Notaðu Biblíuna af leikni
1. Hvers vegna er Biblían afar gagnleg?
1 Með því að nota innblásið orð Guðs af leikni getum við flutt fagnaðarerindið og kennt sannleikann skýrt og skilmerkilega og afhjúpað rangar hugmyndir og erfikenningar manna. — 2. Tím. 2:15; 1. Pét. 3:15.
2. Hvað hjálpar okkur að verða leiknari í að finna ritningarstaði?
2 Kynnstu Biblíunni betur: Það á við um öll verkfæri að því meir sem við notum þau þeim mun leiknari verðum við í að beita þeim. Með því að lesa Biblíuna frá a til ö færðu góða yfirsýn yfir heildarmyndina. Þá áttu einnig auðveldara með að muna ritningarstaði og finna þá. Þegar þú kynnist Biblíunni jafnt og þétt ferðu að tala af meiri krafti og sannfæringu hvort sem þú vitnar óformlega eða hús úr húsi. — 1. Þess. 1:5.
3, 4. (a) Hvað er hægt að gera til að kynnast Biblíunni betur? (b) Hefurðu gert eitthvað annað til að læra betur á Biblíuna?
3 Vendu þig á að opna Biblíuna og fylgjast með í henni á samkomum. Þegar þú stundar sjálfsnám eða undirbýrð þig fyrir samkomur skaltu fletta upp versunum, sem vísað er til, og hugleiða hvernig þau eigi við efnið. Margir hafa komist að raun um að ef þeir lesa versin beint upp úr Biblíunni en ekki af tölvuskjá eða útprentuðu blaði, eiga þeir auðveldara með að finna versin aftur þegar þeir þurfa á þeim að halda í boðunarstarfinu. — Jóh. 14:26.
4 Sumar fjölskyldur hafa ætlað sér ákveðinn tíma til að leggja á minnið biblíuvers. Hægt er að gera það með því að nota pappírsmiða og skrifa tilvísunina öðrum megin og textann sjálfan hinum megin. Fjölskyldumeðlimir skiptast á að nota miðana til að sjá hvort þeir geti farið með versið utanbókar eða sagt hvar það er að finna. Við verðum einnig færari með því að æfa kynningarorð fyrir boðunarstarfið og æfa okkur í að svara mótbáru eða spurningu með hjálp Biblíunnar.
5. Af hverju viljum við verða færari í að nota Biblíuna?
5 Engin önnur bók er eins dýrmæt og Biblían. Hún er eina bókin sem getur veitt fólki „speki til sáluhjálpar“. (2. Tím. 3:15) Fæstum á svæðinu er kunnugt um þá dýrmætu fjársjóði sem er að finna í henni. Við höfum því ærna ástæðu til að verða færari í að sýna þeim hvað hún hefur upp á að bjóða. — Orðskv. 2:1-5.