Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.6. bls. 13-18
  • Láttu hyggindi varðveita þig

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Láttu hyggindi varðveita þig
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sérstök þörf fyrir hyggindi
  • Hvað um fjárfestingar?
  • Þegar áhættuviðskipti mistakast
  • Hvað um fjársvik?
  • Hyggindi og ákvarðanir
  • Hneigðu hjarta þitt að hyggindum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Kristin eining varðveitt í viðskiptum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Líkjum eftir hugrekki og dómgreind Jesú
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • „Allt skal miða til uppbyggingar“
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.6. bls. 13-18

Láttu hyggindi varðveita þig

„Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 2:11.

1. Fyrir hverju geta hyggindi varðveitt okkur?

JEHÓVA vill að þú sért hygginn. Hvers vegna? Vegna þess að hann veit að hyggindi varðveita þig gegn ýmsum hættum. Orðskviðirnir 2:10-19 hefjast með orðunum: „Speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig.“ Varðveita gegn hverju? Svo sem gegn „vegi hins illa,“ gegn þeim sem yfirgefa stigu einlægninnar og gegn mönnum sem komnir eru út á glapstigu í breytni sinni.

2. Hvað eru hyggindi og hvers konar hyggindum vilja kristnir menn sérstaklega búa yfir?

2 Þú manst líklega að hyggindi eru hæfni hugans til að greina eitt frá öðru. Hygginn maður skynjar muninn á hugmyndum og hlutum og hefur góða dómgreind. Við sem erum kristin viljum sérstaklega sýna andleg hyggindi byggð á nákvæmri þekkingu á orði Guðs. Þegar við nemum Ritninguna er eins og við séum að vinna andleg hyggindi úr námu. Það sem við lærum getur hjálpað okkur að taka ákvarðanir sem þóknast Jehóva.

3. Hvernig getum við aflað okkur andlegra hygginda?

3 Þegar Guð spurði Salómon Ísraelskonung hvaða blessunar hann óskaði sér, svaraði valdhafinn ungi: „Gef . . . þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu.“ Salómon bað um hyggindi og Jehóva veitti honum þau í óvenjumiklum mæli. (1. Konungabók 3:9; 4:30) Til að þroska með okkur hyggindi þurfum við að biðja og við þurfum að nema orð Guðs með hjálp fræðandi rita frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45-47) Það hjálpar okkur að byggja upp andleg hyggindi að því marki að við verðum ‚fullorðin í dómgreind‘ og fær um að „greina gott frá illu.“ — 1. Korintubréf 14:20; Hebreabréfið 5:14.

Sérstök þörf fyrir hyggindi

4. Hvað merkir það að hafa „heilt“ auga og hvernig er það okkur til gagns?

4 Ef við erum hyggin getum við breytt í samræmi við orð Jesú Krists: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegir hlutir] veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Jesús sagði líka: „Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur.“ (Lúkas 11:34) Augað er táknrænn lampi. „Heilt“ auga er einlægt og hefur hlutina í brennidepli. Ef við höfum slíkt auga erum við hyggin og getum gengið án þess að hrasa andlega.

5. Hvað ættum við að hafa hugfast í sambandi við viðskipti og hlutverk kristna safnaðarins?

5 Sumir hafa ekki farið eftir ráðleggingum Jesú um að varðveita augað heilt, heldur gert líf sitt og annarra flókið með freistandi viðskiptum. En við ættum að muna að kristni söfnuðurinn er „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Líkt og stólpar eða súlur í húsi er það sannleikur Guðs, sem söfnuðurinn heldur á loft, ekki viðskipti og kaupsýsla. Söfnuðir votta Jehóva eru ekki stofnsettir til að koma viðskiptahagsmunum, vörum eða þjónustu á framfæri. Við verðum að varast að nota ríkissalinn sem vettvang persónulegra viðskipta. Hyggindi segja okkur að ríkissalir, safnaðarbóknám, svæðismót og umdæmismót votta Jehóva séu vettvangur kristinnar samveru og andlegra umræðna. Myndi það ekki sýna að við mætum andleg gildi ekki nægilega mikils ef við notuðum andleg sambönd til einhvers konar viðskipta eða kaupsýslu? Við ættum aldrei að nota sambönd innan safnaðarins í hagnaðarskyni.

6. Af hverju ætti ekki að selja eða kynna vörur eða þjónustu á safnaðarsamkomum?

6 Sumir hafa notfært sér guðræðisleg sambönd til að selja heilsu- og snyrtivörur, vítamín, fjarskiptaþjónustu, byggingarefni, ferðaþjónustu, tölvuforrit, tölvubúnað og svo framvegis. En safnaðarsamkomurnar eru ekki réttur vettvangur til að selja eða kynna vörur eða þjónustu. Við sjáum hvaða meginregla býr hér að baki ef við munum að Jesús „rak alla [sölumennina] út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: ‚Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.‘“ — Jóhannes 2:15, 16.

Hvað um fjárfestingar?

7. Hvers vegna eru hyggindi og varúð nauðsynleg í sambandi við fjárfestingar?

7 Hyggindi og varúð eru nauðsynleg í sambandi við öll áhættuviðskipti. Setjum sem svo að einhver vilji fá peninga að láni og lofar einhverju í líkingu við: „Ég ábyrgist að þú hagnast á þessu.“ „Þú getur ekki tapað. Þetta er pottþétt.“ Gættu þín þegar einhver lofar slíku. Annaðhvort er hann ekki raunsær eða hann er óheiðarlegur því að fjárfesting er sjaldan örugg. Stundum hafa ófyrirleitnir menn meira að segja komið með fagurgala til safnaðarmanna og svikið út úr þeim fé. Þetta minnir okkur á hina ‚óguðlegu menn‘ sem læddust inn í söfnuðinn á fyrstu öld og ‚misnotuðu náð Guðs til taumleysis.‘ Þeir voru eins og skörðótt blindsker sem gátu slasað og drepið menn á sundi. (Júdasarbréfið 4, 12) Vissulega gengur svikahröppum annað til en fráhvarfsmönnum, en þeir sitja líka um safnaðarmenn til að ræna þá.

8. Hvernig hefur farið með áhættuviðskipti sem virtust ábatasöm?

8 Velviljaðir kristnir menn hafa jafnvel komið upplýsingum á framfæri við bræður sína um áhættuviðskipti, sem virtust geta verið ábatasöm, en síðan hafa þeir og aðrir, sem fylgdu fordæmi þeirra, tapað fénu sem þeir lögðu í viðskiptin. Þess eru dæmi að kristnir menn hafa misst sérréttindi í söfnuðinum af þessum sökum. Þegar áhættuviðskipti, sem eiga að skila skjótum gróða, reynast svikamylla græðir enginn nema svikahrappurinn sem er þá oft á bak og burt. Hvernig geta hyggindi forðað okkur frá slíku?

9. Hvers vegna þarf hyggindi til að leggja mat á fullyrðingar um fjárfestingar?

9 Hyggindi fela í sér að geta borið skyn á það sem liggur ekki í augum uppi. Það er nauðsynlegt til að leggja mat á fullyrðingar um fjárfestingar. Kristnir menn treysta hver öðrum og sumir hugsa kannski sem svo að andlegir bræður og systur flækist ekki í áhættuviðskipti sem stofna myndu fjármunum trúbræðra þeirra í hættu. En þótt kaupsýslumaður sé kristinn tryggir það alls ekki að hann sé afburðamaður í viðskiptum eða að fyrirtæki hans heppnist.

10. Hvers vegna falast sumir kristnir menn eftir viðskiptalánum hjá trúbræðrum sínum, og hvernig gætu slíkar fjárfestingar farið?

10 Stundum falast kristnir menn eftir viðskiptalánum hjá bræðrum og systrum af því að virtar lánastofnanir myndu aldrei lána fé til þeirra áhættuviðskipta sem þeir hyggjast leggja út í. Margir hafa látið telja sér trú um að með því einu að fjárfesta í einhverju gætu þeir hagnast fljótt og vel án þess að þurfa að leggja mikið á sig, ef þá nokkuð. Sumir fjárfesta af því að það fylgir því einhver töfraljómi, en tapa svo aleigunni! Kristinn maður festi stóra fjárhæð í viðskiptum og bjóst við 25 prósenta hagnaði á aðeins tveim vikum. Hann tapaði öllu fénu þegar fyrirtækið, sem hann fjárfesti í, var lýst gjaldþrota. Í öðru tilviki tók byggingarverktaki stórar fjárhæðir að láni hjá öðrum í söfnuðinum. Hann lofaði óvenjumiklum hagnaði en varð gjaldþrota og tapaði lánsfénu.

Þegar áhættuviðskipti mistakast

11. Hvað ráðlagði Páll í sambandi við ágirnd og fégræðgi?

11 Misheppnuð áhættuviðskipti sumra kristinna manna hafa valdið vonbrigðum meðal þeirra sem hafa lagt fé í þau, og jafnvel spillt andlegu hugarfari þeirra. Beiskja og hugarangur hefur hlotist af þegar menn hafa ekki látið hyggindi varðveita sig. Margur maðurinn hefur fest sig í snöru ágirndarinnar. „Ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum,“ skrifaði Páll. (Efesusbréfið 5:3) Og hann varaði við: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

12. Hvað ættu kristnir menn sérstaklega að muna ef þeir eiga viðskipti sín í milli?

12 Ef kristinn maður verður fégjarn getur hann valdið sjálfum sér miklu andlegu tjóni. Farísearnir voru fégjarnir og það er einkenni margra núna á síðustu dögum. (Lúkas 16:14; 2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) En kristinn maður ætti aftur á móti „enga fégirni“ að sýna í hegðun sinni. (Hebreabréfið 13:5) Kristnir menn geta auðvitað átt viðskipti sín í milli eða stofnað til rekstrar í sameiningu. En ef þeir gera það ætti alltaf að halda viðræðum og samningum þar um aðskildum frá safnaðarmálum. Og munum: Jafnvel meðal andlegra bræðra ættu viðskiptasamningar alltaf að vera skriflegir. Gagnleg grein birtist um þetta mál í Vaknið! (enskri útgáfu) hinn 8. febrúar 1983, bls. 13 til 15, en hún hét „Hafið það skriflegt!“

13. Hvernig heimfærir þú Orðskviðina 22:7 á áhættuviðskipti?

13 Orðskviðirnir 22:7 segja okkur: „Lánþeginn verður þræll lánsalans.“ Oft er óskynsamlegt að setja sjálf okkur eða bróður okkar í stöðu þjóns eða þræls. Það er skynsamlegt að hugleiða hvort sá sem falast eftir láni til áhættuviðskipta sé fær um að endurgreiða það. Er hann þekktur fyrir að vera trúverðugur og áreiðanlegur? Við ættum að sjálfsögðu að gera okkur ljóst að þegar við lánum fé í slíkum tilgangi getum við tapað því vegna þess að áhættuviðskipti fara oft út um þúfur. Samningur einn sér er engin trygging fyrir því að viðskiptin gangi upp. Og vissulega er ekki skynsamlegt af nokkrum manni að leggja meira fé í viðskipti en hann hefur efni á að tapa.

14. Hvers vegna þurfum við að vera skynsöm og hyggin ef við höfum lánað trúbróður fé en viðskipti hans misheppnuðust?

14 Við þurfum að vera skynsöm og hyggin ef við höfum lánað trúbróður fé til viðskipta og hann hefur tapað fénu, enda þótt ekkert óheiðarlegt hafi átt sér stað. Ef ekki er hægt að kenna trúbróður, sem tók féð að láni hjá okkur, um að viðskiptin mistókust, getum við þá sagt að við höfum verið órétti beitt á einhvern hátt? Nei, vegna þess að við lánuðum féð ótilneydd, höfum sennilega haft af því arð og ekkert óheiðarlegt hefur átt sér stað. Þar eð ekkert óheiðarlegt gerðist eru engar forsendur fyrir því að lögsækja lántakandann. Hvaða gagn væri í því að lögsækja heiðarlegan trúbróður sem neyddist til að óska eftir gjaldþrotaskiptum vegna þess að viðskiptin, sem hann vann að af góðum hug, mistókust? — 1. Korintubréf 6:1.

15. Hvað þarf að íhuga í sambandi við gjaldþrot?

15 Stundum mistakast viðskipti og fólk sér sig tilneytt að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Þar eð kristnir menn eru ekki hirðulausir um skuldir sínar hefur sumum fundist það siðferðileg skylda sín að reyna að greiða skuldir, sem þeir eru lagalega séð lausir undan, svo framarlega sem fyrrverandi lánardrottnar vilja taka við greiðslunni. En hvað nú ef lántakandi tapaði fjármunum bróður síns en lifði síðan munaðarlífi? Eða hvað um það ef lántakandinn fengi í hendur fé til að endurgreiða það sem hann tók að láni en sinnti ekki siðferðilegri skyldu sinni gagnvart bróður sínum? Þá væri vafamál að lántakandinn væri hæfur til að gegna ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 3:3, 8; sjá Varðturninn 1. janúar 1995, bls. 30-1.

Hvað um fjársvik?

16. Hvaða ráðstafanir þarf kannski að gera ef við virðumst hafa orðið fórnarlömb fjársvika?

16 Hyggindi segja okkur að fjárfestingar skili ekki alltaf hagnaði. En hvað nú ef um fjársvik er að ræða? Fjársvik eru „vísvitandi blekking, brögð eða rangfærslur í þeim tilgangi að telja annan mann á að láta af hendi verðmæti eða afsala sér lagalegum rétti til þeirra.“ Jesús Kristur greindi frá ráðstöfunum sem gæti þurft að gera ef einhver telur trúbróður hafa svikið sig. Samkvæmt Matteusi 18:15-17 sagði Jesús: „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ‚hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.‘ Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Jesús sagði því næst líkingu sem gefur til kynna að hann hafi haft fjármál í huga, þar á meðal fjársvik. — Matteus 18:23-25.

17, 18. Hvernig geta hyggindi varðveitt okkur ef einhver, sem játar sig kristinn, svíkur út úr okkur fé?

17 Ef engar sannanir eru fyrir fjársvikum og ekkert bendir einu sinni til þeirra er engin biblíuleg forsenda fyrir því að gera þær ráðstafanir sem greint er frá í Matteusi 18:15-17. En hvað þá ef einhver, sem játar sig kristinn, hefur raunverulega haft af okkur fé með svikum? Hyggindi geta forðað okkur frá því að grípa til einhverra aðgerða sem gætu kastað rýrð á söfnuðinn. Páll postuli ráðlagði kristnum bræðrum sínum að líða heldur órétt og láta jafnvel hafa af sér fé en að draga bróður fyrir dómstól. — 1. Korintubréf 6:7.

18 Sannir bræður okkar og systur eru ekki ‚full véla og flærðar‘ eins og töframaðurinn Barjesús. (Postulasagan 13:6-12) Við skulum því vera hyggin þegar peningar tapast í áhættuviðskiptum sem trúbræður standa fyrir. Ef við erum að hugsa um að lögsækja þá ættum við að íhuga hugsanleg áhrif þess á okkur persónulega, á hinn bróðurinn eða bræðurna, á söfnuðinn og á þá sem fyrir utan eru. Það gæti kostað okkur mikinn tíma, krafta og fé að reyna að fá bætur. Svo gæti farið að enginn hagnaðist á því nema lögmennirnir. Því miður hafa sumir kristnir menn fórnað guðræðislegum sérréttindum af því að þeir sökktu sér um of niður í þess háttar mál. Satan hlýtur að njóta þess að sjá okkur fara út á slík hliðarspor, en við viljum gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Ef við á hinn bóginn sættum okkur við tapið gæti það hlíft okkur við miklu hugarangri og sparað okkur og öldungunum mikinn tíma. Það stuðlar að friði safnaðarins og gerir okkur kleift að leita fyrst Guðsríkis.

Hyggindi og ákvarðanir

19. Hvað geta andleg hyggindi og bæn gert fyrir okkur þegar við tökum erfiðar ákvarðanir?

19 Það getur fylgt því mikil spenna að taka ákvarðanir í fjármálum eða viðskiptum. En andleg hyggindi geta hjálpað okkur að vega og meta öll málsatvik og taka viturlegar ákvarðanir. Og bænartraust til Jehóva getur veitt okkur ‚frið Guðs.‘ (Filippíbréfið 4:6, 7) Þessi friður Guðs er ró og stilling sem stafar af nánu einkasambandi við hann. Slíkur friður getur vissulega hjálpað okkur að gæta jafnvægis þegar við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir.

20. Hverju ættum við að vera staðráðin í varðandi viðskipti og söfnuðinn?

20 Við skulum vera staðráðin í að láta viðskiptadeilur ekki raska friði okkar eða safnaðarins. Við verðum að muna að kristni söfnuðurinn er ekki viðskiptamiðstöð heldur er það hlutverk hans að hjálpa okkur andlega. Við ættum alltaf að halda viðskiptum aðgreindum frá safnaðarstarfinu. Við þurfum að vera hyggin og varkár þegar við förum út í áhættuviðskipti. Og gætum alltaf jafnvægis í afstöðu okkar til slíkra mála og leitum fyrst hagsmuna Guðsríkis. Ef áhættuviðskipti, sem bræður okkar eða systur standa fyrir, mistakast, megum við þá leita þess sem er best fyrir alla hlutaðeigandi.

21. Hvernig getum við verið hyggin og breytt í samræmi við Filippíbréfið 1:9-11?

21 Í stað þess að gera okkur of miklar áhyggjur af fjármálum og öðru, sem minna máli skiptir, skulum við öll hneigja hjörtu okkar að hyggindum, biðja um leiðsögn Guðs og láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir. Megi ‚elska okkar aukast að þekkingu og allri dómgreind svo að við getum metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðum ekki öðrum til ásteytingar‘ — eða sjálfum okkur — eins og Páll bað um. Kristur er konungur núna í himnesku hásæti sínu. Við skulum því sýna andlega dómgreind og hyggindi á öllum sviðum lífsins. Og megum við vera „auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði,“ alvöldum Drottni Jehóva. — Filippíbréfið 1:9-11.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað eru hyggindi?

◻ Hvers vegna eru hyggindi sérstaklega mikilvæg í sambandi við viðskipti meðal kristinna manna?

◻ Hvernig geta hyggindi hjálpað okkur ef okkur finnst trúbróðir hafa svikið út úr okkur fé?

◻ Hvaða hlutverki ættu hyggindi að gegna þegar við tökum ákvarðanir?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hyggindi hjálpa okkur að fara eftir því ráði Jesú að leita fyrst Guðsríkis.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Gerið alltaf skriflega viðskiptasamninga.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila