Endi bundinn á hatur um allan heim
FYRIR um það bil tvö þúsund árum var til hataður minnihlutahópur. Tertúllíanus greinir svo frá að afstaða Rómverja til frumkristinna manna hafi yfirleitt verið á þessa leið: „Ef ekki kemur regn af himni, ef jarðskjálfti ríður yfir, ef hungurneyð eða drepsótt geisar, þá er strax hrópað: ‚Hendum kristnum mönnum fyrir ljónin.‘“
Þótt frumkristnir menn væru hataðir stóðust þeir freistinguna að hefna ranglætisins. Jesús Kristur sagði í sinni frægu fjallræðu: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘ En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ — Matteus 5:43, 44.
Það var erfikenning Gyðinga sem kvað á um að rétt væri að ‚hata óvin sinn‘. En Jesús sagði að við yrðum að elska óvini okkar, ekki bara vini. Það er erfitt en ekki ógerlegt. Að elska óvin sinn merkir ekki að geðjast að öllu hátterni hans eða verkum. Gríska orðið, sem notað er í frásögn Matteusar, er dregið af agaʹpe sem lýsir þeim kærleika er stjórnast af meginreglum. Sá maður, sem sýnir agaʹpe eða kærleika byggðan á meginreglum, gerir jafnvel gott þeim óvini sem hatar hann og misþyrmir honum. Hvers vegna? Vegna þess að þannig líkir hann eftir Kristi og það er leiðin til að sigrast á hatri. Grískufræðingur nokkur sagði: „[Agaʹpe] gerir okkur kleift að sigrast á náttúrlegri tilhneigingu okkar til reiði og beiskju.“ En dugir það í hatursfullum heimi nútímans?
Vissulega eru ekki allir sem segjast vera kristnir ákveðnir í að fylgja fordæmi Krists. Grimmdarverkin í Rúanda nú fyrir skemmstu voru verk þjóðernishópa og margir hermdarverkamannanna játuðu kristna trú. Pilar Díez Espelosín, rómversk-kaþólsk nunna sem starfað hefur í Rúanda í 20 ár, greindi frá lýsandi dæmi um þetta. Maður nálgaðist kirkjuna hennar og mundaði spjót sem hann hafði augljóslega verið að nota. Nunnan spurði hann: „Hvernig geturðu farið um og drepið fólk? Hugsarðu ekkert um Krist?“ Hann kvaðst gera það, gekk inn í kirkjuna, kraup á kné og þuldi Maríubænir og faðirvorið í sífellu með miklum trúarhita. Að því loknu fór hann sína leið til að halda manndrápunum áfram. „Þetta sýnir að við kennum ekki fagnaðarerindið rétt,“ viðurkenndi nunnan. En þótt þeim hafi mistekist það merkir það ekki að boðskapur Jesú sé gallaður. Þeir sem ástunda sanna kristni geta sigrast á hatri.
Sigrast á hatri í fangabúðum
Max Liebster er Gyðingur sem lifði helförina af. Þótt eftirnafn hans merki „elskaður“ hefur hann séð meira en sinn skerf af hatri. Hann lýsir því sem hann lærði í Þýskalandi nasismans um kærleika og hatur.
„Ég ólst upp á fjórða áratugnum í grennd við Mannheim í Þýskalandi. Hitler hélt því fram að allir Gyðingar væru ríkir gróðahyggjumenn sem arðrændu þýsku þjóðina. Sannleikurinn er sá að faðir minn var bara fátækur skósmiður. En vegna áróðurs nasista tóku nágrannarnir að snúast gegn okkur. Þegar ég var táningur tók einn þorpsbúi mig með valdi og makaði svínablóði á enni mér. Þessi freklega móðgun var bara forsmekkur þess sem koma skyldi. Árið 1939 handtóku Gestapó-menn mig og gerðu allar eigur mínar upptækar.
Frá janúar 1940 fram til maí 1945 barðist ég við að halda í mér lífinu í fimm fangabúðum: Sachsenhausen, Neuengamme, Auschwitz, Buna og Buchenwald. Faðir minn, sem var líka sendur til Sachsenhausen, dó veturinn 1940 sem var hræðilegur vetur. Sjálfur bar ég lík hans í líkbrennsluna þar sem líkin lágu í haug og biðu brennslu. Alls dóu átta ættingjar mínir í búðunum.
Fangarnir hötuðu kapóana enn meir en SS-verðina. Kapóarnir voru fangar sem unnu með SS-mönnum og nutu vissra forréttinda. Þeir höfðu umsjón með matarskömmtun og sáu einnig um að hýða hina fangana. Oft voru þeir ósanngjarnir og gerræðislegir. Ég hef sjálfsagt haft ærið tilefni til að hata bæði SS-mennina og kapóana, en meðan ég var fangi komst ég að raun um að kærleikur er sterkari en hatur.
Hugprýði fanga, sem voru vottar Jehóva, sannfærði mig um að trú þeirra væri byggð á Biblíunni — og ég gerðist sjálfur vottur. Ernst Wauer, vottur sem ég hitti í fangabúðunum í Neuengamme, hvatti mig til að rækta með mér hugarfar Krists. Biblían segir að ‚hann hafi eigi illmælt aftur, er honum var illmælt, og eigi hótað, er hann leið, heldur gefið það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.‘ (1. Pétursbréf 2:23) Ég reyndi að gera það líka og láta Guð, sem er dómari allra, um hefndina.
Árin, sem ég var í fangabúðunum, kenndu mér að fáfræði er oft undirrót vonskuverka. SS-mennirnir voru ekki allir slæmir — einn þeirra bjargaði lífi mínu. Ég fékk eitt sinn bráða niðurgangspest og var of veikburða til að ganga frá vinnustað mínum til búðanna. Það átti að senda mig í gasklefann í Auschwitz morguninn eftir en SS-vörður, sem var frá sama svæði í Þýskalandi og ég, kom mér til bjargar. Hann útvegaði mér vinnu í mötuneyti SS-mannanna þar sem ég gat hvílst dálítið uns ég náði mér. Dag einn viðurkenndi hann fyrir mér: ‚Max, mér finnst ég vera í stjórnlausri járnbrautarlest á fleygiferð. Ef ég stekk af lestinni dey ég. Ef ég geri það ekki ferst ég með henni.‘
Þetta fólk var kærleiksþurfi ekki síður en ég. Það var reyndar kærleikur og meðaumkun, ásamt trú minni á Guð, sem gerði mér kleift að þola þessar ömurlegu aðstæður og hina daglegu aftökuógnun. Ég get ekki sagt að ég hafi komist óskaddaður úr þessu en tilfinningaörin voru hverfandi.“
Max geislar enn af hlýju og góðvild 50 árum síðar sem er talandi vitnisburður um sannleiksgildi orða hans. Max er ekkert einsdæmi. Hann hafði ærna ástæðu til að sigrast á hatri — hann vildi líkjast Kristi. Aðrir, sem hafa haft Biblíuna að leiðarljósi í lífinu, hafa gert slíkt hið sama. Simone, vottur Jehóva frá Frakklandi, segir frá því hvernig hún komst að raun um hvað óeigingjarn kærleikur merkir í reynd.
„Móðir mín, Emma, sem gerðist vottur skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina, kenndi mér að fólk gerir oft það sem illt er vegna þess að það veit ekki betur. Hún útskýrði fyrir mér að ef við hötuðum það á móti værum við ekki sannkristin, því að Jesús sagði að við ættum að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. — Matteus 5:44.
Ég man eftir mjög erfiðum aðstæðum þar sem reyndi á þessa sannfæringu. Meðan Frakkland var hernumið af nasistum mátti mamma þola margt illt af hendi nágrannakonu í húsinu þar sem við bjuggum. Hún klagaði mömmu fyrir Gestapó þannig að hún var tvö ár í fangabúðum í Þýskalandi og var næstum dáin þar. Eftir stríðið vildi franska lögreglan fá mömmu til að skrifa undir skjal þar sem þessi kona var sökuð um samstarf við Þjóðverja. En mamma neitaði því og sagði að ‚Guð væri dómarinn og umbunaði fyrir gott og illt.‘ Fáeinum árum síðar fékk þessi sama grannkona ólæknandi krabbamein. Í stað þess að hlakka yfir óförum hennar eyddi mamma mörgum klukkustundum í að gera henni lífið sem þægilegast síðustu mánuðina sem hún lifði. Ég gleymi aldrei þessum sigri kærleikans yfir hatrinu.“
Þessi tvö dæmi sýna mátt kærleika byggðan á meginreglum andspænis ranglætinu. En Biblían segir sjálf að ‚það hafi sinn tíma að elska og sinn tíma að hata.‘ (Prédikarinn 3:1, 8) Hvernig má það vera?
Að hata hefur sinn tíma
Guð fordæmir ekki allt hatur. Biblían segir um Jesú Krist: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.“ (Hebreabréfið 1:9) En það er munur á því að hata hið ranga og að hata þann sem fremur það.
Jesús var lifandi dæmi um rétta jafnvægið milli kærleika og haturs. Hann hataði hræsni en reyndi að hjálpa hræsnurum að breyta hugsunarhætti sínum. (Matteus 23:27, 28; Lúkas 7:36-50) Hann fordæmdi ofbeldi en bað fyrir þeim sem líflétu hann. (Matteus 26:52; Lúkas 23:34) Og enda þótt heimurinn hataði hann án saka lagði hann líf sitt í sölurnar til að veita heiminum líf. (Jóhannes 6:33, 51; 15:18, 25) Hann gaf okkur fullkomið fordæmi um kærleika byggðan á meginreglum og um guðrækilegt hatur.
Ranglæti getur vakið með okkur réttláta reiði eins og með Jesú. (Lúkas 19:45, 46) En kristnir menn hafa ekki leyfi til að hefna sín sjálfir. „Gjaldið engum illt fyrir illt,“ ráðlagði Páll postuli kristnum mönnum í Róm. „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir . . . Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ (Rómverjabréfið 12:17-21) Þegar við neitum sjálf að ala hatur í brjósti eða að hefna ranginda, þá sigrar kærleikurinn.
Heimur án haturs
Rótgróin viðhorf milljóna manna þurfa að breytast til að hatur hverfi úr heiminum. Hvernig getur það orðið? Prófessor Ervin Staub mælir með eftirfarandi: „Við metum lítils þá sem við vinnum mein og mikils þá sem við hjálpum. Þegar við lærum að meta meir þá sem við hjálpum og njótum þeirrar fullnægju, sem fylgir því að hjálpa, þá förum við líka að sjá okkur sem umhyggjusamari og hjálpsamari. Eitt af markmiðum okkar hlýtur að vera að skapa þjóðfélög þar sem flestir taka þátt í að annast aðra.“ — The Roots of Evil.
Til að útrýma hatri þarf með öðrum orðum að skapa þjóðfélag þar sem fólk lærir kærleika með því að hjálpa hvert öðru, þjóðfélag þar sem fólk gleymir allri óvináttunni sem orsakast af fordómum, þjóðernishyggju, kynþáttahatri og ættflokkaríg. Er slíkt þjóðfélag til? Lestu frásögu manns sem kynntist hatri af eigin raun í menningarbyltingunni í Kína.
„Þegar menningarbyltingin hófst var okkur kennt að tilslakanir ættu ekki heima í ‚stéttabaráttunni.‘ Hatur var hin ríkjandi tilhneiging. Ég gerðist rauður varðliði og tók að leita alls staðar að ‚stéttaróvinum‘ — jafnvel meðal ættingja minna. Þótt ég væri bara táningur þá tók ég þátt í húsleitum þar sem við reyndum að finna verksummerki um ‚afturhaldssinna.‘ Ég stjórnaði líka opinberum fundi þar sem ‚andbyltingarmaður‘ var fordæmdur. Þessar ákærur byggðust auðvitað stundum meira á persónulegri óvild en stjórnmálaástæðum.
Ég sá marga — unga og gamla, karla og konur — sæta líkamlegri refsingu sem varð æ grimmari. Gengið var fylktu liði með einn af skólakennurum mínum — sem var góður maður — um göturnar eins og ótíndan glæpamann. Tveim mánuðum síðar fannst annar virtur kennari í skólanum mínum látinn í Sútsjá-ánni og enskukennarinn minn neyddist til að hengja sig. Ég var harmi lostinn og ráðvilltur. Þetta var góðhjartað fólk. Það var rangt að fara svona með það! Ég sleit því öll tengsl við rauðu varðliðana.
Ég held ekki að þessi hatursbylgja, sem gekk skamma stund yfir Kína, hafi verið einsdæmi. Hatur hefur brotist svo oft út á þessari öld. Ég er hins vegar sannfærður um að kærleikur getur sigrað hatrið. Það hef ég séð sjálfur. Þegar ég byrjaði að hafa samband við votta Jehóva hreifst ég af þeim ósvikna kærleika sem þeir sýndu fólki af ólíkum kynþáttum og uppruna. Ég hlakka til þess tíma þegar allir menn hafa lært að elska hver annan eins og Biblían lofar.“
Já, alþjóðasamfélag votta Jehóva er lifandi sönnun fyrir því að hægt er að útrýma hatri. Óháð uppruna sínum kappkosta vottarnir að láta fordóma víkja fyrir gagnkvæmri virðingu, og að uppræta sérhvern snefil af ættflokkaríg, kynþáttahatri eða þjóðernishyggju. Ein ástæðan fyrir góðum árangri þeirra er sú að þeir eru staðráðnir í að líkja eftir Jesú Kristi í því að sýna kærleika sem stjórnast af meginreglum. Önnur ástæða er sú að þeir sjá fram á að Guðsríki bindi enda á allt það ranglæti sem þeir mega þola.
Guðsríki er hin endanlega lausn, leið til að skapa heim án haturs, heim þar sem ekki verður einu sinni til nein illska til að hata. Þessi himneska stjórn, sem Biblían kallar ‚nýjan himin,‘ mun tryggja að heimurinn verði laus við ranglæti. Hún mun ríkja yfir ‚nýrri jörð‘ eða nýju samfélagi manna sem hefur verið kennt að elska hver annan. (2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 54:13) Þessari menntun miðar vel áfram eins og frásögur Max, Simone og margra annarra bera vitni um. Hún er forsmekkur framkvæmdaáætlunar um allan heim til að uppræta hatur og orsakir þess.
Jehóva lýsir árangrinum fyrir munn spámannsins Jesaja: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Guð hefur þá sjálfur boðað endalok hatursins. Þá hefur það sannarlega sinn tíma að elska.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Nasistar stungu fanganúmer á vinstri handlegg Max Liebsters.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Hatur heyrir bráðlega fortíðinni til.