‚Jehóva Guði vorum viljum vér þjóna‘
„Ég og mínir ættmenn munum þjóna [Jehóva].“ — JÓSÚA 24:15.
1. Hvernig er Jósúabók okkur til uppörvunar og verndar?
HINIR hrífandi atburðir Jósúabókar eru skráðir „oss til uppfræðingar“ og sem ‚viðvörun‘ til að hvetja og vernda okkur „sem endir aldanna er kominn yfir.“ (Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11) Lögð er áhersla á eiginleika Guði að skapi svo sem þolgæði, trú og hlýðni. „Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga. Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega á móti njósnarmönnunum.“ (Hebreabréfið 11:30, 31) Trú Jósúa, Rahab og annarra trúfastra þjóna Guðs á þeim tíma ætti að hvetja okkur til að vera hugrökk og sterk til að ljúka því verki sem Guð hefur falið okkur. — Jósúa 10:25; Jóhannes 4:34.
2. (a) Hvernig sýndi Jósúa hlýðni jafnvel í smæstu smáatriðum? (b) Hvað átti sér stað á Ebalfjalli og Garísímfjalli?
2 Eftir ótvíræðan sigur yfir Aí gaf Jósúa gaum hinum ítarlegu fyrirmælum í 5. Mósebók 27:1-28:68. Við Ebalfjall reisti hann altari af óhöggnum steinum, og þar framfylgdi hann þessu boði: „Þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir [Jehóva] Guði þínum.“ Aðrir steinar voru reistir sem minnismerki, stroknir kalki og orð lögmálsins letruð á þá. Síðan var ættkvíslunum skipt. Stóð annar hópurinn á Garísímfjalli „til þess að blessa lýðinn“ og hinn „á Ebalfjalli til að lýsa bölvan.“ Með hárri raustu lýsa Levítarnir þeirri bölvun sem sé samfara óhlýðni og allur lýðurinn svarar „amen.“ Síðan er lýst yfir þeirri blessun sem veitist fyrir hlýðni. En vei sé Ísrael ef hann ‚gætir þess eigi að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og að óttast þetta dýrlega og hræðilega nafn Jehóva Guðs‘! — Jósúa 8:32-35.
3, 4. (a) Hvaða lærdóm getum við dregið af breytni Ísraelsmanna? (b) Hvers vegna ættum við aldrei að þreytast á því að heyra hið sama aftur og aftur? (c) Hvers er krafist til þess að komast inn um „þrönga hliðið“?
3 Hélt Ísrael áfram að „halda öll fyrirmæli þessa lögmáls“? Þrátt fyrir margendurteknar áminningar Móse og síðar Jósúa brugðust þeir hrapallega í því. Hversu skýr aðvörun er það ekki okkur nútímamönnum. Þrátt fyrir stöðugar aðvaranir eru alltaf fáeinir sem halda að þeir geti virt kröfur Guðs að vettugi, farið sínar eigin leiðir og samt bjargast. Hvílík flónska! Með reynslu Ísraelsmanna í huga segir Páll: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ — 1. Korintubréf 10:12; Prédikarinn 2:13.
4 Sumir af þjónum Guðs hafa gagnrýnt aðvaranir sem hafa verið gefnar, og sagt að þeir verði þreyttir á því að heyra hið sama aftur og aftur. En þeir hinir sömu eru oft fyrstir til að falla í gildrur Satans. Hin innblásna 5. Mósebók (á hebresku Mísne hattóra sem merkir „endurtekning lögmálsins“) geymir aðallega fjórar ræður Móse. Þær tóku af öll tvímæli um að Ísraelsmenn yrðu að hlýða áður framkomnum lögum Jehóva. Móse eyddi yfir fjórfalt fleiri orðum í að vara við afleiðingum óhlýðninnar og ‚bölvuninni,‘ sem af henni myndi leiða, en í að lýsa ‚blessuninni.‘ Á Ebalfjalli vakti Jósúa athygli Ísraels aftur á því að þjóðin yrði að hlýða. Gefur það ekki til kynna hve þýðingarmikið það er fyrir okkur að kappkosta að ‚ganga inn um þrönga hliðið‘? — Matteus 7:13, 14, 24-27; 24:21, 22.
5. Hvaða herfylking blasti nú við Ísrael og hvaða hliðstæðu sjáum við nú á dögum?
5 Mikið lokauppgjör var nú á næsta leiti. Jeríkóborg var fallin alveg eins og falstrúarbrögðin verða lögð í rúst þegar ‚þrengingin mikla‘ hefst. Aí var fallin. En núna söfnuðust „allir konungar þeir, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, í fjalllendinu, á láglendinu og á öllu strandlendinu við hafið mikla gegnt Líbanon — Hetítar, Amorítar, Kanaanítar, Peresítar, Hevítar og Jebúsítar . . . allir sem einn maður, til þess að berjast við Jósúa og Ísrael.“ (Jósúa 9:1, 2) Sem nútímahliðstæða þessa blasa við þær þjóðir jarðar sem nú eru tengdar innan vébanda hinna svonefndu Sameinuðu þjóða. Þær leita friðar og öryggis sér til handa og „bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða,“ hinum meiri Jósúa. (Sálmur 2:1, 2) Hver verða úrslitin?
Sýnd klókindi
6, 7. (a) Á hvaða hátt sýndu Gíbeonítar áhuga og hvaða herbragði beittu þeir? (b) Hvernig dæmdi Jósúa í málinu?
6 Eins og Rahab hafði áður gert fóru sumir aðrir landsmenn að sýna því áhuga að bjargast. Þetta voru íbúar borgarinnar Gíbeon sem var mikil borg norður af Jebús eða Jerúsalem. Þeir höfðu heyrt af máttarverkum Jehóva og afréðu að þeir yrðu að leita friðar og öryggis eftir skilmálum Jehóva. En hvernig? Þeir sendu menn til herbúða Ísraels í Gilgal með hart brauð, sem komið var í mola, gamla sekki og rifna vínbelgi og klæddust auk þess gömlum fötum og bættum skóm. Þessir menn komu til Jósúa og sögðu: „Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns [Jehóva] Guðs þíns, því að vér höfum heyrt hans getið.“ Þegar Jósúa heyrði það gerði hann „þann sáttmála við þá, að hann skyldi láta þá lífi halda.“ — Jósúa 9:3-15.
7 En Ísraelsmenn komust fljótt að raun um að Gíbeonítar bjuggu í reyndinni ‚á meðal þeirra‘! Hvernig leit Jósúa nú á klókindi þeirra? Hann hélt þann eið, sem hann hafði áður unnið þeim um að ‚láta þá lífi halda og gerði þá að viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn.‘ — Jósúa 9:16-27; samanber 5. Mósebók 20:10, 11.
8. Á hvaða vegu eru Gíbeonítar fyrirmynd hins ‚mikla múgs‘?
8 Margir af musterisþjónunum, sem á síðari árum þjónuðu í musteri Jehóva, voru líklega Gíbeonítar að uppruna. Því eru Gíbeonítar góð fyrirmynd hins ‚mikla múgs‘ sem ‚þjónar nú Guði dag og nótt í musteri hans.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 15) Þótt þeir búi í heimi sem líkist Kanaan eru hjörtu þeirra „ekki af heiminum.“ Áður fyrr höfðu þeir orðið að láta sér nægja andlegt viðurværi sem líkja má við „mola,“ svo sem er að fá í kirkjum kristna heimsins, og þeir höfðu ekkert ‚vín‘ til að gleðjast við. Þegar þeir komust í snertingu við þjóna Guðs gerðu þeir sér ljóst að Jehóva vinnur máttarverk fyrir tilverknað votta sinna. Þeir hafa tekist á hendur hina löngu ferð frá heimi Satans til að geta skipt á slitnum ‚klæðum‘ og nýjum sem einkenna þá sem auðmjúka þjóna Jehóva, íklædda nýja persónuleikanum. — Jóhannes 14:6; 17:11, 14, 16; Efesusbréfið 4:22-24.
Stuðningur skipulagsins
9. (a) Hvaða hættuástand kom upp næst? (b) Hvernig brást Jósúa við og um hvað var hann fullvissaður?
9 Þegar Adonísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Gíbeonítar hefðu samið frið við Ísrael urðu hann og þegnar hans „mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, . . . og allir borgarbúar hreystimenn.“ Hann tók höndum saman við fjóra aðra konunga og þeir settust um Gíbeon. Gíbeonmenn sendu þá strax til Jósúa: „Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi.“ Jósúa brást skjótt við og Jehóva sagði við hann: „Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér.“ Jósúa og kappar hans gengu nú „alla nóttina“ til að geta komið óvinunum algerlega á óvart. — Jósúa 10:1-9.
10. (a) Hvers konar aðgerðir nú á tímum eru hliðstæða umsátursins um Gíbeon? (b) Hvaða ásetning láta Gíbeonítar nútímans í ljós?
10 Eins og þessir fimm konungar hafa æðstu menn sumra ríkisstjórna nútímans reiðst því að sjá svo marga þegna sinna — jafnvel „hreystimenn“ — taka sér stöðu með hinum meiri Jósúa og réttlætisríki hans sem nær um allan heim. Þessir valdhafar álíta að landamæri þjóða skuli vera á sínum stað þótt þjóðirnar séu stöðugt að deila og berjast innbyrðis. Þess vegna reyna þeir að loka fyrir aðstreymi andlegrar fæðu til hins friðelskandi ‚mikla múgs,‘ að leggja bann við samkomum þar sem þessarar ‚fæðu‘ er neytt og stöðva það að þeir tali við aðra um andleg mál. En þessir Gíbeonítar nútímans standa drottinhollir með hinum andlega Ísrael og segja: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ — Sakaría 8:23; samanber Postulasöguna 3:19, 20; 5:29.
11. Hvernig bregðast vottar Jehóva við nú á dögum þegar hættuástand kemur upp?
11 Þegar ‚múgurinn mikli‘ leitar hjálpar hjá móðurskipulagi sínu er hún veitt þegar í stað og í ríkum mæli. Röskleiki votta Jehóva í því að koma hlutunum í framkvæmd birtist líka á margra aðra vegu — svo sem með hjálparstarfi strax eftir náttúruhamfarir og með því að reisa á skömmum tíma Ríkissali eða samkomustaði þar sem ‚fæðu‘ er útbýtt. Þegar mót var haldið í júní á síðasta ári í Yankee Stadium í New York hélt hersveit sjálfboðaliða innreið sína um miðnætti eftir að lokið var hornaboltaleik. Þessi leikvangur var aldrei hreinni og snyrtilegri en dagana fjóra sem á eftir komu. Ábyrgir öldungar meðal votta Jehóva eru líka snarir í snúningum til að mætta hættuástandi sem upp getur komið varðandi prédikun fagnaðarerindisins. — Filippíbréfið 1:6, 7.
Jehóva berst fyrir Ísrael
12. Hvaða kraftaverk vann Jehóva þegar hann barðist fyrir Ísrael að vörn Gíbeoníta? (Samanber Habakkuk 3:1, 2, 11, 12.)
12 En beinum nú athygli okkar að Gíbeon. Jehóva veldur algerri ringulreið meðal óvinasveitanna. Ísraelsmenn elta þá og stráfella. Og hvað fellur ofan af himni? Stórir íshnullungar! Fleiri falla fyrir haglinu en hermönnum Ísraels. Hlýðið nú á. Jósúa talar til Jehóva og hvað segir hann „í áheyrn Ísraels“? Þetta: „Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal!“ Annað stórfenglegt kraftaverk. „Nær því heilan dag“ lýsir sólin vígvöllinn þar til dómi Guðs er algerlega fullnægt. Það er ekki okkar að deila um hvernig Jehóva vann þetta kraftaverk frekar en við efumst um að hann skuli hafa látið tvö mikil ljós skína á jörðina á fjórða sköpunardeginum. (1. Mósebók 1:16-19; Sálmur 135:5, 6) Frásagan er ótvíræð: „Enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að [Jehóva] skyldi láta að orðum manns, því að [Jehóva] barðist fyrir Ísrael.“ — Jósúa 10:10-14.
13. Hvernig hvetur Jósúa fyrirliða hermannanna og með hvaða árangri?
13 Sigrinum er fylgt eftir með því að taka konungana fimm af lífi en þá segir Jósúa við fyrirliða hermannanna: „Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun [Jehóva] fara með alla óvini yðar, er þér berjist við.“ Sú hafði reyndin verið varðandi sjö konunga í Kanaan og sú er einnig reyndin þegar öðrum 24 konungsríkjum er kollvarpað. Ekki fyrr en þá, eftir sex ára hernað, fær landið hvíld. — Jósúa 10:16-25; 12:7-24.
14. Með hvaða hugarfari og trausti ættum við að horfast í augu við Harmagedón?
14 Megum við núna, þegar nálgast lokastríðið við Harmagedón, vera hugrakkir og öruggir eins og Jósúa, kappar hans og allar hinar miklu herbúðir Ísraels. Við megum treysta að Jehóva geti, alveg eins og hann leiddi nokkrar milljónir Ísraelsmanna óskaddaða inn í fyrirheitna landið, unnið fleiri ógnþrungin kraftaverk þegar hann leiðir milljónir hugdjarfra þjóna sinna í gegn um Harmagedón inn í hina nýju skipan. — Opinberunarbókin 7:1-3, 9, 14; 19:11-21; 21:1-5.
Ásetningur okkar
15. Hvers konar verkefna geta hinir ‚aðrir sauðir‘ vænst í nýrri skipan Guðs?
15 Þótt Jósúa stæði nú nálægt níræðu átti hann fyrir höndum enn eitt stórverkefni — að skipta landinu milli ættkvísla Ísraels. Það þýddi þó ekki að núna yrði lífið auðvelt fyrir Ísraelsmenn. Meira að segja bað Kaleb um Hebronsvæðið, þar sem hinn risavaxni Anakím bjó; hann vildi halda áfram að leggja undir sig land með því að ryðja úr vegi hinum síðustu af óvinum Jehóva. Þetta er ekki merki þess að í þúsundáraríki Krists yfir jörðinni verði einhverjir mennskir óvinir við að glíma. Hins vegar verður þar verk að vinna. Í hinni nýju skipan ættum við ekki að búast við þægilegu letilífi. Eftir að hafa fengið sinn hlut á ‚nýju jörðinni‘ munu ‚aðrir sauðir‘ Drottins hafa feikinóg verk að vinna við hið mikla verkefni að fegra jörðina og breyta henni í bókstaflega paradís. — Jósúa 14:6-15; Markús 10:29, 30; Rómverjabréfið 12:11.
16. Hvað er nú á dögum táknað með ‚griðastöðunum‘?
16 Við úthlutun landsins tók Jósúa til sex borgir Levíta sem ‚griðastaði,‘ þrjár hvoru megin Jórdanar. Þetta var ráðstöfun Jehóva til verndar þeim sem óviljandi varð manni að bana; hann gat flúið til einhverrar af þessum borgum. Slíkur manndrápari varð að sanna að hann hefði hreina samvisku frammi fyrir Guði, og það gerði hann með því að dvelja í borginni þar til æðsti presturinn dó. Á líkan hátt verða þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ að leita góðrar samvisku gagnvart Guði, sökum sinna fyrri tengsla við þennan blóðseka heim. Þeir öðlast þessa góðu samvisku með því að játa syndir sínar, iðrast, snúa við, vígjast Jehóva og láta skírast í vatni. Síðan verða þeir að halda þeirri stöðu sinni. Þess er krafist af ‚múginum mikla‘ að hann dvelji innan ‚borgarinnar‘ þar til Jesús deyr á táknrænan hátt gagnvart æðstaprestdómi sínum, við lok þúsundáraríkisins. — Jósúa 20:1-9; Opinberunarbókin 20:4, 5; 1. Korintubréf 15:22, 25, 26.
17. Hvaða úrslit sjáum við nútímamenn fram á?
17 Jehóva hafði blessað þjóð sína Ísrael ríkulega! Gangan hafði verið erfið og þrengingarnar margar. En að lokum höfðu Ísraelsmenn gengið inn í fyrirheitna landið og voru sestir þar að. Hjörtu þeirra hljóta að hafa verið yfirfull þakklætis til Jehóva! Megum við reynast trúföst Guði okkar og njóta svipaðrar gleði þegar við göngum inn í nýja skipan hans sem ‚nýja jörðin‘ er hluti af. Á okkur mun sannast það sem reynslan var á dögum Jósúa: „Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er [Jehóva] hafði gefið húsi Ísraels. Þau rættust öll.“ (Jósúa 21:45) Megir þú eiga hamingjuríka hlutdeild í því!
18. (a) Hvað rifjaði Jósúa upp fyrir öldungum Ísraels? (b) Hvaða þrá ættum við að bera í brjósti varðandi nýja skipan Jehóva?
18 Að síðustu, þá 110 ára gamall, safnaði Jósúa saman öldungum Ísraels. Hann rifjaði upp fyrir þeim með hve stókostlegum hætti Jehóva hefði blessað trúa þjóna sína allt frá dögum Abrahams til þess dags. Jehóva sagði þeim nú: „Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra.“ Með því að Jehóva hafði séð svo ríkulega fyrir Ísraelsmönnum átti þá að langa til að ‚óttast Jehóva og þjóna honum einlæglega og dyggilega‘ öllum stundum. Og þegar við horfum fram veginn til hinnar dýrlegu nýju skipanar Jehóva hér á jörð ætti eitt og sérhvert okkar að bera sams konar löngun í brjósti. — Jósúa 24:13, 14.
19. (a) Hvaða valkosti lagði Jósúa nú fyrir þjóðina og hverju svaraði hún? (b) Hverjum ættum við að vilja líkjast? (c) Hvað ættum við að einsetja okkur?
19 Síðan sagði Jósúa þjóðinni berum orðum: „Líki yður ekki að þjóna [Jehóva], kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, . . . EN ÉG OG MÍNIR ÆTTMENN MUNUM ÞJÓNA [JEHÓVA]:“ Getur eitt og sérhvert okkar endurómað þessi orð, þeir sem trúaðir eru í fjölskyldu okkar, söfnuður okkar, „heimamenn Guðs“ um allan heiminn? Auðvitað getum við það! (Efesusbréfið 2:19) Ísraelsmenn á dögum Jósúa svöruðu honum: „[Jehóva] Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu.“ (Jósúa 24:15, 24) Því miður hættu þeir að gera það síðar á árum. Við viljum ekki vera eins og þeir sem hættu að þjóna Guði. Við viljum vera eins og Jósúa og ættmenn hans, eins og Kaleb, eins og Gíbeonítar og eins og Rahab. Já, ‚VIÐ MUNUM ÞJÓNA JEHÓVA:‘ Megum við gera það hugrökk og í fullu trausti þess að ekkert „muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ — Rómverjabréfið 8:39.
Hvað lærum við af Jósúabók —
◻ Um þörfina á endurteknum áminningum?
◻ Um umönnum Gíbeoníta nútímans?
◻ Um það hvernig Jehóva muni berjast við Harmagedón?
◻ Um nauðsyn þess að flýja til ‚griðastaðar‘?
◻ Um það að kjósa hverjum við viljum þjóna?