Spennandi breytingar á Varðturninum
1 Fyrr á árinu fengu söfnuðirnir bréf með spennandi tilkynningu. Frá janúar 2008 kemur Varðturninn út í tveimur mismunandi útgáfum, annarri fyrir almenning og hinni fyrir safnaðarmenn. Þú hefur ef til vill velt því fyrir þér hvaða munur verði á þessum tveimur útgáfum og hverjir kostirnir séu við að hafa tvær útgáfur. Þá er líka forvitnilegt að vita hvort það verði einhverjar nýjungar og hvernig útgáfunni verði háttað á íslensku.
2 Breytingarnar: Blaðið dagsett fyrsta hvers mánaðar á ensku og mörgum öðrum tungumálum verður þekkt sem ‚almenna útgáfan‘. Allt efni blaðsins verður sniðið að þörfum almennra lesenda. Á íslensku verður gefin út almenn útgáfa fjórum sinnum á ári. Hún verður dagsett janúar-mars, apríl-júní o.s.frv. Efni hvers blaðs verður úrval greina úr ensku útgáfunni svipað og Vaknið! Blaðið, sem er dagsett 15. hvers mánaðar, verður þekkt sem ‚námsútgáfan‘ og verður ekki boðið almenningi í boðunarstarfinu. Sú útgáfa verður eins á íslensku og á öðrum tungumálum. Í henni verður að finna allar námsgreinar fyrir mánuðinn og aukagreinar sem höfða til vígðra þjóna Jehóva. Efnið í almennu útgáfunni verður fróðlegt fyrir safnaðarmenn en það mun höfða sérstaklega til þeirra sem tilheyra ekki söfnuðinum en virða Biblíuna. Vaknið! mun á hinn bóginn vera fyrir breiðari lesendahóp, þar með talið efasemdamenn og þá sem eru ekki kristinnar trúar.
3 Kostirnir: Í námsútgáfunni þarf ekki lengur að skýra hugtök eins og „brautryðjandi“ þannig að almenningur skilji og einnig verður hægt að birta hnitmiðað efni sem er sérstaklega samið fyrir votta Jehóva og biblíunemendur sem taka framförum í trúnni. Hér eftir munum við hafa sama námsefni á sama tíma og trúsystkin okkar erlendis. Hvað um almennu útgáfuna? Þar sem efni blaðsins og orðaval verður sérstaklega sniðið að almenningi ættu þeir sem tilheyra ekki söfnuðinum að geta notið þess að lesa blaðið frá upphafi til enda. Allir vottar Jehóva ættu engu að síður að hafa gagn og gaman af því að lesa hvert blað. Þar sem við höfum færri Varðturnsblöð sem við bjóðum almenningi í boðunarstarfinu ætti að gefast tími til að huga vel að því hvernig við kynnum blaðið.
4 Verða einhverjar nýjungar?: Það er ýmislegt spennandi í burðarliðnum hvað varðar almennu útgáfuna af Varðturninum. Ein greinaröð mun útskýra biblíukenningar á einfaldan hátt. Í annarri verður fjölskyldum bent á hvernig Biblían getur gagnast þeim. Unga fólkið fær tillögur að biblíunámsverkefnum. Í hverju blaði verður grein sem beinir athyglinni að ákveðnum versum í Biblíunni þar sem við getum fræðst betur um Jehóva og eiginleika hans.
5 Það er bæn okkar að Jehóva blessi þessa nýju útgáfu af Varðturninum. Megi hún ásamt Vaknið! ná til enn fleiri sem eru verðugir að heyra fagnaðarerindið. — Matt. 10:11.