Kynnstu bræðrum þínum vel
1 Samband okkar við trúbræður felur meira í sér en að sækja aðeins með þeim samkomur í ríkissalnum. Við gerum vilja Guðs og það veldur því að við höfum andleg tengsl við Jesú. (Mark. 3:34, 35) Það veldur því aftur á móti að við höfum andleg fjölskyldutengsl við aðra í kristna söfnuðinum, andlega bræður okkar og systur sem okkur er sagt að elska. (Jóh. 13:35) Þeir sem eru í félagi við „heimamenn Guðs“ ættu þess vegna að leitast við að kynnast hver öðrum vel. — Ef. 2:19.
2 Þekktu bræður þína með nafni: Þekkir þú nöfn allra bræðra og systra í bóknámshópnum þínum? Hópurinn er yfirleitt lítill og því frekar auðvelt að læra nöfn flestra, ef ekki allra, sem sækja bóknámið. Getur þú sagt að þú þekkir þau vel ef þú veist ekki einu sinni hvað þau heita?
3 Hvað um að kynnast öðrum, bæði fullorðnum og börnum, sem sækja samkomurnar í ríkissalnum? Við höfum ef til vill tilhneigingu til að eiga félagsskap eingöngu við lítinn hóp vina. Það er ekki rangt að njóta reglulegs félagsskapar afmarkaðs hóps einstaklinga en við viljum ekki láta nægja að heilsa hlýlega eða eiga uppbyggjandi samræður við aðeins fáeina af trúbræðrum okkar. Við ættum að ‚láta verða rúmgott‘ hjá okkur, leggja okkur fram við að kynnast öllum bræðrum okkar og systrum vel. (2. Kor. 6:11-13) Það felur greinilega í sér að kynnast þeim með nafni.
4 Bræður, sem stjórna samkomum, ættu að reyna að læra nöfn allra sem sækja þær. Ef kallað er á alla með nafni frá sviðinu finnst þeim að athugasemdir þeirra séu metnar að verðleikum og jafnframt hjálpar það öðrum að læra nöfnin. Auðvitað munu alltaf vera einhverjir frekar nýir eða gestir meðal áheyrenda sem gerir það erfitt að þekkja alla með nafni. Engu að síður verkar stöðug og einlæg viðleitni til að læra nöfnin uppörvandi á aðra og endurspeglar ósvikinn, persónulegan áhuga. — Rómv. 1:11, 12.
5 Eigðu frumkvæðið að því að kynnast öðrum vel: Farandumsjónarmenn kynnast yfirleitt stórum hópi bræðra og systra vel. Hvernig fara þeir að því? Einkum á þrjá vegu: (1) Þeir fara reglulega með þeim í boðunarstarfið. (2) Þeir þiggja heimboð eftir því sem kringumstæður þeirra leyfa. (3) Þeir eiga frumkvæðið að því að heilsa bæði fullorðnum og börnum á samkomunum.
6 Sérðu leiðir til að sýna meiri breidd í félagsskap þínum og kynnast bræðrum þínum betur? Við getum vissulega boðið öðrum að koma með okkur í boðunarstarfið. Að fara með þeim hús úr húsi, í endurheimsóknir, í biblíunám eða í blaðastarf á götum úti er allt sérstaklega góð leið til að kynnast. Það er einnig gott að bjóða öðrum heim til sín, ef til vill í mat eða smávegis góðgerðir af og til. Með því að eiga frumkvæðið að því að nálgast hina nýju eða þá sem eru feimnir að eðlisfari gerum við ekki aðeins mikið til að uppbyggja þá andlega heldur hljótum einnig ríkulega umbun. — Post. 20:35; 1. Þess. 5:11.
7 Páll þekkti bræður sína vel. Tilvísun hans til margra þeirra persónulega með nafni í bréfum hans var sönnun um óeigingjarnan áhuga hans á þeim og ósvikinn kærleika til þeirra. (1. Þess. 2:17; 2. Tím. 4:19, 20) Viðleitni okkar til að kynnast bræðrum okkar vel er okkur öllum til blessunar.