Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w21 febrúar bls. 20-24
  • Jehóva hefur ,gert leiðir mínar greiðar‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva hefur ,gert leiðir mínar greiðar‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • FORELDRAR MÍNIR LEIDDU MIG INN Á RÉTTU LEIÐINA
  • ÉG VALDI AÐ TREYSTA JEHÓVA
  • JEHÓVA ER ALLTAF TRAUSTINS VERÐUR
  • NÝ VERKEFNI
  • MÖRG FERÐALÖG
  • BREYTTAR AÐSTÆÐUR
  • Þjónusta í fullu starfi hefur gefið mér mikið
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Ég hef haldið í kyrtilfald Gyðings í sjötíu ár
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Mig langaði að líf mitt væri algerlega helgað Jehóva
    Ævisögur votta Jehóva
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
w21 febrúar bls. 20-24
Stephen Hardy.

ÆVISAGA

Jehóva hefur ,gert leiðir mínar greiðar‘

STEPHEN HARDY SEGIR FRÁ

UNGUR bróðir spurði mig eitt sinn: „Hver er uppáhalds ritningarstaðurinn þinn?“ Ég svaraði án þess að hika: „Orðskviðirnir 3:5, 6 sem segja: ,Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.‘“ Jehóva hefur sannarlega gert leiðir mínar greiðar. Hvernig?

FORELDRAR MÍNIR LEIDDU MIG INN Á RÉTTU LEIÐINA

Foreldrar mínir kynntust sannleikanum á þriðja áratugnum, áður en þau giftust. Ég fæddist snemma á árinu 1939. Sem ungur drengur á Englandi fór ég með foreldrum mínum á samkomur og hafði yndi af Boðunarskólanum. Ég man enn eftir að hafa klifrað upp á kassa til að geta horft yfir ræðupúltið þegar ég flutti fyrstu ræðuna mína. Ég var sex ára og mjög taugaóstyrkur þegar ég sá allt fullorðna fólkið í salnum.

Stephen Hardy sem ungur drengur boðar trúna ásamt foreldrum sínum og öðrum. Þau halda á auglýsingaskiltum fyrir opinberan fyrirlestur á móti.

Að boða trúna meðal almennings ásamt foreldrum mínum.

Faðir minn skrifaði einfalda kynningu á spjald fyrir mig til að nota í boðuninni. Ég var átta ára þegar ég bankaði í fyrsta skipti einn á dyr. Ég var himinlifandi þegar húsráðandinn las á spjaldið mitt og þáði bókina „Guð skal reynast sannorður“. Ég hljóp niður götuna til að segja pabba frá. Boðunin og samkomurnar veittu mér gleði og urðu til þess að mig langaði að þjóna Jehóva í fullu starfi.

Sannleikur Biblíunnar hreyfði enn meira við mér eftir að faðir minn gaf mér áskrift að Varðturninum. Ég las hvert einasta blað af ákafa um leið og það kom með póstinum. Traust mitt á Jehóva styrktist og á endanum vígði ég honum líf mitt.

Við fjölskyldan vorum gestir á mótinu „Vöxtur guðveldisins“ í New York árið 1950. Stef fimmtudagsins 3. ágúst var „Trúboðsdagur“. Þennan dag flutti bróðir Carey Barber, sem þjónaði síðar í stjórnandi ráði, skírnarræðuna. Eftir að hann spurði skírnþegana spurninganna tveggja í lok ræðunnar stóð ég upp og svaraði: „Já!“ Ég var 11 ára en gerði mér grein fyrir að ég hefði stigið mikilvægt skref. En ég var hræddur við að fara ofan í vatnið því að ég hafði enn ekki lært að synda. Frændi minn fylgdi mér að lauginni og fullvissaði mig um að allt yrði í lagi. Þetta gekk reyndar svo hratt fyrir sig að ég snerti aldrei botninn á lauginni. Þegar einn bróðir sleppti mér tók annar við mér. Annar þeirra skírði mig og hinn lyfti mér upp úr lauginni. Allt frá þessum mikilvæga degi hefur Jehóva haldið áfram að gera leiðir mínar greiðar.

ÉG VALDI AÐ TREYSTA JEHÓVA

Þegar ég kláraði skólann langaði mig til að verða brautryðjandi en kennararnir mínir hvöttu mig til að afla mér æðri menntunar. Ég lét undan þrýstingi þeirra og fór í háskóla. En ég komst fljótt að því að ég gæti ekki verið staðfastur í sannleikanum og á sama tíma einbeitt mér að náminu. Ég ákvað því að hætta. Ég gerði það að bænarefni og skrifaði kurteislegt bréf til kennaranna til að segja þeim að ég myndi hætta í lok þessa fyrsta árs. Ég hafði fullt traust á Jehóva og byrjaði strax í brautryðjandastarfinu.

Í júlí 1957 hóf ég þjónustu mína í fullu starfi í bænum Wellingborough. Ég bað bræðurna á Betel í Lundúnum að mæla með reyndum brautryðjenda sem ég gæti slegist í fylgd með. Bróðir Bert Vaisey leiðbeindi mér og það hjálpaði mér að gera góða áætlun fyrir boðunina að líkja eftir kostgæfni hans. Í söfnuðinum voru sex eldri systur, bróðir Vaisey og ég. Að undirbúa og taka þátt í öllum samkomunum veitti mér mörg tækifæri til að byggja upp traust á Jehóva og tjá trú mína.

Eftir að hafa setið í fangelsi um stuttan tíma fyrir að neita að gegna herþjónustu kynntist ég Barböru, en hún þjónaði sem sérbrautryðjandi. Við giftum okkur árið 1959 og vorum tilbúin að fara hvert sem var. Fyrst vorum við send til Lancashire í norðvesturhluta Englands. Í janúar 1961 var mér svo boðið að sækja mánaðarlangt námskeið í Ríkisþjónustuskólanum á Betel í Lundúnum. Það kom mér á óvart að eftir námskeiðið var mér falið að þjóna í farandstarfinu. Reyndur farandhirðir í borginni Birmingham veitti mér þjálfun í tvær vikur og Barbara gat þá verið með mér. Eftir það sinntum við verkefni okkar í Lancashire og Cheshire sýslum.

JEHÓVA ER ALLTAF TRAUSTINS VERÐUR

Við vorum í fríi í ágúst 1962 þegar við fengum bréf frá deildarskrifstofunni. Með bréfinu fylgdu umsóknareyðublöð fyrir Gíleaðskólann! Eftir að hafa gert það að bænarefni fylltum við Barbara út eyðublöðin og skiluðum þeim fljótt aftur til deildarskrifstofunnar eins og beðið var um. Fimm mánuðum seinna vorum við á leiðinni til Brooklyn í New York til að sækja tíu mánaða biblíunámskeið með 38. nemendahópi Gíleaðskólans.

Kennslan í Gíleað var ekki bara um orð Guðs og söfnuð hans heldur líka um bræðralagið. Við vorum enn á miðjum þrítugsaldri og lærðum margt af hinum nemendunum. Ég fékk þann heiður að vinna á hverjum degi með bróður Fred Rusk, einum kennaranna. Eitt mikilvægt atriði sem hann lagði áherslu á var að fylgja alltaf réttlátum mælikvarða þegar maður gefur ráð, það er að segja að vera viss um að ráðin séu áreiðanlega byggð á Biblíunni. Þeir sem héldu fyrirlestra í skólanum voru meðal annars reyndir bræður eins og Nathan Knorr, Frederick Franz og Karl Klein. Og við nemendurnir lærðum svo sannarlega margt af hógværu fordæmi Alexanders H. Macmillan, en fyrirlestur hans gaf okkur innsýn í leiðsögn Jehóva á reynslutímanum frá 1914 þar til snemma árs 1919.

NÝ VERKEFNI

Undir lok námskeiðsins sagði bróðir Knorr okkur Barböru að okkur væri falið að þjóna í Búrúndí í Afríku. Við flýttum okkur á bókasafnið á Betel til að fletta því upp í Árbókinni hve margir boðberar væru í Búrúndí á þeim tíma. Það kom okkur á óvart að við gátum hvergi fundið tölur fyrir þetta land! Við vorum á leiðinni á ósnert svæði í heimsálfu sem við vissum lítið sem ekkert um. Við urðum mjög taugaóstyrk. En eftir að hafa beðið einlæglega til Jehóva urðum við rólegri.

Nýja verkefnið var mjög ólíkt því sem við höfðum kynnst áður – veðurfarið, menningin og tungumálið. Við þurftum að læra frönsku. Við þurftum líka að finna húsnæði. Tveim dögum eftir að við komum til Búrúndí kom Harry Arnott, einn bekkjafélaga okkar úr Gíleað, í heimsókn á leið sinni til Sambíu til að sinna verkefni sínu þar. Hann hjálpaði okkur að finna íbúð sem varð fyrsta trúboðsheimili okkar. En yfirvöld á staðnum, sem þekktu ekkert til Votta Jehóva, veittu okkur fljótlega andstöðu. Um það leiti sem okkur fór að líða vel að sinna verkefninu tilkynntu yfirvöld okkur að við gætum ekki verið um kyrrt án þess að hafa löggilt starfsleyfi. Við þurftum því miður að fara og aðlagast nýju landi. Í þetta skipti var það Úganda.

Við kviðum fyrir því að koma til Úganda án vegabréfsáritunar en treystum á Jehóva. Bróðir frá Kanada sem þjónaði í Úganda útskýrði stöðu okkar fyrir útlendingaeftirlitsmanni og við fengum frest í nokkra mánuði til að útvega okkur dvalarleyfi. Það sannaði fyrir okkur að Jehóva hjálpaði okkur.

Aðstæður í Úganda voru mjög ólíkar þeim í Búrúndí. Boðun Guðsríkis var þegar hafin þó að það væru aðeins 28 vottar í öllu landinu. Margir á svæðinu töluðu ensku. En við komumst fljótt að því að við þyrftum að læra að minnsta kosti eitt af mörgum tungumálum frumbyggja til að hjálpa áhugasömum að taka framförum. Við byrjuðum að boða trúna í borginni Kampala og þar í kring þar sem lúganda var víða töluð. Við ákváðum því að einbeita okkur að því að læra það tungumál. Það tók nokkur ár áður en við töluðum tungumálið reiprennandi en það hafði gríðarleg áhrif á árangurinn í boðuninni. Við fórum að skilja betur andlegar þarfir biblíunemenda okkar. Og í kjölfarið treystu þeir okkur og sögðu okkur hvernig þeim leið með það sem þeir voru að læra.

MÖRG FERÐALÖG

Klippimynd: 1. Kort af Afríku sýnir nokkra af þeim stöðum þar sem Stephen Hardy þjónaði. 2. Stephen situr á klappstól við bílinn sinn. 3. Barbara, fyrri eiginkona Stephens, skolar grænmeti í plastbala.

Á ferð okkar um Úganda.

Að hjálpa hógværu fólki sem tók vel á móti sannleikanum veitti okkur mikla gleði. Og það veitti okkur jafnvel enn meiri gleði að vera beðin um að þjóna í farandstarfi í landinu. Undir leiðsögn deildarskrifstofunnar í Keníu lögðum við af stað í ferð um allt landið til að finna út hvar væri mesta þörfin á sérbrautryðjendum. Á fáeinum stöðum var okkur sýnd einstök gestrisni af fólki sem hafði aldrei hitt votta áður. Það tók vel á móti okkur og útbjó jafnvel mat fyrir okkur.

Næsta ferð var öðruvísi. Ég fór í tveggja daga lestarferð frá Kampala til hafnarborgarinnar Mombasa í Keníu og þaðan með skipi til Seychelles-eyja í Indlandshafi. Seinna, frá 1965 til 1972, kom Barbara með mér í reglulegar heimsóknir til Seychelles-eyja. Í byrjun voru aðeins tveir boðberar á svæðinu en með tímanum varð til hópur og síðan líflegur söfnuður. Ég ferðaðist líka til að heimsækja trúsystkinin í Eritreu, Eþíópíu og Súdan.

Stjórnmálaástandið í Úganda tók snöggum breytingum eftir að herinn tók völdin. Ástandið var ógnvænlegt á árunum á eftir og ég komst að raun um hve skynsamlegt það er að hlíða boðinu: „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum.“ (Mark. 12:17) Eitt sinn var öllum útlendingum sem bjuggu í Úganda skipað að skrá sig á þeirri lögreglustöð sem var næst heimili þeirra. Við hlýddum þegar í stað. Nokkrum dögum seinna þegar ég var að keyra ásamt öðrum trúboða í Kampala komu leynilögreglumenn að okkur. Við urðum óttaslegnir. Þeir sökuðu okkur um að vera njósnarar og fóru með okkur á aðallögreglustöðina en þar útskýrðum við að við værum friðsamir trúboðar. Við sögðum þeim að við hefðum nú þegar skráð okkur hjá lögreglunni en þeir hlustuðu ekki á okkur. Við vorum handjárnaðir og farið var með okkur á lögreglustöðina sem var næst trúboðsheimilinu. Þvílíkur léttir þegar lögreglumaður á stöðinni mundi eftir að við hefðum þegar skráð okkur og sagði verðinum að láta okkur lausa.

Á þessum tíma upplifðum við oft mikla spennu við vegartálma hersins, sérstaklega þegar drukknir hermenn stoppuðu okkur. En í hvert skipti báðum við til Jehóva og fundum innri frið þegar okkur var hleypt öruggum í gegn. Árið 1973 var öllum útlendum trúboðum því miður skipað að yfirgefa Úganda.

Stephen notar fjölritunarvél.

Að fjölrita Ríkisþjónustu okkar á deildarskrifstofunni í Abidjan á Fílabeinsströndinni.

Aftur fengum við nýtt verkefni. Nú vorum við send til Fílabeinsstrandarinnar í Vestur-Afríku. Þetta var aftur mikil breyting fyrir okkur. Við þurftum að aðlagast allt annarri menningu, byrja að tala frönsku aftur og laga okkur að lífi með trúboðum frá ýmsum löndum. En við sáum enn og aftur hvernig Jehóva leiðbeindi okkur þegar hógvært og hjartahreint fólk á svæðinu brást fljótt við fagnaðarboðskapnum. Við skildum að traust okkar til Jehóva gerði leiðir okkar greiðar.

Skyndilega greindist Barbara með krabbamein. Við fórum oft til Evrópu til að hún gæti fengið sérhæfða meðferð en svo varð okkur ljóst árið 1983 að við gátum ekki lengur sinnt verkefni okkar í Afríku. Það olli okkur báðum miklum vonbrigðum.

BREYTTAR AÐSTÆÐUR

Barböru hrakaði á meðan við þjónuðum á Betel í Lundúnum og að lokum lést hún. Betelfjölskyldan veitti mér ómetanlegan stuðning. Ein hjón hjálpuðu mér sérstaklega að aðlagast og viðhalda trausti mínu á Jehóva. Seinna kynntist ég Ann, systur sem var í hlutastarfi á Betel og hafði áður verið sérbrautryðjandi. Kærleikur hennar til Jehóva bar þess merki að hún væri andlega sinnuð. Við Ann giftum okkur árið 1989 og höfum þjónað á Betel í Lundúnum síðan þá.

Stephen og Ann Hardy.

Með Ann fyrir framan byggingarsvæði nýja Betelheimilisins í Bretlandi.

Frá 1995 til 2018 naut ég þess að þjóna sem fulltrúi aðalstöðvanna og ég heimsótti tæplega 60 lönd. Í hverju landi sá ég hvernig Jehóva blessar þjóna sína við mismunandi aðstæður.

Árið 2017 fór ég aftur til Afríku í einni af heimsóknum mínum. Það var ánægjulegt að kynna Ann fyrir Búrúndí og við vorum bæði agndofa yfir vextinum þar í landi. Í sömu götu og ég boðaði trúna hús úr húsi árið 1964 er núna fallegt Betelheimili og í landinu eru meira en 15.500 boðberar.

Ég var himinlifandi þegar ég fékk ferðaáætlunina fyrir 2018. Á listanum var Fílabeinsströndin. Þegar við komum til höfuðborgarinnar Abidjan fannst mér ég vera kominn heim. Ég renndi augunum yfir símaskrá bræðranna sem voru að vinna á Betel og tók eftir nafni sem ég kannaðist við. Þetta var nafn bróðurins sem var í herberginu við hliðina á gestaherberginu sem við yrðum í, það var bróðir Sossou. Ég mundi eftir að hann hafði verið borgarumsjónarmaður þegar ég var í Abidjan. En mér skjátlaðist. Þetta var annar Sossou – sonur hans.

Jehóva hefur staðið við orð sín. Erfiðleikarnir sem ég hef þurft að þola hafa kennt mér að þegar við treystum Jehóva gerir hann leiðir okkar svo sannarlega greiðar. Nú erum við staðráðin í að fylgja að eilífu leiðinni sem verður enn bjartari í nýja heiminum. – Orðskv. 4:18.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila