Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 október bls. 18-23
  • Hvernig geturðu beðið til Jehóva frá hjartanu?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig geturðu beðið til Jehóva frá hjartanu?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • BIDDU Í TRÚNAÐARTRAUSTI
  • HVERNIG GETURÐU GERT BÆNIR ÞÍNAR INNIHALDSRÍKARI?
  • ÍGRUNDAÐU INNILEGAR BÆNIR SEM BIBLÍAN GREINIR FRÁ
  • HALTU ÁFRAM AÐ NÁLGAST JEHÓVA Í BÆN
  • Munum að biðja fyrir öðrum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Styrktu tengslin við Guð með bæninni
    Hvað kennir Biblían?
  • Auðgaðu bænir þínar með biblíunámi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Bænin hjálpar þér að nálgast Guð
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 október bls. 18-23

NÁMSGREIN 42

SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda

Hvernig geturðu beðið til Jehóva frá hjartanu?

„Ég hrópa af öllu hjarta. Svaraðu mér, Jehóva.“ – SÁLM. 119:145.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig við getum gert bænir okkar innihaldsríkari með því að læra af bænum þjóna Jehóva sem Biblían greinir frá.

1, 2. (a) Hvað gæti komið í veg fyrir að við opnum okkur fyrir Jehóva? (b) Hvernig vitum við að Jehóva tekur hlýlega á móti okkur í bæn?

FINNST þér stundum að bænir þínar séu orðnar staglsamar, yfirborðslegar eða bara vanaverk? Ef svo er ertu ekki einn um það. Okkur hættir til að fara með bæn í flýti af því að við höfum öll mikið að gera. Eða þá að við eigum erfitt með að opna okkur fyrir Jehóva vegna þess að okkur finnst við ekki verðug þess að nálgast hann.

2 Biblían fullvissar okkur um að það sem skiptir máli í augum Jehóva sé ekki hversu snilldarlega við orðum hugsanir okkar heldur að þær endurspegli auðmjúkt hjartalag. Hann „heyrir bænir auðmjúkra“. (Sálm. 10:17) Hann hlustar af athygli og gefur gaum að hverju orði vegna þess að hann ber umhyggju fyrir okkur. – Sálm. 139:1–3.

3. Hvaða spurningar skoðum við í þessari námsgrein?

3 Við gætum spurt: Hvers vegna getum við sýnt Jehóva trúnaðartraust í bænum okkar? Hvernig getum við gert bænir okkar innihaldsríkari? Hvernig geta innilegar bænir sem er að finna í Biblíunni hjálpað okkur að bæta bænir okkar? Og hvað getum við gert ef okkur líður svo illa að við eigum erfitt með að lýsa tilfinningum okkar? Skoðum svörin við þessum spurningum.

BIDDU Í TRÚNAÐARTRAUSTI

4. Hvað getur hjálpað okkur að leita til Jehóva í trúnaðartrausti? (Sálmur 119:145)

4 Þegar við áttum okkur á að Jehóva er tryggur vinur sem vill að okkur farnist vel getum við opnað okkur fyrir honum í fullu trausti. Sá sem orti Sálm 119 reyndi að hafa þess konar hlýlegt samband við Jehóva. Hann var ekki laus við vandamál lífsins. Illir menn gerðu honum rangt til. (Sálm. 119:23, 69, 78) Hann þurfti líka að takast á við eigin ófullkomleika. (Sálm. 119:5) Hann var samt ekki hræddur við að opna hjarta sitt fyrir Jehóva. – Lestu Sálm 119:145.

5. Hvers vegna ættum við aldrei að láta neikvæðar tilfinningar koma í veg fyrir að við biðjum til Jehóva? Lýstu með dæmi.

5 Jehóva býður líka þeim sem hafa gert alvarleg mistök að leita til sín í bæn. (Jes. 55:6, 7) Við ættum því ekki að láta neikvæðar tilfinningar halda aftur af okkur. Tökum dæmi: Flugmaður veit að hann getur haft samband við flugumferðarstjóra ef hann þarfnast hjálpar. Ætti hann að hika við að gera það vegna þess að hann skammast sín fyrir að hafa villst eða gert mistök? Að sjálfsögðu ekki! Á líkan hátt getum við snúið okkur til Jehóva í bæn í trúartrausti, jafnvel þegar við höfum villst eða syndgað. – Sálm. 119:25, 176.

HVERNIG GETURÐU GERT BÆNIR ÞÍNAR INNIHALDSRÍKARI?

6, 7. Hvernig geta bænir okkar orðið innihaldsríkari þegar við hugleiðum eiginleika Jehóva? Nefndu dæmi. (Sjá einnig neðanmáls.)

6 Bænir okkar verða innihaldsríkari þegar við tölum opinskátt við Jehóva og segjum honum frá okkar innstu hugsunum og tilfinningum. Hvernig gætum við beðið með þessum hætti?

7 Íhugaðu eiginleika Jehóva.a Þeim mun meira sem við íhugum eiginleika hans þeim mun auðveldara eigum við með að tjá hugsanir okkar. (Sálm. 145:8, 9, 18) Kristine er systir sem átti ofbeldisfullan föður. Hún segir: „Það var ekki auðvelt fyrir mig að nálgast Jehóva sem föður. Ég óttaðist að hann yfirgæfi mig vegna þess að ég var svo ófullkomin.“ Hvaða eiginleiki Jehóva hefur hjálpað henni? Hún segir: „Tryggur kærleikur Jehóva gefur mér öryggistilfinningu. Ég veit að hann sleppir aldrei af mér hendinni. Jafnvel þótt ég hrasi reisir hann mig hlýlega á fætur. Þetta gerir mér kleift að tjá honum innilegustu gleði mína og dýpstu sorgir.“

8, 9. Hvers vegna getur verið gott að hugsa fyrir fram það sem þú ætlar að segja í bæn? Lýstu með dæmi.

8 Hugsaðu um það sem þú ætlar að segja. Áður en þú biður gætirðu hugleitt nokkrar spurningar, eins og til dæmis: Hvaða vandamál er ég að glíma við þessa stundina? Þarf ég að fyrirgefa einhverjum? Stend ég andspænis nýrri áskorun sem ég þarfnast hjálpar Jehóva við? (2. Kon. 19:15–19) Við getum líka fylgt fyrirmyndinni sem Jesús gaf okkur með því að velta fyrir okkur því sem snertir nafn Jehóva, ríki hans og vilja. – Matt. 6:9, 10.

9 Þegar systir að nafni Aliska komst að því að maðurinn hennar var með krabbamein í heila á lokastigi átti hún erfitt með að biðja. Hún segir: „Ég var svo miður mín að ég átti erfitt með að hugsa nógu skýrt til að biðja.“ Hvað hjálpaði henni? Hún segir: „Ég tek mér smá stund áður en ég bið til að koma röð og reglu á hugsanir mínar og það hefur hjálpað mér að láta bænir mínar ekki snúast bara um sjálfa mig. Þetta hjálpar mér að vera rólegri og í betra hugarástandi þegar ég fer með bæn.“

10. Hvers vegna ættum við að taka okkur tíma til að biðja? (Sjá einnig myndir.)

10 Taktu þér tíma til að biðja. Það er líklegra að við náum að tjá innstu hugsanir okkar þegar við tökum okkur tíma fyrir bænir okkar, þótt stuttar bænir eigi líka alveg rétt á sér.b Eiginmaður Alisku, Elijah, segir: „Ég reyni að biðja mörgum sinnum yfir daginn og sambandið við Jehóva er orðið nánara síðan ég fór að taka mér tíma til að biðja. Ég get tekið mér þann tíma sem ég þarf því Jehóva bíður ekki óþreyjufullur eftir að ég ljúki bæninni.“ Reyndu eftirfarandi: Finndu þér stað og stund sem þú getur beðið, jafnvel upphátt, án truflunar og vendu þig á að taka þér tíma til að biðja til Jehóva.

Myndir: 1. Bróðir situr við skrifborðið sitt fyrir sólarupprás og hugleiðir. Hann er með Biblíuna opna á borðinu og kaffibolla. 2. Eftir sólsetur situr hann við skrifborðið sitt og biður innilegrar bænar.

Finndu stað og stund þar sem þú getur tekið þér tíma til að biðja. (Sjá 10. grein.)


ÍGRUNDAÐU INNILEGAR BÆNIR SEM BIBLÍAN GREINIR FRÁ

11. Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða innilegar bænir sem eru skráðar í Biblíunni? (Sjá einnig rammagreinina „Tengir þú við aðstæður þeirra?“)

11 Það getur verið gagnlegt að hugleiða innilegar bænir, lofsöngva eða sálma sem er að finna í Biblíunni. Það knýr þig til að opna hjarta þitt fyrir Jehóva þegar þú ígrundar hvernig þjónar Guðs tjáðu honum innstu hugsanir sínar. Þú finnur ef til vill nýja leið til að lofa Jehóva í bæn. Og þú getur fundið bænir sem fjalla um aðstæður sem eru líkar þínum.

Tengir þú við aðstæður þeirra?

Trúfastir þjónar Guðs opnuðu hjarta sitt í bæn til hans við margar mismunandi aðstæður. Hefur þú haft svipaðar tilfinningar?

  • Þegar Jakob barðist við kvíða tjáði hann Jehóva þakklæti og trú í bænum sínum. – 1. Mósebók 32:9–12.

  • Þegar Salómon var ungur konungur og fannst ábyrðin sem Jehóva fól honum yfirþyrmandi bað hann um hjálp hans. – 1. Kon. 3:7–9.

  • Eftir að Davíð framdi hjúskaparbrot með Batsebu sárbændi hann Jehóva um að skapa í sér „hreint hjarta“. – Sálm. 51:9–12.

  • María lofaði Jehóva þegar hann gaf henni sérstakt verkefni. – Lúk. 1:46–49.

Verkefni í sjálfsnámi: Lestu bæn sem trúfastur þjónn Jehóva bar fram og kryfðu hana til mergjar. Skoðaðu síðan hvernig Jehóva svaraði bæninni. Yfirfærðu það sem þú lærir á aðstæður þínar.

12. Hvaða spurninga getum við spurt okkur þegar við skoðum hvað ákveðin bæn fjallar um?

12 Þegar þú hugleiðir bæn sem er að finna í Biblíunni skaltu spyrja þig: Hver sagði þetta og við hvaða kringumstæður? Get ég tengt við það sem segir í bæninni? Hvað læri ég af henni? Þú gætir þurft að rannsaka málið aðeins betur til að fá svör við þessum spurningum en það er þess virði. Skoðum fáein dæmi.

13. Hvað getum við lært af bæn Hönnu? (1. Samúelsbók 1:10, 11) (Sjá einnig mynd.)

13 Lestu 1. Samúelsbók 1:10, 11. Hanna stóð frammi fyrir tveim stórum vandamálum þegar hún bar fram þessa bæn. Hún gat ekki eignast börn og hin eiginkona mannsins hennar gerði henni lífið leitt. (1. Sam. 1:4–7) Hvað geturðu lært af bæn Hönnu ef þú glímir við viðvarandi vandamál? Hún tók sér tíma til að létta á hjarta sínu fyrir Guði. (1. Sam. 1:12, 18) Okkur getur líka liðið betur þegar við ‚vörpum byrði okkar á Jehóva‘ og segjum honum frá öllu sem veldur okkur áhyggjum. – Sálm. 55:22.

Innfelldar myndir: 1. Hanna lítur hrygg undan meðan Elkana leikur við tvö barnanna sinna. 2. Peninna brosandi með nýfætt barn sitt í fanginu. 3. Hanna grætur þegar hún fer með innilega bæn. 4. Elí æðstiprestur situr með krosslagðar hendur og horfir stíft á Hönnu.

Hanna getur ekki eignast börn og verður stöðugt fyrir aðkasti hinnar eiginkonu mannsins síns en léttir á hjarta sínu fyrir Jehóva. (Sjá 13. grein.)


14. (a) Hvað fleira lærum við af Hönnu? (b) Hvernig getum við auðgað bænir okkar með því að hugleiða orð Biblíunnar? (Sjá neðanmáls.)

14 Hanna kom fram fyrir Elí æstaprest fáeinum árum eftir að Samúel sonur hennar fæddist. (1. Sam. 1:24–28) Í innilegri bæn tjáði hún fullvissu sína um að Jehóva verndi og annist trúa þjóna sína.c (1. Sam. 2:1, 8, 9) Eflaust þurfti hún áfram að glíma við vandamál heima fyrir en hún einbeitti sér að því hvernig Jehóva blessaði hana. Hvað lærum við? Við erum betur í stakk búin að takast á við viðvarandi erfiðleika ef við einbeitum okkur að því hvernig Jehóva hefur stutt okkur hingað til.

15. Hvað getum við lært af umkvörtun Jeremía spámanns þegar við upplifum ranglæti? (Jeremía 12:1)

15 Lestu Jeremía 12:1. Um tíma var Jeremía spámanni órótt yfir velgengni illra manna. Hann varð líka stundum niðurdreginn vegna framkomu samlanda sinna við sig. (Jer. 20:7, 8) Þegar við sjáum óheiðarlegt fólk blómstra eða þegar við verðum fyrir háði getum við skilið hvernig honum leið. Jeremía dró ekki réttlæti Guðs í efa þótt hann tjáði gremju sína. Þegar hann sá hvernig Jehóva agaði uppreisnargjarna þjóð sína hefur traust hans á réttlæti hans vaxið. (Jer. 32:19) Við getum líka tjáð Jehóva í bæn hversu mikið óréttlætið særir okkur og við treystum því að hann leiðrétti allt slíkt á sínum tíma.

16. Hvað getum við lært af bæn Levíta í útlegð ef aðstæður setja okkur skorður? (Sálmur 42:1–4) (Sjá einnig myndir.)

16 Lestu Sálm 42:1–4. Þetta ljóð var ort af Levíta í útlegð sem gat ekki verið í samskiptum við trúsystkini sín. Sálmurinn endurspeglar tilfinningar hans. Við tengjum kannski við reynslu hans ef við erum bundin heima eða sitjum í fangelsi vegna trúar okkar. Tilfinningar okkar sveiflast kannski upp og niður en það gerir okkur gott að tala um þær við Jehóva. Það getur hjálpað okkur að sjá aðstæður okkar í skýrara ljósi. Levítinn áttaði sig til dæmis á því að hann átti eftir að fá ný tækifæri til að lofa Jehóva. (Sálm. 42:5) Hann hugleiddi einnig hvernig Jehóva annaðist hann. (Sálm. 42:8) Innilegar bænir geta hjálpað okkur að átta okkur á tilfinningum okkar, endurheimta jafnvægi og finna styrk til að halda út.

Myndir: 1. Levíti biður innilega í óbyggðunum. 2. Bróðir situr uppréttur í rúmi sínu á spítala og biður með opna biblíu í kjöltunni.

Levítinn sem orti Sálm 42 úthellir hjarta sínu fyrir Guði. Þegar við tjáum tilfinningar okkar í bæn getur það hjálpað okkur að sjá aðstæður okkar í skýrara ljósi. (Sjá 16. grein.)


17. (a) Hvað getum við lært af bæn Jónasar? (Jónas 2:1, 2) (b) Hvernig getur orðfæri sálmanna hjálpað okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum? (Sjá neðanmáls.)

17 Lestu Jónas 2:1, 2. Spámaðurinn Jónas bað til Jehóva þegar hann var í kviði stórfisks. Þótt hann hefði óhlýðnast Jehóva var hann sannfærður um að hann heyrði í honum. Í bæn sinni notaði Jónas orðfæri sem er að finna víða í sálmunum.d Hann hlýtur að hafa þekkt þá vel. Þegar hann rifjaði þá upp sannfærðist hann um að Jehóva myndi hjálpa sér. Eins getum við lagt biblíuvers á minnið og kallað þau fram í hugann þannig að þau hughreysti okkur þegar við biðjum til Jehóva á erfiðum stundum.

HALTU ÁFRAM AÐ NÁLGAST JEHÓVA Í BÆN

18, 19. Hvað erum við fullvissuð um í Rómverjabréfinu 8:26, 27 ef við eigum stundum erfitt með að orða tilfinningar okkar í bæn? Nefndu dæmi.

18 Lestu Rómverjabréfið 8:26, 27. Áhyggjur okkar geta orðið svo yfirþyrmandi að við komum ekki orðum að tilfinningum okkar. En við erum ekki án hjálpar. Á slíkum stundum ‚biður heilagur andi fyrir okkar hönd‘. Hvernig þá? Jehóva hefur séð til þess fyrir milligöngu anda síns að margar bænir eru varðveittar í orði hans. Þegar við getum ekki komið orðum að hugsunum okkar tekur Jehóva orðalag þessara bæna sem beiðnir af okkar hálfu og hann getur svarað þeim.

19 Það var þessi tilhugsun sem hjálpaði rússneskri systur sem heitir Elena. Hún var handtekin fyrir að biðja til Guðs og lesa í Biblíunni. Hún var í svo miklu uppnámi að hún átti erfitt með að biðja. Hún segir svo frá: „Þá minntist ég þess að þegar eitthvað er yfirþyrmandi og ég veit ekki hvað ég á að biðja um tekur Jehóva við innblásnum bænum þjóna sinna frá fyrri tíð … rétt eins og það væru mínar bænir … Þetta reyndist mér mikil huggun á gríðarlega erfiðum tíma.“

20. Hvað getur auðveldað þér að biðja þegar þú ert undir miklu álagi?

20 Það getur verið erfitt að einbeita sér í bæn þegar við erum undir miklu álagi. Þeir sem skilja önnur tungumál geta hlustað á hljóðupptökur af Sálmunum. Við getum úthellt tilfinningum okkar með því að koma þeim á blað, rétt eins og Davíð konungur gerði. (Sálm. 18; 34; 142, yfirskriftir.) Að sjálfsögðu eru engar fastar reglur um það hvernig við getum undirbúið bænir okkar. (Sálm. 141:2) Gerðu það sem reynist þér best.

21. Hvers vegna getum við beðið af öllu hjarta?

21 Það yljar okkur um hjartarætur að Jehóva skuli skilja tilfinningar okkar jafnvel áður en við tjáum þær. (Sálm. 139:4) En það gleður hann að við segjum honum hvernig okkur líður og að við treystum honum. Hikaðu því ekki við að biðja til föður þíns á himnum. Láttu orðfæri í Biblíunni vera þér innblástur. Biddu af öllu hjarta. Segðu honum bæði frá gleði þinni og sorg. Jehóva er sannur vinur þinn og verður alltaf til staðar fyrir þig.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað getur hjálpað þér að opna þig fyrir Jehóva í bæn?

  • Hvernig geturðu gert bænir þínar innihaldsríkari?

  • Hvaða gagn hefurðu af því að hugleiða sumar innilegar bænir sem greint er frá í Biblíunni?

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

a Skoðaðu viðfangsefnið „Nokkrir af frábærum eiginleikum Jehóva“ í Biblíuleiðarvísi fyrir daglegt líf undir fyrirsögninni „Jehóva“.

b Bænir sem eru bornar fram opinberlega í söfnuðinum eru venjulega í styttra lagi.

c Í bænum sínum notaði Hanna svipað orðalag og er að finna í skrifum Móse. Hún tók sér augljóslega tíma til að hugleiða Ritningarnar. (5. Mós. 4:35; 8:18; 32:4, 39; 1. Sam. 2:2, 6, 7) Öldum síðar notaði María móðir Jesú orð og orðalag svipað því sem Hanna notaði. – Lúk. 1:46–55.

d Berðu saman Jónas 2:3–9 og Sálm 69:1; 16:10; 30:3; 142:2, 3; 143:4, 5; 18:6; 3:8, í þeirri röð sem versin koma fyrir í bæn Jónasar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila