Hvernig nýir boðberar eru þjálfaðir til að prédika
1. Hvernig leið þér þegar þú fórst í fyrsta skipti út í boðunarstarfið?
1 Manstu eftir því þegar þú fórst í fyrsta skipti út í boðunarstarfið hús úr húsi? Þú varst sennilega mjög taugaspenntur. Hafir þú starfað með þeim sem fræddi þig um Biblíuna eða öðrum boðbera varstu án efa feginn að fá stuðning frá honum. Núna geturðu hjálpað til við að þjálfa nýja boðbera þar sem þú ert orðinn reyndur boðberi.
2. Hvað þurfa nýir boðberar að læra?
2 Nýir boðberar þurfa að læra að hefja samræður við húsráðanda, nota Biblíuna við dyrnar, fara í endurheimsóknir og hefja og halda biblíunámskeið. Þeir ættu einnig að læra að taka þátt í boðunarstarfinu við mismunandi aðstæður eins og að starfa á götum úti og á viðskiptasvæðum. Þú getur hjálpað þeim að bæta sig á þessum sviðum, bæði með fordæmi þínu og tillögum.
3. Hvernig getum við hjálpað öðrum með fordæmi okkar?
3 Með fordæmi þínu: Jesús sýndi lærisveinum sínum hvernig þeir ættu að boða fagnaðarerindið. (Lúk. 8:1; 1. Pét. 2:21) Þegar þú býrð þig undir að starfa með nýjum boðbera skaltu undirbúa einfalda kynningu sem boðberinn getur líkt eftir, kannski með því að nota dæmi úr einu af ritunum okkar. Þú skalt síðan bjóðast til að sjá um fyrstu tvær heimsóknirnar eða svo þannig að boðberinn geti heyrt hvað þú segir. Á milli heimsóknanna geturðu spurt boðberann hvort hann hafi tekið eftir hvaða áhrif kynningar þínar hafi haft. Hann á þá auðveldara með að sjá gildi þess að starfa með öðrum og á þá betra með að þiggja þær tillögur sem þú gefur honum eftir að hann hefur farið með kynningarnar sínar.
4. Hvernig getum við hjálpað nýjum boðbera eftir að hafa hlustað á kynningu hans?
4 Komdu með tillögur: Jesús gaf einnig lærisveinum sínum leiðbeiningar um hvernig ætti að prédika. (Matt. 10:5-14) Þú getur hjálpað nýjum boðbera á líkan hátt. Þegar röðin kemur að honum að tala skaltu hlusta vel. Þegar heimsókninni er lokið hrósaðu þá tilteknu atriði af einlægni þó að þú hafir tekið eftir atriðum í kynningu hans sem hann þyrfti að bæta. Áður en þú kemur með tillögu viltu kannski sjá hvort hann bætir sig á þessu sviði við næstu dyr. Kannski var hann bara taugaóstyrkur. Mundu líka að boðberar hafa ekki allir sömu hæfileikana og oft er fleiri en ein rétt leið að settu marki. — 1. Kor. 12:4-7.
5. Hvað getum við sagt þegar við eigum frumkvæðið að tillögu?
5 Stundum biður nýr boðberi um tillögur. En geri hann það ekki eigðu þá frumkvæðið að því að hjálpa honum. Hvernig er hægt að gera það af nærgætni? Sumir reyndir boðberar spyrja bara: „Má ég koma með tillögu?“ eða: „Hvernig fannst þér þetta ganga?“ Annar möguleiki er að segja: „Þegar ég var nýr boðberi fannst mér erfitt að . . . en mér fannst þetta gefa góða raun . . .“ Stundum er mjög gott að fletta saman upp í Biblíusamræðubæklingnum eða Rökræðubókinni. Til þess að draga ekki kjark úr nýja boðberanum skaltu aðeins taka fyrir einn þátt kynningarinnar.
6. Hvernig getur,járn brýnt járn‘ í boðunarstarfinu?
6 Járn brýnir járn: Tímóteus, sem var reyndur boðberi, fékk hvatningu frá Páli um að halda áfram að vera kostgæfinn við að kenna og taka framförum. (1. Tím. 4:13, 15) Þótt mörg ár séu liðin frá því að þú starfaðir í fyrsta skipti ættirðu aldrei að hætta að gera þitt besta til þess að verða færari. Lærðu af boðberunum sem þú starfar með, jafnvel þeim sem hafa minni reynslu í boðunarstarfinu en þú. Vertu tilbúinn að hjálpa öðrum á vinalegan hátt, sérstaklega nýjum boðberum, til þess að þeir verði færir í að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. — Orðskv. 27:17.