Álitinn vera presturinn
Osman var ásamt konu sinni og dóttur með ritatrillu fyrir utan kirkjugarð í Síle. Skyndilega kom mikil líkfylgd og leikin var hávær tónlist. Sumir í líkfylgdinni héldu að Osman væri evangelíski presturinn þeirra og kysstu hann og sögðu: „Þakka þér fyrir að koma svona snemma, við áttum von á þér.“
Þó að Osman hafi reynt að leiðrétta misskilninginn heyrði fólkið ekki hvað hann var að segja í hávaðanum. Nokkrum mínútum eftir að fólkið hafði farið inn í kirkjugarðinn komu sumir til baka til hans og sögðu við hann: „Við erum að bíða eftir þér í kirkjugarðinum, prestur.“
Osman gat nú útskýrt hver hann væri og hvað hann væri að gera, þar sem ekki var lengur hávaði í kringum þau. Eftir að hafa lýst yfir vanþóknun yfir því að presturinn skyldi ekki koma sögðu þau við Osman: „Myndir þú vilja koma og segja fólkinu nokkur orð úr Biblíunni?“ Osman samþykkti það.
Á leiðinni að gröfinni spurði Osman spurninga um hinn látna og hugleiddi hvaða ritningarstaði hann gæti notað. Þegar hann kom að gröfinni kynnti hann sig og sagðist vera vottur Jehóva og að hann boðaði fólki góðar fréttir.
Síðan vitnaði hann í Opinberunarbókina 21:3, 4 og Jóhannes 5:28, 29. Hann útskýrði að það hafi ekki verið tilgangur Guðs að menn skyldu deyja. Í rauninni myndi Guð brátt reisa upp hina dánu og þeir ættu kost á að lifa að eilífu á jörðinni. Þegar Osman hafði lokið máli sínu komu margir til hans og föðmuðu hann hlýlega og þökkuðu honum fyrir „boðskap Jehóva og góðar fréttir.“ Hann sneri síðan aftur til ritatrillunnar.
Að útförinni lokinni komu sumir syrgjendanna að ritatrillunni og spurðu Osman og fjölskyldu hans spurninga varðandi Biblíuna. Langar samræður fylgdu í kjölfarið og þeir fóru með næstum öll ritin sem voru í trillunni.