Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.1. bls. 30-31
  • Jehóva Guð okkar er miskunnsamur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva Guð okkar er miskunnsamur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þrjóska Ísraels
  • Þeir uppskera storm!
  • Snúið til Jehóva
  • Höfuðþættir Hóseabókar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Spádómur Hósea er hjálp til að ganga með Guði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Gakktu með Guði og uppskerðu hið góða
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Vegir Jehóva eru réttir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.1. bls. 30-31

Lærdómur frá Ritningunni: Hósea 1:1-14:10

Jehóva Guð okkar er miskunnsamur

JEHÓVA er „Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur.“ (Nehemía 9:17) Hann heldur sér við sína réttlátu staðla en býður þeim sem rangt gera að iðrast og eiga gott samband við sig. Þetta viðhorf kom glögglega fram í því sem Guð sagði fyrir milligöngu spámannsins Hósea við hina ódælu Ísraelsmenn!

Spámaðurinn Hósea lauk ritun þeirrar biblíubókar, sem ber nafn hans, í Samaríuhéraði eftir um 59 ára þjónustu (frá hér um bil 804 f.o.t. fram yfir 745 f.o.t.). Hósea spáði í tíuættkvíslaríkinu Ísrael á dögum Jeróbóams II konungs og Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía Júdakonunga. (Hósea 1:1) Þar eð Ísrael skeytti ekki hvatningum um að iðrast féll þjóðin í hendur Assýringum og höfuðborgin, Samaría, var lögð í rúst árið 740 f.o.t. Þótt spádómur Hósea beindist að þjóðum liðinna alda geymir hann lexíu handa okkur varðandi miskunn Guðs okkar, Jehóva.

Þrjóska Ísraels

Jehóva miskunnar syndara ef hann iðrast af öllu hjarta. (Sálmur 51:19; Orðskviðirnir 28:13) Vilja Guðs til að sýna Ísrael miskunn var lýst með samskiptum Hósea við Gómer, konu sína. Eins og honum var boðið tók hann sér „hórkonu“ fyrir eiginkonu. Eftir að hafa alið Hósea eitt barn ól Gómer tvö önnur, bersýnilega hórgetin. Þrátt fyrir það tók Hósea hana í miskunn sinni til sín aftur. Ísrael var eins og ótrú eiginkona gagnvart Jehóva og þakkaði falsguðinum Baal ranglega blessun sína. En Jehóva var fús til að sýna miskunn ef Ísrael iðraðist andlegs saurlifnaðar síns. — 1:1-3:5.

Syndarar, sem þrá miskunn Guðs, verða að snúa baki við syndsamlegu líferni sínu og laga sig að þekkingunni á Guði. (Sálmur 119:59, 66, 67) Jehóva hafði mál að kæra á hendur Ísraelsmönnum sökum þess að sannleika, elskuríka góðvild og þekkingu á Guði vantaði í landinu. Úr því að þeir höfnuðu þekkingunni ætlaði Jehóva að hafna þeim. Þeir myndu þurfa að svara til saka fyrir skurðgoðadýrkun sína. En sagt var fyrir að þeir myndu leita Guðs þegar ‚að þeim þrengdi.‘ — 4:1-5:15.

Þeir uppskera storm!

Verk samboðin iðrun eru nauðsynleg ef syndarar eiga að njóta miskunnar Guðs. (Postulasagan 26:20) „Vér skulum hverfa aftur til [Jehóva],“ sárbændi Hósea. En elskurík góðvild Ísraels (kallaður Efraím vegna helstu ættkvíslarinnar) og Júda var „eins og döggin, sem snemma hverfur.“ Þjóðin hafði þverbrotið sáttmála Guðs og bar ekki ávöxt samboðin iðrun. „Eins og einföld, óskynsöm dúfa“ leitaði hún liðsinnis Egypta og Assýringa. En þessi stjórnmálalegu bjargráð myndu ekki gera henni meira gagn en „svikull bogi“ sem ekki dygði til að skjóta ör í mark. — 6:1-7:16.

Þeir sem leita miskunnar Jehóva verða að sá því sem gott er til að uppskera það sem gott er. (Galatabréfið 6:7, 8) Þar eð Ísraelsmenn köstuðu frá sér því sem gott var uppskáru þeir það sem illt var. ‚Þeir sáðu vindi og skyldu uppskera storm.‘ Guð myndi „vitja synda þeirra“ og þeir myndu ekki uppskera miskunn hans heldur dóm sér í óhag. Þeir myndu verða „landflótta meðal þjóðanna“ og sigur Assýringa yfir þeim líklega stuðla að því. — 8:1-9:17; 5. Mósebók 28:64, 65; 2. Konungabók 15:29; 17:1-6, 22, 23; 18:9-12; 1. Kroníkubók 5:26.

Við munum halda áfram að njóta góðs af miskunn Guðs aðeins ef við metum að verðleikum það sem heilagt er. (Hebreabréfið 12:14-16) Ísraelsmenn gerðu það ekki. Í stað þess að sá réttlæti og uppskera góðleik plægðu þeir guðleysi og uppskáru ranglæti. Guð kallaði Ísrael frá Egyptalandi eins og son en kærleikur hans var endurgoldinn með svikum og blekkingum. „Þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti,“ ráðlagði Jehóva. En Efraím gerðist sekur um grófa rangsleitni og verðskuldaði ávítur í stað miskunnar. — 10:1-12:14.

Snúið til Jehóva

Jafnvel þeir sem syndga alvarlega geta snúið aftur til Jehóva og hlotið miskunn. (Sálmur 145:8, 9) Hósea vísar aftur til hinnar miklu umhyggju Guðs fyrir Ísrael. Þótt þjóðin hafi snúist gegn Jehóva hét hann því að endurreisa hana og sagði: ‚Ég frelsa þá frá Heljar valdi, leysi þá frá dauða.‘ Samaría (Ísrael) yrði að gjalda uppreisnar sinnar. En Ísraelsmenn voru hvattir til að snúa aftur til Guðs með heilnæm orð á vörum, með ‚ávöxt vara sinna.‘ Spádóminum lýkur með þeirri hughreystingu að hinir vitru og réttlátu, sem ganga á vegum Jehóva, muni njóta miskunnar hans og ástar. — 13:1-14:10.

Lærdómur fyrir okkur: Jehóva sýnir miskunn syndara sem iðrast af öllu hjarta. En syndarar, sem þrá miskunn hans, verða að samlaga sig þekkingunni á Guði og vinna verk samboðin iðruninni. Þeir þurfa að sá því sem gott er og verða að meta að verðleikum það sem heilagt er. Það er mikil hughreysting að vita að jafnvel þeir sem drýgja alvarlega synd geta snúið aftur til hins hæsta með von í brjósti, því að Jehóva, Guð okkar, er miskunnsamur.

[Rammi á blaðsíðu 31]

RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR

○ 2:21-23 — Jesreel merkir „Guð mun sá sæði.“ Jehóva myndi safna saman trúföstum leifum og sá þeim eins og sæði í Júda þar sem til myndi vera korn, sætt vín og olía. Í þágu hinna þurfandi leifa myndu þessar góðu afurðir biðja jörðina að gefa kornleggjunum, vínviðnum og olífutrénum næringu. Jörðin myndi biðja himininn um regn og himinninn myndi biðja Guð að gefa ský þannig að regnið félli.

○ 5:1 — Hinir trúvilltu prestar og konungar Ísraels urðu eins og snara og net fyrir þjóðina með því að tæla hana til falskrar guðsdýrkunar. Taborfjall (vestur af Jórdan) og Mispa (borg austur af Jórdan) voru trúlega miðstöðvar falskrar guðsdýrkunar. Menn iðkuðu skurðgoðadýrkun út um allt Ísraelsland vegna hins slæma fordæmis leiðtoganna sem myndu hljóta dóm af hendi Guðs sér í óhag.

○ 7:4-8 — Hinum hórsömu Ísraelsmönnum var líkt við bakaraofn, greinilega vegna hinna illu langana sem brunnu innra með þeim. Efraím (Ísrael) var einnig líkt við köku, sem bökuð var aðeins öðrum megin, fyrir þá sök að hafa lagt lag sitt við þjóðirnar með því að taka upp háttu þeirra og sækjast eftir bandalögum við þær.

○ 9:10 — Ísraelsmenn ‚helguðu sig svívirðingunni‘ þegar þeir lögðu lag sitt við Baal Peór á Móabsvöllum. (4. Mósebók 25:1-5) Hósea notaði hér hebreskt sagnorð sem merkir „að draga sig í hlé handa einhverjum; að halda sér aðgreindum fyrir einhvern.“ Ísraelsmenn voru vígðir Guði en aðgreindu sig handa Baal Peór. Vera kann að þessa atburðar sé getið vegna þess að Baalsdýrkun var höfuðsynd tíuættkvíslaríkisins. (Hósea 2:8, 13) Megum við taka til okkar þessa viðvörun og brjóta aldrei vígsluheit okkar við Jehóva. — 1. Korintubréf 10:8, 11.

○ 10:5 — Betaven (sem merkir „skaðsemdarhús“) var notað í niðrandi merkingu um Betel sem merkir „hús Guðs.“ Betel hafði verið hús Guðs en breyst í skaðsemdarhús vegna kálfadýrkunarinnar sem þar fór fram. (1. Konungabók 12:28-30) Þegar kálfaskurðgoðið var flutt í útlegð óttaðist fólkið um það. Þetta lífvana skurðgoð gat ekki verndað sjálft sig, hvað þá mennina sem dýrkuðu það. — Sálmur 115:4-8.

○ 13:14 — Jehóva myndi ekki þyrma hinum óhlýðnu Ísraelsmönnum með því að bjarga þeim á þeim tíma undan valdi Heljar eða leysa þá frá dauða. Hann myndi ekki sýna meðaumkun því að þeir verðskulduðu ekki miskunn. En Páll postuli sýndi fram á að Guð myndi að lokum uppsvelgja dauðann að eilífu og gera sigur hans að engu. Jehóva lét mátt sinn til þess birtast með því að vekja Jesú Krist upp frá dauðum og frelsa hann frá valdi Heljar, og þar með gaf hann tryggingu fyrir að sonur hans muni, þegar hann stýrir Guðsríki, reisa upp þá menn sem Guð vill muna eftir. — Jóhannes 5:28, 29.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila