ÆVISAGA
Jehóva hjálpaði okkur að ‚blómstra þar sem okkur var plantað‘
„BLÓMSTRIÐ þar sem ykkur er plantað.“ Þetta gætu virst furðuleg ráð. En sænskum hjónum, Mats og Ann-Catrin, var „plantað“ mörgum sinnum. Hvernig kom það til og hvernig nýttist þetta ráð?
Hjónin Mats og Ann-Catrin sóttu Gíleaðskólann árið 1979 og hefur í gegnum árin verið „plantað“, eða úthlutað þjónustuverkefnum, í Íran, Máritíus, Mjanmar, Tansaníu, Úganda og Saír. Kennari í Gíleaðskólanum, Jack Redford, gaf þeim þessi ráð og þau hjálpuðu þeim þegar þeim var plantað, þau tekin upp með rótum og þeim plantað aftur mörgum sinnum. Heyrum hvað þau hafa að segja.
Segið okkur fyrst hvernig þið kynntust sannleikanum.
Mats: Þegar faðir minn bjó í Póllandi á tímum síðari heimstyrjaldarinnar tók hann eftir hve mikil hræsni var innan kaþólsku kirkjunnar. Hann sagði samt oft: „Sannleikurinn hlýtur að vera þarna einhvers staðar.“ Með tímanum komst ég að því að svo var. Ég keypti margar notaðar bækur. Ein þeirra var blá bók, Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Heiti bókarinnar greip athygli mína og ég las fram á nótt og kláraði bókina. Þegar ég var búinn að því vissi ég að ég hafði fundið sannleikann.
Frá og með apríl 1972 las ég mörg fleiri rit frá Vottum Jehóva og fékk svör við biblíuspurningum mínum. Mér leið eins og kaupmanninum í dæmisögu Jesú sem fann eina verðmæta perlu og seldi allt sem hann átti til að kaupa hana. Ég „seldi“ áform mín um að verða mér úti um háskólamenntun til að verða læknir og keypti í staðinn „perlu“ sannleikans sem ég hafði fundið. (Matt. 13:45, 46) Ég lét skírast 10. desember 1972.
Á innan við ári tóku foreldrar mínir og yngri bróðir líka við sannleikanum og létu skírast. Í júlí 1973 hóf ég þjónustu í fullu starfi. Í söfnuðinum okkar voru duglegir brautryðjendur og þar á meðal aðlaðandi systir, Ann-Catrin, sem elskaði Jehóva mjög mikið. Við urðum ástfangin og giftum okkur 1975 og bjuggum næstu fjögur árin í Strömsund, fallegum bæ í Svíþjóð þar sem margir vildu kynnast Biblíunni.
Ann-Catrin: Faðir minn kynntist sannleikanum þegar hann var í háskóla í Stokkhólmi. Ég var bara þriggja mánaða gömul þá en hann tók mig með á samkomur og út í boðunina. Mömmu líkaði það ekki og reyndi að sýna fram á að vottarnir hefðu rangt fyrir sér. En hún gat það ekki og seinna lét hún líka skírast. Ég var 13 ára þegar ég lét skírast og byrjaði að starfa sem brautryðjandi 16 ára. Eftir að hafa starfað í Umeå, þar sem var mikil þörf fyrir boðbera, gerðist ég sérbrautryðjandi.
Eftir að við Mats giftum okkar nutum við þeirrar ánægju að hjálpa nokkrum að kynnast sannleikanum. Meðal þeirra var unglingsstúlka að nafni Maivor, sem gaf íþróttaferil upp á bátinn fyrir sannleikann. Hún varð brautryðjandafélagi yngri systur minnar. Þær fóru í Gíleaðskólann 1984 og eru nú trúboðar í Ekvador.
Hvernig hafið þið fylgt ráðunum að ‚blómstra þar sem ykkur er plantað‘ í trúboðsstarfi ykkar?
Mats: Okkur var oft „plantað“ á nýjum stað þegar við fengum nýtt verkefni. En við reyndum að vera „rótföst“ í Jesú með því að gera okkar besta til að líkja eftir honum, sérstaklega auðmýkt hans. (Kól. 2:6, 7) Í staðinn fyrir að vænta þess að bræður og systur gerðu hlutina eins og við vorum vön reyndum við að skilja af hverju þau gerðu hlutina á sinn hátt. Okkur langaði að skilja menningu þeirra og hugsunarhátt. Því betur sem við líktum eftir Jesú fundum við hvernig við vorum „gróðursett hjá lækjum“ og gátum þannig blómstrað hvar sem verkefni okkar voru. – Sálm. 1:2, 3.
Við ferðuðumst mikið til að heimsækja söfnuði.
Ann-Catrin: Til að tré geti vaxið eftir að hafa verið tekið upp með rótum og því plantað aftur þarf það sólarljós. Jehóva hefur alltaf reynst vera „sól“ okkar. (Sálm. 84:11) Hann hefur séð okkur fyrir hlýju og kærleiksríku bræðrafélagi. Við upplifðum til dæmis gestrisni eins og tíðkaðist á biblíutímanum í litla söfnuðinum okkar í Teheran í Íran. Við hefðum viljað vera áfram í Íran en í júlí 1980 var starfsemi Votta Jehóva bönnuð þar og við fengum 48 klukkustundir til að yfirgefa landið. Við fengum nýtt verkefni í Saír í Afríku (nú þekkt sem Kongó).
Góðar minningar frá þjónustu okkar í Saír, 1982.
Þegar ég komst að því að það átti að senda okkur til Afríku grét ég. Ég óttaðist snáka og sjúkdóma sem ég hafði heyrt að væru þar. En vinahjón okkar sem höfðu starfað þar lengi sögðu: „Þú hefur ekki prófað enn þá. Gefðu þessu tækifæri og sjáðu til, þú átt eftir að elska Afríku.“ Þau höfðu rétt fyrir sér. Bræður og systur þar eru kærleiksrík og hlý. Sex árum síðar þurftum við að yfirgefa Saír vegna þess að starfsemi okkar þar var bönnuð. Þá brosti ég með sjálfri mér því að nú bað ég Jehóva um að fá að vera áfram í Afríku.
Hvaða blessunar hafið þið notið í gegnum árin?
„Svefnherbergið“ okkar í Tansaníu, 1988.
Mats: Við höfum eignast góða vini meðal trúboða frá mörgum löndum og með mismunandi bakgrunn. Á sumum svæðum upplifðum við einstaka gleði sem fylgir því að stýra mörgum biblíunámskeiðum – stundum um 20 námskeiðum hvort fyrir sig. Kærleikur og gestrisni bræðra og systra í Afríku stendur líka upp úr. Margir vinir í söfnuðunum í Tansaníu sýndu okkur gestrisni „um efni fram“ þegar við lögðum „svefnherberginu“ okkar – Volkswagen rúgbrauði – við heimili þeirra. (2. Kor. 8:3) Eitt sem er okkur mjög kært er það sem við kölluðum sögustund. Hún var í lok dagsins þegar við Ann-Catrin settumst niður og rifjuðum upp það sem hafði gerst yfir daginn og þökkuðum Jehóva fyrir að vera með okkur.
Ann-Catrin: Mér hefur fundist einstaklega ánægjulegt að kynnast bræðrum og systrum frá öllum heimshornum. Við lærðum ný tungumál, þar á meðal farsí, frönsku, lúganda og svahílí og kynntumst mismunandi áhugaverðri menningu. Við hjálpuðum til við að þjálfa nýja bræður og systur, eignuðumst góða vini og þjónuðum Jehóva glöð með þeim. – Sef. 3:9.
Við sáum ótrúlegan fjölbreytileika í fallegu sköpunarverki Jehóva. Í hvert sinn sem við fengum nýtt verkefni í þjónustu Jehóva fannst okkur eins og hann færi með okkur í ferðalag og væri sjálfur leiðsögumaðurinn. Við höfum upplifað svo margt sem við hefðum aldrei getað gert upp á eigin spýtur.
Í boðuninni á ólíkum svæðum í Tansaníu.
Hvaða vandamál hafið þið þurft að glíma við og hvernig hafið þið sigrast á þeim?
Mats: Við höfum fengið nokkra hitabeltissjúkdóma í gegnum árin, eins og malaríu. Og Ann-Catrin er búin að fara í nokkrar bráðaaðgerðir. Við höfðum líka áhyggjur af öldruðum foreldrum okkar og erum því þakklát systkinum okkar sem önnuðust þá. Þau sinntu þeim af þolinmæði, gleði og kærleika. (1. Tím. 5:4) En stundum leið okkur illa og óskuðum þess að geta gert meira fyrir foreldra okkar en að veita þeim bara stuðning úr fjarlægð.
Ann-Catrin: Árið 1983 þegar við störfuðum í Saír veiktist ég alvarlega af kóleru. Læknirinn sagði Mats að koma mér strax úr landi. Daginn eftir fórum við til Svíþjóðar með eina fluginu sem bauðst – vöruflutningaflugvél.
Mats: Við grétum því við héldum að trúboðsstarf okkar væri þar með úr sögunni. En öfugt við það sem læknirinn sagði náði Ann-Catrin sér. Ári síðar gátum við snúið aftur til Saír, í þetta skipti í lítinn svahílímælandi söfnuð í Lubumbashi.
Ann-Catrin: Þegar við vorum í Lubumbashi missti ég fóstur. Þótt við hefðum ekki verið búin að ákveða að eignast barn var það mér óskaplega erfitt að missa það. En á þessum erfiða tíma fengum við óvænta gjöf frá Jehóva. Við komum af stað fleiri biblíunámskeiðum en nokkru sinni fyrr. Á innan við ári fjölgaði boðberum í söfnuðinum úr 35 í 70 og þeim sem sóttu samkomur fjölgaði úr 40 í 220. Við vorum mjög upptekin í boðuninni og blessun Jehóva veitti mér mikla huggun. Við hugsum og tölum samt oft um barnið okkar og bíðum spennt eftir að sjá hvernig Jehóva mun græða að fullu tilfinningaleg sár okkar.
Mats: Síðar fór Ann-Catrin að finna fyrir mjög mikilli þreytu og orkuleysi. Á sama tíma greindist ég með fjórða stigs krabbamein í ristli og þurfti að fara í stóra skurðaðgerð. En núna er ég bara hress og Ann-Catrin gerir sitt besta í þjónustu Jehóva.
Við höfum séð að við erum ekki þau einu sem glímum við erfiðleika. Eftir þjóðarmorðin í Rúanda 1994 heimsóttum við marga vini okkar sem voru í flóttamannabúðum. Að sjá trú þeirra, þolgæði og takmarkalausa gestrisni kenndi okkur að Jehóva hefur máttinn til að styðja þjóna sína í hvaða erfiðleikum sem er. – Sálm. 55:22.
Ann-Catrin: Við urðum fyrir öðru áfalli þegar við fórum til að vera við vígslu deildarskrifstofunnar í Úganda 2007. Eftir dagskrána ferðuðumst við með um 25 trúboðum og Betelítum til Naíróbí í Kenía. Áður en við komum að landamærum Kenía beygði flutningabíll sem kom úr gagnstæðri átt yfir á okkar vegarhelming með þeim afleiðingum að bílarnir skullu saman. Bílstjórinn og fimm vinir okkar létust samstundis og ein systir lést síðar á sjúkrahúsi. Við söknum þeirra sárt. – Job. 14:13–15.
Um síðir greru líkamleg sár mín. En við Mats þjáðumst, ásamt nokkrum öðrum, af áfallastreituröskun. Hjá mér komu kvíðaköstin á næturnar þegar ég vaknaði og mér leið eins og ég væri að fá hjartaáfall. Þetta var skelfilegt. En ákafar bænir til Jehóva og huggunarríkir ritningarstaðir hjálpuðu okkur að takast á við þetta. Við fengum líka læknishjálp sem gerði gagn. Núna eru einkennin þolanlegri og við biðjum Jehóva að hjálpa okkur að hugga aðra sem berjast við kvíðaköst.
Þegar þú lýstir því hvernig þið hafið getað tekist á við erfiðar aðstæður sagðirðu að Jehóva hefði borið ykkur eins og brothætt egg. Hvað áttirðu við?
Mats: Þetta er orðatiltæki úr Svahílí: „Tumebebwa kama mayai mabichi,“ eða „við vorum borin eins og brothætt egg“. Rétt eins og maður fer varlega þegar maður heldur á eggjum til að þau brotni ekki hefur Jehóva annast okkur af nærgætni í verkefnum okkar. Við höfum alltaf haft það sem við þurfum og jafnvel meira en það. Við höfum til dæmis fundið kærleika og stuðning Jehóva í samkenndinni sem stjórnandi ráð hefur sýnt okkur.
Ann-Catrin: Mig langar að nefna dæmi um stuðning Jehóva. Eitt sinn var hringt í mig og ég fékk að vita að faðir minn í Svíþjóð væri á gjörgæslu á sjúkrahúsi. Mats var nýbúinn að ná sér eftir malaríu. Við höfðum ekki efni á að kaupa flugmiða til að komast heim svo að við ákváðum að selja bílinn okkar. Þá var hringt aftur í okkur í tvígang. Fyrst hringdu hjón sem höfðu heyrt af stöðunni og vildu borga annan flugmiðann. Síðan hringdi eldri systir sem hafði lagt peninga til hliðar í box merkt: „Fyrir einhvern sem þarfnast hjálpar.“ Það liðu bara nokkrar mínútur þangað til að Jehóva hjálpaði okkur. – Hebr. 13:6.
Hvað hafið þið lært á 50 árum í fullu starfi í þjónustu Jehóva?
Í nýju verkefni í Mjanmar.
Ann-Catrin: Ég hef sannreynt að styrkur okkar felst í að „halda rónni og treysta“ Jehóva. Þegar við gerum það gerir hann okkar bardaga að sínum bardaga. (Jes. 30:15; 2. Kron. 20:15, 17) Með því að þjóna Jehóva eins vel og við getum í hverju verkefni höfum við notið meiri blessunar en við hefðum getað notið með nokkrum öðrum hætti.
Mats: Það sem ég hef fyrst og fremst lært er að treysta á Jehóva í öllum aðstæðum og sjá hvernig hann hjálpar mér. (Sálm. 37:5) Hann lofar að gera það og hann hefur aldrei brugðist. Við finnum það enn þá í Betelþjónustu okkar í Mjanmar.
Það er von okkar að margt af því unga fólki sem vill auka þjónustu sína fái að finna fyrir sama trygga kærleika og Jehóva hefur sýnt okkur. Við erum sannfærð um að unga fólkið muni gera það ef það leyfir Jehóva að hjálpa sér að dafna hvar sem því er plantað.