Spurningakassinn
◼ Hvernig ættum við að sinna verkefnum í söfnuðinum?
Skipuleg starfsemi safnaðarins kemur til af samstilltu átaki fólks Jehóva. (1. Kor. 14:33, 40) Hugsaðu um allt sem gert er á einni samkomu. Fyrir utan dagskrána sjálfa vinna bræður og systur ýmis verkefni bæði fyrir og eftir samkomuna. Önnur störf, sem eru ekki fyrir allra augum, eru líka mikilvæg. Hvernig getur hvert og eitt okkar lagt þessu fyrirkomulagi lið?
Vertu viljugur. Þeir sem eru viljugir fá mikið að gera. (Sálm. 110:3) Láttu þér umhugað um veika og aldraða. Aðstoðaðu við að þrífa ríkissalinn. Við getum unnið mörg gagnleg verk án þess að vera beðin sérstaklega um það. Við þurfum einfaldlega að hafa löngun til að hjálpa.
Vertu lítillátur. Lítillátur maður þjónar öðrum með gleði. (Lúkas 9:48) Lítillæti kemur í veg fyrir að við tökum að okkur meira en við getum með góðu móti sinnt. Það forðar okkur einnig frá því að fara út fyrir valdsvið okkar. — Orðskv. 11:2.
Vertu áreiðanlegur. Móse var hvattur til að velja „áreiðanlega menn“ í ábyrgðarstöður í Forn-Ísrael. (2. Mós. 18:21) Þessi eiginleiki er líka mikilvægur nú á dögum. Sinntu hverju verkefni sem þú færð samviskusamlega. (Lúk. 16:10) Ef þú getur ekki unnið ákveðið verkefni skaltu ganga úr skugga um að einhver annar verði fenginn til að sjá um það í fjarveru þinni.
Gerðu þitt besta. Kristnir menn eru hvattir til að vinna af heilum huga, jafnvel í veraldlegum málum. (Kól. 3:22-24) Við höfum ríkari ástæðu til þess þegar við vinnum að því að efla sanna tilbeiðslu. Þó að verkefni virðist lítilvægt eða ómerkilegt er það söfnuðinum til blessunar þegar því eru gerð góð skil.
Hvert verkefni fyrir sig gefur okkur tækifæri til að sýna kærleika okkar til Jehóva og bræðra okkar. (Matt. 22:37-39) Vinnum trúfastlega að öllum verkefnum sem okkur er treyst fyrir.