Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • wp16 Nr. 2 bls. 11-13
  • Taktu mark á viðvörunum og bjargaðu lífinu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Taktu mark á viðvörunum og bjargaðu lífinu
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • VERTU VAKANDI FYRIR STRAUMHVÖRFUM Í HEIMSMÁLUM
  • MERKI UM KÆRLEIKA GUÐS
  • FLÝÐU Í ÖRUGGT SKJÓL!
  • Flóðbylgjur — bábiljur og veruleiki
    Vaknið! – 2001
  • Hvenær kemur endirinn? Svar Jesú
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2021
  • Fjórum spurningum um endinn svarað
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Tilgangur guðs nær brátt fram að ganga
    Hver er tilgangur lífsins?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
wp16 Nr. 2 bls. 11-13
Strandlengja á Súmötru í Indónesíu sem varð illa úti í skjálftaflóðbylgju.

Taktu mark á viðvörunum og bjargaðu lífinu

ÞANN 26. desember 2004 skók jarðskjálfti upp á 9,1 stig eyjuna Simeulue sem er norðvestur af Súmötru í Indónesíu. Augu allra beindust út á sjó. Það var óeðlilega mikið útfall. Þegar í stað hlupu allir upp í hæðirnar og hrópuðu „Smong! Smong!“ en á máli heimamanna þýðir það skjálftaflóðbylgja. Á innan við hálftíma steyptust gríðarlega háar og kraftmiklar öldur yfir strandlengjuna og lögðu flest heimili og þorp í rúst.

Jarðskjálftaflóðbylgjan skall fyrst á eyjunni Simeulue. Af 78.000 íbúum týndu þó ekki fleiri en 7 lífi. Hvernig stóð á því?a Þetta spakmæli er þekkt meðal heimamanna: „Ef sterkur jarðskjálfti verður og sjórinn hopar, hlaupum til fjalla, því fyrr en varir kemur sjórinn æðandi til baka.“ Íbúar Simeulue höfðu lært af reynslunni að þekkja undanfara flóðbylgju af breytingu á sjónum. Það bjargaði lífi þeirra að taka mark á viðvörunarmerkjunum.

Biblían talar um að miklar hörmungar séu yfirvofandi eða „sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar“. (Matteus 24:21) Með þessu er ekki átt við gífurlegar náttúruhamfarir eða að ábyrgðarlausir menn eyði jörðinni því að fyrirætlun Guðs er að jörðin standi að eilífu. (Prédikarinn 1:4) Þessi þrenging verður vegna þess að Guð ætlar að „eyða þeim sem jörðina eyða“. Þá verða illska og þjáningar úr sögunni. (Opinberunarbókin 11:18; Orðskviðirnir 2:22) Hugsaðu þér hvílík blessun það verður!

Yfirvofandi eyðing verður heldur ekki saklausu fólki að fjörtjóni eins og flóðbylgjur, jarðskjálftar og eldgos. „Guð er kærleikur,“ segir í Biblíunni. Hann lofar: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8; Sálmur 37:29) Hvernig geturðu lifað þrenginguna miklu af og notið þeirra blessana sem Guð, sem ber nafnið Jehóva, hefur heitið? Með því að taka mark á viðvörunum.

VERTU VAKANDI FYRIR STRAUMHVÖRFUM Í HEIMSMÁLUM

Ekki er hægt að vita upp á dag hvenær öll illska og þjáningar hverfa. Jesús sagði: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ Engu að síður hvatti Jesús okkur til að vera ,vakandi‘. (Matteus 24:36; 25:13) Vakandi fyrir hverju? Biblían lýsir ástandi heimsins áður en Guð lætur endirinn koma. Rétt eins og skyndileg breyting á sjávarföllum gerði íbúum Simeulue viðvart um flóðbylgjuna ættu straumhvörf í heimsmálum að vera merki fyrir okkur um að endirinn sé nálægur. Nokkur dæmi um þau straumhvörf, sem Biblían talar um, er að finna í meðfylgjandi rammagrein.

Að vísu hefur sumt af því sem lýst er í rammagreininni átt sér stað í einhverjum mæli í gegnum tíðina. En Jesús sagði að þegar við sæjum „allt þetta“ gætum við vitað að endirinn væri nálægur. (Matteus 24:33) Spyrðu þig hvenær í sögunni allt þetta hafi gerst (1) á heimsvísu, (2) á sama tíma og (3) í áður óþekktum mæli. Við lifum augljóslega þann tíma núna.

MERKI UM KÆRLEIKA GUÐS

„Viðvörunarkerfi ... bjarga lífi fólks,“ sagði fyrrum forseti Bandaríkjanna. Í kjölfar flóðbylgjunnar árið 2004 var sett upp viðvörunarkerfi á svæðinu til að reyna að koma í veg fyrir að slíkt manntjón verði þar aftur. Eins hefur Guð gert ráðstafanir til að vara fólk við áður en endirinn kemur. Biblían sagði fyrir: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matteus 24:14.

Á síðasta ári vörðu vottar Jehóva vel yfir 1,9 milljörðum klukkustunda í að boða fagnaðarerindið í 240 löndum á meira en 700 tungumálum. Þessi þróun mála er sterk sönnun fyrir því að endirinn er nálægur. Kærleikur til náungans hvetur votta Jehóva til að leggja hart að sér að vara aðra við dómi Guðs sem nálgast óðum. (Matteus 22:39) Sú staðreynd að þú færð þessar upplýsingar er merki um kærleika Guðs til þín. Mundu að Guð „vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar“. (2. Pétursbréf 3:9) Guð sýnir okkur kærleika sinn með því að vara okkur við. Ætlarðu að taka mark á viðvörun hans?

FLÝÐU Í ÖRUGGT SKJÓL!

Mundu hvernig íbúar strandbyggða Simeulue-eyjar flýðu upp í hæðirnar til að leita skjóls um leið og þeir sáu óvenjumikið útstreymi sjávar. Þeir biðu ekki þar til aldan kom til baka. Það varð þeim til lífs að bregðast við án tafar. Í óeiginlegri merkingu þurfum við, áður en það er of seint, að flýja til fjalla til að lifa af komandi þrengingu. Hvernig? Jesaja spámanni var innblásið að rita um áhrifamikla hvatningu sem yrði gefin „á hinum síðustu dögum“, það er að segja á okkar dögum. Hann sagði: „Komið, förum upp á fjall Drottins ... svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ – Jesaja 2:2, 3, Biblían 1981.

Uppi á fjalli fær maður góða yfirsýn og er í ákveðnu öryggi. Á svipaðan hátt gera milljónir manna gagnlegar breytingar á lífi sínu með því að rannsaka Biblíuna og kynnast þannig vegum Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Með því byrja þeir að „ganga á hans stigum“ og njóta þar af leiðandi velþóknunar og verndar Guðs.

Vilt þú þiggja boð Guðs um að hann verndi þig á þessum erfiðu tímum? Í meðfylgjandi rammagrein eru sönnunargögn úr Biblíunni fyrir því að við lifum á „síðustu dögum“. Við hvetjum þig eindregið til að skoða þau vel. Vottar Jehóva í þínu byggðarlagi eru fúsir til að veita þér alla þá aðstoð sem þú þarft til að fá góðan skilning á Biblíunni og að geta heimfært meginreglur hennar á líf þitt. Þú gætir líka fundið svör við spurningum þínum á vefsíðu okkar www.jw.org/is. Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUSPURNINGAR.

a Flóðbylgjan árið 2004 kostaði yfir 220.000 manns lífið. Hún er ein versta flóðbylgja sögunnar.

ATBURÐIR Á HEIMSVÍSU SÝNA AÐ ENDIRINN ER NÁLÆGUR

Stórskotabyssa

HEIMSSTRÍÐ OG VAXANDI ÓSTJÓRN

„Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki ... Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ – Matteus 24:6-8.

Sveltandi börn.

SJÚKDÓMAR OG HUNGUR VÍÐA UM HEIM

„Drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum.“ – Lúkas 21:11.

Prestur í handjárnum.

ÚTBREITT LÖGLEYSI OG TRÚARÓREIÐA

„Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna.“ – Matteus 24:11, 12.

Prestur gefur saman samkynhneigðar konur.

FORDÆMISLAUS SIÐFERÐILEG OG ÞJÓÐFÉLAGSLEG HNIGNUN

„Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir ... guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.

Vottar Jehóva standa við ritatrillu og boða manni fagnaðarerindið.

FAGNAÐARERINDIÐ UM RÍKI GUÐS BOÐAÐ UM ALLAN HEIM

„Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matteus 24:14.

Kona bandar frá sér með hendinni.

ANDSTÆÐINGAR AFNEITA ÞVÍ AÐ ENDIRINN SÉ NÁLÆGUR

„Á síðustu dögum munu koma spottarar er ... segja með spotti: ,Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ – 2. Pétursbréf 3:3, 4.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila