Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.12. bls. 8-13
  • Jehóva kann að meta þjónustu af allri sálu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva kann að meta þjónustu af allri sálu
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þjónusta af allri sálu er fögur
  • Ekki í samanburði við aðra
  • ‚Dýr‘ gjöf þakklátrar konu
  • ‚Tveir smápeningar‘ ekkjunnar
  • Lærum af viðhorfi Jehóva til þjónustu af allri sálu
  • Vinnum af heilum huga!
    Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • „Ég hef séð Drottin!“
    Líkjum eftir trú þeirra
  • Þjónum Jehóva af allri sálu
    Syngjum af gleði fyrir Jehóva
  • Þjónum Jehóva af allri sálu
    Lofsyngjum Jehóva
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.12. bls. 8-13

Jehóva kann að meta þjónustu af allri sálu

„Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:23.

1, 2. (a) Hver eru mestu sérréttindi sem hugsast geta? (b) Af hverju getum við stundum ekki gert allt sem við vildum í þjónustu Guðs?

AÐ ÞJÓNA Jehóva eru mestu sérréttindi sem hugsast getur. Af ærnu tilefni hefur þetta tímarit lengi hvatt kristna menn til að gefa sig að þjónustunni og taka jafnvel „enn meiri framförum“ hvenær sem þess er kostur. (1. Þessaloníkubréf 4:1) En við getum ekki alltaf gert allt sem hjarta okkar þráir í þjónustu Guðs. „Ég er í þeirri aðstöðu að þurfa að vinna fulla vinnu,“ segir einhleyp systir sem lét skírast fyrir næstum 40 árum. „Ég er ekki að vinna til að geta keypt dýr og fín föt eða fara í skemmtisiglingar í fríum heldur til að sjá fyrir nauðsynjum, þar á meðal sjúkra- og tannlæknakostnaði. Mér finnst ég vera að gefa Jehóva afgang.“

2 Kærleikur til Guðs fær okkur til að vilja gera eins mikið og við getum í prédikunarstarfinu. En aðstæður í lífinu takmarka oft hvað við getum gert. Aðrar biblíulegar skyldur, svo sem gagnvart fjölskyldunni, geta gleypt stóran hluta af tíma okkar og kröftum. (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Lífið gerir sífellt meiri kröfur til okkar á þessum ‚örðugu tíðum‘ sem við lifum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þegar við getum ekki gert allt sem við vildum í þjónustunni getur hjartað kvalið okkur svolítið. Við spyrjum okkur kannski hvort Guð sé ánægður með tilbeiðslu okkar.

Þjónusta af allri sálu er fögur

3. Hvers væntir Jehóva af okkur öllum?

3 Í Sálmi 103:14 fullvissar Biblían okkur hlýlega um að Jehóva ‚þekki eðli okkar, minnist þess að við erum mold.‘ Hann skilur takmörk okkar betur en nokkur annar. Hann krefst ekki meira af okkur en við getum gefið. Hvers væntir hann? Þess sem hver og einn getur gert, óháð aðstæðum í lífinu: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn.“ (Kólossubréfið 3:23) Já, Jehóva væntir þess að við — við öll — þjónum sér af heilum huga eða allri sálu.

4. Hvað merkir það að þjóna Jehóva af allri sálu?

4 Hvað merkir það að þjóna Jehóva af allri sálu? Grísku orðin, sem hér eru þýdd „af heilum huga,“ merkja bókstaflega „af sálinni.“ ‚Sálin‘ á hér við allan manninn ásamt allri hæfni huga og líkama. Að þjóna af allri sálu merkir því að gefa af sjálfum okkur, beita öllum hæfileikum okkar og kröftum til hins ítrasta í þjónustu Guðs. Það merkir einfaldlega að gera allt sem sál okkar getur. — Markús 12:29, 30.

5. Hvernig sýnir fordæmi postulanna að það þurfa ekki allir að gera jafnmikið í þjónustunni?

5 Merkir þjónusta af allri sálu að við verðum öll að gera jafnmikið í þjónustunni? Það væri varla gerlegt því að hæfni og aðstæður eru breytilegar frá manni til manns. Tökum trúfasta postula Jesú sem dæmi. Ekki gátu þeir allir gert jafnmikið. Til dæmis vitum við harla lítið um suma postulana, svo sem Símon vandlætara og Jakob Alfeusson. Kannski var postulastarf þeirra fremur takmarkað. (Matteus 10:2-4) Hins vegar gat Pétur tekið á sig margs konar þunga ábyrgð — Jesús fól honum meira að segja „lykla himnaríkis“! (Matteus 16:19) En Pétur var ekki yfir aðra hafinn. Þegar Jóhannes sá hina nýju Jerúsalem í opinberunarsýninni (um árið 96) sá hann 12 undirstöðusteina og á þeim „nöfn hinna tólf postula.“a (Opinberunarbókin 21:14) Jehóva mat mikils þjónustu allra postulanna, jafnvel þótt sumir hafi greinilega getað gert meira en aðrir.

6. Hvað varð um sæðið sem féll í „góða jörð“ í dæmisögu Jesú um sáðmanninn og hvaða spurningar vakna?

6 Jehóva krefst ekki heldur jafnmikils prédikunarstarfs af okkur öllum. Jesús gaf það til kynna í dæmisögunni um sáðmanninn þar sem hann líkti prédikunarstarfinu við sáningu sæðis. Sæðið féll í mismunandi jörð sem táknar ólíkt hjartalag þeirra er heyra boðskapinn. „Það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það,“ útskýrði Jesús. „Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.“ (Matteus 13:3-8, 18-23) Hver er þessi ávöxtur og hvers vegna er hann mismikill?

7. Hver er ávöxtur sæðisins, sem sáð er, og af hverju er hann mismikill?

7 Þar eð sæðið, sem sáð er, táknar „orðið um ríkið“ hlýtur ávöxturinn að tákna útbreiðslu orðsins, að segja öðrum frá því. (Matteus 13:19) Ávöxturinn er mismikill — allt frá þrítugföldum upp í hundraðfaldan — af því að hæfni manna og aðstæður í lífinu eru misjafnar. Hraustur og þróttmikill maður getur kannski varið meiri tíma til prédikunarstarfs en sá sem er þróttlítill sökum langvinnra veikinda og elli. Ungur, einhleypur einstaklingur, sem er laus við fjölskylduábyrgð, getur kannski gert meira en sá sem þarf að vinna fulla vinnu til að sjá fyrir fjölskyldu. — Samanber Orðskviðina 20:29.

8. Hvernig lítur Jehóva á þá sem gefa það besta sem sál þeirra getur gefið?

8 Er sá maður, sem þjónar af allri sálu en ber þrítugfaldan ávöxt, síður trúfastur í augum Guðs en sá sem ber hundraðfaldan? Engan veginn. Ávöxturinn er mismikill en Jehóva er ánægður, svo framarlega sem þjónustan er sú besta sem sál okkar getur veitt. Munum að hinn mismikli ávöxtur er allur sprottinn úr hjörtum sem eru ‚góð jörð.‘ Gríska orðið kalosʹ, sem þýtt er ‚góður,‘ lýsir ‚fegurð‘ sem er „hjartanu gleði og augunum yndi.“ Það er hughreystandi að vita að hjörtu okkar eru fögur í augum Guðs þegar við gerum okkar besta.

Ekki í samanburði við aðra

9, 10. (a) Hvers konar neikvæðum hugsunarhætti getur hjartað komið af stað? (b) Hvernig sýnir líkingin í 1. Korintubréfi 12:14-26 að Jehóva ber ekki saman þjónustu okkar og annarra?

9 En ófullkomið hjarta dæmir okkur ef til vill öðruvísi. Það getur átt til að bera þjónustu okkar saman við þjónustu annarra. Það hugsar kannski sem svo: ‚Aðrir gera miklu meira í þjónustunni en ég. Hvernig getur Jehóva verið ánægður með þjónustu mína?‘ — Samanber 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

10 Hugsanir og vegir Jehóva eru miklu æðri en okkar. (Jesaja 55:9) Við fáum svolitla innsýn í viðhorf Jehóva til viðleitni okkar hvers og eins í 1. Korintubréfi 12:14-26, þar sem söfnuðinum er líkt við líkama með marga limi — augu, hendur, fætur, eyru og svo framvegis. Lítum eitt augnablik á bókstaflegan líkama. Það væri fáránlegt að bera augun saman við hendurnar eða fæturna við eyrun! Hver limur þjónar ólíku hlutverki en allir eru samt nytsamir og verðmætir. Á sama hátt kann Jehóva að meta þá þjónustu sem þú veitir af allri sálu, hvort sem aðrir gera meira eða minna. — Galatabréfið 6:4.

11, 12. (a) Af hverju getur sumum fundist þeir ‚veikbyggðari‘ eða ‚óvirðulegri‘ en aðrir? (b) Hvernig lítur Jehóva á þjónustu okkar?

11 Þar eð heilsubrestur, aldur eða aðrar aðstæður setja okkur takmörk getur okkur stundum fundist að við séum ‚veikbyggðari‘ eða ‚óvirðulegri‘ en aðrir. En Jehóva lítur málin öðrum augum. Biblían segir okkur: „Þeir limir á líkamanum [eru] nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi. Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi . . . , þeim veitum vér því meiri sæmd . . . En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd.“ (1. Korintubréf 12:22-24) Hver einasti maður getur því verið dýrmætur í augum Jehóva. Hann metur mikils þá þjónustu sem við veitum innan þess ramma sem takmörk okkar setja. Knýr hjartað þig ekki til að vilja gera allt sem þú getur til að þjóna svona skilningsríkum og kærleiksríkum Guði?

12 Það sem skiptir máli í augum Jehóva er því ekki hvort þú gerir jafnmikið og einhver annar heldur að þú gerir það sem þú — sál þín — getur persónulega. Það sýndi sig með mjög hrífandi hætti í samskiptum Jesú við tvær gerólíkar konur á síðustu jarðlífsdögum sínum að Jehóva metur viðleitni okkar sem einstaklinga.

‚Dýr‘ gjöf þakklátrar konu

13. (a) Við hvaða aðstæður bar María ilmolíu á höfuð Jesú og fætur? (b) Hve verðmæt var olía Maríu?

13 Föstudagskvöldið 8. nísan kom Jesús til Betaníu sem er smáþorp í austurhlíð Olíufjallsins, um þrjá kílómetra frá Jerúsalem. Jesús átti ástfólgna vini í þorpinu — þau Maríu, Mörtu og Lasarus, bróður þeirra. Hann hafði verið gestur á heimili þeirra, kannski tíður gestur. En á laugardagskvöldi mötuðust Jesús og vinir hans á heimili Símonar, manns sem hann hafði ef til vill læknað af holdsveiki. Þegar Jesús lagðist þar að borði gaf María tákn um djúpa ást sína á manninum sem hafði reist bróður hennar upp frá dauðum. Hún braut upp flösku af ‚dýrri‘ ilmolíu. Þetta var mjög dýr olía því að hún var metin á 300 denara sem jafngilti hér um bil árslaunum. Hún hellti þessari ilmolíu á höfuð Jesú og fætur og þerraði jafnvel fætur hans með hári sínu. — Markús 14:3; Lúkas 10:38-42; Jóhannes 11:38-44; 12:1-3.

14. (a) Hvernig brugðust lærisveinarnir við því sem María gerði? (b) Hvernig kom Jesús Maríu til varnar?

14 Lærisveinarnir voru sárreiðir. „Til hvers er þessi sóun?“ spurðu þeir. Júdas stakk upp á fátækrahjálp en í raun langaði hann til að stela fénu: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ María þagði. En Jesús sagði lærisveinunum: „Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott [mynd orðsins kalosʹ] verk gjörði hún mér. . . . Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana.“ Hlýleg orð Jesú hljóta að hafa róað hjarta Maríu. — Markús 14:4-9; Jóhannes 12:4-8.

15. Af hverju var Jesús svo snortinn af því sem María gerði og hvað kennir það okkur um þjónustu af allri sálu?

15 Jesús var djúpt snortinn af því sem María hafði gert. Að hans mati hafði hún unnið lofsvert verk. Það var ekki efnislegt verðmæti gjafarinnar sem skipti Jesú máli heldur sú staðreynd að „hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð.“ Hún greip tækifærið og gaf það sem hún gat gefið. Aðrar biblíuþýðingar hafa orðað þetta svona: „Hún gerði allt sem hún gat,“ eða: „Hún gerði það sem hún gat.“ (An American Translation; Nýheimsþýðingin) María gaf af allri sálu af því að hún gaf það besta sem hún gat. Það er það sem þjónusta af allri sálu snýst um.

‚Tveir smápeningar‘ ekkjunnar

16. (a) Hvernig kom það til að Jesús tók eftir framlagi fátækrar ekkju? (b) Hve mikils virði voru smápeningar ekkjunnar?

16 Tveim dögum síðar, hinn 11. nísan, eyddi Jesús löngum degi í musterinu þar sem vald hans var véfengt og hann svaraði snúnum spurningum um skatta, upprisuna og fleira. Hann fordæmdi fræðimennina og faríseana meðal annars fyrir að „eta upp heimili ekkna.“ (Markús 12:40) Síðan settist Jesús, greinilega í forgarði kvennanna þar sem voru 13 samskotabaukar samkvæmt arfsögnum Gyðinga. Hann sat þar um stund og fylgdist vandlega með fólki leggja framlög sín í baukana. Margir auðmenn komu, sumir kannski sjálfumglaðir eða jafnvel yfirlætislegir í bragði. (Samanber Matteus 6:2.) Jesús veitti sérstaklega einni konu athygli. Venjulegur maður hefði kannski ekki talið neitt merkilegt við hana eða gjöf hennar. En Jesús, sem gat séð hvað bjó í hjörtum annarra, vissi að hún var ‚fátæk ekkja.‘ Hann vissi líka nákvæmlega hvað hún gaf mikið — „tvo smápeninga, eins eyris virði.“b — Markús 12:41, 42.

17. Hvernig mat Jesús framlag ekkjunnar og hvað lærum við þannig um að gefa Guði?

17 Jesús kallaði lærisveinana til sín því að hann vildi að þeir sæju með eigin augum það sem þeir áttu að draga lærdóm af. Hún „gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna,“ sagði Jesús. Að hans mati lagði hún meira en allir hinir samanlagt. Hún gaf „allt sem hún átti“ — síðustu peningana sína. Þar með lagði hún sjálfa sig í hendur Jehóva. Manneskja, er gaf nánast verðlausa gjöf, var því valin sem fyrirmynd um að gefa Guði. Í augum hans var gjöfin ómetanleg! — Markús 12:43, 44; Jakobsbréfið 1:27.

Lærum af viðhorfi Jehóva til þjónustu af allri sálu

18. Hvað lærum við af samskiptum Jesú við þessar tvær konur?

18 Við lærum ýmislegt um viðhorf Jehóva til þjónustu af allri sálu af samskiptum Jesú við þessar tvær konur. (Jóhannes 5:19) Jesús bar ekki ekkjuna saman við Maríu. Hann mat ekki tvo smápeninga ekkjunnar minna en ‚dýru‘ olíuna hennar Maríu. Þar eð báðar konurnar gáfu sitt besta voru gjafir þeirra beggja verðmætar í augum Guðs. Örvæntu því ekki ef þér finnst þú lítils virði af því að þú getur ekki gert allt sem þú vilt í þjónustu Guðs. Jehóva þiggur fúslega það besta sem þú getur gefið. Mundu að hann „lítur á hjartað“ og þekkir því fullkomlega þrár hjarta þíns. — 1. Samúelsbók 16:7.

19. Af hverju ættum við ekki að dæma það sem aðrir gera í þjónustu Guðs?

19 Viðhorf Jehóva til þjónustu af allri sálu ætti að hafa áhrif á viðhorf okkar og framkomu hvert við annað. Það væri kærleikslaust að gagnrýna viðleitni annarra eða bera þjónustu sína saman við þjónustu annarra! Það er dapurlegt að það skuli gerast sem kristin kona skrifaði einu sinni: „Stundum láta sumir í veðri vaka að maður sé ekkert ef maður er ekki brautryðjandi. Þau okkar, sem basla við að vera ‚bara‘ reglulegir boðberar Guðsríkis, þurfa líka að finna að þau séu einhvers metin.“ Munum að við höfum ekki leyfi til að dæma um hvað sé þjónusta af allri sálu af hálfu trúbræðra okkar. (Rómverjabréfið 14:10-12) Jehóva kann að meta þjónustu milljóna trúfastra boðbera Guðsríkis, sem þjóna af allri sálu, og við ættum líka að meta hana mikils.

20. Hverju er yfirleitt best að gera ráð fyrir í sambandi við trúbræður okkar?

20 En hvað þá ef sumir virðast gera minna í þjónustunni en þeir gætu? Minnkandi starf einhvers trúbróður getur gefið umhyggjusömum öldungum vísbendingu um að hann þarfnist hjálpar eða uppörvunar. En um leið megum við ekki gleyma að hjá sumum getur þjónusta af allri sálu líkst meira smápeningum ekkjunnar en dýru olíunni hennar Maríu. Yfirleitt er best að gera ráð fyrir að bræður okkar og systur elski Jehóva og að slíkur kærleikur komi þeim til að gera eins mikið — ekki eins lítið — og þau geta. Enginn samviskusamur þjónn Jehóva vill auðvitað gera minna en hann getur í þjónustu Guðs. — 1. Korintubréf 13:4, 7.

21. Í hvaða gefandi starfi þjóna margir og hvaða spurningar vakna?

21 En fyrir marga þjóna Guðs hefur þjónusta af allri sálu þýtt að takast á hendur mjög gefandi starf — brautryðjandastarfið. Hvaða blessun hljóta þeir? Og hvernig geta þau okkar, sem hafa enn ekki getað gerst brautryðjendur, sýnt brautryðjandaanda? Þessar spurningar eru ræddar í næstu grein.

[Neðanmáls]

a Þar eð Mattías kom í stað Júdasar sem postuli hlýtur nafn hans — ekki Páls — að hafa staðið á einum þessara 12 undirstöðusteina. Enda þótt Páll væri postuli var hann ekki einn þeirra 12.

b Þessir smápeningar voru leptonar, smæsta mynt Gyðinga í umferð á þeim tíma. Tveir leptonar jafngiltu 1/64 úr daglaunum. Samkvæmt Matteusi 10:29 var hægt að kaupa tvo spörva, einhverja ódýrustu fugla sem fátækir höfðu til matar, fyrir einn assarion sem jafngilti átta leptonum. Þessi ekkja var því sannarlega fátæk því hún átti aðeins fyrir hálfum spörva sem dugði varla í eina máltíð.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað merkir það að þjóna Jehóva af allri sálu?

◻ Hvernig sýnir líkingin í 1. Korintubréfi 12:14-26 að Jehóva ber okkur ekki saman við aðra?

◻ Hvað lærum við um þjónustu af allri sálu af orðum Jesú um dýru olíuna hennar Maríu og tvo smápeninga ekkjunnar?

◻ Hvaða áhrif ætti viðhorf Jehóva til þjónustu af allri sálu að hafa á viðhorf okkar hvert til annars?

[Mynd á blaðsíðu 9]

María gaf það besta sem hún gat og smurði líkama Jesú með ‚dýrri‘ olíu.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Smápeningar ekkjunnar — næstum verðlausir en ómetanlegir í augum Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila