HALTU VÖKU ÞINNI
Hvað merkir það að vera kristinn? – Hvað segir Biblían?
Margir eru stoltir að kalla sig kristna en oft vantar mikið upp á að þeir sýni það í verki. Sumir eru eigingjarnir, óheiðarlegir eða koma illa fram við aðra. Aðrir halda fram hjá maka sínum. Hegðun þeirra vekur þá spurningu hvað það merki eiginlega að vera kristinn.
Hvað merkir það eiginlega að vera kristinn?
Það er ósköp auðvelt að segjast vera kristinn. En það eitt sér nægir ekki. Að vera kristinn er samkvæmt Biblíunni að vera lærisveinn Jesú Krists. (Postulasagan 11:26) Jesús sagði: „Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir.“ (Jóhannes 8:31) Auðvitað getur enginn fylgt orðum Jesú fullkomlega. Kristinn maður reynir hins vegar að fara eftir því sem Jesús kenndi og endurspegla dag hvern þau gildi sem hann boðaði. Lítum á fáein dæmi.
Kristnir menn sýna óeigingjarnan kærleika
Hvað sagði Jesús? „Ég gef ykkur nýtt boðorð, að þið elskið hver annan. Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur. Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ – Jóhannes 13:34, 35.
Hvað gerði Jesús? Jesús sýndi öllum óeigingjarnan kærleika, óháð þjóðfélagsstöðu og uppruna. Hann læknaði þá sem voru veikir, sá hungruðum fyrir mat og fórnaði jafnvel lífi sínu fyrir aðra. – Matteus 14:14–21; 20:28.
Hvað gera kristnir menn? Kristnir menn sýna óeigingjarnan kærleika með því að vera örlátir, fúsir til að fyrirgefa og gera ekki upp á milli fólks. Þeir hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi og færa fórnir í þágu annarra. – 1. Jóhannesarbréf 3:16.
Kristnir menn eru heiðarlegir
Hvað sagði Jesús? „Ég er … sannleikurinn.“ – Jóhannes 14:6.
Hvað gerði Jesús? Jesús var alltaf heiðarlegur. Hann beitti aldrei brögðum til að ná sínu fram og var aldrei villandi í tali. Fólk vissi að hann var sannsögull jafnvel þótt sumir tækju það illa upp. – Matteus 22:16; 26:63–67.
Hvað gera kristnir menn? Kristnir menn ljúga ekki. Þeir greiða skattana sína, þeir stela ekki og þeir skila vinnuveitendum sínum heiðarlegu dagsverki. (Rómverjabréfið 13:5–7; Efesusbréfið 4:28) Þeir reyna ekki að hafa peninga af öðrum, svindla ekki á prófum og gefa ekki rangar upplýsingar í ferilskrám eða þess háttar plöggum. – Hebreabréfið 13:18.
Kristnir menn koma vel fram við aðra
Hvað sagði Jesús? „Komið til mín, þið öll sem stritið og berið þungar byrðar, og ég skal endurnæra ykkur. Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta, og þá endurnærist þið. Ok mitt er þægilegt og byrði mín létt.“ – Matteus 11:28–30.
Hvað gerði Jesús? Jesús var hlýlegur og þægilegur í viðmóti. Hann tók börnum vel, hughreysti bágstadda og sýndi fólki virðingu. – Markús 10:13–15; Lúkas 9:11.
Hvað gera kristnir menn? Kristnir menn eru vingjarnlegir í tali. Þeir eru hvorki ruddalegir né dónalegir. (Efesusbréfið 4:29, 31, 32) Þeir sýna öðrum áhuga og eru hjálpfúsir. – Galatabréfið 6:10.
Kristnir menn eru trúir maka sínum
Hvað sagði Jesús? „Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“ – Markús 10:9.
Hvað gerði Jesús? Jesús giftist aldrei sjálfur en hvatti hjón til að vera hvort öðru trú. (Matteus 19:9) Hann varaði við hegðun sem gæti valdið hjónaskilnaði. – Matteus 5:28.
Hvað gera kristnir menn? Kristnir menn forðast allt sem vanvirðir makann. (Hebreabréfið 13:4) Hjón sýna hvort öðru ást og virðingu. – Efesusbréfið 5:28, 33.