Sérstakt dreifingarátak 20. október til 16. nóvember
1 Frá og með mánudeginum 20. október verður gert sérstakt átak í fjórar vikur til að dreifa nýju smáriti sem heitir Viltu vita svörin? Það er von okkar að þetta heimsátak muni vekja aukinn áhuga á einu uppsprettu sannleikans. — Jóh. 17:17.
2 Í smáritinu er að finna hnitmiðuð svör Biblíunnar við sex mikilvægum spurningum: „Er Guði annt um okkur?“ „Taka styrjaldir og þjáningar einhvern tíma enda?“„ Hvað gerist við dauðann?“ „Er einhver von um að sjá látna ástvini aftur?“ „Hvernig bænir heyrir Guð“ og „Hvernig er hægt að finna hamingjuna?“ Kirkjur kristna heimsins hafa aldrei veitt viðunandi svör við þessum spurningum. Og þó að fólk játi ekki kristna trú hafa margir velt þessum málum fyrir sér. En þeir gera sér kannski ekki grein fyrir því að Biblían veitir skýr svör. Þetta smárit ætti því að höfða til margra.
3 Farðu yfir starfsvæðið þitt: Reyndu að fara yfir sem mest af starfsvæði þínu. Ef þú ert með stórt svæði hvetja öldungarnir þig kannski til að skilja eftir smárit þar sem enginn er heima í fyrstu heimsókn. Mundu eftir að dreifa smáritinu til nágranna, ættingja, kunningja á vinnustað eða í skóla og annarra sem þú talar oft við. Kannski gætirðu gert ráðstafanir til að vera aðstoðarbrautryðjandi í október eða nóvember. Ertu með biblíunemanda eða áttu barn sem tekur góðum framförum í trúnni og gæti tekið þátt í átakinu sem óskírður boðberi? Ef svo er skaltu tala við öldungana.
4 Hvað geturðu sagt?: Til að geta náð til sem flestra er best að vera stuttorður. Þú gætir einfaldlega spurt húsráðandann einhverra af spurningunum sex á forsíðunni og sýnt honum svarið í ritinu. Með þessum hætti geta boðberar aðlagað kynningarorð sín aðstæðum á svæðinu. Ef einhver sýnir áhuga skaltu skrifa það hjá þér og koma aftur. Um helgar má bjóða nýjustu blöðin með smáritinu. Þegar átakinu lýkur 16. nóvember bjóðum við bókina Hvað kennir Biblían? Ef einhver smárit verða eftir ætti að nota þau á sama hátt og önnur smárit.
5 Hefjum biblíunámskeið: Þetta smárit hefur verið samið sérstaklega til að hjálpa okkur að hefja biblíunámskeið. Þegar við förum aftur til þeirra sem sýndu áhuga gætirðu spurt hvaða svar Biblíunnar hafi veitt þeim huggun eða hughreystingu. Sýndu þeim baksíðuna þar sem minnst er á biblíunámskeið og réttu þeim síðan bókina Hvað kennir Biblían? Ef það er hægt gætirðu farið stuttlega yfir eina eða tvær greinar í kaflanum sem fjallar um það efni sem húsráðandinn hafði áhuga á.
6 Jehóva leitar að þeim sem vilja tilbiðja hann „í anda og sannleika“. (Jóh. 4:23) Við skulum því öll taka þátt í þessu sérstaka átaki til að hjálpa öðrum að kynnast sannleikanum.