Eru tilfinningar okkar alltaf áreiðanlegur leiðarvísir?
Rétt og rangt: Hvað leiðbeinir mörgum?
Nánast allir eru sammála um að sumt sé greinilega rétt og annað algerlega rangt. Langflestir myndu til dæmis fordæma morð, nauðgun og kynferðisofbeldi gegn börnum og langflestir telja lofsvert að vera sanngjarn, góður og sýna samúð. En hvað um ákvarðanir sem varða til dæmis kynlíf, heiðarleika eða barnauppeldi? Margir telja að ekki sé til neitt sem heitir rétt eða rangt í þeim málum. Þeim finnst nánast allt vera í lagi. Fólk tekur oft ákvarðanir byggðar á því hvað þeim finnst og hvað öðrum í kringum það finnst um málið. Er það alltaf góð hugmynd?
ÞAÐ SEM OKKUR FINNST
Við látum oft tilfinningarnar leiða okkur, innri vitund okkar um rétt og rangt sem er almennt kölluð samviska. (Rómverjabréfið 2:14, 15) Börn geta allt frá unga aldri skilið muninn á því sem er sanngjarnt og ósanngjarnt og jafnvel fundið til sektarkenndar. Með tímanum mótast samviska okkar af gildum sem við lærum af fjölskyldunni, jafnöldrum, kennurum, samfélaginu, trúnni og menningunni. Þegar við tökum ákvarðanir lætur samviskan okkur vita hvort ákvörðunin samræmist gildum okkar eða ekki.
Tilfinning okkar á réttu og röngu getur fengið okkur til að sýna öðrum samúð, þakklæti, sanngirni og umhyggju. Hún getur líka aftrað okkur frá því að gera eitthvað sem gæti sært þá sem okkur er annt um eða gert okkur vandræðaleg, orðið okkur til skammar eða valdið okkur sektarkennd.
Eru tilfinningar okkar alltaf áreiðanlegur leiðarvísir? Þegar Garrick var ungur kaus hann sér lífsstíl þar sem „ég setti minn eigin mælikvarða“, eins og hann sjálfur orðar það. Hann komst þó að því að það hafði ekki góðar afleiðingar að gera það sem honum fannst vera rétt. Hann leiddist út í líferni sem hann lýsir seinna sem „mjög slæmri braut sem einkenndist af siðleysi, fíkniefnaneyslu, drykkju og miklu ofbeldi“.
ÞAÐ SEM ÖÐRUM FINNST
Auk þess að láta leiðast af tilfinningum okkar látum við viðhorf annarra oft hafa áhrif á ákvarðanir okkar. Þannig getum við notið góðs af reynslu þeirra og visku. Við ávinnum okkur virðingu fjölskyldu okkar, vina og fólks í samfélaginu þegar við gerum það sem þeim finnst vera rétt.
Eru skoðanir annarra alltaf áreiðanlegur leiðarvísir? Þegar Priscila var ung gerði hún það sem var vinsælt meðal vina hennar og fór að stunda kynlíf fyrir hjónaband. En hún áttaði sig á því að það veitti henni enga hamingju að gera það sem aðrir töldu vera rétt. Hún segir: „Mér leið ekki vel þegar ég gerði það sem allir aðrir voru að gera. Þetta varð til þess að ég tók heimskulegar ákvarðanir og áhættur.“
ER TIL BETRI LEIÐ?
Tilfinningar okkar og skoðanir annarra gegna mikilvægu hlutverki þegar við gerum upp hug okkar um hvað sé rétt og rangt. En þessi leiðsögn ein og sér leiðir ekki alltaf til góðs. Stundum erum við kannski of skammsýn og sjáum ekki hvernig ákvarðanir okkar gætu skaðað okkur eða aðra. (Orðskviðirnir 14:12) Það er ekki heldur til trygging fyrir því að gildismat okkar eða annarra í kringum okkur sé okkur fyrir bestu og sé ekki breytingum háð. Ákveðin hegðun sem áður var álitin röng er almennt viðurkennd núorðið og ýmislegt sem fólki fannst í lagi áður er núna talið óviðeigandi.
Er alltaf góð hugmynd að fylgja öðrum?
Er til betri leið til að átta sig á því hvað er rétt og hvað er rangt? Er til siðferðismælikvarði sem við getum fylgt núna og mun ekki valda okkur vonbrigðum seinna?
Sem betur fer er hægt að finna áreiðanlegan leiðavísi í siðferðismálum sem breytist ekki. Hann virkar fyrir alla, alls staðar. Í næstu grein sjáum við hvar við getum fundið traustasta leiðarvísinn til að greina á milli þess sem er rétt og rangt.