Alvarleg ábyrgð að sækja samkomur
1 Hve alvarlega tekur þú það að sækja samkomur? Það er áleitin spurning. Án efa finnst okkur flestum við kunna að meta samkomurnar. Skýrslur sýna hins vegar að samkomusóknin hefur minnkað í mörgum söfnuðum upp á síðkastið. Hver gæti ástæðan verið? Leyfa sum okkar ónauðsynlegri veraldlegri vinnu, þreytu, heimavinnu, smávægilegum slappleika eða svolítið slæmu verðri að standa í vegi fyrir að við sinnum þeirri skyldu okkar að sækja samkomur reglulega? (5. Mós. 31:12) Þar sem þetta er biblíuleg krafa ætti sérhvert okkar að íhuga vandlega spurninguna: Hversu alvarlega tek ég það að sækja samkomur?
2 Sumir bræðra okkar ganga marga klukkutíma eftir rykugum vegum og fara yfir ár með krókódílum til þess að sækja samkomur. Í þínum söfnuði kunna að vera trúfastir einstaklingar sem ‚aldrei vantar‘ þrátt fyrir alvarleg heilsuvandamál, líkamlega fötlun, óhemjuvinnuálag á vinnustað sínum eða krefjandi verkefni í skólanum. (Lúk. 2:37, NW) Hvers vegna leggja þeir það á sig að koma? Vegna þess að þeir vita að þeir geta ekki í eigin mætti staðist það álag sem þessi heimur leggur á okkur. Þeir verða að reiða sig á þann styrk sem Guð gefur. — 2.Kor. 12:9, 10.
3 Nú á tímum fylgjum við þeirri fyrirmynd sem frumkristnir menn settu, en þeir hittust reglulega til að biðja, segja frá reynslu sinni og nema orð Guðs. (Post. 4:23-30; 11:4-18; Kól. 4:16) Við fáum fræðslu um spádóma Biblíunnar og kennisetningar, svo og um kristilega hegðum og siðferði ásamt tímabærum áminningum um að bæta líf okkar núna með því að heimfæra frumreglur Biblíunnar vandlega á líf okkar. (1. Tím. 4:8) Auk þess erum við minnt á þá von okkar að dag einn muni vandamál og þjáningar taka enda. Það er lífsnauðsynlegt að halda þessari von lifandi. — Hebr. 6:19.
4 Hve alvarlega tekur fjölskylda þín það að sækja samkomur? Er það jafnmikill hluti af dagskrá ykkar og máltíðirnar eða vinnan? Er það deiluefni á samkomukvöldum hvort þið eigið að fara á samkomuna eða ekki, eða er reglulegur félagsskapur við bræður ykkar ekki valfrjáls á ykkar heimili? Margir boðberar minnast fordæmis vígðra foreldra sinna frá uppvaxtarárum sínum. „Það var eitt við pabba,“ segir öldungur með ánægju, „að hann gætti þess alltaf að fjölskyldan færi á samkomurnar. Ef einhver var veikur var eitt okkar eftir heima með honum en hinir fóru á samkomuna.“
5 Í næstu tölublöðum Ríkisþjónustu okkar munum við ræða um gildi hverrar safnaðarsamkomu fyrir sig með það í huga að hjálpa öllum að meta meir þessar andlegu ráðstafanir. Ef þú gætir sótt samkomurnar betur erum við vissir um að greinarnar munu hjálpa þér að gera þér ljóst hvers þú ferð á mis. Þær munu innihalda gagnleg minnisatriði fyrir þá sem sjórna samkomunum, svo og tillögur sem við getum öll nýtt okkur þegar við búum okkur undir þær og tökum þátt í þeim. Hví ekki setjast niður sem fjölskylda og skoða vandlega venjur ykkar varðandi það að sækja samkomurnar? Gerið síðan hverjar þær breytingar sem þörf er á. Það er bráðnauðsynlegur þáttur í guðræðislegri menntun okkar að sækja samkomurnar og skyldi svo sannarlega tekið mjög alvarlega.