15. KAFLI
Jesús „færir jörðinni réttlæti“
1, 2. Hvenær reiddist Jesús og hvers vegna?
JESÚS var greinilega reiður og það með réttu. Þú átt kannski erfitt með að sjá hann fyrir þér reiðan því að hann var svo ljúfur í lund og mildur að eðlisfari. (Matteus 21:5) Hann hafði auðvitað fulla stjórn á sér því að það var réttlát reiði sem svall honum í brjósti.a En hvað var það sem reitti þennan friðelska mann til reiði? Það var hróplegt óréttlæti sem hann horfði upp á.
2 Musterið í Jerúsalem var Jesú ákaflega kært. Það var eini staðurinn í heiminum sem var helgaður tilbeiðslunni á föður hans á himnum. Gyðingar komu þangað langan veg frá öðrum löndum til að tilbiðja Guð. Þangað kom meira að segja guðhrætt fólk af öðrum þjóðum og notfærði sér forgarðinn sem því var ætlaður. En snemma á þjónustuferli sínum kom Jesús inn á musterissvæðið og þá blasti við honum hrikaleg sjón. Þetta var líkara markaðstorgi en tilbeiðslustað! Þarna var ekki þverfótað fyrir kaupmönnum og víxlurum. En var eitthvað ranglátt við það? Já, því að fyrir þessum mönnum var musteri Guðs einungis staður til að féfletta fólk – jafnvel ræna það. Hvernig þá? – Jóhannes 2:14.
3, 4. Hvaða okur fór fram í húsi Jehóva og hvað gerði Jesús í málinu?
3 Trúarleiðtogarnir höfðu sett þá reglu að það mætti einungis nota eina ákveðna tegund myntar til að greiða musterisskattinn. Musterisgestir urðu að skipta peningum yfir í þessa mynt, og víxlararnir settu upp afgreiðsluborð inni í musterinu og tóku þóknun fyrir þjónustu sína. Sala fórnardýra var líka mjög ábatasöm. Aðkomufólk, sem vildi færa fórnir, gat keypt dýr af kaupmönnum í borginni en átti þá á hættu að embættismenn musterisins dæmdu fórnina ótæka og höfnuðu henni. En væri fórnardýr keypt á musterissvæðinu mátti treysta því að það væri talið boðlegt. Fólk var því upp á náð og miskunn kaupmannanna komið sem heimtuðu stundum okurverð.b Þetta var ekki aðeins gróft okur heldur hreint rán!
4 Jesús gat ekki sætt sig við þetta ranglæti. Þetta var hús föður hans! Hann gerði sér því svipu úr köðlum og rak sauða- og nautgripahjarðirnar út úr musterinu. Síðan æddi hann yfir til víxlaranna og velti borðum þeirra. Hugsaðu þér peningana skoppa eftir marmaragólfinu! „Burt með þetta héðan!“ fyrirskipaði hann dúfnasölunum. (Jóhannes 2:15, 16) Enginn virtist voga sér að andmæla þessum hugrakka manni.
„Burt með þetta héðan!“
Lifandi eftirmynd föður síns
5–7. (a) Hvernig hafði fortilvera Jesú á himni áhrif á réttlætiskennd hans og hvað getum við lært af fordæmi hans? (b) Hvernig hefur Jesús barist gegn ranglætinu sem Satan hefur valdið og hvernig á hann eftir að gera það?
5 Kaupmennirnir komu auðvitað aftur. Um þrem árum síðar réðst Jesús aftur gegn þessu ranglæti og vitnaði nú í orð Jehóva sjálfs þegar hann fordæmdi þá sem gerðu hús hans að „ræningjabæli“. (Jeremía 7:11; Matteus 21:13) Já, Jesú leið alveg eins og föður sínum þegar hann sá hvernig fólk var féflett og musteri Guðs vanhelgað. Það er ofur eðlilegt vegna þess að Jesús hafði lært af föður sínum á himnum um milljónir ára og hafði því sömu réttlætiskennd og hann. Hann var því lifandi eftirmynd föður síns. Besta leiðin til að fá skýra mynd af réttlæti Jehóva er því sú að kynna okkur fordæmi Jesú Krists. – Jóhannes 14:9, 10.
6 Einkasonur Jehóva var viðstaddur þegar Satan kallaði Jehóva Guð lygara og véfengdi að stjórnarfar hans væri réttlátt. Þetta var hreinn rógur! Sonurinn heyrði Satan líka fullyrða síðar að enginn þjónaði Jehóva af óeigingirni og kærleika. Réttlátum syni Guðs hljóta að hafa sviðið þessar röngu ásakanir. Og hann hlýtur að hafa orðið himinlifandi þegar hann komst að raun um að hann myndi eiga veigamikinn þátt í að kveða lygarnar niður. (2. Korintubréf 1:20) Hvernig gat hann gert það?
7 Eins og fram kom í 14. kafla gaf Jesús Kristur endanlegt svar við þeirri ásökun Satans að Jehóva gæti ekki átt sér sköpunarverur sem þjónuðu honum af óeigingirni og kærleika. Þar með lagði Jesús grunninn að því að hreinsa heilagt nafn Jehóva af öllum rógi, þar á meðal þeirri lygi að stjórnarfar hans sé slæmt. Sem foringi í umboði Jehóva mun Jesús koma réttlæti hans á um allan alheim. (Postulasagan 5:31) Lífsferill hans á jörðinni endurspeglaði sömuleiðis réttlæti Guðs. „Ég læt anda minn koma yfir hann og hann mun boða þjóðunum hvað réttlæti er,“ sagði Jehóva um hann. (Matteus 12:18) Hvernig uppfyllti Jesús þetta?
Jesús boðar „hvað réttlæti er“
8–10. (a) Hvernig ýtti hin munnlega erfikenning trúarleiðtoga Gyðinga undir fyrirlitningu á konum og fólki af öðrum þjóðum? (b) Hvernig urðu hvíldardagslög Jehóva að íþyngjandi byrði vegna munnlegu laganna sem bætt var við þau?
8 Jesús elskaði lög Jehóva og lifði samkvæmt þeim. En trúarleiðtogar samtíðarinnar höfðu rangsnúið lögunum og misbeitt þeim. Jesús sagði þeim: „Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið … vanrækið það sem meira máli skiptir í lögunum, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti.“ (Matteus 23:23) Það er nokkuð ljóst að þessir lagakennarar kenndu þjóðinni ekki „hvað réttlæti er“. Þeir skýrðu ekki réttlæti Guðs heldur tálmuðu fólki að skilja það. Hvernig? Lítum á fáein dæmi.
9 Jehóva hafði sagt fólki sínu að halda sig frá heiðnu þjóðunum umhverfis. (1. Konungabók 11:1, 2) En sumir ofstækismenn í hinu trúarlega forystuliði hvöttu fólk til að fyrirlíta alla sem væru ekki Gyðingar. Í Mishnu var jafnvel að finna þá reglu að ekki mætti skilja nautgripi eftir við gistihús heiðingja því að þeir væru grunaðir um að eiga mök við skepnur. Slíkir fordómar gagnvart öllum, sem voru ekki Gyðingar, voru auðvitað ranglátir og gengu þvert á anda Móselaganna. (3. Mósebók 19:34) Ýmsar mannasetningar voru niðurlægjandi fyrir konur. Hin munnlegu lög kváðu á um að kona mætti ekki ganga við hlið eiginmanns síns heldur á eftir honum. Karlmaður átti ekki að ræða við konu á almannafæri, ekki einu sinni eiginkonuna. Konur máttu ekki bera vitni fyrir rétti frekar en þrælar. Það var meira að segja til formleg bæn sem karlar gátu farið með til að þakka Guði fyrir að þeir skyldu ekki vera konur.
10 Trúarleiðtogarnir kaffærðu lög Guðs undir ógrynni af alls konar reglum. Hvíldardagslögin bönnuðu fólki einfaldlega að vinna á hvíldardegi, svo dæmi sé tekið. Dagurinn átti að vera helgaður tilbeiðslu, andlegri upplyftingu og hvíld. En farísearnir breyttu þessum lögum í íþyngjandi byrði. Þeir tóku sér það bessaleyfi að skilgreina hvað væri „vinna“ og skiptu henni í 39 flokka, þar á meðal uppskerustörf og veiðar. Þessi flokkun leiddi síðan af sér endalausar spurningar. Voru það veiðar ef maður drap fló á hvíldardegi? Var hann að uppskera ef hann greip handfylli af korni á göngu og stakk upp í sig? Var hann að vinna ef hann læknaði sjúkan mann? Þessum spurningum var svarað með ströngum og ítarlegum reglum.
11, 12. Hvernig lýsti Jesús yfir andstöðu við óbiblíulegar erfikenningar faríseanna?
11 Hvernig átti Jesús að sýna fólki fram á, við þessar aðstæður, hvað væri réttlæti? Hugrakkur tók hann eindregna afstöðu gegn trúarleiðtogunum, bæði með kennslu sinni og líferni. Lítum fyrst á kennsluna. Hann fordæmdi reglufargan þeirra og sagði: „Þannig ógildið þið orð Guðs með erfikenningum ykkar sem þið hafið látið ganga mann fram af manni.“ – Markús 7:13.
12 Jesús hélt því fast fram að farísearnir færu með rangt mál í sambandi við hvíldardagsboðið og misskildu hreinlega tilgang þess. Hann benti á að Messías væri „drottinn hvíldardagsins“ og hefði því rétt til að lækna fólk á hvíldardegi. (Matteus 12:8) Hann hélt þessu síðan hátt á loft með því að lækna fólk fyrir opnum tjöldum á hvíldardegi. (Lúkas 6:7–10) Þessar lækningar voru forsmekkur af þeirri allsherjarlækningu sem hann mun vinna um alla jörðina í þúsundáraríkinu. Þúsund árin verða hinn fullkomni hvíldardagur því að þá fá allir trúir menn loksins hvíld frá aldalöngu striti undir oki syndar og dauða.
13. Hvaða lög tóku gildi í framhaldi af þjónustu Jesú á jörð og hvernig voru þau ólík forvera sínum?
13 Jesús skýrði líka inntak réttlætisins þegar ný lög, nefnd „lög Krists“, tóku gildi eftir að hann hafði lokið þjónustu sinni á jörð. (Galatabréfið 6:2) Þessi nýju lög voru byggð á meginreglum en ekki skráðum skipunum, líkt og Móselögin sem voru forveri þeirra. Þó voru nokkrar beinar skipanir, meðal annars „nýtt boðorð“ sem Jesús kallaði svo. Þar sagði hann að fylgjendur sínir ættu að elska hver annan eins og hann elskaði þá. (Jóhannes 13:34, 35) Já, fórnfús kærleikur átti að vera aðalsmerki allra sem lifðu eftir ‚lögum Krists‘.
Lifandi dæmi um réttlæti
14, 15. Hvernig sýndi Jesús að hann fór ekki út fyrir valdsvið sitt og hvers vegna er það traustvekjandi?
14 Jesús lét sér ekki nægja að fræða aðra um kærleikann heldur lifði eftir ‚lögum Krists‘. Þetta birtist ljóslifandi í lífi hans og lífsstefnu. Hann sýndi með þrennum hætti hvað réttlæti er.
15 Í fyrsta lagi forðaðist Jesús samviskusamlega að gera sig sekan um nokkurt ranglæti. Þú hefur kannski tekið eftir að ranglæti sprettur oft af því að ófullkomnir menn hrokast upp og fara út fyrir valdsvið sitt. Jesús gerði það aldrei. Einhverju sinni kom til hans maður og bað hann: „Kennari, segðu bróður mínum að skipta arfinum með mér.“ Jesús svaraði honum: „Maður, hver skipaði mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur tveim?“ (Lúkas 12:13, 14) Þetta er sérstakt. Jesús var gáfaðri og skarpskyggnari en nokkur annar maður og Guð hafði reyndar falið honum meira vald en nokkrum öðrum. Samt sem áður neitaði hann að blanda sér í þetta mál af því að honum hafði ekki verið gefið sérstakt vald til þess. Jesús hefur alltaf sýnt þessa hæversku, meira að segja um þær árþúsundir sem hann var á himni áður en hann kom til jarðar. (Júdasarbréfið 9) Það segir sitt um Jesú að hann skuli sýna þá auðmýkt að treysta Jehóva til að ákveða hvað sé réttlátt.
16, 17. (a) Hvernig sýndi Jesús réttlæti er hann boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs? (b) Hvernig sýndi Jesús að miskunn var sterkur þáttur í réttlæti hans?
16 Í öðru lagi sýndi Jesús réttlæti sitt með því hvernig hann boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. Hann gerði aldrei upp á milli manna heldur lagði sig einlæglega fram um að ná til alls konar fólks, jafnt ríkra sem fátækra. Farísearnir fyrirlitu hins vegar fátækan almúgann og kölluðu hann ʽam-haʼaʹrets eða „fólkið í landinu“. Jesús tók einarða afstöðu gegn þessu ranglæti. Þegar hann kenndi fólki fagnaðarboðskapinn, eða mataðist með því, gaf því mat, læknaði það eða reisti fólk upp frá dauðum, studdi hann réttlæti Guðs sem vill ná til ‚alls konar fólks‘.c – 1. Tímóteusarbréf 2:4.
17 Í þriðja lagi var miskunn sterkur þáttur í réttlætiskennd Jesú. Hann lagði sig fram við að hjálpa syndurum. (Matteus 9:11–13) Hann var meira en fús til að aðstoða varnarlausa. Hann ýtti ekki undir vantraust til allra annarra en Gyðinga, eins og trúarleiðtogarnir gerðu. Hann sýndi þá miskunn að hjálpa og kenna sumum þeirra, jafnvel þótt hann væri fyrst og fremst sendur til Gyðinga. Hann féllst til dæmis á að lækna þjón rómversks herforingja og sagði: „Svona sterka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.“ – Matteus 8:5–13.
18, 19. (a) Hvernig heiðraði Jesús konur? (b) Hvernig vitnar fordæmi Jesú um að réttlæti er nátengt hugrekki?
18 Jesús studdi ekki heldur ríkjandi viðhorf til kvenna heldur gerði það sem var rétt. Samverskar konur voru álitnar óhreinar rétt eins og heiðingjar. Þó hikaði Jesús ekki við að prédika fyrir samverskri konu við brunninn í Síkar. Þessi kona var reyndar fyrsta manneskjan sem Jesús sagði berum orðum að hann væri hinn fyrirheitni Messías. (Jóhannes 4:6, 25, 26) Farísearnir sögðu að það ætti ekki að kenna konum lög Guðs en Jesús varði drjúgum tíma og kröftum í að kenna konum. (Lúkas 10:38–42) Og þó að erfðavenjan segði að konum væri ekki treystandi til að gefa áreiðanlegan vitnisburð heiðraði Jesús nokkrar konur með því að leyfa þeim að vera fyrstar til að sjá sig eftir að hann var upprisinn. Hann sagði þeim jafnvel að fara og segja körlum úr hópi lærisveinanna frá þessum merkisatburði! – Matteus 28:1–10.
19 Já, Jesús sýndi þjóðunum hvað réttlæti er þó að hann tæki oft mikla áhættu með því. Fordæmi hans er til vitnis um að það kostar hugrekki að halda sönnu réttlæti á loft. Það er vel við hæfi að hann skuli vera kallaður „ljónið af ættkvísl Júda“, en ljónið er einmitt tákn um hugrekki og réttlæti. (Opinberunarbókin 5:5) Í náinni framtíð mun Jesús síðan ‚færa jörðinni réttlæti‘ í fullkomnum skilningi. – Jesaja 42:4.
Messíasarkonungurinn „færir jörðinni réttlæti“
20, 21. Hvernig hefur Messíasarkonungurinn stuðlað að réttlæti um alla jörðina og í kristna söfnuðinum á okkar tímum?
20 Jesús hefur stuðlað að réttlæti á jörðinni síðan hann varð Messíasarkonungur árið 1914. Hvernig hefur hann gert það? Með því að sjá til þess að spádómurinn í Matteusi 24:14 rætist. Fylgjendur Jesú á jörðinni hafa kennt fólki allra landa sannleikann um ríki Jehóva. Líkt og Jesús hafa þeir prédikað réttlátlega og án þess að fara í manngreinarálit, og leitast við að gefa öllum – ungum sem öldnum, ríkum sem fátækum og körlum sem konum – tækifæri til að kynnast Jehóva, Guði réttlætisins.
21 Jesús stuðlar einnig að réttlæti í kristna söfnuðinum sem hann er höfuðið yfir. Eins og spáð er gefur hann gjafir í mynd dyggra safnaðaröldunga sem fara með forystuna í söfnuðinum. (Efesusbréfið 4:8–12) Öldungarnir fylgja fordæmi Jesú Krists og vinna að réttlæti með því að gæta hinna dýrmætu sauða sem best. Þeir hafa alltaf hugfast að Jesús vill að sauðirnir njóti réttlætis óháð stöðu þeirra eða fjárhag.
22. Hvað finnst Jehóva um ranglætið í heimi nútímans og hvað hefur hann falið syni sínum?
22 En í náinni framtíð færir Jesús jörðinni réttlæti með áður óþekktum hætti. Það er mikið ranglæti í þessum spillta heimi. Hvert barn sem deyr hungurdauða er fórnarlamb ófyrirgefanlegs ranglætis, ekki síst þegar litið er til þess hve miklum tíma og fjármunum er sólundað í framleiðslu hervopna og í uppátæki eigingjarnra nautnaseggja. Milljónirnar, sem deyja að þarflausu á ári hverju, eru aðeins ein mynd þess margþætta óréttlætis sem vekur upp réttláta reiði Jehóva. Hann hefur falið syni sínum að heyja réttlátt stríð gegn öllu hinu illa heimskerfi og binda enda á allt ranglæti í eitt skipti fyrir öll. – Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11–15.
23. Hvernig stuðlar Kristur að réttlæti um alla eilífð eftir Harmagedón?
23 En réttlæti Jehóva er ekki aðeins fólgið í því að eyða hinum óguðlegu. Hann hefur líka falið syni sínum að stjórna sem „Friðarhöfðingi“. Stjórn Jesú kemur á friði um alla jörðina eftir stríðið við Harmagedón og hann mun stjórna „með réttvísi“. (Jesaja 9:6, 7) Jesús mun þá njóta þess að útrýma öllu óréttlætinu sem hefur valdið svo mikilli eymd og þjáningum í heiminum. Hann mun halda fullkomnu réttlæti Jehóva á loft um alla eilífð. Það er því mikilvægt fyrir okkur að reyna að líkja eftir réttlæti Jehóva núna. Við skulum skoða hvernig við getum gert það.
a Með því að sýna réttláta reiði líktist Jesús Jehóva föður sínum sem er „tilbúinn að gefa reiði sinni útrás“ gagnvart hvers kyns illsku. (Nahúm 1:2) Jehóva sagði til dæmis við þverúðuga þjóð sína að hún hefði gert hús hans að „ræningjabæli“ og bætti við: „Reiði minni og heift verður úthellt yfir þennan stað.“ – Jeremía 7:11, 20.
b Að sögn Mishna kom til mótmæla nokkrum árum seinna út af háu verði á dúfum sem seldar voru í musterinu. Í kjölfarið var verðið snarlega lækkað um 99 prósent! Hverjir högnuðust mest á þessari ábatasömu verslun? Sumir sagnfræðingar telja að ætt Annasar æðsta prests hafi átt musterismarkaðina, enda var hún stórauðug. – Jóhannes 18:13.
c Í augum faríseanna var óbreyttur almúginn „bölvaður“, enda óuppfræddur í lögunum. (Jóhannes 7:49) Það átti ekki að kenna slíku fólki, eiga við það viðskipti, matast með því eða biðjast fyrir með því. Betra væri að láta dóttur sína verða villidýrum að bráð en gefa hana slíkum manni fyrir konu. Þetta fólk átti sér enga upprisuvon að þeirra mati.