Happdrætti eða sköpun?
„ÞAÐ leikur ekki á tveim tungum að margir vísindamenn eru að eðlisfari andvígir öllum yfirnáttúrlegum rökum, að ekki sé nú minnst á dulspekileg rök. Þeir fyrirlíta þá hugmynd að til geti verið Guð eða jafnvel ópersónuleg frumorsök . . . Persónulega er ég ekki haldinn þessari fyrirlitningu.“ Þetta segir Paul Davies, prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði við Adelaide-háskóla í Suður-Ástralíu, í bók sinni The Mind of God.
Davies segir enn fremur: „Nákvæm athugun bendir til að lögmál alheimsins séu ótrúlega hagstæð til að mynda fjölbreytni og margbreytileik. Tilvist lifandi vera virðist háð svo mörgum heppilegum tilviljunum að sumir vísindamenn og heimspekingar kalla hana algera furðu.“
Hann heldur áfram: „Leit vísindanna er ferðalag á vit hins ókunna. . . . En skynsemi og regla liggur eins og rauður þráður gegnum allt saman. Við munum sjá að þessi alheimsregla á sér stuðning í ákveðnum stærðfræðilögmálum sem eru samofin í fíngerða og samstæða heild. Lögmálin einkennast af fáguðum einfaldleik.“
Davies lýkur máli sínu svo: „Það er mikil ráðgáta hvers vegna Homo sapiens ætti að hafa þann skynsemisneista sem gerir honum kleift að skilja alheiminn. . . . Ég get ekki trúað að tilvist okkar í þessum alheimi stafi af duttlungum örlaganna, af hendingu, af tilviljunarkenndu atviki í hinum mikla alheimssjónleik. Við erum of nátengd alheiminum. . . . Okkur er virkilega ætlað að vera hér.“ Davies kemst þó ekki að þeirri niðurstöðu að til sé skapari, Guð. En að hvaða niðurstöðu kemst þú? Var mannkyninu ætlað að vera hér? Ef svo er, hver ákvað það?
Lausn ‚ráðgátunnar‘
Páll postuli gefur okkur vísbendingu í Biblíunni til lausnar á því sem Davies kallar ‚mikla ráðgátu.‘ Páll bendir á hvernig Guð hafi opinberað sig: „Því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra [manna sem „kefja sannleikann“]. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“ (Rómverjabréfið 1:18-20)a Já, hin endalausa fjölbreytni lífveranna, ótrúlega flókin gerð þeirra og frábær hönnun ætti að fá auðmjúkan, lotningarfullan mann til að viðurkenna að til sé æðri máttur, vitsmunavera eða hugur langtum æðri öllu því sem maðurinn hefur nokkru sinni þekkt. — Sálmur 8:4, 5.
Ummæli Páls um þá sem hafna Guði eru umhugsunarverð: „Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar. . . . Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen.“ (Rómverjabréfið 1:22, 25) Þeir sem dýrka „náttúruna“ og hafna Jehóva Guði eru vissulega ekki vitrir í augum hans. Þeir sitja fastir í mótsagnakenndu hugmyndafeni þróunarkenningarinnar og viðurkenna ekki skaparann og hugmyndaauðgina og skipulagsgáfuna í sköpunarverki hans.
‚Hrikaleg mergð tilviljana‘
Páll skrifaði einnig: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Trú byggð á nákvæmri þekkingu, ekki trúgirni, getur veitt okkur skilning á því hvers vegna við erum til. (Kólossubréfið 1:9, 10) Það er að sjálfsögðu verið að höfða til trúgirni þegar vísindamenn vilja telja okkur trú um að lífið sé til vegna þess að það sé „rétt eins og við hefðum unnið milljón sinnum í röð í milljónalottói.“
Breski vísindamaðurinn Fred Hoyle hefur slegið fram þeirri kenningu að kjarnahvörf, sem leiddu til myndunar tveggja lífsnauðsynlegra frumefna, kolefnis og súrefnis, hafi myndað nauðsynlegt magnjafnvægi milli þeirra fyrir hreina slembilukku.
Hann nefnir annað dæmi: „Áhrifin yrðu skelfileg ef samanlagður massi róteindar og rafeindar yrði skyndilega örlítið meiri en massi nifteindar. . . . Öll vetnisatóm út um allan alheiminn myndu brotna niður þegar í stað og mynda nifteindir og fiseindir. Án kjarneldsneytisins myndi sólin fölna og falla saman.“ Eins færi fyrir öllum öðrum stjörnum alheimsins í milljarðatali.
Hoyle segir að lokum: „Listinn er langur og tilkomumikill . . . yfir svokallaðar tilviljanir sem ekki eru líffræðilegar en kolefnisháð líf er byggt á, þar á meðal líf mannsins.“ Hann segir: „Slíkir eiginleikar [sem eru nauðsynlegir lífinu] virðast vera samofnir heimi náttúrunnar eins og þráður heppilegra tilviljana. En þessar undarlegu tilviljanir, sem eru nauðsynlegar lífinu, eru svo margar að það virðist þurfa að finna þeim einhverja skýringu.“ — Leturbreyting okkar.
Og enn segir Hoyle: „Vandinn er sá að komast að niðurstöðu um hvort þessi fínstilling, sem virðist tilviljun háð, sé raunverulega tilviljun eða ekki, og þar með hvort lífið sé tilviljun eða ekki. Enginn vísindamaður hefur áhuga á að spyrja slíkrar spurningar, en það verður að spyrja hennar engu að síður. Getur verið að fínstillingin sé úthugsuð?“
Paul Davies segir: „Hoyle hreifst svo af þessari ‚hrikalegu mergð tilviljana‘ að hann fann sig tilknúinn að segja að það væri rétt eins og ‚lögmál kjarneðlisfræðinnar hafi verið sérsmíðuð með tilliti til afleiðinganna sem þau hafi inni í stjörnunum.‘“ Hver eða hvað stóð á bak við þessa „hrikalegu mergð [heppilegra] tilviljana“? Hver eða hvað bjó til þessa agnarsmáu reikistjörnu sem iðar af næstum endalausri fjölbreytni frábærlega myndaðra jurta og dýra í milljónatali?
Svar Biblíunnar
Fyrir hér um bil þrjú þúsund árum skrifaði sálmaritarinn lotningarfullur: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað. Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.“ — Sálmur 104:24, 25.
Jóhannes postuli sagði: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Lífið er ekki afleiðing blindrar tilviljunar, einhvers alheimshappdrættis þar sem milljónir ólíkra lífsforma fengu vinning.
Sannleikurinn er einfaldur og hann er sá að Guð ‚skapaði alla hluti og fyrir hans vilja urðu þeir til og voru skapaðir.‘ Jesús Kristur sagði faríseunum: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu?“ Jesús þekkti skaparann því að hann hafði verið verkstjóri hans og unnið með honum að sköpuninni. — Matteus 19:4; Orðskviðirnir 8:22-31.
En það krefst trúar og auðmýktar að skilja og meðtaka þennan grundvallarsannleika um skaparann. Þessi trú er ekki blind trúgirni heldur byggist á áþreifanlegum, sýnilegum sönnunargögnum. Já, „hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins.“ — Rómverjabréfið 1:20.
Takmörkuð vísindaþekking okkar nægir ekki til að skýra hvernig Guð skapaði alla hluti. Þess vegna ættum við að viðurkenna að enn sem komið er getum við hvorki vitað né skilið allt sem snýr að uppruna lífsins. Við erum minnt á það þegar við lesum orð Jehóva: „Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir — segir [Jehóva]. Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ — Jesaja 55:8, 9.
Það er þitt að velja. Valið stendur um gagnrýnislausa trú á blinda og tilviljanakennda þróun, þau óteljandi happdrætti sem hljóta þá að hafa skilað vinningi, eða um trú á skapara og hönnuð, Jehóva Guð. Hinn innblásni spámaður sagði réttilega: „[Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.“ — Jesaja 40:28.
Hverju ætlarðu þá að trúa? Ákvörðun þín skiptir sköpum um framtíðarhorfur þínar. Ef þróunarkenningin er sönn, þá er dauðinn endir alls, hverju sem kaþólskir guðfræðingar halda fram er þeir reyna að troða „sálinni“ inn í þróunarkenninguna með villandi og flókinni rökfærslu.b Maðurinn hefur enga ódauðlega sál sem getur mildað tilhugsunina um óumflýjanlegan dauðann. — 1. Mósebók 2:7; Esekíel 18:4, 20.
Ef við viðurkennum að Biblían sé sönn og að hinn lifandi Guð sé skaparinn, þá getum við fagnað loforðinu um upprisu til eilífs lífs, fullkomins lífs á jörð þar sem upprunalegu jafnvægi hefur verið komið á. (Jóhannes 5:28, 29) Á hvað ætlarðu að trúa — hið ótrúlega happdrætti þróunarkenningar Darwins eða á skaparann sem hafði ákveðinn tilgang með verki sínu og hefur enn?c
[Neðanmáls]
a „Frá því að Guð skapaði heiminn hefur hugurinn getað skynjað eilífan mátt hans og guðdómleika — þótt ósýnilegur væri — af því sem hann hefur gert.“ — Rómverjabréfið 1:20, Jerusalem Bible.
b Sjá „Horft á heiminn,“ bls. 28 undir yfirskriftinni „Páfi lýsir aftur stuðningi við þróunarkenninguna.“
c Ítarlegri umfjöllun er að finna í bókinni Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Innskot á blaðsíðu 14]
Sumir þróunarsinnar segja í reynd að tilvera okkar á jörðinni sé „rétt eins og að við hefðum unnið milljón sinnum í röð í milljónalottói.“
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 15]
Endalaus fjölbreytni
Skordýr „Vísindamenn uppgötva á bilinu 7000 til 10.000 nýjar skordýrategundir á hverju ári,“ segir alfræðibókin The World Book Encyclopedia. Vera má að „enn séu á bilinu ein til tíu milljónir tegunda ófundnar.“ Dagblaðið Guardian Weekly vitnaði í grein eftir Catherine Vincent í franska dagblaðinu Le Monde þar sem hún segir að skráðar tegundir séu „átakanlega fáar í samanburði við raunverulegan fjölda . . . sem talinn er liggja á bilinu 5 til 50 milljónir þótt ótrúlegt sé.“
Hugsaðu um öll hin furðulegu skordýr — býflugur, maura, geitunga, fiðrildi, kakkalakka, maríubjöllur, eldflugur, termíta, náttfiðrildi, húsflugur, drekaflugur, mýflugur, silfurskottur, engisprettur, lýs, krybbur og flær — svo aðeins fáein séu nefnd. Listinn virðist endalaus.
Fuglar Hvað er hægt að segja um fugl sem er innan við 30 grömm á þyngd? „Ár hvert flýgur hann meira en 16.000 kílómetra frá skógarmörkum Alaska til regnskóga Suður-Ameríku og til baka. Hann flýgur yfir skógivaxna fjallatinda, fram hjá skýjakljúfum borganna og langar leiðir yfir opnu Atlantshafi og Mexíkóflóa.“ Hvaða fugl er þetta? „Rákaskríkjan [Dendroica striata], sem er slíkur fluggarpur að hún á sér nánast engan keppinaut meðal norður-amerískra landfugla.“ (Book of North American Birds) Og enn spyrjum við: Varð þessi fugl óvart til vegna óteljandi, heppilegra duttlunga náttúrunnar? Eða er hann verk viturs skapara?
Og svo má nefna söngskrá fuglanna sem virðist endalaus í fjölbreytni sinni — næturgalans sem er þekktur um Evrópu alla og víða í Afríku og Asíu fyrir unaðslegan söng sinn; hermikrákunnar í Norður-Ameríku sem er „leikin eftirherma og fellir lagstúfa, sem hún lærir, inn í söng sinn“ og svo skartlýrufuglsins í Ástralíu með „háþróaðan söng sinn og ótrúlega snjallar eftirhermur.“ — Birds of the World.
Við göpum líka af undrun yfir fullkomnu litavali svo margra fugla og væng- og fjaðrahönnun þeirra. Og gleymum ekki leikni þeirra í hreiðurgerð og hreiðurvefnaði, hvort heldur er á jörðu niðri, á klettaveggjum eða í trjám. Þessir meðfæddu vitsmunir geta ekki annað en snortið auðmjúka menn. Hvernig urðu þeir til? Af tilviljun eða við sköpun?
Mannsheilinn „Taugamót heilans geta verið á bilinu tíu til hundrað billjónir, og hvert um sig er eins og agnarsmá reiknivél sem heldur tölu yfir aðkomin rafboð.“ (The Brain) Við höfum tilhneigingu til að líta á heilann sem sjálfsagðan hlut, en í rauninni er hann flókinn alheimur, vel varinn inni í höfuðkúpunni. Hvernig eignuðumst við þetta líffæri sem gerir manninum kleift að hugsa, rökhugsa og tala þúsundir tungumála? Eigum við það að þakka milljónum heppilegra tilviljana eða er heilinn verk viturs skapara?
Skyringamynd á blaðsíðu 16, 17]
Einfölduð teikning af heilanum
Skynjunarsvæði
Greinir skynboð frá öllum líkamanum
Hnakkablað
Vinnur úr sjónboðum
Hnykill
Stjórnar jafnvægi og samhæfingu
Forhreyfisvæði
Stjórnar samhæfingu vöðva
Hreyfisvæði
Á þátt í stjórnun viljastýrðrar hreyfingar
Ennisblað
Á þátt í stjórn rökhugsunar, tilfinninga, máls og hreyfingar
Gagnaugablað
Vinnur úr hljóðskynjun, stjórnar vissum þáttum lærdóms, minnis, máls og tilfinninga
[Skyringamynd á blaðsíðu 16]
Símaendi
Taugaboðefni
Taugagripla
Taugamót
[Skyringamynd á blaðsíðu 16, 17]
Taugungur
Taugagriplur
Taugasími
Taugagriplur
Taugamót
Taugungur
Taugasími
„Taugamót heilans geta verið á bilinu tíu til hundrað billjónir, og hvert um sig er eins og agnarsmá reiknivél sem heldur tölu yfir aðkomin rafboð.“ — THE BRAIN
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 13]
Tungl og reikistjörnur: Ljósmynd frá NASA.