Kennið börnunum að vera boðberar
1. Hvað verða kristnir foreldrar að gera samkvæmt Sálmi 148:12, 13?
1 Jehóva býður börnum og unglingum að lofsyngja sig. (Sálm. 148:12, 13) Kristnir foreldrar kenna því ekki bara börnum sínum sannindi Biblíunnar og siðferðislög Guðs. Þeir kenna þeim einnig að vera boðberar fagnaðarerindisins. Hvernig er hægt að gera það stig af stigi?
2. Hvernig getur gott fordæmi foreldra haft áhrif á börnin?
2 Góð fyrirmynd: Gídeon dómari sagði við 300 menn sína: „Lítið á mig og gerið eins og ég.“ (Dóm. 7:17) Börnum er eiginlegt að fylgjast með foreldrum sínum og líkja eftir þeim. Faðir nokkur vinnur á næturnar en í stað þess að fara beint í rúmið þegar hann kemur heim á laugardagsmorgnum fer hann með börnin í starfið þótt hann sé mjög þreyttur. Án orða er hann að kenna þeim að boðunarstarfið sé forgangsverkefni. (Matt. 6:33) Taka börnin þín eftir að þú hefur ánægju af hinum ýmsu þáttum tilbeiðslunnar svo sem að fara með bæn, lesa í Biblíunni, svara á samkomum og boða fagnaðarerindið? Auðvitað geturðu ekki orðið fullkomin fyrirmynd. En þegar þú reynir að kenna börnunum að tilbiðja Jehóva fara þau frekar eftir leiðsögninni ef þau sjá að þú ert kostgæfinn í þjónustunni. — 5. Mós. 6:6, 7; Rómv. 2:21, 22.
3. Hvaða markmið ættu kristnir foreldrar að hjálpa börnum sínum að setja sér?
3 Markmið í áföngum: Foreldrar eru óþreytandi að kenna börnum sínum að ganga, tala, klæða sig og svo framvegis. Um leið og þau ná ákveðnum áfanga eru þeim sett ný markmið að glíma við. Séu foreldrarnir kristnir hjálpa þeir börnum sínum að setja sér markmið sem tengist tilbeiðslunni og ná þeim í samræmi við aldur og getu. (1. Kor. 9:26) Kennir þú börnunum að svara með eigin orðum og undirbúa verkefni sín í Boðunarskólanum? (Sálm. 35:18) Kennirðu þeim að taka þátt í hinum ýmsu greinum boðunarstarfsins? Seturðu þeim það markmið að láta skírast og þjóna í fullu starfi? Ertu duglegur að koma þeim í samband við glaðlynda, kappsfulla boðbera sem hafa hvetjandi áhrif á þau? — Orðskv. 13:20.
4. Hvaða gagn hafa börn af því þegar foreldrarnir kenna þeim frá unga aldri að boða fagnaðarerindið?
4 Sálmaritarinn sagði: „Guð, þú hefur kennt mér frá æsku og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.“ (Sálm. 71:17) Byrjaðu að æfa börnin frá unga aldri að verða boðberar. Sá trúarlegi grundvöllur, sem þú hjálpar þeim að leggja, mun nýtast þeim vel alla ævi. — Orðskv. 22:6.