Heimsátak til að kynna umdæmismótið „Fylgjum Kristi“
Við munum aftur dreifa sérstökum boðsmiða
1 Á síðasta ári var gert heimsátak í að kynna umdæmismótið „Lausnin er í nánd“ og hafði það mikil áhrif á áhugasamt fólk. Þeir sem þáðu boðið upplifðu í fyrsta skipti hvernig það er að vera viðstaddur andlega veislu hjá Vottum Jehóva. (Jes. 65:13) Þeir höfðu ánægju af að vera með sameinuðu bræðrafélagi okkar. (Sálm. 133:1) Í ár verður aftur gert átak um allan heim til að dreifa sérstökum boðsmiða svo að sem flestir geti sótt umdæmismótið „Fylgjum Kristi“.
2 Árangurinn í fyrra: Skýrslur alls staðar að úr heiminum sýna að frábær árangur hlaust af því að auglýsa umdæmismótið „Lausnin er í nánd“. Á mörgum stöðum fengum við jákvæða umfjöllun. Til dæmis birti dagblað í einni borg grein í sex dálkum um átakið og sagði: „Vottarnir hafa lagt sig sérstaklega fram um að ná til allra með því að nota meira af tíma sínum, ganga lengri vegalengdir og tala hraðar.“ Í annarri borg vakti þetta samstillta átak athygli fjölmiðla sem fjölluðu ítarlega um átakið fyrir umdæmismótin. Að minnsta kosti þrjú dagblöð birtu jákvæða umfjöllun um málið. Í sunnudagsútgáfu hjá einu dagblaðinu skrifaði fréttamaður yfirgripsmikla grein sem fyllti meira en tvær blaðsíður. Þar var fjallað um trúarskoðanir okkar, bræðrafélagið, dreifingu sérstaka boðsmiðans og umdæmismótið. Þegar boðberi var að dreifa boðsmiðum sagði húsráðandi einn: „Já, ég var einmitt að lesa um þetta í dagblaðinu.“ Annar húsráðandi sagði: „Ég var að enda við að lesa um ykkur og nú eruð þið hér! Er þetta boðsmiðinn minn?“ Hann bætti við: „Þetta er mjög gott starf sem þið vottar Jehóva eruð að gera.“
3 Margir áhugasamir komu á mótsstaðina með boðsmiðann í hendinni. Sumir þeirra keyrðu langar vegalengdir til að sækja mótið. Viðleitni okkar við að bjóða öðrum stuðlaði að því að fleiri gestir sóttu mótin. Í einu landi fjölgaði mótsgestum um meira en 27 prósent frá því í fyrra.
4 Að fara yfir svæði safnaðarins: Það má byrja að dreifa boðsmiðunum þremur vikum fyrir umdæmismótið. Í síðustu vikunni fyrir mótið geta boðberar stungið boðsmiðum í bréfalúgur þar sem enginn er heima ef svæði safnaðarins er stórt. Söfnuðir ættu að leggja sig fram um að dreifa öllum boðsmiðunum og fara yfir sem mest af svæði safnaðarins. Ef einhver afgangur er af boðsmiðum ætti að láta þá í hendur brautryðjenda safnaðarins.
5 Hvað getum við sagt: Þú gætir til dæmis sagt: „Við tökum þátt í alþjóðlegu átaki og erum að bjóða fólki að sækja sérstakan viðburð. Hér er boðsmiðinn þinn. Allar nánari upplýsingar eru á miðanum.“ Við komumst yfir stærra svæði ef við erum stuttorð. En ef húsráðandi hefur einhverjar spurningar gefum við okkur að sjálfsögðu tíma til að svara honum. Þegar fólk sýnir áhuga ættum við að skrá það niður hjá okkur og koma aftur eins fljótt og hægt er.
6 Það er afar mikilvægt að við fylgjum Kristi. (Jóh. 3:36) Dagskráin á næsta umdæmismóti mun einmitt hjálpa okkur að gera það. Þetta sérstaka átak til að kynna mótið „Fylgjum Kristi“ mun örugglega gefa góðan vitnisburð líkt og í fyrra. Við skulum því leggja okkur fram um að bjóða sem flestum á mótið. Megi Jehóva blessa viðleitni þína til að taka þátt í þessu kynningarátaki sem fer fram út um allan heim.