Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.9. bls. 20-25
  • Stattu stöðugur í frelsinu sem Guð gefur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Stattu stöðugur í frelsinu sem Guð gefur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Frelsi úr fjötrum
  • Hrífandi spádómlegur sjónleikur
  • Að forðast ánauðarok
  • Að taka afstöðu með frelsi sem Guð gefur
  • Stattu stöðugur!
  • Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem guð gefur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Frjálst fólk en ábyrgt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Frásaga með „táknræna merkingu“ sem á erindi til okkar
    Varðturninn: Frásaga með „táknræna merkingu“ sem á erindi til okkar
  • Frelsið sem Guð gefur veitir gleði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.9. bls. 20-25

Stattu stöðugur í frelsinu sem Guð gefur

„Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ — GALATABRÉFIÐ 5:1.

1, 2. Hvernig glötuðu menn frelsinu sem Guð gefur?

ÞJÓNAR Jehóva eru frjálsir. Þeir reyna hins vegar ekki að vera óháðir Guði því að það myndi hafa í för með sér fjötra frá Satan. Þeir láta sér mjög annt um hið nána samband sitt við Jehóva og fagna í frelsinu sem hann gefur þeim.

2 Fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, glötuðu frelsinu sem Guð gaf þeim með því að syndga og verða þrælar syndar, dauða og djöfulsins. (1. Mósebók 3:1-19; Rómverjabréfið 5:12) Satan hefur meira að segja komið öllum heiminum út á braut syndar sem liggur til tortímingar! Þeir sem standa stöðugir í frelsinu sem Guð gefur ganga hins vegar á veginum til eilífs lífs. — Matteus 7:13, 14; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Frelsi úr fjötrum

3. Hvaða von hélt Guð á lofti í Eden?

3 Sú var ætlun Jehóva að menn sem heiðruðu nafn hans yrðu frjálsir úr fjötrum Satans, syndar og dauða. Þeirri von var haldið á lofti þegar Guð sagði höggorminum sem Satan notaði í Eden: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:14, 15) Jesús Kristur, sæði hins himneska skipulags Jehóva, þoldi hælmar þegar hann dó á aftökustaur, en Guð færði þannig lausnarfórn til að frelsa trúað mannkyn undan synd og dauða. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Þegar þar að kemur mun Jesús merja höfuð Satans, hins upprunalega höggorms. — Opinberunarbókin 12:9.

4. Hvaða frelsis naut Abraham og hverju lofaði Jehóva honum?

4 Um 2000 árum eftir að fyrirheitið var gefið í Eden hlýddi ‚vinur Jehóva,‘ Abraham, Guði og yfirgaf borgina Úr og hélt til annars staðar. (Jakobsbréfið 2:23; Hebreabréfið 11:8) Þannig öðlaðist hann frelsi sem Guð gaf og bjó ekki lengur sem þræll í heimi falstrúarbragða, spilltra stjórnmála og ágjarnra viðskipta Satans. Guð bætti fyrirheitum við spádóminn í Eden þess efnis að allar fjölskyldur og þjóðir jarðar myndu blessa sig vegna Abrahams og sæðis hans. (1. Mósebók 12:3; 22:17, 18) Abraham var óflekkaður vegna þess að ‚hann trúði Jehóva sem reiknaði honum það til réttlætis.‘ (1. Mósebók 15:6) Núna veitir þetta nána samband við Jehóva einnig frelsi frá honum undan fordæmingu og þrælkun heims sem liggur í valdi Satans.

Hrífandi spádómlegur sjónleikur

5. Hvaða kringumstæður tengdust fæðingu Ísaks?

5 Til að Abraham gæti eignast afkomanda bauð Sara, sem var barnlaus, honum ambátt sína Hagar til að ala honum barn. Með henni átti Abraham Ísmael en Guð valdi hann ekki sem hið fyrirheitna sæði. Þess í stað gerði Jehóva þeim kleift að eignast soninn Ísak þegar Abraham var 100 ára og Sara níræð. Þegar Ísmael hæddi Ísak voru Hagar og sonur hennar send burt og þar með var sonur Abrahams með frjálsu konunni Söru óvéfengt sæði hans. Líkt og Abraham iðkaði Ísak líka trú og naut frelsis sem Guð gaf. — 1. Mósebók 16:1-16; 21:1-21; 25:5-11.

6, 7. Hvað höfðu falskennarar sannfært suma kristna Galata um en hvað útskýrði Páll?

6 Þessir atburðir voru fyrirmynd mjög þýðingarmikilla atriða fyrir þá sem elska frelsið frá Guði. Bent var á það í bréfi sem Páll skrifaði söfnuðinum í Galatíu um árið 50 til 52. Þegar þar var komið sögu hafði hið stjórnandi ráð úrskurðað að umskurnar væri ekki krafist af kristnum mönnum. Falskennarar höfðu hins vegar talið sumum Galötum trú um að það væri mikilvægur þáttur kristninnar.

7 Páll sagði Galötum: Maðurinn er lýstur réttlátur vegna trúar á Krist, ekki verk Móselögmálsins. (1:1–3:14) Lögmálið ógilti ekki fyrirheitið sem tengt var Abrahamssáttmálanum heldur sýndi fram á yfirtroðslurnar og þjónaði sem tyftari uns Kristur kæmi. (3:15-25) Með dauða sínum leysti Jesús þá sem voru undir lögmálinu og gerði þeim kleift að verða synir Guðs. Það að snúa aftur til þess að gefa gætur að dögum, mánuðum, árstíðum og árum hefði því í för með sér að snúa aftur til þrælkunar. (4:1-20) Síðan skrifaði Páll:

8, 9. (a) Útskýrðu stuttlega með eigin orðum hvað Páll sagði í Galatabréfinu 4:21-26. (b) Hvern eða hvað táknuðu Abraham og Sara í þessum táknræna sjónleik og hver er hið fyrirheitna sæði?

8 „Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir? Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan [Ísmael] við ambáttinni [Hagar], en hinn [Ísak] við frjálsu konunni [Söru]. Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar tvær merkja tvo sáttmála: Annar [lagasáttmálinn] er sá frá Sínaífjalli [þar sem Guð fullgilti þann sáttmála við Ísraelmenn] og elur börn til ánauðar, það er Hagar [hinn sáttmálinn var sá sem var gerður við Abraham um sæði hans]; en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum [afkomendum Abrahams, Ísaks og Jakobs]. En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor.“ — Galatabréfið 4:21-26.

9 Í þessum táknræna sjónleik var Abraham táknmynd Jehóva. ‚Frjálsa konan‘ Sara táknaði ‚konu‘ Guðs eða heilagt alheimsskipulag. Það fæddi af sér Krist, sæði þessarar tákrænu konu og hins meiri Abrahams. (Galatabréfið 3:16) Til að sýna fólki leiðina til lausnar undan óhreinni tilbeiðslu, synd og Satan kenndi Jesús sannleikann og afhjúpaði falstrú, en Jerúsalem og börn hennar héldu áfram að vera í trúarlegum fjötrum og höfnuðu honum. (Matteus 23:37, 38) Fylgjendur Jesú úr hópi Gyðinga urðu frjálsir undan lögmálinu sem sýndi fram á að þeir væru í fjötrum ófullkomleika, syndar og dauða. Allir menn sem viðurkenna að Jesús var sá sem ‚kona‘ Guðs fæddi til að vera Messíasarkonungur og frelsari er boðaði ‚bandingjum lausn,‘ eru í sannleika frjálsir. — Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:18, 19.

Að forðast ánauðarok

10, 11. Undan hvaða ánauðaroki frelsaði Kristur fylgjendur sína og hvaða nútímahliðstæður er hægt að benda á?

10 Páll segir þeim sem mynda sæði Abrahams ásamt Kristi, hinum meiri Ísak: „Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor . . . En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak. En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt [Ísmael], ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt [Ísak], svo er það og nú. . . . vér [erum] ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar. Til frelsis [undan lögmálinu] frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ — Galatabréfið 4:26–5:1.

11 Allir fylgjendur Jesú hefðu verið undir ánauðaroki ef þeir hefðu lotið lögmálinu. Falstrúarbrögðin eru þrælkunarok nútímans og kristni heimurinn er hliðstæða Forn-Jerúsalem og barna hennar. Hinir smurðu eru börn Jerúsalem í hæðum, hins frjálsa, himneska skipulags Guðs. Þeir og trúbræður þeirra með jarðneska von eru ekki hluti af þessum heimi og eru ekki í fjötrum Satans. (Jóhannes 14:30; 15:19; 17:14, 16) Með því að við erum frelsuð vegna sannleika og fórnar Jesú skulum við standa stöðugir í frelsinu sem Guð hefur gefið okkur.

Að taka afstöðu með frelsi sem Guð gefur

12. Hvaða stefnu taka þeir sem trúa og hvað verður nú rætt?

12 Milljónir manna njóta nú ósvikins frelsis sem vottar Jehóva. Biblíunám eru haldin með milljónum manna í viðbót sem margir ‚hneigjast réttilega til eilífs lífs.‘ Við það að snúast til trúar og láta skírast taka þeir afstöðu með frelsinu sem Guð gefur. (Postulasagan 13:48; 18:8) En hvaða skref eru undanfari kristinnar skírnar?

13. Hvaða samband er milli þekkingar og skírnar?

13 Áður en einstaklingur lætur skírast verður hann að afla sér nákvæmrar þekkingar á Biblíunni og fara eftir henni. (Efesusbréfið 4:13) Þannig sagði Jesús fylgjendum sínum: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.

14. Hvaða þekkingar er krafist til að skírast í nafni föðurins, sonarins og heilags anda?

14 Að láta skírast í nafni föðurins merkir að viðurkenna stöðu Jehóva og vald sem Guðs, skapara og alheimsdrottinvalds. (1. Mósebók 17:1; 2. Konungabók 19:15; Opinberunarbókin 4:11) Skírn í nafni sonarins felur í sér að viðurkenna stöðu og vald Krists sem upphafinnar andaveru, Messíasarkonungs og hans sem Guð notaði til að greiða ‚samsvarandi lausnargjald.‘ (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6, NW; Daníel 7:13, 14; Filippíbréfið 2:9-11) Sá sem lætur skírast í nafni heilags anda gerir sér grein fyrir að hann er starfskraftur Guðs sem Jehóva notaði við sköpunina og við innblástur biblíuritaranna, svo og á aðra vegu. (1. Mósebók 1:2; 2. Pétursbréf 1:21) Að sjálfsögðu er margt annað sem læra þarf um Guð, Krist og heilagan anda.

15. Hvers vegna er nauðsynlegt að iðka trú fyrir skírn?

15 Fyrir skírn þarf einstaklingurinn að iðka trú byggða á nákvæmri þekkingu. „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Jehóva].“ (Hebreabréfið 11:6) Sá sem iðkar trú á Guð, Krist og tilgang Guðs vill vera einn af vottum Jehóva, lifa í samræmi við orð Guðs og eiga marktækan þátt í prédikun fagnaðarerindisins. Hann talar um dýrð konungdóms Jehóva. — Sálmur 145:10-13; Matteus 24:14.

16. Hvað er iðrun og hvernig tengist hún kristinni skírn?

16 Iðrun er önnur forsenda skírnar. Að iðrast merkir að „skipta um skoðun varðandi liðna (eða fyrirhugaða) athöfn eða hegðun, vegna eftirsjár eða óánægju“ eða „að sjá eftir, harma eða hafa samviskubit að hafa gert eitthvað eða ekki gert.“ Gyðingar á fyrstu öld þurftu að iðrast synda sinna gegn Jesú Kristi. (Postulasagan 3:11-26) Sumir hinna trúuðu í Korintu iðruðust saurlifnaðar, skurðgoðadýrkunar, hjúskaparbrots, kynvillu, þjófnaðar, ágirndar, drykkjuskapar, lastmælgi og ráns. Þar af leiðandi ‚lauguðust‘ þeir í blóði Jesú, voru „helgaðir“ sem menn aðgreindir til þjónustu Jehóva og voru „réttlættir“ í nafni Jesú Krists og með anda Guðs. (1. Korintubréf 6:9-11) Iðrun er því skref í átt til góðrar samvisku og frelsis frá Guði undan þjakandi sektarkennd vegna synda sinna. — 1. Pétursbréf 3:21.

17. Hvað er fólgið í sinnaskiptum og hvað útheimta þau af þeim sem ætlar að láta skírast?

17 Einstaklingurinn þarf líka að taka sinnaskiptum áður en hann getur látið skírast sem einn votta Jehóva. Iðrunarfullur maður tekur sinnaskiptum eftir að hann hefur hafnað rangri stefnu sinni og einsett sér að gera það sem rétt er. Hebresku og grísku sagnirnar tengdar sinnaskiptum merkja „að snúa sér við eða til baka.“ Þegar þær eru notaðar í jákvæðri, andlegri merkingu er átt við það að snúa sér til Guðs af rangri braut. (1. Konungabók 8:33, 34) Sinnaskipti kalla á „verk samboðin iðruninni,“ að gera það sem Guð fyrirskipar, snúa baki við falstrú og beina hjörtum okkar einbeitt að Jehóva til að þjóna honum einum. (Postulasagan 26:20; 5. Mósebók 30:2, 8, 10; 1. Samúelsbók 7:3) Það kallar á „nýtt hjarta og nýjan anda,“ á breyttan hugsunarhátt, hneigðir og markmið í lífinu. (Esekíel 18:31) Nýi persónuleikinn, sem af því leiðir, víkur óguðlegum einkennum úr vegi fyrir eiginleikum Guði að skapi. (Kólossubréfið 3:5-14) Já, sönn iðrun kemur mönnum í raun og sannleika til að ‚snúa sér.‘ — Postulasagan 3:19.

18. Hvers vegna eigum við að vígjast Guði í bæn og hvaða þýðingu hefur þetta skref?

18 Vígsla til Guðs í bæn þarf að eiga sér stað fyrir skírn. (Samanber Lúkas 3:21, 22.) Vígsla er það að taka eitthvað frá í heilögum tilgangi. Svo mikilvægt er þetta skref að við ættum að tjá Guði í bæn þann ásetning okkar að veita honum algera hollustu og þjóna honum að eilífu. (5. Mósebók 5:8, 9; 1. Kroníkubók 29:10-13) Að sjálfsögðu erum við ekki að vígja okkur starfi heldur Guði sjálfum. Það kom skýrt fram við útför fyrsta forseta Varðturnsfélagsins, Charles Taze Russells, árið 1916. Ritari og féhirðir Félagsins, W. E. Van Amburgh, sagði við það tækifæri: „Þetta mikla starf um allan heim er ekki verk eins manns. Það er miklu umfangsmeira en svo. Það er starf Guðs og það breytist ekki. Guð hefur notað marga þjóna í fortíðinni og hann mun vafalaust nota marga í framtíðinni. Við erum ekki vígð manni eða starfi manns heldur til að gera vilja Guðs eins og hann mun opinbera hann okkur gegnum orð sitt og handleiðslu. Guð er enn við stjórnvölinn.“ En hvers annars krefst vígsla til Guðs af okkur?

19. (a) Hvernig gefa einstaklingar opinbert tákn vígslu sinnar til Jehóva? (b) Tákn hvers er vatnsskírn?

19 Einstaklingurinn gefur opinbert tákn um vígslu til Guðs þegar hann lætur skírast. Skírn er tákn þess að einstaklingurinn, sem lætur skírast í vatni, hafi vígt sig Jehóva Guði skilyrðislaust fyrir milligöngu Jesú Krists. (Samanber Matteus 16:24.) Þegar skírnþeginn hverfur undir vatnið og er síðan lyft aftur upp úr því deyr hann í táknrænni merkingu fyrri lífsstefnu sinni og er reistur upp til nýs lífernis, nú til að gera vilja Guðs skilyrðislaust. (Samanber Rómverjabréfið 6:4-6.) Þegar Jesús var skírður bauð hann sig himneskum föður sínum án skilyrða. (Matteus 3:13-17) Og Ritningin sýnir aftur og aftur að þeir sem trúa og eru hæfir til ættu að láta skírast. (Postulasagan 8:13; 16:27-34; 18:8) Til að verða einn votta Jehóva nú á tímum verður einstaklingurinn þess vegna að iðka trú í raun og veru og láta skírast. — Samanber Postulasöguna 8:26-39.

Stattu stöðugur!

20. Nefndu nokkur biblíuleg fordæmi sem sanna að við hljótum blessun fyrir það að taka afstöðu með frelsinu sem Guð gefur skírðum vottum Jehóva.

20 Ef þú hefur tekið einarðlega afstöðu með frelsinu sem Guð gefur, með því að verða skírður vottur Jehóva, þá mun hann blessa þig eins og hann hefur blessað þjóna sína áður fyrr. Til dæmis blessaði Jehóva hin aldurhnignu Abraham og Söru með guðhræddum syni, Ísak. Vegna trúar kaus spámaðurinn Móse frekar að þola illt með þjóð Guðs „en njóta sammvinns unaðar af syndinni. Hann taldi vanvirðu Krists [það að vera vera forn fyrirmynd hins smurða] meiri auð en fjársjóðu Egyptalands.“ (Hebreabréfið 11:24-26) Móse hafði þau sérréttindi að Jehóva skyldi nota hann til að leiða Ísraelsmenn út úr þrælkun Egyptalands. Enn fremur verður hann reistur upp, vegna þess að hann þjónaði Guði í trúfesti, og hann mun þjóna sem einn ‚höfðingjanna um land allt‘ undir stjórn hins meiri Móse, Jesú Krists. — Sálmur 45:17; 5. Mósebók 18:17-19.

21. Hvaða hvetjandi fordæmi er hægt að nefna um guðhræddar konur til forna?

21 Vígðir kristnir nútímamenn geta líka leitað uppörvunar í því að hugleiða fordæmi kvenna sem hlutu ósvikið frelsi og hamingju. Þeirra á meðal var Rut hin móabíska sem þoldi bæði þá hjartasorg að verða ekkja og þá gleði að Guð skyldi gefa henni frelsi úr fjötrum falskra trúarbragða. Hún yfirgaf þjóð sína og guði hennar og fylgdi tengdamóður sinni, ekkjunni Naomí. „Hvert sem þú fer, þangað fer ég,“ sagði Rut, „og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Sem eiginkona Bóasar varð Rut móðir afa Davíðs, Óbeðs. (Rutarbók 4:13-17) Jehóva veitti þessari hógværu, útlendu konu ‚fullkomin laun‘ með því að leyfa henni að verða formóðir Jesú, Messíasar! (Rutarbók 2:12) Það verður mikil gleði fyrir Rut að fá upprisu og uppgötva að hún skuli hafa notið slíkra sérréttinda. Sams konar gleði mun vafalaust fylla hjarta hinnar fyrrverandi skækju Rahab sem losnaði úr fjötrum siðlausrar og falskrar tilbeiðslu, svo og hinnar villuráfandi en iðrunarfullu Batsebu, því að þær munu líka uppgötva að Jehóva leyfði þeim að verða formæður Jesú Krists. — Matteus 1:1-6, 16.

22. Hvað verður fjallað um í næstu grein?

22 Hægt væri að halda áfram að tíunda þá sem Guð gaf frelsi. Til dæmis eru í þeirra hópi þeir karlar og konur sem nafngreind eru í 11. kafla Hebreabréfsins. Þau þoldu þrengingar og illa meðferð og ‚heimurinn átti þau ekki skilið.‘ Þá má nefna hina drottinhollu fylgjendur Krists á fyrstu öld og fjölmarga aðra trúfasta einstaklinga eftir það, þeirra á meðal þær milljónir manna er þjóna Jehóva nú sem vottar hans. Eins og við munum sjá í næstu grein hefur þú margs konar tilefni til að gleðjast ef þú hefur tekið afstöðu með þeim og frelsinu sem Guð gefur.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða von hélt Guð á lofti þegar frelsið sem Guð gaf glataðist?

◻ Undan hvaða ‚ánauðaroki‘ frelsaði Kristur fylgjendur sína?

◻ Hvaða skref eru undanfari skírnar sem vottur Jehóva?

◻ Hvaða biblíuleg fordæmi sanna að við hljótum blessun fyrir að taka afstöðu með frelsinu sem Guð gefur?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Veist þú hvaða skref eru undanfari þess að skírast sem vottur Jehóva?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila