Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 október bls. 24-29
  • Munum að biðja fyrir öðrum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Munum að biðja fyrir öðrum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ BIÐJA FYRIR ÖÐRUM?
  • ÞAU ÞARFNAST BÆNA OKKAR
  • ÞEGAR VIÐ BIÐJUM FYRIR EINSTAKLINGUM
  • RAUNSÆTT VIÐHORF TIL BÆNA
  • Bænin hjálpar þér að nálgast Guð
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • Hvernig geturðu beðið til Jehóva frá hjartanu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Styrktu tengslin við Guð með bæninni
    Hvað kennir Biblían?
  • Hvernig nálgast má Guð í bæn
    Hvers krefst Guð af okkur?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 október bls. 24-29

NÁMSGREIN 43

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

Munum að biðja fyrir öðrum

„Biðjið hvert fyrir öðru … Innileg bæn réttláts manns er mjög áhrifarík.“ – JAK. 5:16.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvers vegna það er mikilvægt að biðja fyrir öðrum og fáum tillögur um hvernig við getum gert það.

1. Hvernig vitum við að bænir okkar eru mikilvægar í augum Jehóva?

BÆNIN er einstaklega dýrmæt gjöf. Hugleiddu málið: Jehóva hefur treyst englum fyrir ákveðnum verkefnum. (Sálm. 91:11) Hann hefur líka falið syni sínum gríðarlega mikilvæg verkefni. (Matt. 28:18) En hvað með að hlusta á bænir? Jehóva hefur kosið að sjá um það sjálfur. Hann er sá „sem heyrir bænir“ og hlustar sjálfur á okkur. – Sálm. 65:2.

2. Hvað getum við lært af Páli postula í sambandi við það að biðja fyrir öðrum?

2 Við getum óhikað sagt Jehóva frá áhyggjum okkar en við ættum líka að biðja fyrir öðrum. Það gerði Páll postuli. Hann skrifaði til dæmis Efesusmönnum: „Ég nefni ykkur stöðugt í bænum mínum.“ (Ef. 1:16) Hann bað líka fyrir einstaklingum. Hann sagði Tímóteusi til að mynda: „Ég er þakklátur Guði … og minnist þín alltaf í innilegum bænum mínum dag og nótt.“ (2. Tím. 1:3) Páll gekk sjálfur í gegnum raunir sem voru bænarefni hans. (2. Kor. 11:23; 12:7, 8) Engu að síður tók hann sér tíma til að biðja fyrir öðrum.

3. Hvers vegna gætum við gleymt að biðja fyrir öðrum?

3 Stundum gætum við gleymt að biðja fyrir öðrum. Sabrinaa er systir sem bendir á eina ástæðu. Hún segir: „Það er svo mikið álag á okkur öllum. Við getum orðið svo upptekin af eigin vandamálum að bænirnar snúast aðeins um okkur sjálf.“ Kannast þú við þetta? Ef svo er getur þessi námsgrein hjálpað þér. Hún (1) útskýrir hvers vegna er mikilvægt að biðja fyrir öðrum og (2) kemur með tillögur um hvernig er hægt að fara að.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ BIÐJA FYRIR ÖÐRUM?

4, 5. Hvernig geta bænir okkar fyrir öðrum verið ‚mjög áhrifaríkar‘? (Jakobsbréfið 5:16)

4 Bænir fyrir öðrum eru ‚mjög áhrifaríkar‘. (Lestu Jakobsbréfið 5:16.) Geta bænir fyrir öðrum í raun og veru haft áhrif? Já, svo sannarlega. Jesús vissi að Pétur postuli var í þann mund að afneita honum. En hann sagði: „Ég hef beðið ákaft fyrir þér að trú þín bregðist ekki.“ (Lúk. 22:32) Páll vissi líka að bænin getur haft áhrif á gang mála. Þegar hann var fangelsaður á röngum forsendum skrifaði hann Fílemoni: „Ég vonast til að bænir ykkar verði til þess að ég geti heimsótt ykkur.“ (Fílem. 22, sjá skýringu við „for I am hoping that through your prayers“ í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) Og sú varð raunin því Páll fékk fljótlega frelsi og gat haldið áfram í boðuninni.

5 Þetta merkir að sjálfsögðu ekki að við getum beitt Jehóva þrýstingi til að svara bænum okkar. Hann tekur eftir hvað þjónum hans er efst í huga og kýs stundum að bregðast við beiðni þeirra. Þessi vitneskja hjálpar okkur að vera einlæg þegar við leggjum mál fyrir hann og treystum honum síðan fyrir því. – Sálm. 37:5, sjá 2. Korintubréf 1:11 og skýringu í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.

6. Hvaða áhrif hefur það á tilfinningar okkar til annarra að biðja fyrir þeim? (1. Pétursbréf 3:8)

6 Þegar við biðjum fyrir öðrum auðveldar það okkur að sýna þeim „innilega umhyggju“. (Lestu 1. Pétursbréf 3:8.) Að sýna umhyggju er að vera meðvitaður um þjáningar annarra og langa til að lina þær. (Mark. 1:40, 41) Öldungur sem heitir Michael segir: „Þegar ég bið fyrir öðrum varðandi þarfir þeirra er ég meðvitaðri um það sem þeir eru að glíma við og mér þykir vænna um þá. Mér finnst ég nánari þeim þótt þeir viti ekki af því.“ Öldungur að nafni Richard nefnir annað gott sem fylgir því að biðja fyrir öðrum. Hann segir: „Þegar við biðjum fyrir einhverjum langar okkur frekar til að gera eitthvað til að hjálpa honum.“ Hann bætir við: „Þegar við hjálpum einhverjum sem við biðjum fyrir erum við á vissan hátt að stuðla að því að bæninni sé svarað.“

7. Hvernig getur það að biðja fyrir öðrum hjálpað okkur að hugsa ekki bara um eigin vandamál? (Filippíbréfið 2:3, 4) (Sjá einnig myndir.)

7 Þegar við biðjum fyrir öðrum eigum við auðveldara með að sjá eigin vandamál í réttu ljósi. (Lestu Filippíbréfið 2:3, 4.) Við þurfum öll að sætta okkur við einhverja erfiðleika þar sem við lifum í heimi undir stjórn Djöfulsins. (1. Jóh. 5:19; Opinb. 12:12) Þegar við gerum það að venju að biðja fyrir öðrum hjálpar það okkur að muna að „trúsystkini [okkar] um allan heim verða fyrir sömu þjáningum“. (1. Pét. 5:9) Katherine sem er brautryðjandi segir: „Þegar ég bið fyrir öðrum minnir það mig á að þeir hafa líka sín vandamál. Það kemur í veg fyrir að ég verði of upptekin af sjálfri mér.“

Innfelldar myndir: Bræður og systur sem glíma sjálf við vandamál biðja fyrir öðrum. 1. Ung stelpa situr upprétt í rúminu sínu og biður; innfelld mynd af fjölskyldu sem er að flýja á báti eftir að hafa misst heimili sitt í flóði. 2. Fjölskyldan á fyrri myndinni biður saman; innfelld mynd sýnir bróður í fangelsi. 3. Fangelsaði bróðirinn á fyrri myndinni biður í fangaklefa; innfelld mynd af ellihrumri systur sem liggur á spítala. 4. Systirin á fyrri myndinni biður; innfelld mynd sýnir ungu stelpuna á fyrstu myndinni sitja eina í skólastofu meðan hin börnin halda upp á afmæli.

Þegar við biðjum fyrir öðrum eigum við auðveldara með að sjá eigin vandamál í réttu ljósi. (Sjá 7. grein.)d


ÞAU ÞARFNAST BÆNA OKKAR

8. Fyrir hverjum getum við beðið?

8 Hverjum getum við beðið fyrir? Við getum beðið fyrir ákveðnum hópum fólks eins og til dæmis þeim sem glíma við heilsubrest, ungu fólki sem verður fyrir háði og hópþrýstingi í skólanum og þeim sem kljást við vandamál ellinnar. Mörg trúsystkina okkar þurfa að þola andstöðu frá ættingjum eða yfirvöldum. (Matt. 10:18, 36; Post. 12:5) Sum þeirra hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna pólitísks óróa. Önnur eru fórnarlömb náttúruhamfara. Það er ekki víst að við þekkjum þau persónulega. En þegar við biðjum fyrir þeim fylgjum við fyrirmælum Jesú um að ‚elska hvert annað‘. – Jóh. 13:34.

9. Hvers vegna ættum við að biðja fyrir þeim sem fara með forystuna í söfnuði Jehóva og eiginkonum þeirra?

9 Við getum líka beðið fyrir þeim sem fara með forystuna í söfnuði Jehóva. Þá erum við meðal annars að hugsa um hið stjórnandi ráð og aðstoðarmenn þeirra, þá sem sitja í deildarnefndum, aðra sem gegna ábyrgðarstörfum á deildarskrifstofunum, farandhirða, safnaðaröldunga og safnaðarþjóna. Margir þessara bræðra eiga við eigin vandamál að stríða en eru samt að nota krafta sína í okkar þágu. (2. Kor. 12:15) Farandhirðir sem heitir Mark segir: „Það sem mér finnst einna erfiðast er að vera langt frá öldruðum foreldrum mínum. Þau eru bæði heilsutæp. Það hryggir mig að geta ekki gert meira fyrir þau sjálfur þótt systir mín og mágur hugsi vel um þau.“ Hvort sem við vitum hvað veldur þessum duglegu bræðrum hugarangri eða ekki er gott að muna eftir þeim í bænum okkar. (1. Þess. 5:12, 13) Við getum líka beðið fyrir eiginkonum þeirra þar sem dyggur stuðningur þeirra hjálpar þeim að halda áfram að sinna starfi sínu.

10, 11. Er Jehóva ánægður með bænir þar sem við biðjum almennt fyrir bræðrum og systrum okkar? Skýrðu svarið.

10 Eins og þegar hefur komið fram biðjum við oft fyrir ákveðnum hópum bræðra og systra. Við gætum til dæmis beðið Jehóva um að hjálpa þeim sem eru í fangelsi eða hugga þá sem hafa misst ástvin án þess að hafa ákveðinn einstakling í huga. Öldungur að nafni Donald segir: „Það eru svo margir bræður og systur sem ganga í gegnum erfiðleika að við notum eins konar ‚regnhlífarbænir‘ sem innifela alla þá sem þjást.“

11 Kann Jehóva að meta slíkar bænir? Að sjálfsögðu! Þegar allt kemur til alls er okkur ekki kunnugt um allar þarfir trúsystkina okkar. Það er því viðeigandi að bera fram almennar beiðnir fyrir hópum bræðra okkar og systra. (Jóh. 17:20; Ef. 6:18) Þessar bænir sýna að við ‚elskum allt bræðralagið‘. – 1. Pét. 2:17.

ÞEGAR VIÐ BIÐJUM FYRIR EINSTAKLINGUM

12. Hvernig getur það að vera eftirtektarsöm hjálpað okkur að vera markviss í bænum okkar?

12 Verum eftirtektarsöm. Auk þess að biðja fyrir hópum bræðra og systra er vel við hæfi að biðja fyrir einstaklingum með nafni. Er einhver í söfnuðinum þínum að berjast við langvarandi veikindi? Er einhver af unglingunum niðurdreginn, ef til vill vegna hópþrýstings í skólanum? Á einstætt foreldri í vanda við að ‚aga barn sitt og leiðbeina því eins og Jehóva vill‘. (Ef. 6:4) Þú styrkir samkenndina ef þú ert eftirtektarsamur og það getur kveikt löngun hjá þér til að biðja fyrir trúsystkinum þínum.b – Rómv. 12:15.

13. Hvernig getum við beðið fyrir þeim sem við þekkjum ekki persónulega?

13 Biðjum fyrir öðrum með nafni. Við getum beðið fyrir þeim sem við höfum aldrei hitt. Hugsum til dæmis um bræður og systur á Krímskaga, í Erítreu, Rússlandi og Singapúr. Þú getur fundið nöfn þeirra sem sitja í fangelsi á jw.org.c Farandhirðir sem heitir Brian segir: „Þegar ég skrifa niður nafn trúsystkinis sem situr í fangelsi og segi það síðan upphátt hjálpar það mér að muna eftir því og nefna það í bænum mínum.“

14, 15. Hvernig getum við verið markviss í bænum okkar?

14 Verum markviss í bænum okkar. Michael, sem minnst var á áður kemur með þessa tillögu: „Þegar ég les frásögu á jw.org um bræður og systur í fangelsi reyni ég að setja mig í þeirra spor. Ég myndi hafa áhyggjur af konunni minni og vilja tryggja að hún fengi nauðsynlega aðstoð. Þannig veit ég hvað ég get nefnt þegar ég bið fyrir kvæntum bræðrum í fangelsi.“ – Hebr. 13:3, neðanmáls.

15 Við getum fundið fleiri leiðir til að vera markviss í bænum okkar þegar við gerum okkur í hugarlund hvernig daglegt líf trúsystkina okkar er. Við getum til dæmis beðið um að fangaverðir séu velviljaðir trúsystkinum okkar og að yfirvöld leyfi þeim að tilbiðja Guð. (1. Tím. 2:1, 2) Við getum beðið þess að söfnuðurinn á svæðinu fái uppörvun vegna fordæmis þessara trúföstu bræðra og systra eða að fólk utan safnaðarins taki eftir góðri breytni þeirra og gefi boðskapnum gaum. (1. Pét. 2:12) Hið sama á við þegar við biðjum fyrir bræðrum og systrum sem ganga í gegnum annars konar raunir. Við getum sýnt að hjörtu okkar eru full kærleika hvert til annars með því að vera eftirtektarsöm, biðja fyrir öðrum með nafni og vera markviss í bænum okkar. – 1. Þess. 3:12.

RAUNSÆTT VIÐHORF TIL BÆNA

16. Hvernig getum við haft raunsætt viðhorf til bæna? (Matteus 6:8)

16 Eins og fram hefur komið geta bænir okkar haft áhrif á hvernig málin fara. Við þurfum samt að vera raunsæ. Í bænum okkar erum við ekki að upplýsa Jehóva um eitthvað sem hann veit ekki þegar. Við ættum ekki heldur að leiðbeina honum hvernig hann ætti að taka á málum. Jehóva veit hvers þjónar hans þarfnast, jafnvel áður en þeir vita það sjálfir. (Lestu Matteus 6:8.) En hvers vegna erum við þá að biðja fyrir öðrum? Auk þess sem þegar hefur verið nefnt er þetta einfaldlega það sem umhyggjusamt fólk gerir. Kærleikurinn knýr okkur til að biðja hvert fyrir öðru. Og það gleður Jehóva að sjá þjóna sína endurspegla kærleika sinn.

17, 18. Lýstu bænum okkar fyrir trúsystkinum með dæmi.

17 Jafnvel þótt bænir okkar virðist ekki hafa áhrif endurspegla þær kærleika okkar til bræðra og systra og þær fara ekki fram hjá Jehóva. Tökum dæmi: Ímyndum okkur fjölskyldu með tvö lítil börn, strák og stelpu. Strákurinn liggur veikur í rúminu. Stelpan grátbiður pabba sinn: „Gerðu eitthvað fyrir bróður minn. Hann er svo veikur!“ Pabbinn hefur þegar gert nauðsynlegar ráðstafanir. Hann elskar son sinn og annast hann vel. En það gleður hann að dóttur hans er svo annt um bróður sinn að hún grátbiður hann um að hjálpa honum.

18 Jehóva hvetur okkur til að gera einmitt þetta – láta okkur annt hvert um annað og biðja hvert fyrir öðru. Þegar við gerum það sýna bænir okkar hversu óeigingjörn umhyggja okkar fyrir öðrum er og Jehóva tekur eftir því. (2. Þess. 1:3; Hebr. 6:10) Við höfum líka séð að í sumum tilfellum hafa bænir okkar breytt gangi mála. Við skulum því fyrir alla muni halda áfram að biðja hvert fyrir öðru.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Á hvaða hátt geta bænir okkar verið áhrifaríkar?

  • Hvers vegna ættum við að biðja fyrir ákveðnum hópum bræðra og systra?

  • Hvernig getum við gert bænir okkar í þágu einstaklinga markvissari?

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b Horfðu á myndbandið Takeshi Shimizu: Jehóva „heyrir bænir“ á jw.org.

c Til að finna lista yfir trúsystkini sem sitja í fangelsi geturðu farið á jw.org og fundið greinina „Jehovah’s Witnesses Imprisoned for Their Faith – By Location.“

d MYNDIR: Bræður og systur sem glíma við eigin vandamál biðja fyrir öðrum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila