
2 Ísraelsmaður nokkur safnaði viði á hvíldardegi og vanrækti þannig vísvitandi að líta málin út frá sjónarhóli Jehóva. Ef til vill hefur hann hugsað sem svo að hann væri að sjá fyrir fjölskyldu sinni eða að þetta væri ekki svo alvarlegt. En Jehóva kvað upp dóm yfir honum og sýndi þannig hversu alvarlegt það er að sinna hversdagslegum hlutum á þeim tíma sem er frátekinn fyrir tilbeiðsluna. — 4. Mós. 15:32-36.
3 Unnið á vandanum: Hjá mörgum er það barátta að láta vinnuna ekki trufla samkomusókn. Sumir hafa tekið á þessu með því að ræða við vinnuveitanda sinn, skiptast á vöktum við vinnufélaga, leita sér að hentugri vinnu eða einfalda lífsstílinn. Fullvíst er að slíkar fórnir í þágu sannrar tilbeiðslu eru Guði velþóknanlegar. — Hebr. 13:16.
4 Það getur líka komið upp vandamál í tengslum við heimavinnuna. „Ég vinn hluta heimanámsins áður en ég fer á samkomur og lýk við það þegar ég kem heim,“ sagði unglingur nokkur. Ef ekki hefur verið unnt að ljúka við allt heimanámið á samkomukvöldum hafa sumir foreldrar útskýrt fyrir kennurum að samkomurnar gangi fyrir hjá fjölskyldunni.
5 Samvinna og góð skipulagning er lykillinn að því að hægt sé að gera allt sem þarf að gera áður en farið er á samkomur. Þannig getur öll fjölskyldan sótt samkomurnar saman. (Orðskv. 20:18) Það er jafnvel hægt að kenna tiltölulega ungum börnum að vera uppáklædd og tilbúin á ákveðnum tíma til að fara á samkomu. Með fordæmi sínu geta foreldrar innprentað börnunum hversu mikilvægar samkomurnar eru. — Orðskv. 20:7.
6 Álagið frá núverandi heimskerfi eykst og því er mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur reglulega. Höldum áfram að líta á málin út frá sjónarhóli Jehóva og láta reglulega samkomusókn ganga fyrir. — Hebr. 10:24, 25.