Þolgæði – nauðsynlegt kristnum mönnum
‚Auðsýnið í trú yðar . . . þolgæði.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5, 6.
1, 2. Hvers vegna verðum við öll að vera þolgóð allt til enda?
FARANDHIRÐIRINN og kona hans voru að heimsækja kristinn trúbróður á tíræðisaldri. Hann hafði þjónað í fullu starfi sem boðberi um áratuga skeið. Þegar þau spjölluðu saman rifjaði gamli bróðirinn upp sum af þeim sérréttindum sem hann hafði notið á ævinni. „En núna,“ sagði hann dapur í bragði um leið og tárin tóku að streyma niður kinnar hans, „er ég varla fær um að gera nokkurn skapaðan hlut.“ Farandumsjónarmaðurinn opnaði biblíuna sína og las Matteus 24:13 þar sem haft er eftir Jesú Kristi: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Síðan leit umsjónarmaðurinn á bróðurinn og sagði: „Síðasta verkefnið, sem við öll höfum, óháð því hve mikið eða lítið við getum gert, er að vera þolgóð allt til enda.“
2 Já, sem kristnir menn verðum við öll að vera þolgóð allt þar til þetta heimskerfi eða líf okkar endar. Það er engin önnur leið til að hljóta velþóknun Jehóva til hjálpræðis. Við erum í kapphlaupinu um lífið og verðum að ‚þreyta þolgóð skeiðið‘ uns við komum í mark. (Hebreabréfið 12:1) Pétur postuli lagði áherslu á mikilvægi þessa eiginleika þegar hann hvatti kristna bræður sína: ‚Auðsýnið í trú yðar . . . þolgæði.‘ (2. Pétursbréf 1:5, 6) En hvað, nákvæmlega, er þolgæði?
Þolgæði — það sem það merkir
3, 4. Hvað merkir það að vera þolgóður?
3 Hvað merkir það að vera þolgóður? Gríska sögnin fyrir að „þola“ (hypomeʹno) merkir bókstaflega „að halda kyrru fyrir eða endast undir.“ Hún kemur 17 sinnum fyrir í Biblíunni. Að sögn orðabókarhöfundanna W. Bauers, F. W. Gingrichs og F. Dankers merkir hún „að halda kyrru fyrir í stað þess að flýja . . . , vera staðfastur, halda út.“ Gríska nafnorðið fyrir „þolgæði“ (hypomoneʹ) kemur yfir 30 sinnum fyrir. Um það segir A New Testament Wordbook eftir William Barclay: „Það er það eðlisfar sem getur þolað margt, ekki einfaldlega með uppgjöf heldur með eldheitri von . . . Það er sá eiginleiki sem heldur manni uppistandandi með andlitið upp í vindinn. Það er sú dyggð sem getur umbreytt erfiðustu prófraun í vegsemd vegna þess að handan sársaukans sér hún markið.“
4 Þolgæði gerir okkur því kleift að vera staðföst og missa ekki vonina frammi fyrir hindrunum eða þrengingum. (Rómverjabréfið 5:3-5) Það sér ekki bara yfirstandandi sársauka heldur horfir fram veginn til marksins — verðlaunanna eða þeirrar gjafar sem er eilíft líf, hvort heldur er á himni eða jörð. — Jakobsbréfið 1:12.
Þolgæði — hvers vegna?
5. (a) Hvers vegna þarfnast allir kristnir menn þolgæðis? (b) Í hvaða tvo flokka má skipta prófraunum okkar?
5 Sem kristnir menn höfum við öll ‚þörf fyrir þolgæði.‘ (Hebreabréfið 10:36) Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að við ‚rötum í ýmiss konar raunir.‘ Gríski textinn hér í Jakobsbréfinu 1:2 gefur til kynna óvænt eða óvelkomin atvik eins og til dæmis þegar maður stendur frammi fyrir ræningja. (Samanber Lúkas 10:30.) Við verðum fyrir prófraunum sem skipta má í tvo flokka: þær sem allir menn verða fyrir og stafa af erfðasyndinni og þær sem koma til vegna guðrækni okkar. (1. Korintubréf 10:13; 2. Tímóteusarbréf 3:12) Hvaða prófraunir eru það meðal annars?
6. Hvernig var einn vottur þolgóður þegar hann átti við kvalafullan sjúkdóm að stríða?
6 Alvarleg veikindi. Líkt og Tímóteus þurfa sumir kristnir menn að þola ‚tíð veikindi.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:23) Einkum þurfum við að vera þolgóð og staðföst með Guðs hjálp þegar við eigum við að stríða langvinn, ef til vill mjög kvalafull veikindi, og missa ekki sjónar á kristinni von okkar. Tökum sem dæmi liðlega fimmtugan vott sem háði langa og stranga baráttu við hraðvaxta, illkynja æxli. Gegnum tvo uppskurði var hann staðfastur í þeim ásetningi að þiggja ekki blóðgjöf. (Postulasagan 15:28, 29) En æxlið birtist á nýjan leik í kviðarholi hans og hélt áfram að vaxa í grennd við mænuna. Því fylgdu ólýsanlegar, líkamlegar kvalir sem engin lyf gátu linað. Þrátt fyrir það einblíndi hann ekki á yfirstandandi kvalir heldur horfði fram til þeirra verðlauna að hljóta eilíft líf í nýja heiminum. Hann hélt áfram að deila eldheitri von sinni með læknum, hjúkrunarfræðingum og gestum. Hann hélt út allt til enda — uns lífi hans lauk. Heilsuvandamál þín eru kannski ekki jafn-lífshættuleg eða sársaukafull og þau sem þessi ástkæri bróðir átti í höggi við, en þau geta engu að síður verið mikil þolgæðisprófraun.
7. Hvers konar sársauka þurfa sumir andlegir bræður okkar og systur að þola?
7 Tilfinningalegur sársauki. Við og við verða sumir þjónar Jehóva fyrir „hryggð í hjarta“ sem veldur því að „hugurinn [verður] dapur.“ (Orðskviðirnir 15:13) Alvarlegt þunglyndi er ekki óalgengt á þessum ‚örðugu tíðum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Tímaritið Science News sagði þann 5. desember 1992: „Alvarlegt þunglyndi, sem gerir fólk oft ósjálfbjarga, hefur orðið æ tíðara með hverri kynslóð sem fæðst hefur frá 1915.“ Orsakir slíks þunglyndis eru breytilegar, allt frá því að vera lífeðlisfræðilegar til sérlega erfiðrar lífsreynslu. Fyrir suma kristna menn felur þolgæði í sér daglega baráttu til að vera staðfastir andspænis tilfinninglegum sársauka. Samt gefast þeir ekki upp. Þeir eru trúfastir Jehóva áfram þrátt fyrir tárin. — Samanber Sálm 126:5, 6.
8. Hvaða fjárhagslegum prófraunum getum við lent í?
8 Hinar ýmsu prófraunir, sem mæta okkur, geta meðal annars verið alvarlegir fjárhagserfiðleikar. Þegar bróðir í New Jersey í Bandaríkjunum varð skyndilega atvinnulaus hafði hann skiljanlega verulegar áhyggjur af því hvernig hann gæti séð fjölskyldu sinni farborða og haldið húsnæði sínu. Hann missti samt sem áður ekki sjónar á voninni um Guðsríki. Meðan hann var að leita að annarri vinnu notaði hann tækifærið til að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi. Um síðir fann hann aðra vinnu. — Matteus 6:25-34.
9. (a) Hvernig getur ástvinamissir kallað á þolgæði? (b) Hvaða ritningarstaðir sýna að það er ekki rangt að fella sorgartár?
9 Ef þú hefur misst ástvin í dauðann þarft þú að vera þolgóður löngu eftir að allir í kringum þig hafa tekið aftur upp sínar daglegu venjur. Þú getur átt sérstaklega erfitt á hverju ári um það leyti sem ástvinur þinn dó. Að þola slíkan missi þýðir ekki að það sé rangt að fella sorgartár. Það er eðlilegt að syrgja dauða þess sem við elskuðum og það ber á engan hátt vitni um að okkur skorti trú á upprisuvonina. (1. Mósebók 23:2; samanber Hebreabréfið 11:19.) Jesús „grét“ eftir að Lasarus dó þótt hann hefði sagt Mörtu með sannfæringu: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Og Lasarus reis upp! — Jóhannes 11:23, 32-35, 41-44.
10. Hvers vegna hefur fólk Jehóva sérstaka þörf fyrir þolgæði?
10 Auk þess að þola þær prófraunir sem allir menn verða fyrir hefur fólk Jehóva sérstaka þörf fyrir þolgæði. „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns,“ aðvaraði Jesús. (Matteus 24:9) Hann sagði líka: „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Hvers vegna allt þetta hatur og ofsóknir? Vegna þess að óháð því hvar við búum á jörðinni sem þjónar Guðs reynir Satan að brjóta á bak aftur ráðvendni okkar við Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8; samanber Opinberunarbókina 12:17.) Í því skyni hefur Satan oft blásið upp ofsóknir og reynt alvarlega á þolgæði okkar.
11, 12. (a) Hvaða þolgæðisprófraun áttu vottar Jehóva og börn þeirra í á fjórða áratugnum og í byrjun þess fimmta? (b) Hvers vegna heilsa vottar Jehóva ekki þjóðtákninu?
11 Til dæmis urðu vottar Jehóva og börn þeirra í Bandaríkjunum og Kanada skotspónn harðra ofsókna á fjórða áratugnum og í byrjun þess fimmta vegna þess að þau heilsuðu ekki þjóðtákninu samvisku sinnar vegna. Vottarnir virða tákn þeirrar þjóðar þar sem þeir búa, en fara eftir meginreglunni sem sett er fram í lögmáli Guðs í 2. Mósebók 20:4, 5: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, [Jehóva] Guð þinn, er vandlátur Guð [„Guð sem krefst óskiptrar hollustu,“ NW].“ Þegar sumum skólabörnum meðal votta Jehóva var vísað úr skóla af því að þau vildu beina tilbeiðslu sinni að Jehóva Guði einum tóku vottarnir að starfrækja Guðsríkisskóla til að sjá þeim fyrir fræðslu. Þessir nemendur sneru aftur til almennra ríkisskóla þegar hæstiréttur Bandaríkjanna viðurkenndi trúarlega afstöðu þeirra líkt og upplýstar þjóðir gera nú á tímum. En hugrekki og þolgæði þessara barna og unglinga er frábært fordæmi, einkum kristnum ungmennum sem nú á dögum verða kannski fyrir háði og spotti af því að þau leggja sig fram um að lifa eftir stöðlum Biblíunnar. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
12 Hinar ýmsu prófraunir sem mæta okkur — bæði þær sem allir verða fyrir og þær sem við eigum í vegna kristinnar trúar okkar — gefa til kynna hvers vegna við þurfum að vera þolgóð. En hvernig getum við verið þolgóð?
Þolgóð allt til enda — hvernig?
13. Hvernig veitir Jehóva þolgæði?
13 Fólk Guðs stendur greinilega betur að vígi en þeir sem tilbiðja ekki Jehóva. Til hjálpar getum við ákallað „Guð, sem veitir þolgæðið.“ (Rómverjabréfið 15:5) En hvernig veitir Jehóva þolgæði? Ein leið hans til þess er með þeim fordæmum um þolgæði sem orð hans, Biblían, segir frá. (Rómverjabréfið 15:4) Þegar við íhugum þau er það okkur ekki aðeins hvatning til þess að vera þolgóð heldur lærum við einnig margt um það hvernig sé hægt að halda út. Hugleiðum tvö dæmi sem skera sig úr — hið hugrakka þolgæði Jobs og lýtalaust þolgæði Jesú Krists. — Hebreabréfið 12:1-3; Jakobsbréfið 5:11.
14, 15. (a) Hvaða prófraunir mátti Job þola? (b) Hvernig gat Job haldið út þær prófraunir sem hann átti í?
14 Hvaða kringumstæður reyndu á þolgæði Jobs? Hann lenti í fjárhagserfiðleikum þegar hann missti mestallar eigur sínar. (Jobsbók 1:14-17; samanber Jobsbók 1:3.) Job fann fyrir þeim sársauka sem fylgir ástvinamissi þegar öll tíu börn hans fórust í fellibyl. (Jobsbók 1:18-21) Hann fékk alvarlegan og mjög kvalafullan sjúkdóm. (Jobsbók 2:7, 8; 7:4, 5) Eiginkona hans þrýsti á hann um að snúa baki við Guði. (Jobsbók 2:9) Nánir félagar sögðu ýmislegt særandi, óvingjarnlegt og ósatt. (Berðu saman Jobsbók 16:1-3 og Jobsbók 42:7.) Í gegnum allt þetta var Job samt sem áður staðfastur og varðveitti ráðvendni. (Jobsbók 27:5) Það sem hann þoldi er áþekkt þeim prófraunum sem fólk Jehóva á við að glíma nú á dögum.
15 Hvernig gat Job haldið út allar þessar prófraunir? Eitt sem öðru fremur hélt Job gangandi var von. „Því að tréð hefir von,“ sagði hann. „Sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.“ (Jobsbók 14:7) Hvaða von hafði Job? Eins og fram kemur fáeinum versum síðar sagði hann: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Já, Job horfði lengra en til yfirstandandi sársauka síns. Hann vissi að prófraunir hans myndu ekki standa eilíflega. Í versta falli yrði hann að halda út til dauða. Von og eftirvænting hans var sú að Jehóva, sem þráir í kærleika sínum að reisa upp dána, myndi vekja hann aftur til lífs. — Postulasagan 24:15.
16. (a) Hvað lærum við um þolgæði af fordæmi Jobs? (b) Hve raunveruleg verður vonin um Guðsríki að vera okkur og hvers vegna?
16 Hvað lærum við af þolgæði Jobs? Til að vera þolgóð allt til enda megum við aldrei missa sjónar á von okkar. Munum líka að vonin um Guðsríki er áreiðanleg sem merkir að hverjar þær þjáningar, sem við verðum fyrir, eru tiltölulega ‚skammvinnar.‘ (2. Korintubréf 4:16-18) Dýrmæt von okkar hvílir traustlega á fyrirheitum Jehóva um þann tíma í náinni framtíð þegar „hann mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þessi von, sem „bregst oss ekki,“ verður að varðveita hugsun okkar. (Rómverjabréfið 5:4, 5; 1. Þessaloníkubréf 5:8) Hún verður að vera okkur raunveruleg — svo raunveruleg að við getum með augum trúarinnar séð okkur í nýja heiminum — þar sem við erum ekki lengur að berjast við sjúkdóma og þunglyndi heldur vöknum dag hvern heilsuhraust og skýr í huga, höfum ekki lengur áhyggjur af alvarlegum fjárhagserfiðleikum heldur búum við öryggi, syrgjum ekki lengur látna ástvini heldur njótum þeirrar spennandi reynslu að sjá þá reista upp. (Hebreabréfið 11:1) Án slíkrar vonar geta núverandi prófraunir orðið svo yfirþyrmandi að við gefumst upp. Vonin er okkur geysiöflugur hvati til að halda áfram að berjast, halda þolgóð áfram allt til enda!
17. (a) Hvaða prófraunir þoldi Jesús? (b) Hvað er hugsanlega vísbending um þær gífurlegu þjáningar sem Jesús þoldi? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
17 Biblían hvetur okkur til að ‚beina sjónum vorum‘ til Jesú og ‚virða hann fyrir okkur.‘ Hvaða prófraunir þoldi hann? Sumar þeirra komu til af synd og ófullkomleika annarra. Jesús þoldi ekki aðeins „fjandskap gegn sér af syndurum“ heldur líka vandamál sem komu upp meðal lærisveina hans, meðal annars endurteknar þrætur þeirra um hver væri þeirra mestur. Auk þess varð trú hans fyrir prófraun sem á sér enga hliðstæðu. Hann „leið . . . þolinmóðlega á krossi.“ (Hebreabréfið 12:1-3; Lúkas 9:46; 22:24) Það er erfitt jafnvel að ímynda sér þá hugar- og líkamskvöl sem er samfara staurfestingu og þeirri smán að vera líflátinn sem guðlastari.a
18. Hvað tvennt hélt Jesú uppi að sögn Páls postula?
18 Hvað gerði Jesú kleift að halda út allt til enda? Páll postuli nefnir tvennt sem hélt Jesú uppi: „Bænir og auðmjúk andvörp“ og einnig ‚gleði þá er beið hans.‘ Jesús, fullkominn sonur Guðs, skammaðist sín ekki fyrir að biðja um hjálp. Hann bað „með sárum kveinstöfum og táraföllum.“ (Hebreabréfið 5:7; 12:2) Sérstaklega þegar mesta prófraun hans nálgaðist reyndist honum nauðsynlegt að biðja oft og ákaft um styrk. (Lúkas 22:39-44) Jehóva svaraði ekki bænum Jesú með því að forða honum frá prófrauninni heldur styrkti hann Jesú til að halda hana út. Jesús var líka þolgóður af því að hann horfði handan yfir kvalastaurinn til launanna — þeirrar gleði sem hann hefði af því að stuðla að helgun nafns Jehóva og að kaupa mannkynið undan dauðanum. — Matteus 6:9; 20:28.
19, 20. Hvernig hjálpar fordæmi Jesú okkur að að vera raunsæ í viðhorfum til þess hvað felist í þolgæði?
19 Við lærum fjöldamargt af fordæmi Jesú til að hjálpa okkur að vera raunsæ í viðhorfum til þess hvað felist í þolgæði. Braut þolgæðisins er ekki auðveld. Ef okkur finnst erfitt að halda út vissar prófraunir er hughreystandi að vita að jafnvel Jesú fannst það. Til að vera þolgóð allt til enda verðum við að biðja aftur og aftur um styrk. Þegar við eigum í prófraun getur okkur stundum fundist við óverðug þess að biðja. En Jehóva býður okkur að úthella hjörtum okkar fyrir sér ‚því að hann ber umhyggju fyrir okkur.‘ (1. Pétursbréf 5:7) Og vegna þess sem Jehóva hefur lofað í orði sínu hefur hann skuldbundið sig til að gefa þeim sem ákalla hann í trú „ofurmagn kraftarins.“ — 2. Korintubréf 4:7-9.
20 Stundum verðum við að halda út með tárum. Þjáningar Jesú á kvalastaurnum voru ekki í sjálfu sér gleðiefni fyrir hann. Gleðin fólst í laununum sem biðu hans. Hvað okkur varðar er ekki raunhæft að búast við að við séum alltaf í góðu skapi og í sjöunda himni þegar við eigum í prófraun. (Samanber Hebreabréfið 12:11.) Með því að horfa fram til launanna getum við þó kannski álitið það „eintómt gleðiefni“ jafnvel að lenda í erfiðustu prófraunum. (Jakobsbréfið 1:2-4; Postulasagan 5:41) Það sem máli skiptir er að vera staðföst — jafnvel þótt það verði að vera með tárum. Þegar allt kemur til alls sagði Jesús ekki að ‚sá sem úthellti fæstum tárum myndi hólpinn verða‘ heldur „sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:13.
21. (a) Hvað erum við hvött í 2. Pétursbréfi 1:5, 6 til að auðsýna í þolgæði okkar? (b) Hvaða spurningar er fjallað um í næstu grein?
21 Þolgæði er því lífsnauðsynlegt til að hljóta hjálpræði. Í 2. Pétursbréfi 1:5, 6 erum við samt sem áður hvött til að auðsýna guðrækni í þolgæði okkar. Hvað er guðrækni? Hvernig tengist hún þolgæði og hvernig getur þú orðið guðrækinn? Um þessar spurningar er fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Hve gríðarlegar þjáningar Jesús þoldi má hugsanlega sjá af því að fullkominn líkami hans lét undan eftir aðeins fáeinar klukkustundir á kvalastaurnum, en fótbrjóta þurfti illvirkjana, sem voru staurfestir honum við hlið, til að flýta fyrir dauða þeirra. (Jóhannes 19:31-33) Þeir höfðu ekki þurft að þola þær andlegu og líkamlegu þjáningar sem lagðar voru á Jesú alla nóttina áður en hann var staurfestur, en þá fékk hann engan svefn. Vera kann að þetta hafi reynt svo á hann að hann gat ekki einu sinni borið kvalastaur sinn. — Markús 15:15, 21.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað merkir það að vera þolgóður?
◻ Hvers vegna hefur fólk Jehóva sérstaka þörf fyrir þolgæði?
◻ Hvað gerði Job kleift að vera þolgóður?
◻ Hvernig hjálpar fordæmi Jesú okkur að vera raunsæ í viðhorfum til þolgæðis?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Guðsríkisskólar voru starfræktir til að kenna kristnum börnum sem vísað var úr skóla fyrir að beina tilbeiðslu sinni að Jehóva einum.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jesús var staðráðinn í að heiðra föður sinn og bað um styrk til að vera þolgóður.