-
Hætta sem varðar alla foreldraVaknið! – 2007 | október
-
-
Hætta sem varðar alla foreldra
GUÐRÚN og Gunnar eru hress og hamingjusöm hjón og eiga skýran og heilbrigðan þriggja ára son.a Þau hugsa vel um drenginn. En það er hægara sagt en gert í heimi nútímans, og því fylgja alls konar áhyggjur og skyldur. Það þarf að kenna börnunum svo margt. Eitt er þó sérstaklega mikilvægt í huga þeirra Guðrúnar og Gunnars. Þau vilja vernda drenginn fyrir kynferðislegri misnotkun. Af hverju er þetta þeim svona ofarlega í huga?
„Pabbi var kuldalegur og reiður drykkjumaður,“ segir Guðrún. „Hann barði mig hrottalega og misnotaði okkur systurnar kynferðislega.“b Flestir eru á einu máli um að slíkt ofbeldi geti haft gríðarleg áhrif á tilfinningalíf barna. Það er engin furða að Guðrún skuli vera staðráðin í að vernda son sinn. Og Gunnar er sama sinnis.
Margir foreldrar hafa áhyggjur af kynferðislegri misnotkun á börnum. Ef til vill ert þú í þeirra hópi. Þú hefur kannski ekki kynnst slíku af eigin raun og þekkir ekki afleiðingar þess, líkt og þau Gunnar og Guðrún, en vafalítið hefurðu heyrt uggvænlegar fréttir af því hve útbreitt þetta óhugnanlega ofbeldi er. Umhyggjusamir foreldrar út um allan heim eru slegnir yfir því sem börn mega þola á heimaslóðum þeirra.
Sérfræðingur, sem hefur rannsakað kynferðislega misnotkun, kallar misnotkun á börnum „einhverja dapurlegustu uppgötvun okkar tíma“. Það er auðvitað sorglegt að annað eins skuli eiga sér stað en ætti það að koma á óvart? Þeir sem hafa kynnt sér Biblíuna vita að hún segir að við séum uppi á erfiðu tímabili sem kallað er ‚síðustu dagar‘ og þetta tímabil einkennist meðal annars af því að fólk er ‚grimmt, sérgott og kærleikslaust‘. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Kynferðislegt ofbeldi og misnotkun er háalvarlegt mál. Það er ekki nema eðlilegt að foreldrum fallist hendur þegar þeim verður hugsað til mannvonsku þeirra sem leita uppi börn til að níðast á með þessum hætti. En er vandinn slíkur að hann sé foreldrum ofviða? Eða geta foreldrar gert raunhæfar ráðstafanir til að vernda börnin sín? Við lítum nánar á málið í næstu greinum.
a Nöfnum hefur verið breytt í þessari greinasyrpu.
b Það telst kynferðisleg misnotkun á barni ef fullorðin manneskja notar það með einhverjum hætti til að fullnægja kynferðislegum löngunum sínum. Það getur oft falist í því að þukla á kynfærum eða þá í munnmökum, endaþarmsmökum eða öðru samræði. Kynferðisleg misnotkun getur einnig birst í því að þukla á brjóstum, koma með siðlausar uppástungur og sýna barni klámfengið efni, eða þá í gægjuhneigð og strípihneigð.
-
-
Að vernda börninVaknið! – 2007 | október
-
-
Að vernda börnin
FÆSTA langar til að hugsa um kynferðislega misnotkun á börnum. Foreldrum hrýs hugur við því að þess háttar skuli geta átt sér stað. Þetta er engu að síður uggvekjandi og óhugnanlegur veruleiki í heimi nútímans, og það getur haft hrikalegar afleiðingar fyrir börnin. Er ástæða til að velta þessu fyrir sér? Lítum nánar á málið. Hvað ertu fús til að leggja á þig til að tryggja öryggi barnanna þinna? Það ætti varla að vera nokkru foreldri ofraun að kynna sér þetta mál í þeim tilgangi að vernda börnin. Staðgóð vitneskja getur skipt sköpum.
Misstu ekki kjarkinn þó að kynferðisleg misnotkun á börnum sé vissulega afar útbreidd. Þú býrð að minnsta kosti yfir þekkingu, reynslu og visku sem tekur barnið mörg ár eða jafnvel áratugi að afla sér. Í því er fólginn styrkur sem þú hefur en barnið ekki. Þú þarft að virkja þennan styrk og nota hann til að vernda barnið þitt. Við ætlum að líta á þrjú grundvallaratriði sem allir foreldrar ættu að hugsa um. Þau eru þessi: (1) Vertu mikilvægasta vörn barnsins gegn kynferðislegri misnotkun, (2) fræddu barnið og (3) kenndu því að verja sig.
Ertu mikilvægasta vörn barnsins?
Að vernda börnin gegn kynferðislegri misnotkun er fyrst og fremst hlutverk foreldranna en ekki barnanna sjálfra. Þið þurfið því að fræðast sjálf um kynferðislega misnotkun áður en þið byrjið að fræða börnin. Þið þurfið að kunna skil á vissum atriðum varðandi þetta mál. Þið þurfið til dæmis að vita hverjir það eru sem misnota börn og hvernig þeir bera sig að. Foreldrar ímynda sér oft að barnaníðingurinn sé ókunnugur maður sem liggi í leynum og reyni að ræna börnum til að nauðga þeim. Slíkir níðingar eru vissulega til og stundum er vakin athygli á þeim í fréttum fjölmiðla. Svona menn eru þó tiltölulega sjaldgæfir. Hér um bil 90 prósent barnaníðinga eru menn sem barnið þekkir og treystir.
Við viljum auðvitað síst af öllu trúa að viðfelldinn nágranni, kennari, heilbrigðisstarfsmaður, þjálfari eða ættingi beri girndarhug til barna okkar. Og sannleikurinn er sá að fæstir eru þannig. Það er engin ástæða til að tortryggja alla í kringum sig. Engu að síður er mikilvægt að kynna sér hvaða aðferðum dæmigerður barnaníðingur beitir því að það er ein leið til að vernda börnin. — Sjá bls. 6.
Ef þú, foreldrið, þekkir aðferðir barnaníðingsins ertu betur í stakk búinn til að vernda börnin. Hvað gerirðu til dæmis ef einhver sem virðist hafa meiri áhuga á börnum en fullorðnum sýnir barni þínu sérstakan áhuga og gefur því gjafir, eða býðst til að gæta barnsins endurgjaldslaust eða býður því í stuttar skemmtiferðir? Ætti fyrsta hugsunin þá að vera sú að hann hljóti að vera barnaníðingur? Nei. Gættu þess að draga ekki slíka ályktun í fljótfærni. Hegðun viðkomandi getur verið fullkomlega eðlileg. Hins vegar gæti hún verið merki um að þú ættir að hafa augun opin. „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 14:15.
Ef boðið er upp á eitthvað sem hljómar lygilega vel má vera að það sé maðkur í mysunni. Hafðu auga með hverjum þeim sem býðst til að vera einn með barninu þínu. Láttu hann vita að það sé líklegt að þú vitjir um barnið af og til. Anna og Jón eiga þrjá unga drengi. Þau fara varlega í að skilja barn eftir hjá einhverjum fullorðnum. Þegar einn af drengjunum fékk tónlistarkennslu heima fyrir sagði Anna við kennarann: „Ég verð á ferðinni inn og út úr herberginu meðan þú ert hérna.“ Sumum gæti þótt þetta nokkuð langt gengið en þessir foreldrar vilja einfaldlega hafa vaðið fyrir neðan sig.
Taktu virkan þátt í tómstundaiðkunum og skólanámi barnsins. Sýndu vakandi áhuga á félögum þess. Ef ráðgert er að barnið fari í stutta ferð með vinum eða á vegum skólans skaltu kynna þér vel hvert verður farið og hvað á að gera. Ráðgefandi sérfræðingur, sem hefur starfað í 33 ár að málum sem tengjast kynferðisafbrotum, segist hafa séð ótal dæmi þar sem foreldrar hefðu getað komið í veg fyrir slíkt með því að vera hreinlega árvakrir og aðgætnir. Hann hefur eftir dæmdum barnaníðingi: „Foreldrar afhenda okkur hreinlega börnin. . . . Þeir gerðu þetta sáraeinfalt fyrir mig.“ Mundu að flestir barnaníðingar velja sér börn sem þeir telja auðvelda bráð. Foreldrar gera börnin að „erfiðri bráð“ með því að taka virkan þátt í öllu sem þau taka sér fyrir hendur.
Annað sem þú getur gert til að vera mikilvægasta vörn barnsins er að hlusta á það. Börn segja sjaldan berum orðum frá því ef þau hafa verið misnotuð kynferðislega; þau skammast sín meira en svo og kvíða viðbrögðunum. Hlustaðu því vel, jafnvel eftir óljósum vísbendingum.a Ef barnið segir eitthvað sem veldur þér áhyggjum skaltu halda stillingu þinni og hvetja það með spurningum til að segja það sem því liggur á hjarta. Ef það segist ekki vilja fá ákveðna barnapíu aftur skaltu spyrja af hverju. Ef það segir að hinn fullorðni fari í skrýtna leiki við það skaltu spyrja: „Hvers konar leiki? Hvað gerir hann?“ Ef barnið kvartar undan að einhver hafi kitlað það skaltu spyrja: „Hvar kitlaði hann þig?“ Gerðu ekki lítið úr svörum barnsins. Barnaníðingur segir barni að enginn muni trúa því og það er allt of algengt að það gerist. Og ef barnið hefur verið misnotað kynferðislega á það mun auðveldara með að ná sér aftur ef foreldrarnir trúa því og styðja það.
Vertu mikilvægasta vörn barnsins
Fræddu barnið
Í heimildarriti um kynferðislega misnotkun á börnum er haft eftir dæmdum barnaníðingi: „Ef ég kemst í tæri við krakka sem veit ekkert um kynferðismál eru líkur á að ég sé kominn með næsta fórnarlamb.“ Þessi hrollvekjandi orð eru þörf áminning til foreldra. Barnaníðingar eiga mun auðveldara með að blekkja börn sem vita ekkert um kynferðismál. Í Biblíunni segir að þekking og viska geti frelsað okkur „frá þeim mönnum, sem fara með fals“. (Orðskviðirnir 2:10-12) Er það ekki þess konar vernd sem þú vilt veita börnunum? Þá skaltu stíga næsta skref en það er fólgið í því að veigra sér ekki við að fræða þau um þetta mikilvæga málefni.
En hvernig á að fara að því? Ófáum foreldrum þykir hálf-vandræðalegt að ræða kynferðismál við börnin. Og vel má vera að börnunum þyki það enn vandræðalegra svo að það er ekki líklegt að þau bryddi sjálf upp á þessu efni. Þú þarft að eiga frumkvæðið. Anna segir: „Við byrjuðum snemma og kenndum þeim hvað líkamshlutarnir heita. Við notuðum réttu orðin, ekki feluorð eða barnamál, til að sýna þeim fram á að það væri ekkert skrýtið eða skammarlegt við nokkurn líkamshluta.“ Það er eðlilegt framhald af þessu að ræða um misnotkun. Margir foreldrar segja börnunum einfaldlega að þeir líkamshlutar, sem sundfötin hylja, séu einkastaðir þeirra sem þau eiga sjálf.
Guðrún, sem nefnd var í greininni á undan, segir: „Við Gunnar sögðum syni okkar að typpið ætti hann sjálfur og það væri ekki leikfang. Enginn ætti að fá að fikta við það — ekki pabbi, ekki mamma og ekki einu sinni læknirinn. Þegar við förum með hann til læknis segi ég honum að læknirinn ætli bara að athuga hvort allt sé í lagi og þess vegna megi hann snerta hann þarna.“ Báðir foreldrarnir eiga óformleg samtöl af þessu tagi við drenginn og fullvissa hann um að hann geti alltaf komið til þeirra og sagt þeim frá ef einhver snerti hann eins og á ekki að gera eða þannig að honum líði illa. Sérfræðingar í forvörnum og umönnun barna mæla með að foreldrar tali við börnin sín á þennan hátt.
Margir hafa notað bókina Lærum af kennaranum miklab til að fræða börnin um þetta málefni. Í 32. kaflanum, sem nefnist „Jehóva verndaði Jesú“, eru skýrar en hughreystandi leiðbeiningar til barna þar sem varað er við hættunni á kynferðislegri misnotkun og rætt um hvernig hægt sé að verja sig. „Bókin er frábær hjálp til að herða á því sem við erum sjálf búin að segja börnunum,“ segir Anna.
Í heimi nútímans þarf að segja börnum að það sé til fólk sem vilji fá að snerta börn eins og á ekki að gera, eða fá börn til að snerta sig þannig. Slík viðvörun þarf ekki að vekja ótta með börnunum eða valda því að þau vantreysti öllum fullorðnum. „Þetta er bara gert í öryggisskyni,“ segir Guðrún. „Og þetta er bara eitt af mörgu sem við kennum drengnum, og flest af því kemur misnotkun ekkert við. Þetta hefur alls ekki gert hann hræddan.“
Til að fræða barnið vel þarftu að kenna því að sjá hlýðni í réttu ljósi. Barn þarf að læra að hlýða þó að það sé engan veginn auðvelt að kenna það. (Kólossubréfið 3:20) En kennsla í hlýðni getur farið út í öfgar. Ef barni er kennt að það verði alltaf að hlýða öllum fullorðnum, hverjar sem aðstæður eru, þá er það berskjaldað fyrir misnotkun. Barnaníðingar eru fljótir að koma auga á það ef börn eru eftirlát um of. Skynsamir foreldrar kenna börnunum að hlýðni sé skilyrðum háð. Þetta er ekki eins flókið fyrir kristna menn og ætla mætti. Það merkir einfaldlega að segja barninu: „Ef einhver segir þér að gera eitthvað sem Jehóva Guð segir að sé rangt, þá þarftu ekki að gera það. Pabbi eða mamma ættu ekki einu sinni að segja þér að gera eitthvað sem er rangt í augum Jehóva. Og þú getur alltaf sagt annaðhvort pabba eða mömmu frá ef einhver reynir að fá þig til að gera eitthvað sem er rangt.“
Að síðustu skaltu kenna börnunum að enginn hafi leyfi til að biðja þau að halda einhverju leyndu fyrir ykkur. Segðu þeim að ef einhver biðji þau að þegja yfir leyndarmáli gagnvart pabba og mömmu eigi þau alltaf að segja ykkur frá því. Hvað sem þeim er sagt — jafnvel ef þeim er hótað einhverju hræðilegu eða þau hafa sjálf gert eitthvað rangt — þá geti þau alltaf komið til pabba eða mömmu og sagt þeim frá því. Börnin þurfa ekki að verða hrædd þó að þú kennir þeim þetta. Þú getur fullvissað þau um að flest fólk geri aldrei neitt af þessu tagi — það er að segja að snerta þau þar sem eigi ekki að snerta, biðja þau að óhlýðnast Guði eða þegja yfir leyndarmáli. Þetta er sambærilegt við það að skipuleggja flóttaleið ef kviknar í — það er gert til öryggis en þarf sennilega aldrei að grípa til þess.
Fræddu barnið
Kenndu barninu að verja sig
Það þriðja, sem við ætlum að fjalla um, er að kenna barninu nokkur einföld ráð til að verja sig ef einhver reynir að misnota það og hvorugt ykkar foreldranna er nærstatt. Ein aðferðin, sem mælt er með, er eins og leikur. Foreldrarnir spyrja: „Hvað myndirðu gera ef . . . ?“ og barnið svarar. Þú gætir spurt: „Hvað myndirðu gera ef við færum saman út í búð og þú týndir mér? Hvernig myndirðu finna mig aftur?“ Barnið svarar kannski ekki eins og þú vonaðir en þú getur leiðbeint því með fleiri spurningum eins og til dæmis: „Heldurðu að þú gætir gert eitthvað sem væri enn betra fyrir þig?“
Þú getur farið svipað að til að spyrja barnið um öruggustu viðbrögðin við því ef einhver reynir að snerta það eins og á ekki að gera. Ef slíkar spurningar hræða barnið gætirðu prófað að segja sögu af öðru barni. Þú gætir til dæmis sagt: „Lítil stelpa er ein með ættingja sem henni líkar mjög vel við en svo reynir hann að snerta hana þar sem hann ætti ekki að koma við hana. Hvað finnst þér að hún ætti að gera til að stoppa hann?“
Kenndu barninu að verja sig
Hvernig ætti að kenna barninu að bregðast við í slíku tilfelli? Í bók, sem fjallar um þetta mál, segir: „Ákveðið ‚Nei!‘ eða ‚Ekki gera þetta!‘ eða ‚Láttu mig í friði!‘ er ótrúlega áhrifaríkt til að hræða þann sem ætlar að draga barn á tálar, og fá hann til að hætta að reyna að misnota þetta barn.“ Hjálpaðu barninu að leika hvernig það ætli að bera sig að þannig að það treysti sér vel til að mótmæla hátt og örugglega, forða sér án tafar og segja þér síðan frá því sem gerðist. En þó að barn virðist skilja þetta fullkomlega getur það gleymt því á fáeinum vikum eða mánuðum. Þess vegna þarf að endurtaka æfingarnar með reglulegu millibili.
Allir sem annast barnið með beinum hætti ættu að taka þátt í þessum umræðum, þeirra á meðal karlmenn svo sem faðir, stjúpfaðir og aðrir ættingjar. Hvers vegna? Vegna þess að allir sem taka þátt í að kenna barninu að verja sig eru í reynd að lofa að misnota það aldrei kynferðislega. Það er sorgleg staðreynd að oft eru það nákomnir ættingjar sem misnota börnin. Í greininni á eftir er fjallað um hvað hægt sé að gera til að heimilið sé öruggt skjól í hættulegum heimi.
a Sérfræðingar benda á að börn, sem hafa verið misnotuð kynferðislega, gefi oft vísbendingar án orða um að eitthvað sé að. Ef barn byrjar til dæmis aftur á einhverju sem það var vaxið upp úr — ef það má ekki sjá af foreldrunum, fer að væta rúmið eða er hrætt við að vera eitt — þá gæti það verið merki þess að eitthvað alvarlegt hafi komið því úr jafnvægi. Slík einkenni eru auðvitað ekki örugg sönnun fyrir því að barnið hafi verið misnotað. Reyndu með stillingu að fá barnið til að tjá sig og segja þér hver sé orsökin fyrir vanlíðan þess, þannig að þú getir huggað það, hughreyst og verndað.
b Gefin út af Vottum Jehóva.
-
-
Láttu heimilið vera öruggt skjólVaknið! – 2007 | október
-
-
Láttu heimilið vera öruggt skjól
„KÆRLEIKSLAUSIR.“ Biblían notaði þetta nöturlega orð til að lýsa mörgum sem yrðu uppi „á síðustu dögum“ eins og nútíminn er kallaður. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3, 4) Hin tíðu dæmi um að börn séu misnotuð kynferðislega innan fjölskyldunnar eru til merkis um að þessi spádómur hefur ræst. Gríska orðið asʹtorgos, sem er þýtt „kærleikslausir“, lýsir ástleysi milli nákominna ættingja, ekki síst skorti á ást milli foreldra og barna.a Það er allt of algengt að það sé einmitt innan vébanda fjölskyldunnar sem misnotkun á sér stað.
Sumir rannsóknarmenn segja að algengasti barnaníðingurinn sé föðurímynd barnsins. Aðrir karlar í fjölskyldunni eru oft brotlegir líka. Stúlkur eru algengustu fórnarlömbin en drengir eru líka misnotaðir. Og það er algengara en ætla mætti að konur séu sekar um kynferðisbrot af þessu tagi. Oftast er sennilega þagað yfir sifjaspelli milli systkina þar sem eldra eða sterkara barn tælir eða þvingar yngri eða veikbyggðari bróður eða systur til að taka þátt í kynferðisathöfnum. Sem foreldri hefurðu auðvitað viðbjóð á öllu slíku.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að svona nokkuð eigi sér stað í fjölskyldunni? Ljóst er að allir í fjölskyldunni þurfa að læra og virða ákveðnar meginreglur sem útiloka kynferðislega misnotkun. Bestu leiðsögnina um þetta mál er að fá í orði Guðs, Biblíunni.
Afstaða Biblíunnar til kynferðissambanda
Til að heimilið sé öruggt skjól þarf hver og einn í fjölskyldunni að tileinka sér siðferðisreglur Biblíunnar. Biblían er ekki tepruleg í umfjöllun sinni um kynferðismál. Hún talar um þau á virðulegan hátt en samt opinskátt og hnitmiðað. Þar kemur fram að Guð gaf hjónum kynlífið þeim til yndisauka. (Orðskviðirnir 5:15-20) Hins vegar fordæmir Biblían kynferðissambönd utan hjónabands. Hún tekur til dæmis skýrt fram að sifjaspell eigi ekki að líðast. Í 18. kafla 3. Mósebókar er lagt blátt bann við ýmsum kynferðissamböndum milli náinna ættingja. Gefum sérstaklega gaum að eftirfarandi orðum: „Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra [eiga kynmök]. Ég er Drottinn.“ — 3. Mósebók 18:6.
Jehóva taldi upp ýmis kynferðissambönd milli náinna skyldmenna sem hann kallaði ‚viðurstyggðir‘ og dauðarefsing lá við. (3. Mósebók 18:26, 29) Ljóst er að skaparinn hefur sett strangar reglur á þessu sviði. Stjórnvöld margra landa taka svipaða afstöðu og banna með lögum kynferðislega misnotkun á börnum innan fjölskyldunnar. Víða er það svo að lögum samkvæmt telst það nauðgun ef einhver fullorðinn fær barn til að eiga kynmök við sig. Af hverju skyldi vera kveðið svona sterkt að orði þótt valdi sé ekki beitt?
Yfirvöld víða um heim hafa gert sér grein fyrir því að Biblían hefur alla tíð farið með rétt mál varðandi börn, það er að segja að þau eru oft ekki fær um að rökhugsa á sama hátt og fullorðnir. Til dæmis er talað um það í Orðskviðunum 22:15 að ‚fíflska sitji föst í hjarta sveinsins‘. Og Páli postula var innblásið að skrifa: „Þegar ég var barn . . . hugsaði [ég] eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“ — 1. Korintubréf 13:11.
Barn skilur ekki til fulls þýðingu kynferðislegra athafna og getur ekki ímyndað sér hvaða afleiðingar þær geta haft á ókomnum árum. Þess vegna er almennt viðurkennt að börn séu ekki fær um að veita marktækt samþykki fyrir kynferðismökum. Með öðrum orðum, ef fullorðin manneskja (eða talsvert eldri unglingur) á kynferðismök við barn getur hinn eldri ekki afsakað verknaðinn með því að barnið hafi ekki hreyft mótmælum eða hafi óskað eftir kynferðismökunum. Hinn fullorðni er talinn hafa gerst sekur um nauðgun, og nauðgun er glæpur sem er oft refsað fyrir með fangelsisdómi. Það er nauðgarinn en ekki fórnarlamb hans sem ber ábyrgð á verknaðinum.
Því miður refsa yfirvöld sjaldan fyrir slíka glæpi. Í Ástralíu er til dæmis talið að einungis 10 prósent barnaníðinga séu ákærðir og fáir eru sakfelldir. Sömu sögu er að segja annars staðar í heiminum. Það er hins vegar mikil vernd fyrir kristna fjölskyldu að fara eftir meginreglum Biblíunnar þó að yfirvöld virðist oft lítils megnug.
Sannkristnir menn vita að Guð, sem lét skrásetja þessar meginreglur í Biblíuna, hefur ekki breytt um afstöðu. Hann sér allt sem við gerum, meira að segja það sem er hulið augum flestra manna. „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra,“ segir í Biblíunni. — Hebreabréfið 4:13.
Guð lætur okkur svara til saka ef við brjótum boð hans og vinnum öðrum mein. Hann blessar hins vegar þá sem halda hin góðu fyrirmæli hans um fjölskyldulífið. Lítum á nokkur þeirra.
Fjölskylda sameinuð kærleiksböndum
Í Biblíunni er kærleikurinn kallaður „band algjörleikans“ og bent er á að hann sé meira en aðeins tilfinning. (Kólossubréfið 3:14) Hann einkennist af þeim hvötum sem hann vekur — þeirri hegðun sem hann leiðir til og þeirri breytni sem hann bannar. (1. Korintubréf 13:4-8) Kærleikur innan fjölskyldunnar merkir að sýna hver öðrum viðeigandi sæmd, virðingu og góðvild. Hann merkir að lifa í samræmi við afstöðu Guðs til allra í fjölskyldunni. Og Guð gefur hverjum og einum heiðvirt og þýðingarmikið hlutverk.
Faðirinn er höfuð fjölskyldunnar og á öðrum fremur að sýna kærleika. Hann veit að kristinn faðir hefur ekki leyfi til að stýra fjölskyldunni með harðri hendi. Hann má ekki misnota vald sitt yfir konu sinni og börnum heldur á hann að líkja eftir forystu Krists. (Efesusbréfið 5:23, 25) Hann er því mildur og ástríkur við eiginkonu sína og þolinmóður og blíður við börnin. Hann verndar þau dyggilega og gerir allt sem hann getur til að ekkert komi fyrir þau sem geti rænt þau sakleysi þeirra, friði, trausti og öryggi.
Eiginkona og móðir hefur sömuleiðis göfugu og mikilvægu hlutverki að gegna. Í Biblíunni er verndarhvöt ungamóður notuð til að lýsa umhyggju og vernd Jehóva og Jesú. (Matteus 23:37) Mennsk móðir ætti sömuleiðis að láta sér ákaflega annt um að vernda börnin sín. Hún hikar ekki við að taka öryggi og velferð þeirra fram yfir sína eigin. Foreldrarnir sætta sig ekki við valdbeitingu, yfirgang eða þvinganir í samskiptum sínum hvort við annað eða við börnin, og þau leyfa ekki börnunum heldur að beita slíkum aðferðum hvert við annað.
Það stuðlar að góðum tjáskiptum þegar allir í fjölskyldunni sýna hver öðrum virðingu. William Prendergast bendir á eftirfarandi: „Allir foreldrar ættu að eiga dagleg, stöðug og innileg tjáskipti við börn sín og unglinga.“ Hann bætir við: „Þetta virðist vera besta ráðið gegn kynferðislegri misnotkun.“ Biblían hvetur reyndar til þess að foreldrar eigi stöðug og innileg tjáskipti við börnin. (5. Mósebók 6:6, 7) Þegar það er gert eiga allir í fjölskyldunni auðvelt með að tjá hug sinn og geta gert það óhikað.
Við búum í illum heimi og það er ekki hægt með öllu að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun og ofbeldi. Ef heimilið er öruggt skjól og athvarf getur það hins vegar gert gæfumuninn. Sé einhverjum í fjölskyldunni unnið mein utan veggja heimilisins veit hann upp á hár hvar hann getur leitað skjóls og hlotið huggun og samúð. Ef heimili ykkar er þannig er það börnunum öruggt hæli og skjól í hættulegum heimi. Megi Guð blessa viðleitni ykkar til að búa ykkur þannig heimili.
a Forngríska orðið hefur verið skilgreint: „Harðbrjósta gagnvart nákomnum.“ Í einni biblíuþýðingu er versið orðað svona: „Þeir . . . bera ekki eðlilega ástúð til fjölskyldna sinna.“
-