Líktu eftir hugarfari Jesú
1. Hvaða hugarfar hafði Jesús?
1 Við höfum aldrei séð son Guðs en við höfum samt lært að elska hann af því að við höfum kynnt okkur ævi hans og þjónustu af guðspjöllunum. (1. Pét. 1:8) Hann gerði vilja föður síns með því að yfirgefa háa stöðu á himnum og koma til jarðar. Hann þjónaði öðrum af óeigingirni sem maður og gaf síðan líf sitt í þágu mannkynsins. (Matt. 20:28) Orð Guðs hvetur okkur: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.“ Hvernig getum við líkt eftir fórnfýsi hans? — Fil. 2:5-8.
2. Við hvað eiga margir kristnir menn að glíma og hvað getur hjálpað þeim að yfirstíga það?
2 Þegar við erum þreytt: Jesús þreyttist þótt fullkominn væri. Eitt sinn er hann var „vegmóður“ vitnaði hann fyrir samverskri konu. (Jóh. 4:6) Margir kristnir menn nú á dögum þekkja af eigin raun að það getur verið erfitt að drífa sig út í boðunarstarfið eftir annasama vinnuviku. En ef við gerum það að reglu finnum við hvernig hin kristna þjónusta endurnærir okkur andlega. — Jóh. 4:32-34.
3. Hvernig getum við líkt eftir fúsleika Jesú að kenna?
3 Við annað tækifæri voru Jesús og lærisveinar hans á leið á óbyggðan stað til að fá smáhvíld. En mikill fjöldi fólks komst að því og fór á undan þeim að hitta þá. Í stað þess að verða pirraður ,kenndi Jesús í brjósti um þá‘ og fór að ,kenna þeim margt‘. (Mark. 6:30-34) Við þurfum að hafa svipað hugarfar til að hefja biblíunámskeið og halda þeim áfram. Það krefst þess að við leggjum okkur þolgóð fram og berum einlægan kærleika til fólks. Gefstu ekki upp á að leita þótt þú haldir ekki biblíunámskeið sem stendur.
4. Hvernig getur aðstoðarbrautryðjandastarfið hjálpað okkur að líkja eftir hugarfari Krists?
4 Settu andleg mál í fyrsta sæti: Aðstoðarbrautryðjandastarfið getur hjálpað okkur að einbeita okkur betur að andlegum málum. Ung systir skrifaði: „Móðir vinkonu minnar hvatti okkur báðar til að verða aðstoðarbrautryðjendur í einn mánuð ásamt sér. Ég er mjög ánægð að hafa fylgt fordæmi hennar. Mér fannst gaman að kynnast trúsystkinum mínum betur og þau urðu mér fljótlega eins og fjölskylda. Mér fannst líka ánægjulegt að geta talað meira við aðra um Jehóva og kenna þeim dásamleg sannindi um Guðsríki. Fyrir vikið finnst mér ég vera nánari Jehóva og skipulagi hans.“ — Sálm. 34:9.
5. Hvers vegna verðum við að leggja okkur stöðugt fram um að líkja eftir hugarfari Jesú?
5 Við eigum öll í baráttu þar sem ófullkomleiki holdsins stangast á við löngunina til að þóknast Jehóva. (Rómv. 7:21-23) Við verðum að varast sérhlífni heimsins. (Matt. 16:22, 23) Jehóva getur hjálpað okkur til þess með heilögum anda sínum. (Gal. 5:16, 17) Meðan við bíðum eftir frelsun inn í réttlátan, nýjan heim Guðs skulum við líkja eftir hugarfari Jesú með því að setja hagsmuni Guðsríkis og hag annarra framar okkar eigin. — Matt. 6:33; Rómv. 15:1-3.