Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.9. bls. 12-17
  • Líktu eftir Jehóva — iðkaðu réttlæti og réttvísi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Líktu eftir Jehóva — iðkaðu réttlæti og réttvísi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Réttlátur en meðaumkunarsamur
  • Réttlætisverk til bjargar mannkyni
  • Leitaðu þess sem rétt er, stundaðu réttlæti
  • ‚Höfðingjar stjórna með réttvísi‘
  • Varðveitið réttlæti og gerið það sem rétt er
  • Jehóva — uppspretta réttlætis og réttvísi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Gakktu með Guði og ‚gerðu það sem er rétt‘
    Nálgastu Jehóva
  • „Allir vegir hans eru réttlátir“
    Nálgastu Jehóva
  • Réttlæti handa öllum þjóðum innan skamms
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.9. bls. 12-17

Líktu eftir Jehóva — iðkaðu réttlæti og réttvísi

„Það er ég, [Jehóva], sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun.“ — JEREMÍA 9:24.

1. Hvaða stórkostlega framtíð býður Jehóva okkur?

JEHÓVA hét því að sá dagur kæmi að allir myndu þekkja hann. Hann sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Þetta eru stórkostlegar framtíðarhorfur.

2. Hvað felst í því að þekkja Jehóva? Hvers vegna?

2 En hvað merkir það að þekkja Jehóva? Jehóva opinberaði Jeremía hvað mestu máli skipti: „Að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, [Jehóva], sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun.“ (Jeremía 9:24) Að þekkja Jehóva felur í sér að vita hvernig hann iðkar réttlæti og réttvísi. Ef við síðan iðkum þessa eiginleika hefur hann velþóknun á okkur. Hvernig getum við gert það? Í orði sínu, Biblíunni, hefur Jehóva varðveitt frásögu af samskiptum sínum við ófullkomna menn í aldanna rás. Með því að rannsaka hana getum við kynnst réttlæti og réttvísi Jehóva og líkt eftir honum. — Rómverjabréfið 15:4.

Réttlátur en meðaumkunarsamur

3, 4. Af hverju var það réttlætanlegt af Jehóva að eyða Sódómu og Gómorru?

3 Dómurinn yfir Sódómu og Gómorru er afbragðsdæmi sem opinberar nokkrar hliðar á réttlæti Jehóva. Bæði refsaði hann borgunum eins og þær áttu skilið og forðaði þeim sem það verðskulduðu. Var eyðing borganna virkilega réttlætanleg? Abraham áleit það ekki í fyrstu en hann hafði greinilega takmarkaða vitneskju um illsku Sódómubúa. Jehóva fullvissaði Abraham um að hann myndi þyrma borginni ef hann fyndi aðeins tíu réttláta í henni. Ljóst er að Jehóva er aldrei fljótfær eða miskunnarlaus í réttlæti sínu. — 1. Mósebók 18:20-32.

4 Siðspilling Sódómubúa kom glögglega í ljós þegar englarnir tveir komu þangað í eftirlitsferð. Þegar karlmennirnir í borginni, „bæði ungir og gamlir,“ uppgötvuðu að tveir menn dvöldust á heimili Lots gerðu þeir áhlaup á húsið í þeim tilgangi að nauðga þeim hver af öðrum. Þeir voru sannarlega djúpt sokknir í siðspillinguna! Dómur Jehóva yfir borginni var greinilega réttlátur. — 1. Mósebók 19:1-5, 24, 25.

5. Hvernig frelsaði Guð Lot og fjölskyldu hans frá Sódómu?

5 Eftir að hafa vitnað til eyðingar Sódómu og Gómorru í viðvörunarskyni skrifar Pétur postuli: „Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“ eða prófraun. (2. Pétursbréf 2:6-9) Réttlætinu hefði ekki verið fullnægt ef hinn réttláti Lot og fjölskylda hans hefðu farist með hinum óguðlegu Sódómubúum. Englar Jehóva vöruðu því Lot við yfirvofandi eyðingu borgarinnar. Þegar Lot hikaði tóku englarnir í hönd honum, konu hans og dætrum og leiddu þau út úr borginni „af því að [Jehóva] vildi þyrma honum.“ (1. Mósebók 19:12-16) Við megum vera viss um að Jehóva sýnir sams konar umhyggju fyrir réttlátum mönnum í væntanlegri eyðingu þessa illa heimskerfis.

6. Af hverju ættum við ekki að gera okkur sérstakar áhyggjur af væntanlegri eyðingu hins illa heimskerfis?

6 Þótt endalok þessa heimskerfis verði „refsingardagar“ er engin ástæða til að vera sérstaklega áhyggjufullur. (Lúkas 21:22) Dómurinn, sem Guð fullnægir í Harmagedónstríðinu, verður ‚allur réttlátur.‘ (Sálmur 19:10) Eins og Abraham komst að raun um getum við mennirnir treyst algerlega á réttlæti Jehóva sem er á miklu hærra stigi en okkar. Abraham spurði: „Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ (1. Mósebók 18:25; samanber Jobsbók 34:10.) Eða eins og Jesaja orðaði það svo vel: ‚Hver kenndi Jehóva leið réttvísinnar‘? — Jesaja 40:14.

Réttlætisverk til bjargar mannkyni

7. Hvaða samband er milli réttlætis Guðs og miskunnar hans?

7 Réttlæti Guðs birtist í fleiru en því hvernig hann refsar brotlegum. Jehóva kallar sjálfan sig ‚réttlátan Guð og hjálpara.‘ (Jesaja 45:21, NW) Það eru greinilega náin tengsl milli réttlætis eða réttvísi Guðs og löngunar hans til að losa mannkynið undan áhrifum syndarinnar. Fræðibókin The International Standard Bible Encyclopedia frá 1982 fjallar um þessa ritningargrein og bendir á að ‚réttlæti Guðs leiti raunhæfrar leiðar til að tjá miskunn hans og koma til vegar hjálpræði hans.‘ Ekki svo að skilja að Guð þurfi að milda réttlæti sitt með miskunn sinni heldur birtist réttlæti hans í miskunninni. Lausnargjaldið, sem Guð sá mannkyninu fyrir, er eftirtektarverðasta dæmið um þennan þátt í réttlæti hans.

8, 9. (a) Hvað var fólgið í „réttlætisverki eins“? Hvers vegna? (b) Hvað heimtar Jehóva af okkur?

8 Lausnargjaldið sjálft — dýrmætt líf eingetins sonar Guðs, Jesú Krists — var hátt af því að staðlar Jehóva eru algildir og hann fylgir þeim sjálfur. (Matteus 20:28) Fullkomið líf hafði glatast, líf Adams, svo að það þurfti fullkomið líf til að endurheimta lífið fyrir afkomendur hans. (Rómverjabréfið 5:19-21) Páll postuli kallar ráðvanda lífsstefnu Jesú ‚réttlætisverk,‘ þar á meðal greiðslu lausnargjaldsins. (Rómverjabréfið 5:18) Af hverju gerir hann það? Af því að frá sjónarhóli Jehóva var rétt og réttlátt að endurleysa mannkynið, jafnvel þótt það væri honum dýrkeypt. Afkomendur Adams voru eins og ‚brákaður reyr‘ sem Guð vildi ekki brjóta og eins og ‚rjúkandi hörkveikur‘ sem hann vildi ekki slökkva. (Matteus 12:20) Guð treysti að margir trúfastir menn og konur yrðu meðal afkomenda Adams. — Samanber Matteus 25:34.

9 Hvernig ættum við að bregðast við þessu mikla kærleiks- og réttlætisverki? Eitt af því sem Jehóva heimtar af okkur er að „gjöra rétt,“ það er að segja að iðka réttlæti. (Míka 6:8) Hvernig getum við gert það?

Leitaðu þess sem rétt er, stundaðu réttlæti

10. (a) Nefndu eina leið til að iðka réttlæti. (b) Hvernig getum við leitað fyrst réttlætis Guðs?

10 Í fyrsta lagi verðum við að fylgja siðferðisstöðlum Guðs. Þar eð staðlar hans eru réttir og réttlátir iðkum við réttlæti þegar við lifum eftir þeim. Þetta er það sem Jehóva ætlast til af fólki sínu. „Lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er,“ sagði Jehóva Ísraelsmönnum. (Jesaja 1:17) Jesús gaf áheyrendum sínum svipuð ráð í fjallræðunni þegar hann sagði þeim að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Páll hvatti Tímóteus til að „stunda réttlæti.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11) Þegar við lifum í samræmi við hegðunarreglur Guðs og íklæðumst nýja persónuleikanum erum við að stunda réttlæti og réttvísi. (Efesusbréfið 4:23, 24) Með öðrum orðum leitum við réttlætis með því að gera hlutina eins og Guð vill að þeir séu gerðir.

11. Hvers vegna og hvernig ættum við að berjast gegn yfirdrottnun syndarinnar?

11 Eins og okkur er fullkunnugt um eiga ófullkomnir menn ekki alltaf auðvelt með að gera það sem er rétt og réttlátt. (Rómverjabréfið 7:14-20) Páll hvatti kristna menn í Róm til að berjast gegn yfirdrottnun syndarinnar svo að þeir gætu boðið Guði vígða líkama sína sem „réttlætisvopn“ er hann gæti notað til að fullna tilgang sinn. (Rómverjabréfið 6:12-14) Eins getum við tekið til okkar „umvöndun“ Jehóva og ‚menntun í réttlæti‘ með því að nema orð hans reglulega og fylgja því. — Efesusbréfið 6:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

12. Hvað ættum við að forðast til að koma fram við aðra eins og við viljum að Jehóva komi fram við okkur?

12 Í öðru lagi iðkum við réttlæti þegar við komum fram við aðra eins og við viljum að Jehóva komi fram við okkur. Það er auðvelt að hafa tvöfalt siðgæði — að vera undanlátssamur við sjálfan sig og strangur við aðra. Við eigum auðvelt með að afsaka eigin galla en erum fljót að gagnrýna galla annarra sem eru stundum smávægilegir í samanburði við okkar eigin. Jesús spurði hnitmiðað: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ (Matteus 7:1-3) Við ættum aldrei að gleyma að ekkert okkar fengi staðist ef Jehóva grannskoðaði misgerðir okkar. (Sálmur 130:3, 4) Ef réttlæti Jehóva leyfir honum að líta fram hjá veikleikum bræðra okkar er það ekki okkar að dæma þá harðneskjulega. — Rómverjabréfið 14:4, 10.

13. Hvers vegna finnst réttlátum manni sér skylt að prédika fagnaðarerindið um ríkið?

13 Í þriðja lagi endurspeglum við réttlæti Guðs þegar við tökum þátt í prédikunarstarfinu af kostgæfni. „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það,“ ráðleggur Jehóva okkur. (Orðskviðirnir 3:27) Það væri ekki rétt að liggja á þeirri lífgandi þekkingu sem Guð hefur af örlæti sínu gefið okkur. Margir hafna að vísu boðskap okkar, en meðan Guð heldur áfram að sýna þeim miskunn ættum við að vera fús til að gefa þeim tækifæri til að ‚komast til iðrunar.‘ (2. Pétursbréf 3:9) Og líkt og Jesús erum við himinlifandi þegar við getum hjálpað einhverjum að snúast til réttlætis og réttvísi. (Lúkas 15:7) Núna er hentugur tími til að ‚sá réttlæti.‘ — Hósea 10:12, Biblían 1859.

‚Höfðingjar stjórna með réttvísi‘

14. Hvert er hlutverk öldunga í sambandi við réttvísi?

14 Við verðum öll að ganga götu réttlætisins, en öldungar kristna safnaðarins hafa þar sérstaka ábyrgð. Höfðingdómur Jesú er ‚efldur með réttvísi og réttlæti.‘ Réttvísi Guðs er því staðallinn sem öldungar eiga að fylgja. (Jesaja 9:7) Þeir hafa í huga það sem lýst er spádómlega í Jesaja 32:1: „Konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi.“ Öldungarnir, sem eru ‚ráðsmenn Guðs‘ og útnefndir af anda hans, ættu að starfa eins og hann vill. — Títusarbréfið 1:7.

15, 16. (a) Hvernig líkja öldungarnir eftir trúfasta fjárhirðinum í dæmisögu Jesú? (b) Hvernig líta öldungarnir á þá sem villast frá andlega?

15 Jesús sýndi fram á að réttvísi Jehóva er meðaumkunarsöm, miskunnsöm og sanngjörn. Síðast en ekki síst reyndi hann að hjálpa þeim sem áttu við erfiðleika að stríða og „leita að hinu týnda og frelsa það.“ (Lúkas 19:10) Líkt og fjárhirðirinn í dæmisögu Jesú, sem leitaði þrotlaust uns hann fann týndan sauð, leita öldungarnir að þeim sem hafa villst andlega frá hjörðinni og reyna að leiða þá aftur inn í hana. — Matteus 18:12, 13.

16 Í stað þess að fordæma þá sem drýgt hafa alvarlegar syndir reyna öldungarnir að lækna þá og leiða til iðrunar ef mögulegt er. Þeir fagna því að geta hjálpað einhverjum sem villst hefur frá. En það hryggir þá þegar syndari iðrast ekki. Þá útheimta réttlátir staðlar Guðs að þeir víki hinum iðrunarlausa úr söfnuðinum. Engu að síður vonast þeir til, eins og faðir glataða sonarins, að hinn villuráfandi ‚komi til sjálfs sín‘ einhvern tíma. (Lúkas 15:17, 18) Öldungarnir heimsækja því suma brottrekna einstaklinga til að minna þá á hvernig þeir geti snúið aftur til skipulags Jehóva.a

17. Hvert er markmið öldunga þegar þeir taka á rangri breytni safnaðarmanna og hvaða eiginleiki hjálpar þeim að ná þessu marki?

17 Öldungarnir þurfa sérstaklega að líkja eftir réttvísi Jehóva þegar þeir taka á rangri breytni einhvers safnaðarmanns. Syndarar „komu til“ Jesú af því að þeim fannst hann skilja sig og hjálpa sér. (Lúkas 15:1; Matteus 9:12, 13) Jesús horfði auðvitað ekki fram hjá rangri breytni. Einn málsverður með Jesú fékk Sakkeus, sem var alræmdur okrari, til að iðrast og bæta fyrir allar þær þjáningar sem hann hafði valdið öðrum. (Lúkas 19:8-10) Öldungar nútímans hafa sama markmið þegar þeir taka fyrir dómsmál — að leiða hinn villuráfandi til iðrunar. Ef þeir eru viðmótsgóðir eins og Jesús auðveldar það syndurum að leita hjálpar þeirra.

18. Hvað gerir öldungunum kleift að vera eins og „hlé fyrir vindi“?

18 Næmt hjarta hjálpar öldungunum að beita réttlæti Guðs sem er hvorki harðneskjulegt né tilfinningalaust. Athyglisvert er að Esra undirbjó hjarta sitt, ekki aðeins hugann, til að kenna Ísraelsmönnum réttlæti. (Esrabók 7:10, NW) Skilningsríkt hjarta gerir öldungunum kleift að beita viðeigandi meginreglum Biblíunnar og taka tillit til aðstæðna hvers einstaklings. Þegar Jesús læknaði konu með þrálátar blæðingar sýndi hann fram á að réttvísi Jehóva felur í sér að skilja bæði anda laganna og bókstafinn. (Lúkas 8:43-48) Öldungar, sem beita réttvísinni með samúð, eru eins og „hlé fyrir vindi.“ Þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á eigin veikleikum eða því illa heimskerfi, sem við búum í, geta leitað skjóls hjá þeim. — Jesaja 32:2.

19. Hvernig brást systir nokkur við réttvísi Guðs?

19 Systir nokkur, sem hafði drýgt alvarlega synd, kynntist réttvísi Guðs af eigin raun. „Í hreinskilni sagt var ég hrædd við að leita til öldunganna,“ viðurkennir hún. „En þeir sýndu mér meðaumkun og virðingu. Þeir voru eins og feður en ekki eins og strangir dómarar. Þeir sýndu mér fram á að Jehóva hafnaði mér ekki ef ég einsetti mér að breyta um stefnu. Ég kynntist af eigin raun hvernig hann agar okkur eins og kærleiksríkur faðir. Ég gat opnað hjarta mitt fyrir Jehóva í trausti þess að hann heyrði bæn mína. Þegar ég lít um öxl get ég sagt með sanni að fundurinn með öldungunum fyrir sjö árum var blessun frá Jehóva. Ég hef átt miklu sterkara samband við hann upp frá því.“

Varðveitið réttlæti og gerið það sem rétt er

20. Hvaða gagn er í því að iðka réttlæti og réttvísi?

20 Til allrar hamingju er réttlæti Guðs meira en aðeins að veita hverjum manni það sem hann verðskuldar. Réttlæti Jehóva hefur fengið hann til að veita þeim eilíft líf sem iðka trú. (Sálmur 103:10; Rómverjabréfið 5:15, 18) Guð kemur þannig fram við okkur af því að réttlæti hans tekur tillit til aðstæðna okkar og leitast við að bjarga en ekki fordæma. Við styrkjum tengsl okkar við Jehóva með því að skilja betur hversu yfirgripsmikið réttlæti hans er. Og þegar við leitumst við að líkja eftir þessum þætti persónuleika hans er það okkur og öðrum til ríkulegrar blessunar. Faðir okkar á himnum sér að við stundum réttlæti. Hann lofar okkur: „Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. Sæll er sá maður, sem gjörir þetta.“ — Jesaja 56:1, 2.

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn 1. september 1991, bls. 28-30.

Manstu?

◻ Hvað kennir eyðing Sódómu og Gómorru okkur um réttlæti Jehóva?

◻ Af hverju er lausnargjaldið áberandi merki um réttlæti og kærleika Guðs?

◻ Nefndu þrjár leiðir til að iðka réttlæti.

◻ Á hvaða sérstaka hátt geta öldungarnir líkt eftir réttvísi Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við endurspeglum réttlæti Guðs með prédikunarstarfi okkar.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Þegar öldungarnir endurspegla réttvísi Guðs finnst þeim sem eiga í erfiðleikum auðveldara að leita hjálpar þeirra.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila