Hvernig ættum við að nota kynningartillögur?
1. Hvernig eigum við að líta á kynningartillögur?
1 Í Ríkisþjónustu okkar eru birtar að staðaldri tillögur um hvernig við getum boðið blöðin okkar og önnur rit. Við þurfum hins vegar ekki að fara orðrétt með þessar kynningartillögur í boðunarstarfinu. Ætlunin er að gefa okkur hugmynd um hvað við getum sagt. Við náum yfirleitt betri árangri ef við endursegjum kynningarnar með eigin orðum. Húsráðandinn á auðveldara með að slaka á þegar við tjáum okkur á eðlilegan hátt og það gefur einnig til kynna einlægni og að við séum sannfærð um það sem við segjum. — 2. Kor. 2:17; 1. Þess. 1:5.
2. Hvers vegna verðum við að taka mið af siðvenjum þegar við undirbúum kynningar?
2 Lagaðu kynninguna að aðstæðum: Siðvenjur á hverjum stað ráða miklu um það hvernig við kynnum fagnaðarerindið. Geturðu byrjað á léttu spjalli og síðan fléttað kynninguna inn í samræðurnar eða ætlast fólkið á svæðinu til þess að þú komir þér beint að efninu? Þetta er breytilegt frá einu svæði til annars og jafnvel frá manni til manns. Einnig þarf að sýna dómgreind þegar við notum spurningar. Spurningar sem eru viðeigandi á einum stað gætu verið óþægilegar fyrir fólk annars staðar. Við verðum því að beita góðri dómgreind og aðlaga kynninguna að því sem telst viðeigandi á svæðinu.
3. Hvers vegna er gott að hugsa um uppruna og hugsunarhátt þeirra sem við tölum við?
3 Auk þess verðum við að taka tillit til uppruna og hugsunarháttar fólksins á svæðinu þegar við búum okkur undir boðunarstarfið. Þú færir til dæmis öðruvísi að ef þú værir að ræða um Matteus 6:9, 10 við heittrúaðan kaþólikka en einhvern sem þekkir ekki faðirvorið. Með smá-fyrirhyggju getum við oft aðlagað kynningarnar aðstæðum til að þær höfði betur til fólksins sem við hittum. — 1. Kor. 9:20-23.
4. Hvers vegna er góður undirbúningur mikilvægur?
4 Ekkert kemur í staðinn fyrir góðan undirbúning, jafnvel þótt við ætlum að nota kynningartillögu að mestu leyti eins og hún kemur fyrir. Við ættum að lesa vandlega greinina eða kaflann sem við ætlum að nota í boðunarstarfinu og leita að atriðum sem geta vakið áhuga fólks. Síðan skaltu hafa þessi atriði með í kynningunni. Við getum ekki boðið ritin af eldmóði nema með því að vera vel heima í þeim.
5. Hver gæti verið ástæðan fyrir því að nota aðra kynningu en mælt er með og hvernig getum við farið að því?
5 Aðrar aðferðir: Erum við bundin við að nota aðeins þær aðferðir sem mælt er með? Nei, ef þér finnst auðveldara að nota einhverja aðra aðferð eða annan ritningarstað skaltu gera það. Þegar þú býður blöðin geturðu notað annað efni en forsíðugreinarnar. Vertu vakandi fyrir því sem á sérstaklega við á svæðinu. Þegar kynningartillögur eru sviðsettar á þjónustusamkomu væri hægt að nota hverja þá aðferð sem virkar vel á svæðinu. Þannig er hægt að hjálpa öllum að bera fagnaðarerindið fram á áhrifaríkan hátt.