Stríð og vopnuð átök hafa áhrif á okkur öll
„Það hafa ekki verið fleiri stríð og vopnuð átök í heiminum síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Tveir milljarðar – fjórðungur mannkyns – búa við áhrif slíkra átaka.“
Amina J. Mohammed, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, 26. janúar 2023.
Stríð og vopnuð átök geta brotist út á ólíklegustu stöðum. Og fólk sem býr langt frá stríðshrjáðum svæðum getur orðið fyrir áhrifum af þeim vegna þess að heimurinn hefur aldrei verið eins samtengdur. Og skaðinn varir lengi eftir að átökin enda. Skoðum nokkur dæmi:
Hungursneyðir. Samkvæmt Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna „eru hungursneyðir enn þá mestmegnis af völdum stríða. Um 70 prósent þeirra sem þurfa að þola hungur búa á stríðshrjáðum svæðum.“
Líkamleg og andleg veikindi. Stríðsógn og óöryggið sem henni fylgir geta valdið fólki alvarlegri streitu og kvíða. Þeir sem búa á átakasvæðum eru ekki aðeins líklegri til að særast líkamlega heldur líka að verða andlega veikir. Og þeir hafa því miður oft takmarkaðan aðgang að læknisþjónustu.
Fólksflótti. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sagði að í september 2023 höfðu meira en 114 milljónir manna um heim allan þurft að flýja heimili sín. Helsta ástæðan fyrir þessu ástandi eru stríð og vopnuð átök.
Efnahagserfiðleikar. Efnahagserfiðleikar, svo sem verðbólga, eru oft fylgifiskar stríðs. Það getur verið vegna þess að stjórnvöld verja miklu í hernaðarútgjöld, sem annars yrði notað í heilbrigðisþjónustu og menntun. Og það er gríðarlega dýrt að byggja upp eftir eyðileggingu stríðs.
Umhverfisvandamál. Fólk þjáist þegar náttúruauðlindir þess eru skemmdar af ásettu ráði. Mengað vatn, loft og jarðvegur geta haft langtímaáhrif á heilsu fólks. Og faldar jarðsprengjur valda hættu löngu eftir að stríðinu er lokið.
Stríð eru klárlega bæði kostnaðarsöm og valda mikilli eyðileggingu.