Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w22 júlí bls. 2-7
  • Ríki Guðs er stofnsett

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ríki Guðs er stofnsett
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERNIG ER HÆGT AÐ VITA HVENÆR RÍKIÐ VAR STOFNSETT?
  • HVERNIG VITUM VIÐ AÐ JESÚS ER ORÐINN KONUNGUR GUÐSRÍKIS?
  • HVERNIG VERÐUR ÓVINUM GUÐSRÍKIS EYTT?
  • MÆTUM FRAMTÍÐINNI ÖRUGG
  • Lærum af spádómum Biblíunnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Pólitískur glundroði uppfyllir spádóma Biblíunnar
    Fleiri viðfangsefni
  • Breyting á heimsstjórninni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Gefðu gaum að spádómsorði Guðs um okkar daga
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
w22 júlí bls. 2-7

NÁMSGREIN 28

Ríki Guðs er stofnsett

„Drottinn okkar og Kristur hans hafa fengið konungsvaldið yfir heiminum.“ – OPINB. 11:15.

SÖNGUR 22 Ríki Guðs er stofnsett – komi það!

YFIRLITa

1. Hvað getum við verið viss um og hvers vegna?

FINNST þér erfitt að vera bjartsýnn þegar þú horfir á ástandið í heiminum? Fjölskyldubönd eru ekki jafn sterk og áður. Fólk er orðið ofbeldisfyllra, eigingjarnara og árásargjarnara. Margir eiga erfitt með að treysta þeim sem fara með völdin. En þessi þróun getur styrkt trú okkar. Hvers vegna? Vegna þess að fólk hagar sér nákvæmlega eins og sagt var fyrir í Biblíunni í merkilegum spádómi um ,síðustu daga‘. (2. Tím. 3:1–5) Það leikur ekki nokkur vafi á því að þessi spádómur er að rætast. Það er sönnun fyrir því að Jesús Kristur er byrjaður að ríkja sem konungur Guðsríkis. En þetta er bara einn af mörgum spádómum um Guðsríki. Það er trústyrkjandi að skoða fleiri spádóma sem hafa uppfyllst á undanförnum árum.

Einhver setur síðasta púslið í púsluspil. Púslið sýnir stein sem hefur lent á risastóru málmlíkneski. Púsluspilið sýnir mismunandi biblíuspádóma frá Daníelsbók og Opinberunarbókinni. 1. Steinn þeytist frá fjalli á fæturna á risastóru líkneski. 2. Stórt tré. 3. Fjórir hestar á stökki með knapa. 4. Vændiskona situr á skarlatsrauðu villidýri.

Rétt eins og bitar í púsluspili passa saman og sýna ákveðna mynd passa spádómar í Biblíunni í Daníelsbók og Opinberunarbókinni saman og sýna skýrt hvar við stöndum í tímaáætlun Jehóva. (Sjá 2. grein.)

2. Hvað skoðum við í þessari námsgrein og hvers vegna? (Lýstu því sem þú sérð á forsíðumyndinni.)

2 Í þessari námsgrein skoðum við (1) spádóm sem hjálpar okkur að skilja hvenær ríki Guðs var stofnsett, (2) spádóma sem auðvelda okkur að skilja að Jesús er núna ósýnilega nærverandi sem konungur Guðsríkis og (3) spádóma sem sýna fram á hvernig óvinum Guðsríkis verður eytt. Við munum sjá hvernig þessir spádómar smella saman eins og bitar í púsluspili og gefa skýra mynd af því hvar við erum stödd í tímaáætlun Jehóva.

HVERNIG ER HÆGT AÐ VITA HVENÆR RÍKIÐ VAR STOFNSETT?

3. Hvað fullvissar spádómurinn í Daníel 7:13, 14 okkur um varðandi konung Guðsríkis?

3 Spádómurinn í Daníel 7:13, 14 fullvissar okkur um að við gætum ekki haft betri stjórnanda Guðsríkis en Jesú Krist. Fólk af öllum þjóðum mun lúta honum og enginn annar stjórnandi tekur við af honum. Annar spádómur í Daníelsbók sagði fyrir að Jesús tæki við konungdómi við enda spádómlegs tímabils sjö tíða. Er hægt að vita hvenær þessi ánægjulegi atburður átti sér stað?

4. Útskýrðu hvernig Daníel 4:10–17 hjálpar okkur að reikna út hvaða ár Jesús varð konungur? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

4 Lestu Daníel 4:10–17.b Sjö tíðir merkja 2.520 ára tímabil. Þetta tímabil hófst árið 607 f.Kr. þegar Babýloníumenn steyptu af stóli síðasta konungi sem sat í hásæti Jehóva í Jerúsalem. Því lauk árið 1914 þegar Jehóva krýndi Jesú konung Guðsríkis, en hann var sá sem hafði réttinn til konungdóms.c – Esek. 21:25–27.

5. Hvernig kemur spádómurinn um sjö tíðir okkur að gagni?

5 Hvernig kemur þessi spádómur okkur að gagni? Að þekkja spádóminn um sjö tíðir veitir okkur þá fullvissu að Jehóva uppfylli loforð sín á réttum tíma. Hann setti ákveðinn tíma til að stofnsetja ríki sitt og sér til þess að aðrir spádómar uppfyllist í samræmi við áætlun sína. Dagur Jehóva kemur sannarlega án tafar. – Hab. 2:3.

HVERNIG VITUM VIÐ AÐ JESÚS ER ORÐINN KONUNGUR GUÐSRÍKIS?

6. (a) Hvað sýnir að Kristur er orðinn konungur á himnum? (b) Hvernig staðfestir spádómurinn í Opinberunarbókinni 6:2–8 það?

6 Þegar endir þjónustu Jesú á jörðinni nálgaðist sagði hann fyrir ákveðna heimsviðburði sem myndu hjálpa fylgjendum hans að átta sig á því hvenær hann byrjaði að ríkja á himnum. Hann nefndi meðal annar stríð, hungursneyðir og jarðskjálfta. Hann sagði líka fyrir að það yrðu drepsóttir „á einum stað eftir annan“ og COVID-19 faraldurinn er dæmi um það. Þessir atburðir eru hluti af því sem Biblían kallar „tákn þess“ að Kristur sé nærverandi. (Matt. 24:3, 7; Lúk. 21:7, 10, 11) Jesús staðfesti enn frekar við Jóhannes postula meira en 60 árum eftir að hann dó og fór aftur til himna að þessir atburðir myndu verða. (Lestu Opinberunarbókina 6:2–8.) Allir þessir atburðir hafa átt sér stað síðan Jesús tók við konungdómi í Guðsríki.

7. Hvers vegna hafði það hörmungar í för með sér fyrir jörðina þegar Jesús varð konungur?

7 Hvers vegna versnaði heimsástandið þegar Jesús varð konungur? Við fáum mikilvægar upplýsingar um það í Opinberunarbókinni 6:2. Fyrsta verkefni Jesú sem konungs var að fara í stríð. Gegn hverjum? Gegn Djöflinum og illum öndum hans. Samkvæmt Opinberunarbókinni 12. kafla tapaði Satan stríðinu og honum var kastað ásamt illum öndum til jarðarinnar. Ofsareiður beindi Satan nú reiði sinni gegn mannkyninu en það ,leiddi hörmungar yfir jörðina‘. – Opinb. 12:7–12.

Hjón fylgjast með sjónvarpsfrétt um þjóðfélagsólgu. Á borðinu fyrir framan þau er Biblían og önnur rit.

Við erum ekki ánægð þegar við heyrum vondar fréttir en þegar við sjáum biblíuspádóma uppfyllast sannar það fyrir okkur að ríki Guðs er við völd. (Sjá 8. grein.)

8. Hvaða gagn höfum við af því að sjá uppfyllingu spádóma um Guðsríki?

8 Hvernig koma þessir spádómar okkur að gagni? Heimsviðburðir og breyting á hugarfari fólks hjálpa okkur að sjá að Jesús er orðinn konungur. Frekar en að láta það koma okkur úr jafnvægi að fólk sýnir sjálfselsku og grimmd ættum við að muna að þetta sýnir að spádómur Biblíunnar er að uppfyllast. Ríki Guðs er stofnsett! (Sálm. 37:1) Og við megum búast við auknum erfiðleikum eftir því sem Harmagedón nálgast. (Mark. 13:8; 2. Tím. 3:13) Ertu ekki þakklátur kærleiksríkum föður okkar á himnum að fá að skilja hvers vegna það eru svona mörg vandamál í heiminum?

HVERNIG VERÐUR ÓVINUM GUÐSRÍKIS EYTT?

9. Hvernig lýsir spádómurinn í Daníel 2:28, 31–35 síðasta heimsveldinu og hvenær koma það fram á sjónarsviðið?

9 Lestu Daníel 2:28, 31–35. Við sjáum þennan spádóm uppfyllast. Draumur Nebúkadnesars gefur til kynna hvað myndi gerast á síðustu dögum, eftir að Kristur byrjaði að ríkja sem konungur. Meðal óvina Jesú á jörðinni yrði síðasta heimsveldið sem Biblían sagði fyrir og var táknað með fótum líkneskisins sem voru gerðir úr járni og leir. Þetta heimsveldi er nú við völd. Það varð til í fyrri heimsstyrjöldinni þegar Bretland og Bandaríkin mynduðu bandalag, ensk-ameríska heimsveldið. Líkneskið í draumi Nebúkadnesars sýnir að minnsta kosti tvennt varðandi þetta heimsveldi sem aðgreindi það frá heimsveldum sem komu á undan.

10. (a) Hvernig er dregin upp nákvæm mynd af ensk-ameríska heimsveldinu í spádómi Daníels? (b) Hvaða hættu verðum við að forðast? (Sjá rammann „Vörum okkur á leirnum!“)

10 Í fyrsta lagi er ensk-ameríska heimsveldið ekki táknað með hreinum málmum eins og gulli eða silfri, líkt og heimsveldin sem komu á undan, heldur blöndu af járni og leir. Leirinn er táknmynd fyrir niðja mannkyns, eða fólk almennt. (Dan. 2:43, neðanmáls) Við sjáum greinilega að áhrif fólks í kosningum, baráttu fyrir borgaralegum réttindum, fjöldamótmælum og verkalýðsbaráttu veikja möguleika leiðtoga heimsveldisins til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd.

Vörum okkur á leirnum

Fæturnir úr járni og leir úr sýn Daníels af risastóra líkneskinu. Við fæturna eru mótmælendur sem æsa til uppþota, verðir með skyldi, heimsleiðtogar sem funda og aðilar Sameinuðu þjóðanna sem koma saman.

Í spádómi Daníels táknar leirinn í fótum stóra líkneskisins almenning. Hann hefur vald til að hafa áhrif á stjórnmálaleiðtoga og stefnu þeirra. (Dan. 2:41–43) Felst einhver hætta í því fyrir okkur? Já. Ef við stöndum ekki vörð um hjarta okkar gæti hlutleysi okkar verið í hættu. Við gætum til dæmis freistast til að styðja skoðanir þeirra sem reyna að koma á breytingum með mótmælum eða afskiptum af stjórnmálum. (Orðskv. 4:23; 24:21) Hvernig getum við forðast þessa hættu? Við verðum að muna að Satan er stjórnandi heimsins. (1. Jóh. 5:19) Og ríki Guðs er eina von okkar. – Sálm. 146:3–5.

11. Hvernig styrkir tilvist ensk-ameríska heimsveldisins þá trú að við lifum á tíma endalokanna?

11 Í öðru lagi er ensk-ameríska heimsveldið, sem er táknað með fótunum á líkneskinu mikla, síðasta heimsveldið sem Biblían segir fyrir. Engin önnur stjórn manna tekur við af því. Guðsríki mun skyndilega eyða því ásamt öðrum stjórnum manna í Harmagedón.d – Opinb. 16:13, 14, 16; 19:19, 20.

12. Hvernig gefur spádómurinn í Daníelsbók okkur huggun og von?

12 Hvernig kemur þessi spádómur okkur að gagni? Spádómurinn í Daníelsbók staðfestir líka að við lifum á tíma endalokanna. Fyrir meira en 2.500 árum spáði Daníel að fjögur önnur heimsveldi sem kæmu á eftir Babýlon myndu hafa umtalsverð áhrif á þjóna Guðs. Hann greindi frá því að ensk-ameríska heimsveldið myndi vera síðasta heimsveldið við völd. Þessi spádómur veitir okkur þá huggun og von að bráðlega muni Guðsríki sópa burt öllum stjórnum manna og sjálft ríkja yfir allri jörðinni. – Dan. 2:44.

13. Hvað táknar „áttundi konungurinn“ og ,tíu konungarnir‘ í Opinberunarbókinni 17:9–12 og hvernig uppfylltist spádómurinn?

13 Lestu Opinberunarbókina 17:9–12. Eyðileggingin sem fyrri heimstyrjöldin olli leiddi til þess að enn annar biblíuspádómur um síðustu daga uppfylltist. Leiðtogar heims ætluðu að koma á heimsfriði. Þeir stofnsettu því Þjóðabandalagið í janúar árið 1920 en Sameinuðu þjóðirnar tóku við hlutverki þess í október 1945. Þessi samtök eru nefnd „áttundi konungurinn“. En þau eru ekki heimsveldi. Styrkur þeirra og áhrif eru háð þeim ríkisstjórnum sem styðja þau. Í Biblíunni er þessum ríkisstjórnum líkt við „tíu konunga“.

14, 15. (a) Hvað leiðir Opinberunarbókin 17:3–5 í ljós varðandi Babýlon hina miklu? (b) Hvað er að gerast varðandi stuðning við fölsk trúarbrögð?

14 Lestu Opinberunarbókina 17:3–5. Undir innblæstri frá Guði sá Jóhannes postuli vændiskonu í sýn, ,Babýlon hina miklu‘, en hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða. Hvað leiðir sýnin í ljós? Fölsk trúarbrögð hafa um langan tíma verið í nánum tengslum við stjórnir manna og veitt þeim stuðning. Fljótlega mun Jehóva leggja stjórnmálaöflunum í brjóst „að gera það sem hann hefur áformað“. Hvaða afleiðingar mun það hafa? Stjórnmálaöflin, ,tíu konungar‘, munu snúast gegn fölskum trúarbrögðum og eyða þeim. – Opinb. 17:1, 2, 16, 17.

15 Hvernig vitum við að endalok Babýlonar hinnar miklu eru í nánd? Til að fá svar við þeirri spurningu er gott að rifja upp hvaða hlutverki stóráin Efrat gegndi í vörnum Babýlonar til forna. Opinberunarbókin líkir þeim milljónum sem styðja Babýlon hina miklu við ,vötn‘. (Opinb. 17:15) En þar segir líka að vötnin ,þorni upp‘ en það gefur til kynna að heimsveldi falskra trúarbragða missi marga af þeim sem styðja það. (Opinb. 16:12) Spádómurinn uppfyllist nú á dögum með þeim hætti að umtalsverður fjöldi fólks hefur yfirgefið fölsk trúarbrögð og leitar annað til að fá svör við spurningum sínum.

16. Hvaða gagn höfum við af því að skilja spádóma um komu Sameinuðu þjóðanna fram á sjónarsviðið og endalok Babýlonar hinnar miklu?

16 Hvernig koma þessir spádómar okkur að gagni? Tilvist Sameinuðu þjóðanna og sú staðreynd að margir styðja ekki lengur fölsk trúarbrögð styrkir enn frekar þá ályktun að við lifum á síðustu dögum. Þótt táknræn vötn Babýlonar séu að þorna upp er annað sem veldur því að fölsk trúarbrögð líða undir lok. Eins og áður var minnst á mun Jehóva leggja ,tíu konungunum‘ í brjóst, stjórnmálaöflunum sem styðja Sameinuðu þjóðirnar, „að gera það sem hann hefur áformað“. Þeir munu skyndilega eyða Babýlon hinni miklu, heiminum að óvörum.e (Opinb. 18:8–10) Eyðing falstrúarbragðanna mun skekja allan heiminn og getur valdið þrengingum en þjónar Guðs hafa að minnsta kosti tvær ástæður til að fagna. Langstæður óvinur Jehóva Guðs verður endanlega úr sögunni og frelsun okkar úr þessum illa heimi verður skammt undan. – Lúk. 21:28.

MÆTUM FRAMTÍÐINNI ÖRUGG

17, 18. (a) Hvernig getum við haldið áfram að styrkja trú okkar? (b) Hvað ræðum við um í næstu námsgrein?

17 Daníel sagði fyrir að ,skilningur myndi aukast‘. Og það hefur sannarlega komið á daginn. Við höfum fengið innsýn í spádóma um okkar tíma. (Dan. 12:4, 9, 10) Nákvæmni þessara spádóma fyllir okkur aðdáun á Jehóva og innblásnu orði hans. (Jes. 46:10; 55:11) Haltu því áfram að styrkja trú þína með því að rannsaka Biblíuna vandlega og hjálpa öðrum að eignast gott samband við Jehóva. Hann verndar alla sem leggja fullt traust á hann og gefur þeim varanlegan frið. – Jes. 26:3.

18 Í næstu námsgrein beinum við athygli að spádómum um kristna söfnuðinn á tíma endalokanna. Eins og við munum sjá smellpassa þeir við aðra spádóma sem eiga við hina síðustu daga. Við fáum sannanir fyrir því að Jesús, ríkjandi konungur okkar, leiðir trúfasta fylgjendur sína.

HVERNIG GEFA EFTIRFARANDI SPÁDÓMAR TIL KYNNA AÐ RÍKI GUÐS SÉ VIÐ VÖLD?

  • Daníel 4:10–17

  • Opinberunarbókin 6:2–8

  • Daníel 2:28, 31–35; Opinberunarbókin 17:3–5, 9–12

SÖNGUR 61 Áfram, vottar Guðs

a Við lifum á einum mest spennandi tímum í sögunni. Ríki Guðs hefur verið stofnsett eins og margir spádómar í Biblíunni sögðu fyrir. Í þessari námsgrein eru nokkrir þeirra teknir til athugunar í því augnamiði að styrkja trú okkar á Jehóva og hjálpa okkur að halda ró okkar og treysta á hann nú og á komandi dögum.

b Vers 7–14 í Biblíunni 2010.

c Sjá lið 4 í 32. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð og myndbandið Ríki Guðs tók til starfa árið 1914 á jw.org.

d Sjá Varðturninn 15. júní 2012, bls. 14–19 til að fá frekari upplýsingar.

e Sjá 21. kafla bókarinnar Ríki Guðs stjórnar til að fá nánari upplýsingar um það sem nánasta framtíð ber í skauti sér.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila