Við njótum þess að leggja okkur fram í þjónustu Jehóva
1 Páll postuli var fús til að ‚leggja sjálfan sig í sölurnar‘ til að gera boðunarstarfinu góð skil. (2. Kor. 12:15) Margir þjónar Guðs nú á dögum starfa einnig kostgæfilega sem brautryðjendur. Aðrir sem hafa mikla fjölskylduábyrgð taka frá tíma í hverri viku til að fara í boðunarstarfið. Enn aðrir glíma við alvarlegan heilsubrest en nota þá litlu krafta sem þeir hafa í þágu Guðsríkis. Það er sannarlega hvetjandi að sjá fólk Jehóva leggja sig fram í þjónustu hans óháð aldri og aðstæðum.
2 Kærleikur til náungans: Við höfum hreina samvisku ef við gerum allt sem við getum til að þjóna Jehóva og sýnum þannig kærleika okkar til hans og náungans. Þar sem Páll gaf sig allan að boðun fagnaðarerindisins gat hann glaður sagt: „Þess vegna vitna eg fyrir yður, daginn þennan í dag, að eg er hreinn af blóði allra.“ (Post. 20:24, 26, Biblían 1912; 1. Þess. 2:8) Við bökum okkur ekki blóðsekt ef við sinnum boðunarstarfinu eins vel og aðstæður leyfa. — Esek. 3:18-21.
3 Það veitir okkur gleði að leggja hart að okkur við að hjálpa öðrum. (Post. 20:35) Trúbróðir nokkur sagði: „Vissulega er ég þreyttur þegar ég kem heim á kvöldin eftir að hafa verið í þjónustu Jehóva allan daginn. En ég er ánægður og ég þakka Jehóva fyrir að hafa gefið mér gleði sem enginn getur tekið frá mér.“
4 Kærleikur til Guðs: Aðalástæðan fyrir því að við leggjum okkur fram í þjónustu Jehóva er sú að það gleður hann. Kærleikur til Guðs knýr okkur til að halda boðorð hans, þeirra á meðal að prédika og gera menn að lærisveinum. (1. Jóh. 5:3) Jafnvel þegar við mætum sinnuleysi eða andstöðu höldum við glöð áfram að leggja hart að okkur fyrir Jehóva.
5 Núna er ekki rétti tíminn til að slaka á. Uppskeran stendur yfir. (Matt. 9:37) Bændur vinna yfirleitt langan vinnudag á uppskerutímanum því að þeir hafa takmarkaðan tíma til að safna saman uppskerunni áður en hún fer að skemmast. Tíminn, sem ætlaður er hinu andlega uppskerustarfi, er einnig takmarkaður. Höfum í huga á hvaða tíma við lifum og höldum áfram að vera dugleg í boðunarstarfinu. — Lúk. 13:24; 1. Kor. 7:29-31.