Segjum öðrum frá fagnaðarerindinu um Guðsríki
1 Nú á hinum síðustu dögum eru margir í heiminum vonlausir. (Ef. 2:12) Aðrir eru óskynsamir og setja traust sitt á efnislegan auð, veraldlega stjórnendur, nútímavísindi og þar fram eftir götum. Við erum mjög ánægð að eiga sanna framtíðarvon, von sem er eins og „akkeri sálarinnar, traust og öruggt“. — Hebr. 6:19.
2 Undir stjórn ríkis Guðs verður jörðinni breytt í paradís. Látnir ástvinir verða reistir upp. (Post. 24:15) Fátækt, óréttlæti, sjúkdómar, öldrun og dauði munu ekki framar vera til. (Sálm. 9:18; Matt. 12:20, 21; Opinb. 21:3, 4) Þetta eru nokkur af þeim loforðum Jehóva sem uppfyllast bráðlega. Hvaða loforð hlakkar þú sérstaklega til að sjá uppfyllast?
3 Boðum fagnaðarerindið: Við megum ekki halda voninni um Guðsríki út af fyrir okkur. Kærleikurinn til Guðs og náungans fær okkur til að líkja eftir Jesú og „flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa“. (Lúk. 4:18) Páll postuli sagði fólki frá fagnaðarerindinu á mörkuðunum og alls staðar þar sem það var að finna. Hann gaf sig allan að boðunarstarfinu. (Post. 18:5) Með því að fylgja fordæmi hans og vera dugleg í boðunarstarfinu komumst við hjá því að „áhyggjur heimsins, [og] tál auðæfanna“ dragi úr von okkar. — Mark. 4:19.
4 Vonin um ríki Guðs dofnar ekki þótt við hittum fólk sem er áhugalaust um fagnaðarerindið eða er á móti okkur. Við „höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika“. (Hebr. 10:23) Við skömmumst okkar ekki fyrir fagnaðarerindið. (Rómv. 1:16) Svo gæti farið að augljós sannfæring okkar og þrautseigja snerti einhverja þannig að þeir færu að hlusta.
5 Við erum ekki að boða dómsboðskap þótt við beinum réttilega athyglinni að því versnandi ástandi í heiminum sem spáð er um í Biblíunni. Í boðunarstarfinu beinum við öllu heldur sjónum fólks að voninni um ríki Guðs — fagnaðarerindinu. Við skulum því boða fagnaðarerindið af sannfæringu og kappi allt til enda „þar til von [okkar] fullkomnast“. — Hebr. 6:11.