Verður þú trúfastur eins og Elía?
„Ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ — MALAKÍ 4:5.
1. Hvaða kreppa skellur á eftir að Ísrael hefur verið í fyrirheitna landinu í meira en 500 ár?
‚LAND sem flýtur í mjólk og hunangi.‘ (2. Mósebók 3:7, 8) Það var það sem Jehóva Guð gaf Ísraelsmönnum eftir að hann frelsaði þá úr ánauð í Egyptalandi á 16. öld f.o.t. En nú eru meira en fimm aldir liðnar og tíuættkvíslaríkið Ísrael er í helgreipum mikillar hungursneyðar. Grængresi er meira að segja vandfundið. Skepnur eru að deyja og ekkert hefur rignt í þrjú og hálft ár. (1. Konungabók 18:5; Lúkas 4:25) Hvað veldur þessum hörmungum?
2. Hvað veldur kreppunni í Ísrael?
2 Það er fráhvarf sem veldur kreppunni. Akab konungur hefur gifst kanversku prinsessunni Jesebel í bága við lögmál Guðs og leyft henni að koma á Baalsdýrkun í Ísrael. Það sem verra er, hann hefur reist þessum falsguði musteri í höfuðborginni Samaríu. Ísraelsmenn hafa meira að segja látið tælast til að trúa að Baalsdýrkun færi þeim ríkulega uppskeru! En eins og Jehóva hefur varað við eiga þeir nú á hættu að „eyðast úr landinu góða.“ — 5. Mósebók 7:3, 4; 11:16, 17; 1. Konungabók 16:30-33.
Stórbrotið próf á guðdómi
3. Hvernig beinir spámaðurinn Elía athyglinni að raunverulegu vandamáli Ísraels?
3 Þegar hungursneyðin hefst segir Elía, trúfastur spámaður Guðs, Akab konungi: „Svo sannarlega sem [Jehóva], Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi.“ (1. Konungabók 17:1) Eftir að konungur hefur fundið fyrir hræðilegri uppfyllingu þessarar yfirlýsingar sakar hann Elía um að hafa valdið Ísrael skaða. En Elía svarar því til að það sé Akab og ætt hans að kenna vegna fráhvarfs þeirra og Baalsdýrkunar. Til að gera út um málið hvetur spámaðurinn Akab konung til að safna öllum Ísrael saman á Karmelfjalli ásamt 450 spámönnum Baals og 400 aséruspámönnum. Akab og þegnar hans koma þar saman, kannski í von um að nú verði endi bundinn á þurrkinn. En Elía beinir athyglinni að mikilvægara máli. „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða?“ spyr hann. „Sé [Jehóva] hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ Ísraelsmenn vita ekki hverju svara skuli. — 1. Konungabók 18:18-21.
4. Hverju stingur Elía upp á til að útkljá deiluna um guðdóm?
4 Árum saman hafa Ísraelsmenn reynt að blanda tilbeiðslu Jehóva saman við Baalsdýrkun. Elía leggur nú til ákveðið próf til að útkljá deiluna um guðdóminn. Hann ætlar að búa ungnaut til fórnar og spámenn Baals annað. Síðan segir Elía: „Ákallið . . . nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn [Jehóva]. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð.“ (1. Konungabók 18:23, 24) Ímyndaðu þér eld koma af himni til svars við bæn!
5. Hvernig er Baalsdýrkunin afhjúpuð?
5 Elía býður Baalsspámönnunum að byrja. Þeir búa naut til fórnar og leggja á altarið. Síðan haltra þeir kringum altarið og biðja: „Baal, svara þú oss!“ Þessu heldur fram „frá morgni og til hádegis.“ „Kallið hárri röddu,“ segir Elía háðslega. Baal hlýtur að vera upptekinn af einhverju aðkallandi máli eða „ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna.“ Brátt rennur æði á Baalsspámennina. Sjáðu! Þeir skera sig með sverðum og blóðið streymir úr sárunum. Og hávaðinn er ekki lítill þegar allir spámennirnir 450 hrópa eins hátt og þeir geta! En þeir fá ekkert svar. — 1. Konungabók 18:26-29.
6. Hvernig undirbýr Elía það að láta reyna á guðdóm Jehóva?
6 Nú er komið að Elía. Hann endurreisir altari Jehóva, gerir skurð umhverfis það og útbýr fórnina. Síðan lætur hann hella vatni yfir viðinn og fórnina. Tólf stórum kerum af vatni er hellt yfir altarið uns skurðurinn fyllist. Ímyndaðu þér eftirvæntinguna þegar Elía biður: „[Jehóva], Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. Bænheyr mig, [Jehóva]! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, [Jehóva], ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra.“ — 1. Konungabók 18:30-37.
7, 8. (a) Hvernig svarar Jehóva bæn Elía? (b) Hvað ávinnst með atburðunum á Karmelfjalli?
7 Til svars við bæn Elía ‚fellur eldur Jehóva niður og eyðir brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og þurrkar upp vatnið í skurðinum.‘ Þá fellur fólkið fram á andlit sér og segir: „[Jehóva] er hinn sanni Guð, [Jehóva] er hinn sanni Guð!“ (1. Konungabók 18:38, 39) Elía lætur nú til skarar skríða og fyrirskipar: „Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!“ Eftir að þeim hefur verið banað við Kísonlæk verður himinninn dimmur af skýjum. Loksins kemur hellirigning og bindur enda á þurrkinn. — 1. Konungabók 18:40-45; samanber 5. Mósebók 13:1-5.
8 Hvílíkur dagur! Jehóva gengur með sigur af hólmi í þessari einstæðu prófun á guðdómi. Og þessir atburðir snúa hjörtum margra Ísraelsmanna aftur til Guðs. Með þessum hætti og öðrum sannar Elía sig trúfastan spámann og gegnir sjálfur spádómlegu hlutverki.
‚Elía spámaður‘ enn ókominn?
9. Hverju var spáð í Malakí 4:5, 6?
9 Síðar spáði Guð fyrir munn Malakí: „Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.“ (Malakí 4:5, 6) Elía var uppi um 500 árum áður en þessi orð voru sögð. Þar eð þetta var spádómur væntu Gyðingar á fyrstu öld þess að Elía kæmi og uppfyllti hann. — Matteus 17:10.
10. Hver var hinn boðaði Elía og hvernig vitum við það?
10 Hver var þá þessi Elía er koma skyldi? Það kom í ljós þegar Jesús Kristur sagði: „Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það. Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta. Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.“ Já, Jóhannes skírari var sú hliðstæða Elía sem spáð hafði verið. (Matteus 11:12-14; Markús 9:11-13) Engill hafði sagt Sakaría, föður Jóhannesar, að Jóhannes myndi ganga fram „í anda og krafti Elía“ og „búa [Jehóva] altygjaðan lýð.“ (Lúkas 1:17) Með því að skírast hjá Jóhannesi gat hver einstakur maður gefið opinbert tákn um iðrun vegna synda sinna gegn lögmálinu sem átti að leiða Gyðinga til Krists. (Lúkas 3:3-6; Galatabréfið 3:24) Með starfi sínu bjó Jóhannes þannig ‚altygjaðan lýð handa Jehóva.‘
11. Hvað sagði Pétur á hvítasunnunni um ‚dag Jehóva‘ og hvenær rann hann upp?
11 ‚Elíastarf‘ Jóhannesar skírara sýndi að ‚dagur Jehóva‘ var nærri. Pétur postuli benti einnig á að sá dagur væri nærri þegar Guð ætlaði að láta til skarar skríða gegn óvinum sínum og varðveita fólk sitt. Hann benti á að hinir undraverðu atburðir á hvítasunnunni árið 33 væru uppfylling á spádómi Jóels um úthellingu anda Guðs. Pétur benti á að það ætti að gerast „áður dagur [Jehóva] kemur, hinn mikli og dýrlegi.“ (Postulasagan 2:16-21; Jóel 3:1-5) Það var árið 70 sem Jehóva uppfyllti orð sitt með því að láta rómverskan her fullnægja dómi sínum á þjóðinni er hafnaði syni hans. — Daníel 9:24-27; Jóhannes 19:15.
12. (a) Hvað sögðu Páll og Pétur um komandi ‚dag Jehóva‘? (b) Af hverju hlaut eitthvað að gerast síðar sem starf Elía táknaði?
12 En það var meira í vændum eftir árið 70. Páll postuli tengdi komandi ‚dag Jehóva‘ við nærveru Jesú Krists. Og Pétur postuli talaði um þann dag í tengslum við ókominn ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2; 2. Pétursbréf 3:10-13) Hafðu hugfast að Jóhannes skírari vann Elíastarf áður en ‚dagur Jehóva‘ kom árið 70. Samanlagt benti allt þetta til þess að eitthvað meira ætti að gerast sem starf Elía hafði táknað. Hvað var það?
Þeir hafa anda Elía
13, 14. (a) Hvað er hliðstætt með starfi Elía og smurðra kristinna manna nú á tímum? (b) Hvað hafa fráhvarfsmenn kristna heimsins gert?
13 Starf Elía átti sér ekki aðeins hliðstæðu í starfi Jóhannesar skírara heldur einnig í starfi smurðra kristinna manna á þessum örlagaríka tíma núna fram að hinum komandi ‚degi Jehóva.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Í anda og krafti Elía eru þeir dyggir málsvarar sannrar tilbeiðslu á Jehóva. Og ekki hefur verið vanþörf á! Eftir dauða postula Krists átti sér stað fráhvarf frá sannri kristni, líkt og Baalsdýrkun blómstraði í Ísrael á dögum Elía. (2. Pétursbréf 2:1) Þeir sem játuðu kristni tóku að blanda henni saman við kenningar og iðkanir falstrúarbragða. Til dæmis tóku þeir upp hina heiðnu og óbiblíulegu kenningu að maðurinn hafi ódauðlega sál. (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Fráhvarfsmenn kristna heimsins hafa hætt að nota nafn hins eina sanna Guðs, Jehóva. Þess í stað tilbiðja þeir þrenningu. Þeir hafa líka tekið upp þann baalslega sið að falla fram fyrir líkneskjum af Jesú og Maríu, móður hans. (Rómverjabréfið 1:23; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Og þá er ekki allt talið.
14 Frá og með 19. öld hafa kirkjuleiðtogar kristna heimsins látið í ljós efasemdir um sannleiksgildi margra hluta Biblíunnar. Til dæmis hafa þeir hafnað sköpunarsögu 1. Mósebókar og fallið fram fyrir þróunarkenningunni sem þeir kalla „vísindalega.“ Þetta gengur í berhögg við kenningar Jesú Krists og postula hans. (Matteus 19:4, 5; 1. Korintubréf 15:47) En líkt og Jesús og fylgjendur hans á fyrstu öld halda andasmurðir kristnir menn sköpunarkenningu Biblíunnar á loft. — 1. Mósebók 1:27.
15, 16. Hverjir hafa, ólíkt kristna heiminum, notið stöðugrar, andlegrar fæðu og hvernig?
15 Þegar ‚endalokatími‘ heimsins gekk í garð skall andleg hungursneyð á kristna heiminum. (Daníel 12:4; Amos 8:11, 12) En hinn litli hópur smurðra kristinna manna naut stöðugrar, andlegrar fæðu frá Jehóva „á réttum tíma,“ alveg eins og hann sá til þess að Elía hefði mat í hungursneyðinni á sínum tíma. (Matteus 24:45; 1. Konungabók 17:6, 13-16) Þessir trúföstu þjónar Guðs, sem voru einu sinni kallaðir Alþjóðlegir biblíunemendur, fengu síðar hið biblíulega nafn vottar Jehóva. — Jesaja 43:10.
16 Elía reis undir nafni en það merkir „Guð minn er Jehóva.“ Varðturninn, opinbert málgagn jarðneskra þjóna Jehóva, hefur alltaf notað nafn Guðs. Í öðru tölublaðinu (ágúst 1879) kom meira að segja fram það trúartraust að Jehóva stæði að baki blaðinu. Þetta tímarit og önnur rit Varðturnsfélagsins fletta ofan af hinum óbiblíulegu kenningum kristna heimsins og alls heimsveldis falskra trúarbragða, Babýlonar hinnar miklu, en halda á loft sannleiksgildi orðs Guðs, Biblíunnar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Opinberunarbókin 18:1-5.
Trúfesti í prófraunum
17, 18. Hvernig brást Jesebel við drápinu á spámönnum Baals en hvernig var Elía hjálpað?
17 Klerkastétt kristna heimsins brást eins við afhjúpuninni og Jesebel þegar hún komst að raun um að Elía hefði drepið spámenn Baals. Hún sendi trúföstum spámanni Jehóva boð og strengdi þess heit að láta drepa hann. Þetta var engin innantóm hótun því að Jesebel hafði þegar myrt marga spámenn Guðs. Skelfdur flúði Elía í suðvesturátt til Beerseba. Þar skildi hann þjón sinn eftir og hélt áfram út í eyðimörkina og bað þess að mega deyja. En Jehóva hafði ekki yfirgefið spámann sinn. Engill birtist honum til að búa hann undir hina löngu ferð til Hórebfjalls. Honum var séð fyrir viðurværi í 40 daga á rúmlega 300 kílómetra ferð sinni. Á Hóreb talaði Guð til hans eftir að hafa sýnt honum mátt sinn með ógnþrungnum hætti í miklum stormi, jarðskjálfta og eldi. Jehóva var ekki í þessum náttúruöflum heldur birti hann heilagan anda sinn eða starfskraft með þeim. Síðan talaði Jehóva til spámannsins. Þú getur ímyndað þér hve mjög þessi reynsla styrkti Elía. (1. Konungabók 19:1-12) Hvað nú ef við yrðum dálítið óttaslegin líkt og Elía þegar óvinir sannrar tilbeiðslu ógna okkur? Reynsla hans ætti að minna okkur á að Jehóva yfirgefur ekki fólk sitt. — 1. Samúelsbók 12:22.
18 Guð tók af öll tvímæli um að Elía hefði enn verk að vinna sem spámaður. Og enda þótt Elía héldi sig vera eina tilbiðjanda hins sanna Guðs í Ísrael sýndi Jehóva honum fram á að enn hefðu 7000 ekki fallið fram fyrir Baal. Síðan sendi hann Elía aftur til að sinna verkefni sínu. (1. Konungabók 19:13-18) Vera má að óvinir sannrar tilbeiðslu hundelti okkur líkt og Elía. Við getum orðið skotspónn harðra ofsókna eins og Jesús sagði fyrir. (Jóhannes 15:17-20) Og við getum orðið kvíðin eða áhyggjufull. En við getum verið eins og Elía sem fékk hughreystingu frá Jehóva Guði og hélt síðan trúfastur áfram í þjónustu hans.
19. Hvað gerðist hjá smurðum kristnum mönnum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar?
19 Vegna harðra ofsókna í fyrri heimsstyrjöldinni urðu sumir smurðir kristnir menn óttaslegnir og hættu að prédika. Þeir héldu ranglega að starfi sínu á jörðinni væri lokið. En Guð hafnaði þeim ekki, heldur hélt þeim uppi í miskunn sinni líkt og hann sá Elía fyrir fæði. Trúfastir, smurðir menn tóku leiðréttingu Guðs og náðu sér upp úr athafnaleysinu líkt og Elía. Augu þeirra opnuðust fyrir þeim stórkostlegu sérréttindum að prédika boðskapinn um Guðsríki.
20. Hvaða sérréttindi eru þeim veitt sem eru trúfastir líkt og Elía?
20 Í spádóminum um nærveru sína lýsti Jesús starfi sem unnið yrði um allan heim og lokið yrði fyrir endalok þessa illa heimskerfis. (Matteus 24:14) Núna er þetta starf unnið af smurðum kristnum mönnum og milljónum félaga þeirra sem hlakka til lífs í paradís á jörð. Aðeins þeim sem eru trúfastir eins og Elía eru veitt þau stórkostlegu sérréttindi að prédika Guðsríki uns verkinu er lokið.
Vertu trúfastur eins og Elía
21, 22. (a) Hvaða starfi veita smurðir kristnir menn forystu nú á tímum? (b) Með hjálp hvers er prédikað og hvers vegna er hjálpin nauðsynleg?
21 Með kostgæfni Elía hafa hinar litlu leifar sannra, smurðra kristinna manna rækt þá skyldu sína að annast jarðneska hagsmuni hins krýnda konungs, Jesú Krists. (Matteus 24:47) Og í meira en 60 ár hefur Guð notað þessa smurðu menn til að veita forystu því starfi að gera þá menn að lærisveinum sem hann hefur veitt hina undursamlegu von um eilíft líf í paradís á jörð. (Matteus 28:19, 20) Þessar milljónir manna geta verið innilega þakklátar að þeir tiltölulega fáu, sem eftir eru af hinum smurðu, rækja skyldur sínar kostgæfilega og trúfastlega!
22 Þessi prédikun Guðsríkis hefur verið unnin af ófullkomnum mönnum og aðeins tekist í þeim krafti sem Jehóva gefur þeim sem reiða sig á hann og eiga við hann bænasamband. „Elía var maður sama eðlis og vér,“ segir lærisveinninn Jakob er hann nefnir hvernig spámaðurinn bað, og hann notar dæmið til að sýna fram á kraftinn í bæn réttláts manns. (Jakobsbréfið 5:16-18) Elía var ekki alltaf að spá eða vinna kraftaverk. Hann hafði sömu mannlegu tilfinningarnar og veikleikana og við, en hann þjónaði Guði í trúfesti. Þar eð við höfum líka hjálp Guðs og hann styrkir okkur getum við verið trúföst eins og Elía.
23. Af hverju höfum við fullt tilefni til trúfesti og bjartsýni?
23 Við höfum ærna ástæðu til að vera trúföst og bjartsýn. Munum að Jóhannes skírari vann Elíastarf áður en ‚dagur Jehóva‘ rann upp árið 70. Í anda og krafti Elía hafa smurðir kristnir menn unnið svipað starf um heim allan. Það sannar greinilega að ‚dagur Jehóva‘ er nærri.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig sannaðist guðdómur Jehóva á Karmelfjalli?
◻ Hver var ‚sá Elía er koma skyldi‘ og hvað gerði hann?
◻ Hvernig hafa smurðir kristnir menn nú á tímum sýnt að þeir hafa anda Elía?
◻ Af hverju getum við verið trúföst eins og Elía?
[Rammi á blaðsíðu 22]
Til hvaða himins fór Elía?
„EN er [Elía og Elísa] héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.“ — 2. Konungabók 2:11.
Hvað er átt við með orðinu ‚himinn‘ í þessu versi? Orðið er stundum notað um hinn andlega bústað Guðs og englasona hans. (Matteus 6:9; 18:10) ‚Himinn‘ getur líka átt við hinn efnislega alheim. (5. Mósebók 4:19) Og Biblían notar þetta orð um andrúmsloft jarðarinnar þar sem fuglar fljúga og vindar blása. — Sálmur 78:26; Matteus 6:26.
Upp til hvaða himins fór spámaðurinn Elía? Ljóst er að hann var fluttur um andrúmsloft jarðar og settur niður annars staðar á hnettinum. Hann var enn á jörðinni mörgum árum síðar þegar hann skrifaði Jóram Júdakonungi bréf. (2. Kroníkubók 21:1, 12-15) Jesús Kristur staðfesti síðar að Elía hefði ekki farið upp í andlegan bústað Jehóva Guðs. Hann sagði: „Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn,“ það er að segja Jesús sjálfur. (Jóhannes 3:13) Leiðin til lífs á himnum opnaðist ófullkomnum mönnum fyrst eftir dauða, upprisu og uppstigningu Jesú Krists. — Jóhannes 14:2, 3; Hebreabréfið 9:24; 10:19, 20.