NÁMSGREIN 7
Fáðu meira út úr biblíulestri þínum
„Hvað lestu?“ – LÚK. 10:26.
SÖNGUR 97 Lífið er háð orði Guðs
YFIRLITa
1. Hvað sýnir að Ritningarnar voru Jesú mikilvægar?
ÍMYNDAÐU þér hvernig það hefur verið að hlusta á Jesú kenna. Hann vitnaði oft í Ritningarnar eftir minni. Það fyrsta sem haft er eftir honum eftir skírn hans og meðal þess síðasta sem hann sagði fyrir dauða sinn eru reyndar tilvitnanir í Ritningarnar.b (5. Mós. 8:3; Sálm. 31:5; Lúk. 4:4; 23:46) Og þau þrjú og hálft ár þess í milli las Jesús oft og vitnaði í Ritningarnar opinberlega og útskýrði þær. – Matt. 5:17, 18, 21, 22, 27, 28; Lúk. 4:16–20.
Jesús sýndi allt sitt líf að hann elskaði orð Guðs og lét það hafa áhrif á það sem hann gerði. (Sjá 2. grein)
2. Hvað hjálpaði Jesú í uppvextinum að kynnast Ritningunum vel? (Sjá forsíðumynd.)
2 Löngu áður en Jesús hóf þjónustu sína var hann vanur að lesa og hlusta á orð Guðs. Hann heyrði vafalaust Maríu og Jósef vitna í Ritningarnar heima fyrir í samræðum fjölskyldunnar.c (5. Mós. 6:6, 7) Við getum verið viss um að Jesús hefur farið í samkunduhúsið á hverjum hvíldardegi með fjölskyldunni. (Lúk. 4:16) Þar hlýtur hann að hafa hlustað vel á upplestur úr Ritningunum. Með tímanum lærði Jesús að lesa heilagar ritningar sjálfur. Fyrir vikið kynntist Jesús þeim ekki aðeins vel heldur fór að elska þær og leyfa þeim að hafa áhrif á það sem hann gerði. Við sjáum það til dæmis af því sem gerðist þegar hann var í musterinu aðeins 12 ára gamall. Kennararnir, sem voru vel að sér í Móselögunum, „voru forviða á skilningi hans og svörum“. – Lúk. 2:46, 47, 52.
3. Hvað verður fjallað um í þessari námsgrein?
3 Við getum líka lært að þekkja og elska orð Guðs þegar við lesum það reglulega. En hvernig getum við haft sem mest gagn af lestrinum? Það sem Jesús sagði við þá sem voru kunnugir lögmálinu, þar á meðal fræðimenn, farísea og saddúkea, gefur okkur hugmynd um það. Þessir trúarleiðtogar lásu oft í Ritningunum en höfðu ekki gagn af því sem þeir lásu. Jesús benti á þrennt sem þeir hefðu átt að gera til að hafa meira gagn af Ritningunum. Það sem hann sagði getur hjálpað okkur að bæta okkur í að (1) skilja það sem við lesum, (2) finna andlega fjársjóði og (3) leyfa orði Guðs að móta okkur.
LESUM TIL AÐ SKILJA
4. Hvað getum við lært í Lúkasi 10:25–29 varðandi það að lesa orð Guðs?
4 Við viljum skilja merkingu þess sem við lesum í orði Guðs. Annars er hætt við að lesturinn nýtist okkur ekki til fulls. Skoðum aðeins samtal Jesú við ,löglærðan mann‘. (Lestu Lúkas 10:25–29.) Þegar maðurinn spurði hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf beindi Jesús athygli hans að orði Guðs og spurði: „Hvað stendur í lögunum? Hvað lestu út úr þeim?“ Maðurinn gat gefið rétt svar með því að vitna í Ritningarnar um að elska Guð og elska náungann. (3. Mós. 19:18; 5. Mós. 6:5) En tökum eftir því sem hann sagði næst: „Hver er þá náungi minn?“ Það kom í ljós að maðurinn skildi ekki það sem hann hafði lesið. Þar með sýndi hann að hann kunni ekki að heimfæra á líf sitt það sem Ritningarnar kenndu.
Að lesa til að skilja er hæfileiki sem við getum þroskað með okkur.
5. Hvernig getur það aukið skilning okkar á Biblíunni að fara með bæn og lesa rólega?
5 Við fáum betri skilning á orði Guðs ef við höfum góðar lestrarvenjur. Það er ýmislegt sem getur hjálpað okkur til þess. Förum með bæn áður en við byrjum að lesa. Við getum beðið Jehóva um heilagan anda til að geta einbeitt okkur vegna þess að við þurfum hjálp hans til að skilja Biblíuna. Lesum síðan efnið rólega. Það getur hjálpað okkur að skilja það betur. Sumum finnst gott að lesa upphátt eða samhliða því að hlusta á hljóðupptöku af Biblíunni. Að nota fleiri skilningarvit getur aukið áhrif orðs Guðs á huga og hjarta. (Jós. 1:8) Förum aftur með bæn þegar við höfum lokið lestrinum til að þakka Guði fyrir þá gjöf sem orð hans er og til að biðja um hjálp til að fara eftir því sem við höfum lesið.
Hvers vegna getur verið gagnlegt að punkta hjá sér stutt minnisatriði til að skilja og muna það sem maður les? (Sjá 6. grein.)
6. Hvernig geta spurningar og stuttir minnispunktar hjálpað okkur þegar við lesum Biblíuna? (Sjá einnig mynd.)
6 Hvað fleira getur hjálpað okkur að skilja Biblíuna betur? Spyrjum okkur spurninga um það sem við lesum. Þegar við lesum ákveðna frásögu í Biblíunni getum við spurt: Hverjar eru aðalsögupersónurnar? Hver er að tala? Við hvern er hann að tala og hvers vegna? Hvar og hvenær á atburðurinn sér stað? Slíkar spurningar hjálpa okkur að sjá heildarmyndina í því sem við erum að lesa. Skrifum líka stutta minnispunkta þegar við lesum. Þegar við gerum það fær það okkur til að setja hugsanir okkar í orð, en það hjálpar okkur síðan að skilja efnið betur. Að skrifa niður hjálpar okkur líka að muna það sem við lesum. Við gætum punktað niður spurningar, niðurstöðu rannsókna, aðalatriðin, hvernig við getum notað það sem við höfum lesið eða einfaldlega hvaða áhrif það hefur á okkur. Þegar við skrifum minnispunkta getur það hjálpað okkur að sjá orð Guðs sem persónuleg skilaboð til okkar.
7. Hvaða eiginleika þurfum við að hafa til að bera þegar við lesum og hvers vegna? (Matteus 24:15)
7 Jesús benti á mikilvægan eiginleika sem við þurfum að hafa til að skilja það sem við lesum í orði Guðs – dómgreind. (Lestu Matteus 24:15.) Hvað er dómgreind? Hún er geta til að skilja hvernig ákveðnar hugmyndir tengjast innbyrðis og til að skilja það sem liggur ekki strax í augum uppi. Jesús sýndi líka að við þurfum dómgreind til að bera kennsl á atburði sem uppfylla biblíuspádóma. Þessi eiginleiki er nauðsynlegur til að hafa sem mest gagn af öllu sem við lesum í Biblíunni.
8. Hvernig getum við beitt dómgreind þegar við lesum?
8 Jehóva gefur þjónum sínum dómgreind. Leitum til hans í bæn og biðjum hann um hjálp til að þroska með okkur þennan eiginleika. (Orðskv. 2:6) Hvernig getum við breytt í samræmi við bæn okkar? Kryfjum til mergjar það sem við lesum og tökum eftir því hvernig það tengist því sem við vitum fyrir. Við getum notað biblíunámsgögn, eins og til dæmis Efnislykil að ritum Votta Jehóva. Þessi verkfæri geta hjálpað okkur að skilja það sem við lesum í Biblíunni og sjá hvernig við getum heimfært það á líf okkar. (Hebr. 5:14) Skilningur okkar á Biblíunni eykst þegar við notum dómgreind okkar þegar við lesum hana.
LESUM TIL AÐ FINNA ANDLEGA FJÁRSJÓÐI
9. Fram hjá hvaða kenningu Biblíunnar litu saddúkearnir?
9 Saddúkearnir þekktu vel fyrstu fimm bækur Hebresku ritninganna en þeir litu fram hjá mikilvægum sannindum í þessum innblásnu bókum. Skoðum til dæmis hvernig Jesús brást við þegar saddúkearnir spurðu hann um upprisuna. Hann spurði þá: „Hafið þið ekki lesið í frásögunni af þyrnirunnanum í bók Móse að Guð sagði við hann: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘?“ (Mark. 12:18, 26) Saddúkearnir höfðu örugglega lesið þetta mörgum sinnum en spurning Jesú leiddi í ljós að þeir höfðu litið fram hjá mikilvægri kenningu Biblíunnar – kenningunni um upprisuna. – Mark. 12:27; Lúk. 20:38.d
10. Hverju ættum við að vera vakandi fyrir þegar við lesum í Biblíunni?
10 Hvað lærum við? Þegar við lesum Biblíuna viljum við vera vakandi fyrir því hvað versið eða frásagan kennir okkur. Við viljum ekki bara skilja grundvallaratriði heldur viljum við líka koma auga á dýpri sannindi og meginreglur sem liggja undir yfirborðinu.
11. Hvernig getum við fundið fjársjóði í Biblíunni samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 3:16, 17?
11 Hvernig getum við fundið andlega fjársjóði þegar við lesum í Biblíunni? Skoðum það sem segir í 2. Tímóteusarbréfi 3:16, 17. (Lestu.) Tökum eftir að „öll Ritningin er … gagnleg“ til að (1) kenna, (2) áminna, (3) leiðrétta og (4) aga. Við getum fengið þetta allt út úr biblíulestri okkar, jafnvel þegar við lesum þær bækur sem við lesum sjaldan. Kryfjum til mergjar frásöguna sem við lesum til að sjá hvað hún kennir okkur um Jehóva, fyrirætlun hans og meginreglur. Skoðum hvernig frásagan áminnir okkur. Við gerum það með því að taka eftir því hvernig versin hjálpa okkur að koma auga á og hafna röngum tilhneigingum og viðhorfum og vera áfram trúföst Jehóva. Sjáum hvernig frásagan getur hjálpað okkur að leiðrétta ranga skoðun, sem hefur ef til vill komið í ljós í boðuninni. Tökum eftir aganum sem kemur fram í versunum sem við lesum og getur hjálpað okkur að tileinka okkur hugarfar Jehóva. Þegar við höfum þetta fernt í huga munum við finna andlega fjársjóði sem geta auðgað biblíulestur okkar.
LÁTUM BIBLÍULESTUR OKKAR MÓTA OKKUR
12. Hvers vegna spurði Jesús faríseana: „Hafið þið ekki lesið?“
12 Jesús varpaði líka fram spurningunni: „Hafið þið ekki lesið?“ til að sýna að farísearnir höfðu rangt viðhorf til Ritninganna. (Matt. 12:1–7)e Þetta var þegar farísearnir héldu því fram að lærisveinar Jesú hefðu brotið hvíldardagslögin. Jesús notaði tvö dæmi úr Ritningunum og vitnaði meðal annars í Hósea til að sýna að farísearnir skildu ekki hvíldardagslögin og höfðu ekki sýnt miskunn. Hvers vegna mótaði lestur þeirra í orði Guðs þá ekki? Þeir lásu það með gagnrýnu og stoltu hugarfari. Hugarfar þeirra kom í veg fyrir að þeir skildu það sem þeir lásu. – Matt. 23:23; Jóh. 5:39, 40.
13. Með hvaða hugarfari ættum við að lesa Biblíuna og hvers vegna?
13 Það sem Jesús sagði undirstrikar að við verðum að lesa Biblíuna með réttu hugarfari. Við þurfum að vera einlæg og fús til að læra, ólíkt faríseunum. Við þurfum að „taka með auðmýkt við orðinu“. (Jak. 1:21) Ef við erum auðmjúk leyfum við orði Guðs að festa rætur í hjarta okkar. Það er aðeins með því að forðast gagnrýni og stolt að kennsla Biblíunnar um miskunn, samkennd og kærleika getur mótað okkur.
Hvernig sjáum við hvort við leyfum orði Guðs að móta okkur? (Sjá 14. grein.)f
14. Hvað gefur til kynna hvort við leyfum Biblíunni að móta okkur? (Sjá einnig myndir.)
14 Hvernig við komum fram við aðra getur gefið til kynna hvort við leyfum orði Guðs að móta okkur. Farísearnir létu orð Guðs ekki hafa áhrif á hjarta sitt og þess vegna ,fordæmdu þeir saklausa menn‘. (Matt. 12:7) Hvort við höfum leyft orði Guðs að móta okkur birtist á svipaðan hátt í því hvernig við lítum á aðra og komum fram við þá. Höfum við til dæmis tilhneigingu til að tala um það góða í fari annarra eða erum við fljót að benda á galla þeirra? Erum við miskunnsöm og fús að fyrirgefa eða gagnrýnin og ölum á gremju? Slík sjálfsrannsókn getur leitt í ljós hvort við leyfum því sem við lesum að hafa áhrif á hugsanir okkar, tilfinningar og verk. – 1. Tím. 4:12, 15; Hebr. 4:12.
AÐ LESA Í ORÐI GUÐS VEITIR HAMINGJU
15. Hvað fannst Jesú um Ritningarnar?
15 Jesús elskaði Ritningarnar eins og lýst er í spádómi í Sálmi 40:8, en þar segir: „Ég hef yndi af að gera vilja þinn, Guð minn, og lög þín eru innst í hjarta mínu.“ Þar af leiðandi naut hann hamingju og velgengni í þjónustu Jehóva. Við getum líka notið hamingju og velgengni ef við látum orð Guðs ná til hjarta okkar. – Sálm. 1:1–3.
16. Hvað ætlarðu að gera til að fá meira út úr biblíulestri þínum? (Sjá rammann: „Það sem Jesús sagði getur hjálpað þér að skilja það sem þú lest.“)
16 Bætum biblíulestur okkar með því að íhuga það sem Jesús sagði og gerði. Við getum aukið skilning okkar á því sem við lesum í Biblíunni með því að biðja til Guðs, lesa rólega, spyrja spurninga og taka stutta minnispunkta. Við notum dómgreindina með því að kryfja til mergjar það sem við lesum með hjálp biblíutengdra rita. Við getum lært að nota orð Guðs betur, jafnvel kafla sem við þekkjum ekki eins vel, með því að leita að andlegum fjársjóðum. Og við leyfum orði Guðs að móta okkur með því að hafa rétt hugarfar þegar við lesum. Þegar við gerum okkar besta fáum við meira út úr biblíulestrinum og nálgumst Jehóva enn meir. – Sálm. 119:17, 18; Jak. 4:8.
SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara
a Við sem tilbiðjum Jehóva reynum öll að lesa daglega í orði hans. Margir aðrir lesa líka í Biblíunni en skilja í raun ekki það sem þeir lesa. Það sama gilti um fólk á dögum Jesú. Við getum fengið hjálp til að fá meira út úr biblíulestri okkar með því að skoða hvað Jesús sagði við þá sem lásu orð Guðs.
b Þegar Jesús var smurður heilögum anda við skírn sína endurheimti hann minningar um fortilveru sína. – Matt. 3:16.
c María þekkti Ritningarnar vel og vitnaði í þær. (Lúk. 1:46–55) Jósef og María höfðu trúlega ekki efni á eintaki af Ritningunum. Þau hljóta að hafa hlustað vel þegar orð Guðs var lesið í samkunduhúsinu svo að þau gætu rifjað það upp síðar.
d Sjá greinina „Nálægðu þig Guði – hann er Guð lifenda“ í Varðturninum 1. mars 2013.
e Sjá einnig Matteus 19:4–6 þar sem Jesús spyr faríseana sömu spurningarinnar: „Hafið þið ekki lesið?“ Þeir litu fram hjá því sem sköpunarsagan kenndi um viðhorf Guðs til hjónabandsins þótt þeir hefðu lesið hana.
f MYND: Á safnaðarsamkomu í ríkissalnum gerir bróðir sem aðstoðar í hljóð- og mynddeild nokkur mistök. Eftir samkomuna hrósa bræðurnir honum samt fyrir það sem hann lagði á sig frekar en að einblína á mistök hans.