Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 1.11 bls. 3-6
  • Aðstoð fyrir fjölskylduna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Aðstoð fyrir fjölskylduna
  • Ríkisþjónusta okkar – 2011
  • Svipað efni
  • Tilbeiðslustund fjölskyldunnar – geturðu gert hana ánægjulegri?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Kristnar fjölskyldur — verið viðbúnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Fjölskyldur, lofið Guð með söfnuði hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2011
km 1.11 bls. 3-6

Aðstoð fyrir fjölskylduna

1. Hvernig var hvíldardagurinn ísraelskum fjölskyldum til góðs?

1 Hvíldardagurinn var kærleiksrík ráðstöfun Jehóva sem fjölskyldur nutu góðs af. Á þeim degi hvíldu Ísraelsmenn sig frá daglegu amstri og fengu tíma til að hugsa um samband sitt við Jehóva og góðvild hans í þeirra garð. Foreldrar fengu gott tækifæri til að kenna börnunum lögmál Guðs og hjálpa þeim að taka það til sín. (5. Mós. 6:6, 7) Vegna hvíldardagsins gafst mönnum tími í hverri viku til að huga að andlegum málum.

2. Hvað getum við lært um Jehóva af hvíldardagsboðinu?

2 Jehóva krefst þess auðvitað ekki lengur að fjölskyldur haldi hvíldardagsboðið. En við getum kynnst Jehóva betur með því að skoða það. Jehóva hefur alltaf verið mjög umhugað um velgengni þjóna sinna. (Jes. 48:17, 18) Nú á tímum sýnir hann okkur umhyggju meðal annars með því að hafa komið á biblíunámskvöldi fyrir fjölskyldur.

3. Hvert er markmiðið með biblíunámskvöldi fjölskyldunnar?

3 Hvert er markmiðið með biblíunámskvöldi fjölskyldunnar? Í janúar 2009 var safnaðarbóknámið fært yfir á sama kvöld og Boðunarskólinn og þjónustusamkoman. Ein ástæða fyrir þessari breytingu var að gefa fjölskyldum meiri tíma til að styrkjast í trúnni með því að taka frá kvöld í hverri viku fyrir fjölskyldubiblíunám. Fjölskyldur voru hvattar til að færa biblíunámið yfir á það kvöld sem bóknámið hafði áður verið haldið. Þannig gæfist tími fyrir afslappaðar biblíusamræður og nám sem væri sérsniðið að þörfum fjölskyldunnar.

4. Eigum við að takmarka fjölskyldubiblíunámið við klukkutíma? Skýrðu svarið.

4 Þegar safnaðarbóknámið var á dagskrá fór tími okkar meðal annars í að klæða okkur og ferðast á staðinn. Hjá flestum okkar tók það bróðurhlutann af kvöldinu að mæta á þessa samkomu sem stóð þó ekki nema í klukkutíma. Eftir þessa breytingu á samkomunum losnaði heilt kvöld til biblíunáms fyrir fjölskylduna. Við þurfum því ekki að takmarka biblíunámið við klukkutíma. Við ættum frekar að hugsa um þarfir og getu fjölskyldunnar og láta lengd biblíunámsins stjórnast af þeim.

5. Eigum við að nota allan námstímann í umræður? Skýrðu svarið.

5 Á að nota allan tímann í sameiginlegar umræður? Þegar hjón og barnafjölskyldur ræða biblíuleg málefni saman uppörva þau hvert annað. (Rómv. 1:12) Fjölskylduböndin styrkjast. Þess vegna ættu sameiginlegar umræður að vera kjarninn í biblíunámskvöldi fjölskyldunnar. Hins vegar getur hver og einn notað hluta af tímanum fyrir sjálfsnám, þó að fjölskyldan sitji áfram saman. Eftir umræðurnar gæti hver og einn haldið náminu áfram út af fyrir sig og til dæmis klárað að undirbúa sig fyrir samkomurnar eða lesið blöðin. Sumar fjölskyldur ákveða að hafa þessi kvöld sjónvarpslaus.

6. Hvernig getur biblíunámið farið fram?

6 Hvernig getur biblíunámið farið fram? Í biblíunáminu þarf ekki alltaf að nota spurningar og svör. Til að gera biblíunámskvöldið áhugavert og skemmtilegt hafa margar fjölskyldur skipulagt það með svipuðum hætti og samkomuna sem er í miðri viku. Þær skipta náminu í nokkra hluta og nota mismunandi aðferðir til að fræðast. Til dæmis er hægt að lesa saman upp úr Biblíunni, undirbúa sig fyrir hluta af samkomunum og hafa æfingastundir fyrir boðunarstarfið. Á bls. 6 eru fleiri tillögur um hvað sé hægt að gera á biblíunámskvöldinu.

7. Hvernig andrúmsloft ættu foreldrar að reyna að skapa?

7 Hvernig andrúmsloft ættu foreldrar að reyna að skapa? Ef andrúmsloftið er þægilegt og afslappað skapar það bestu aðstæður til náms. Stundum væri jafnvel hægt að hafa námið utandyra ef veður leyfir. Gerið hlé ef þörf er á. Sumar fjölskyldur fá sér hressingu eftir biblíunámið. Foreldrar ættu ekki að nota biblíunámskvöld fjölskyldunnar til að aga og skamma börnin. En ef þeir taka eftir vandamálum hjá þeim eða óæskilegri stefnu gæti þurft að nota smá tíma til að ræða það. Viðkvæm persónuleg mál er hins vegar betra að ræða í einrúmi við barnið við annað tækifæri til að gera það ekki vandræðalegt fyrir framan systkini sín. Biblíunámskvöld fjölskyldunnar á ekki að vera þung og alvörugefin stund heldur ætti hún að endurspegla eiginleika hins glaða Guðs sem við þjónum. — 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.

8, 9. Hvernig þarf sá sem veitir fjölskyldunni forstöðu að undirbúa sig?

8 Hvernig getur sá sem veitir fjölskyldunni forstöðu undirbúið sig? Fjölskyldan fær mest út úr biblíunámskvöldinu ef sá sem stjórnar því undirbýr sig með því að ákveða hvaða efni á að taka fyrir og hvernig best sé að ræða um það. (Orðskv. 21:5) Það er gott ef eiginmaður ráðfærir sig við eiginkonu sína varðandi þetta. (Orðskv. 15:22) Einnig væri gott að biðja börnin af og til um tillögur. Þegar það er gert kemst maður að því á hverju þau hafa áhuga og hvað skiptir þau máli og það er mjög verðmætt.

9 Sá sem veitir fjölskyldunni forstöðu mun sjaldnast þurfa mikinn tíma til að undirbúa sig. Fjölskyldan er líklega með einhverja fasta liði í biblíunáminu þannig að sá sem stjórnar því þarf ekki að búa til alveg nýja dagskrá í hverri viku. Honum gæti þótt betra að undirbúa sig fyrir næsta skipti strax eftir að biblíunámsstundinni lýkur, þar sem þarfir fjölskyldunnar eru þá ofarlega í huga hans. Sumum finnst gott að búa til stutta dagskrá og hengja hana upp þar sem fjölskyldan tekur auðveldlega eftir henni, til dæmis á ísskápinn. Það vekur tilhlökkun og eftirvæntingu og gefur hinum líka möguleika á að undirbúa sig.

10. Hvernig geta þeir sem eru einir í heimili nýtt sér biblíunámskvöldið?

10 Hvað ef ég er einn á biblíunámskvöldinu? Þeir sem eru einir í heimili geta nýtt biblíunámskvöld fjölskyldunnar í sjálfsnám. Gott sjálfsnám ætti að fela í sér biblíulestur, undirbúning fyrir samkomur og að lesa Varðturninn og Vaknið! Sumir boðberar bæta við námsverkefni sem þeir ákveða sjálfir. Af og til gætu þeir boðið öðrum boðbera eða fjölskyldu að vera með sér þessa uppörvandi biblíunámsstund.

11, 12. Nefndu nokkur atriði varðandi gagnið af biblíunámskvöldi fjölskyldunnar.

11 Hvernig er vikulegt biblíunámskvöld fjölskyldunnar til góðs? Þeir sem þjóna Jehóva af öllu hjarta styrkja tengslin við hann. Fjölskyldur sem þjóna honum saman styrkja líka fjölskylduböndin. Hjón skrifuðu þetta varðandi blessanir sem þau hafa hlotið: „Við erum barnlaus brautryðjendahjón og við hlökkum mikið til biblíunámskvöldsins. Okkur finnst við vera nánari hvort öðru og við nálgumst líka himneskan föður okkar. Þá daga sem biblíunámið er á dagskrá vöknum við oft með tilhlökkun og minnum hvort annað á það.“

12 Ráðstafanir, sem gerðar hafa verið varðandi biblíunámskvöld fjölskyldunnar, gagnast líka uppteknum fjölskyldum. Einstæð tveggja barna móðir og brautryðjandi skrifaði: „Áður sat biblíunám fjölskyldunnar á hakanum. Það var ómarkvisst og stopult vegna þess að ég var þreytt. Ég sá ekki hvar ég gat komið því fyrir. Þess vegna skrifa ég ykkur og þakka innilega fyrir ráðstöfunina varðandi biblíunámskvöld fjölskyldunnar. Núna tekst okkur að hafa reglulegt biblíunám og við finnum hvernig það hefur góð áhrif á okkur.“

13. Hvað hefur áhrif á það hve mikið gagn við höfum af biblíunámskvöldi fjölskyldunnar?

13 Biblíunámskvöld fjölskyldunnar er, líkt og hvíldardagurinn, gjöf frá föður okkar á himnum til aðstoðar fjölskyldum. (Jak. 1:17) Það voru bein tengsl milli þess hvernig Ísraelsmenn nýttu sér hvíldardaginn og hvernig þeim gekk að styrkja samband sitt við Jehóva. Það eru líka bein tengsl milli þess hvernig við nýtum okkur kvöldið sem ætlað er til biblíunáms og þess hvaða gagn fjölskyldan hefur af því. (2. Kor. 9:6; Gal. 6:7, 8; Kól. 3:23, 24) Ef við nýtum okkur þessa ráðstöfun getur fjölskyldan okkar tekið heilshugar undir með sálmaritaranum: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ — Sálm. 73:28.

[Innskot á bls. 5]

Biblíunámskvöld fjölskyldunnar á ekki að vera þung og alvörugefin stund heldur ætti hún að endurspegla eiginleika hins glaða Guðs sem við þjónum.

[Rammi á bls. 6]

GEYMIÐ

Tillögur fyrir biblíunámskvöld fjölskyldunnar

Biblían:

• Lesið saman hluta af biblíulesefni vikunnar. Ef efnið býður upp á það getur einn farið með hlutverk sögumanns og hinir hlutverk mismunandi persóna frásögunnar.

• Búið til leikrit byggt á hluta af biblíulesefninu.

• Biðjið alla í fjölskyldunni um að lesa fyrir fram biblíulesefni vikunnar og punkta hjá sér eina eða tvær spurningar um efnið. Á biblíunámskvöldinu getur svo fjölskyldan leitað í sameiningu að svörunum.

• Skrifið ritningarstað á miða og reynið að útskýra hann og læra hann utan að. Búið til nýjan miða í hverri viku og geymið miðana. Farið yfir þá vikulega til að sjá hvað þið munið eftir mörgum ritningarstöðum.

• Hlustið á upptökur af biblíulestrinum og fylgist með í Biblíunni.

Samkomur:

• Undirbúið ykkur saman fyrir hluta af samkomunum.

• Æfið söngvana sem sungnir verða á næstu samkomum.

• Ef einhver er með verkefni í Boðunarskólanum eða sýnidæmi á þjónustusamkomunni gætuð þið varpað fram hugmyndum að uppbyggingu þess eða æft það fyrir framan fjölskylduna.

Þarfir fjölskyldunnar:

• Farið yfir efni í bókinni Spurningar unga fólksins eða Lærum af kennaranum mikla.

• Æfið ykkur í að takast á við aðstæður sem gætu komið upp í skólanum.

• Foreldrar og börn skipta um hlutverk og börnin rannsaka ákveðið efni til að rökræða um það við foreldra sína.

Boðunarstarfið:

• Undirbúið kynningu fyrir boðunarstarfið og æfið hana.

• Ræðið um raunhæf markmið sem fjölskyldan getur sett sér til að auka þátttöku í boðunarstarfinu fyrir minningarhátíðina eða í fríunum.

• Leyfið hverjum og einum að nota nokkrar mínútur til að finna svör við spurningum sem gætu komið upp í boðunarstarfinu og æfið ykkur fyrir framan fjölskylduna.

Fleiri tillögur:

• Lesið saman grein í nýjustu blöðunum.

• Biðjið hvern og einn fyrir fram um að lesa grein í nýjustu blöðunum sem vakti áhuga þeirra og segja síðan frá greininni á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar.

• Bjóðið af og til boðbera eða hjónum að vera með í biblíunáminu og takið ef til vill viðtal við þau.

• Horfið á einn af mynddiskunum okkar og ræðið um efnið.

• Ræðið saman um efnið í greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ eða „Fyrir fjölskylduna“ sem birst hefur í Vaknið!

• Ræðið saman um grein úr greinaröðinni „Kenndu börnunum“ eða „Fyrir unga lesendur“ sem birst hefur í Varðturninum.

• Lesið og ræðið um efni í árbókinni eða ritum sem komu út á síðasta umdæmismóti.

• Rifjið upp aðalatriðin eftir nýafstaðið mót.

• Skoðið sköpunarverk Jehóva og ræðið um hvað það segir okkur um hann.

• Vinnið saman að verkefnum eins og að búa til líkan, landakort eða töflur og skýringarmyndir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila