Nýir söngvar til að tilbiðja Guð
1 Síðasti ársfundur Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu var haldinn 4. október 2014. Þá var tilkynnt að söngbókin, sem við notum núna, verði endurskoðuð. Það voru spennandi tíðindi. Allir viðstaddir voru minntir á að söngur eigi að gegna mikilvægu hlutverki í tilbeiðslu okkar. – Sálm. 96:2.
2 Þér er ef til vill spurn hvers vegna þurfi að endurskoða söngbókina. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi fáum við sífellt betri skilning á Biblíunni og það getur haft áhrif á söngtextana okkar. (Orðskv. 4:18) Önnur ástæða fyrir endurskoðuninni er sú að orðalag textanna í núverandi söngbók er víða sótt í eldri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar. Nú þarf að laga þessa söngtexta þannig að þeir samsvari orðalagi endurskoðuðu útgáfunnar. Þar sem það kostar mikla vinnu að endurskoða textana var ákveðið að bæta nokkrum nýjum söngvum við bókina.
3 Þurfum við að bíða eftir að ný söngbók verði prentuð áður en við getum farið að syngja nýju söngvana? Nei. Það er okkur ánægja að geta upplýst að á næstu mánuðum verða birtir nokkrir nýir söngvar á vefsetri okkar, jw.org. Eftir að nýr söngur er birtur er hann settur á dagskrá í lok þjónustusamkomu merktur „nýr söngur“.
4 Að læra nýju söngvana: Það getur verið viss áskorun að læra nýjan söng. En líkt og sálmaskáldið viljum við syngja hátt og snjallt á safnaðarsamkomum en ekki þegja. (Sálm. 30:13) Eftirfarandi getur hjálpað þér að læra nýjan söng.
Þegar nýr söngur er birtur á vefnum verður hægt að sækja eða spila hljóðskrá með píanóundirleik. Hlustaðu nokkrum sinnum á undirleikinn. Því oftar sem þú heyrir lagið því auðveldara áttu með að muna það.
Kynntu þér söngtextann og reyndu að læra hann utan að.
Syngdu lagið við undirleikinn þangað til þú hefur náð tökum á því.
Æfðu nýja sönginn nokkrum sinnum í fjölskyldunáminu þangað til fjölskyldan treystir sér til að syngja hann hátt og snjallt.
5 Þegar nýr söngur er á dagskrá í lok þjónustusamkomu á komandi mánuðum á söfnuðurinn að hlusta einu sinni á píanóundirleikinn. Síðan á að syngja sönginn við undirleik eins og gert er að jafnaði.
6 Hugsaðu þér. Þegar við syngjum á samkomum höfum við tækifæri til að lofa Jehóva í samhljóma söng. Er það ekki ánægjulegt? Við ættum því ekki að venja okkur á að yfirgefa sætið að óþörfu þegar kemur að því að syngja á samkomum.
7 Við getum líka sýnt með öðrum hætti að við kunnum að meta þá helgu tónlist sem leikin er við ýmis tækifæri. Á mótum er leikin tónlist áður en dagskráin hefst. Bræður og systur úr öllum heimshornum ferðast á eigin kostnað til Patterson í New York tvisvar á ári til að taka upp fallega tónlist sem við notum í tilbeiðslu okkar. Þegar dagskrárkynnir býður okkur að ganga til sætis og hlusta á tónlistina, sem hljómsveitin leikur, ættum við að gera það. Það hjálpar okkur að búa hjartað undir að taka við þeim upplýsingum sem fylgja í kjölfarið. – Esra. 7:10, NW.
8 Við ljúkum samkomunni í kvöld með nýja söngnum sem heitir „Ríki Guðs er stofnsett – komi það hér á jörð“. Þessi söngur var kynntur á ársfundinum í október síðastliðnum og var saminn sérstaklega í tilefni af því að 100 ár eru liðin síðan ríki Guðs var stofnsett.
9 Nýju söngvarnir eru vissulega góð gjöf frá Jehóva. (Matt. 12:35a) Við skulum einsetja okkur að læra nýju söngvana og syngja þá af hjartans lyst. Það er viðeigandi leið til að lofa og heiðra Guð. – Sálm. 147:1.