Við hvaða borð nærist þú?
„Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi [Jehóva] og borðhaldi illra anda.“ — 1. KORINTUBRÉF 10:21.
1. Hvaða borð eru okkur búin og hverju varar Páll postuli við í sambandi við þau?
ÞESSI innblásnu orð Páls postula sýna að tvö táknræn borð eru búin mannkyninu. Bæði borðin þekkjast á hinni táknrænu fæðu sem á þau er borin, og öll erum við að nærast við annað hvort þeirra. En ef við viljum þóknast Guði getum við ekki nærst við borð hans og samtímis nartað í bita af borði illra anda. Páll postuli varaði við: „Það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda. Ekki getið þér drukkið bikar [Jehóva] og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi [Jehóva] og borðhaldi illra anda.“ — 1. Korintubréf 10:20, 21.
2. (a) Hvaða borð Jehóva var til á dögum Forn-Ísraels, og hverjir fengu hlutdeild í samfélagsfórnunum? (b) Hvað merkir það nú á tímum að taka þátt í borðhaldi Jehóva?
2 Orð Páls minna okkur á samfélags- eða heillafórnirnar sem Ísraelsmenn til forna færðu samkvæmt lögmáli Jehóva. Altari Guðs var kallað borð og sá sem kom með skepnu til fórnar var sagður taka þátt í borðhaldi með Jehóva og prestunum. Hvernig? Í fyrsta lagi fékk Jehóva hlutdeild í fórninni af því að blóðinu var stökkt á altari hans og fitan brennd í logum undir því. Í öðru lagi fékk presturinn hlutdeild í fórninni af því að hann (og fjölskylda hans) át steikta bringu og hægra læri skepnunnar sem fórnað var. Og í þriðja lagi átti sá sem fórnina færði hlutdeild í henni með því að borða það sem eftir var af henni. (3. Mósebók 7:11-36) Að taka þátt í borðhaldi Jehóva merkir nú á dögum að við tilbiðjum hann á þann hátt sem hann krefst, eftir fyrirmynd Jesú og postula hans. Til að gera það verðum við að nærast andlega á því sem Jehóva lætur í té fyrir milligöngu orðs síns og skipulags. Ísraelsmönnum, sem áttu sérstakt samfélag við Jehóva við borð hans, var bannað að færa illum öndum fórnir við borð þeirra. Þetta bann Guðs nær einnig til andlegra Ísraelsmanna og félaga þeirra, hinna ‚annarra sauða.‘ — Jóhannes 10:16.
3. Hvernig væri hægt að verða sekur um þátttöku í borðhaldi illra anda nú á dögum?
3 Hvernig er hægt að verða sekur um þátttöku í borðhaldi illra anda nú á dögum? Með því að stuðla að einhverju því sem er andstætt Jehóva. Borð illra anda felur í sér allan áróður illra anda sem er til þess gerður að afvegaleiða og gera okkur fráhverf Jehóva. Hvern langar til að næra hjarta sitt og huga á slíku eitri? Sannkristnir menn neita að taka þátt í þeim fórnum sem flestir nú á tímum færa stríðsguðinum og mammón. — Matteus 6:24.
Að forðast ‚borðhald illra anda‘
4. Hvaða spurningu þurfum við öll að svara og hvers vegna myndum við ekki vilja matast vitandi vits við borð illra anda?
4 Við verðum öll að svara þeirri spurningu við hvaða borð við nærumst. Það er óumflýjanlegt að við verðum að nærast við annað hvort borðið. (Samanber Matteus 12:30.) Við ættum ekki vísvitandi að vilja taka þátt í borðhaldi illra anda. Það myndi kosta okkur velþóknun hins eina sanna og lifandi Guðs, Jehóva. Á hinn bóginn leiðir það til eilífs lífs og hamingju að matast aðeins við borð Jehóva! (Jóhannes 17:3) Sagt er að maður sé það sem hann borðar. Hver sem vill vera hraustur og heilbrigður á líkama og huga þarf að gefa gaum að mataræði sínu. Fituríkur sjoppumatur, sem bragðast kannski vel vegna ýmissa aukaefna sem í hann er bætt, er ekki til þess fallinn að viðhalda góðri líkamsheilsu. Eins er áróður þessa heims, sem er kryddaður hugmyndum illra anda, óhollur andlegur sjoppumatur sem spillir huga okkar.
5. Hvernig getum við forðast að innbyrða kenningar illra anda nú á dögum?
5 Páll postuli sagði fyrir að á síðustu dögum myndu menn leiðast afvega af „lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Slíka lærdóma illra anda er ekki aðeins að finna í falstrúarbrögðum heldur eru þeir einnig útbreiddir mjög með öðrum hætti. Til dæmis þurfum við að vega og meta hvaða bækur og tímarit við og börn okkar lesa, hvaða sjónvarpsefni við horfum á og hvaða leikrit og kvikmyndir við sjáum. (Orðskviðirnir 14:15) Ef við lesum skáldsögur til afþreyingar, lýsa þær þá tilgangslausu ofbeldi, óleyfilegu kynlífi eða dulspekiiðkunum? Ef við lesum fræðibækur til þekkingarauka, útlista þær þá heimspeki eða líferni sem er „ekki frá Kristi“? (Kólossubréfið 2:8) Koma þær fram með innantómar getgátur eða mæla með þátttöku í veraldlegum þjóðfélagshreyfingum? Ala þær á löngun í ríkidæmi? (1. Tímóteusarbréf 6:9) Kemur ritið lævíslega á framfæri kenningum sem valda sundurlyndi og eru ekki í anda Krists? Ef svarið er já, og við höldum áfram að lesa eða horfa á slíkt efni, þá tökum þá áhættu að nærast við borð illra anda. Núna eru til rit í hundruðþúsundatali er hampa veraldlegri heimspeki sem virðist svo upplýsandi og nútímaleg. (Prédikarinn 12:12) En ekkert af þessum áróðri er raunverulega nýtt, og það er ekki heldur gagnlegt eða mannbætandi frekar en það sem Satan sagði svo lymskulega við Evu varð henni til góðs. — 2. Korintubréf 11:3.
6. Hvernig ættum við að bregðast við þegar Satan býður okkur sjoppumat illra anda?
6 Hvernig ættum við þá að bregðast við þegar Satan býður okkur að smakka á djöfullegum sjoppumat sínum? Eins og Jesús gerði þegar Satan freistaði hans til að breyta steinum í brauð. Jesús svaraði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ Og þegar djöfullinn bauð Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“ ef hann félli fram og tilbæði hann, svaraði Jesús: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ — Matteus 4:3, 4, 8-10.
7. Af hverju erum við að blekkja sjálfa okkur ef við höldum að við getum nærst farsællega bæði af borði Jehóva og borði illra anda?
7 Borð Jehóva og það borð, sem óvinir hans, illu andarnir búa, geta aldrei samrýmst! Víst hefur það verið reynt áður. Mundu eftir Ísraelsmönnum á dögum spámannsins Elía. Fólkið fullyrti að það tilbæði Jehóva, en það trúði að aðrir guðir, svo sem Baal, hétu þeim velsæld. Elía gekk fram fyrir lýðinn og sagði: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé [Jehóva] hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ Óneitanlega höltruðu Ísraelsmenn „fyrst á öðrum fæti og svo á hinum.“ (1. Konungabók 18:21, The Jerusalem Bible) Elía skoraði á presta Baals að sanna guðdóm þess sem þeir tilbáðu. Sá Guð, sem gæti látið eld koma af himni og eyða fórninni, væri hinn sanni Guð. Þrátt fyrir mikið erfiði tókst Baalsprestunum það ekki. Þá bað Elía einfaldlega: „Bænheyr mig, [Jehóva]! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, [Jehóva], ert hinn sanni Guð.“ Þegar í stað kom eldur af himni ofan og eyddi dýrafórninni sem var gegnsósa í vatni. Þessi sannfærandi sýning á guðdómi Jehóva örvaði fólkið til að hlýða Elía og lífláta alla hina 450 spámenn Baals. (1. Konungabók 18:24-40) Eins verðum við nú á dögum að viðurkenna Jehóva sem hinn sanna Guð og einsetja okkur, ef við höfum ekki gert það nú þegar, að nærast aðeins við borð hans.
‚Hinn trúi þjónn‘ þjónar við borð Jehóva
8. Hvaða þjónn átti að næra lærisveina Jesú á nærverutíma hans eftir því sem hann spáði, og hver er þessi þjónn?
8 Drottinn Jesús Kristur sagði fyrir að á nærverutíma hans myndi ‚trúr og hygginn þjónn‘ sjá lærisveinum hans fyrir andlegri fæðu: „Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Þessi þjónn hefur ekki reynst vera einn einstaklingur heldur hópur vígðra, smurðra kristinna manna. Þessi hópur hefur lagt andlega úrvalsfæðu á borð Jehóva, bæði fyrir hinar smurðu leifar og ‚múginn mikla.‘ Múgurinn mikli er nú nærri fimm milljónum og hefur ásamt hinum smurðu leifum tekið afstöðu með alheimsdrottinvaldi Jehóva Guðs og með ríki hans sem hann mun nota til að helga heilagt nafn sitt. — Opinberunarbókin 7:9-17.
9. Hvaða verkfæri hefur þjónshópurinn notað til að sjá vottum Jehóva fyrir andlegri fæðu, og hvernig er andlegri veislu þeirra lýst í spádómi?
9 Þessi trúi þjónshópur hefur notað Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn til að miðla andlegri næringu til allra votta Jehóva. Enda þótt kristni heimurinn og þetta heimskerfi í heild svelti vegna skorts á lífgandi, andlegri fæðu situr fólk Jehóva að veisluborði. (Amos 8:11) Þetta er uppfylling spádómsins í Jesaja 25:6: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“ Eins og vers 7 og 8 sýna heldur þessi veisla áfram að eilífu. Það er nú þegar mikil blessun fyrir alla sem eru í sýnilegu skipulagi Jehóva, og heldur áfram að vera það í framtíðinni!
Varastu hina eitruðu fæðu á borði illra anda
10. (a) Hvers konar fæðu ber illi þjónshópurinn fram og af hvaða hvötum? (b) Hvernig fer illi þjónshópurinn með fyrrverandi samþjóna sína?
10 Fæðan á borði illra anda er eitruð. Lítum til dæmis á fæðuna sem illi þjónshópurinn og fráhvarfsmenn bera á borð. Hún hvorki nærir né byggir upp; hún er ekki heilnæm. Hún getur ekki verið það af því að fráhvarfsmennirnir hafa hætt að nærast við borð Jehóva. Þar af leiðandi er hver sá snefill nýja persónuleikans, sem þeir höfðu þroskað með sér, með öllu horfinn. Það sem knýr þá áfram er ekki heilagur andi heldur tærandi beiskja. Þeir eru helteknir aðeins einu markmiði — að berja fyrrverandi samþjóna sína eins og Jesús spáði. — Matteus 24:48, 49.
11. Hvað skrifaði C. T. Russell um val manna á andlegri fæðu, og hvernig lýsti hann þeim sem yfirgefa borð Jehóva?
11 Til dæmis skrifaði þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, C. T. Russell, árið 1909 um þá sem sneru baki við borði Jehóva og fóru að misþyrma fyrrverandi samþjónum sínum. Varðturninn sagði þann 1. október 1909: „Enginn sem aðgreinir sig frá Félaginu og starfi þess dafnar andlega eða uppbyggir aðra í trúnni og dyggðum andans, heldur virðist gera hið gagnstæða — reyna að skaða þann málstað sem hann þjónaði áður fyrr, og hverfa síðan smám saman í gleymsku, ýmist með látum eða svo lítið beri á. Þessir menn gera aðeins sjálfum sér illt og öðrum sem eru haldnir sams konar þrætugirni. . . . Ef einhver heldur að hann geti fengið jafngóð eða betri matföng við önnur borð, eða geti sjálfur reitt fram jafngóðan eða betri mat — þá fari hann sína leið. . . . En þótt við leyfum öðrum að fara hvert sem þeir vilja til að finna sér mat og ljós að geðþótta, taka þeir sem gerast andstæðingar okkar allt aðra stefu, þótt undarlegt sé. Í stað þess að segja með karlmennsku heimsins: ‚Ég hef fundið eitthvað sem mér líkar betur; bless!‘ eru þeir reiðir og illviljaðir og fullir haturs, deilna og ‚verka holdsins og djöfulsins‘ í þeim mæli sem við höfum aldrei vitað til að veraldlegt fólk sýndi. Þeir virðast gripnir brjálsemi, hundaæði Satans. Sumir þeirra berja okkur og segja svo að við höfum barið þá. Þeir eru tilbúnir til að segja og skrifa fyrirlitlegar lygar og leggjast svo lágt að gerast ódrengskaparmenn.“
12. (a) Hvernig berja fráhvarfsmenn samþjóna sína? (b) Hvers vegna er hættulegt að glugga í rit fráhvarfsmanna af einskærri forvitni?
12 Já, fráhvarfsmenn gefa út rit sem eru uppfull af rangfærslum, hálfsannleika og hreinum og beinum blekkingum. Þeir stilla sér jafnvel upp þar sem vottarnir halda mót og reyna að klófesta þá sem ugga ekki að sér. Þess vegna væri hættulegt að láta forvitni koma okkur til að næra okkur á slíkum ritum eða að leggja eyrun við lastmælum þeirra! Enda þótt við höldum kannski að við séum ekki sjálf í hættu er eigi að síður hætta á ferðum. Af hverju? Meðal annars af því að sum rit fráhvarfsmanna koma lygum þeirra á framfæri með „blíðmælum“ og „uppspunnum orðum.“ (Rómverjabréfið 16:17, 18; 2. Pétursbréf 2:3) Er nokkurs annars að vænta af borði illra anda? Og enda þótt fráhvarfsmenn komi líka fram með vissar staðreyndir eru þær venjulega teknar úr samhengi með það að markmiði að lokka aðra frá borði Jehóva. Öll rit þeirra einfaldlega gagnrýna og brjóta niður! Þar er ekkert uppbyggjandi.
13, 14. Hver er ávöxtur fráhvarfsmanna og áróðurs þeirra?
13 Jesús sagði: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ (Matteus 7:16) Hvaða ávextir einkenna þá fráhvarfsmenn og rit þeirra? Áróður þeirra einkennist af fernu: (1) Slægð. Efesusbréfið 4:14 talar um ‚vélabrögð villunnar.‘ (2) Gáfnahroka. (3) Kærleiksleysi. (4) Óheiðarleika í ýmsum myndum. Þetta eru hráefni fæðunnar á borði illra anda sem er öll matreidd til að grafa undan trú fólks Jehóva.
14 Og þá er að nefna annað. Að hverju hafa fráhvarfsmennirnir snúið sér á ný? Í mörgum tilvikum eru þeir farnir aftur út í myrkur kristna heimsins og kennisetninga hans, svo sem þá trú að allir kristnir menn fari til himna. Enn fremur taka fæstir þeirra lengur einarðlega, biblíulega afstöðu til blóðs, hlutleysis og þess að það sé nauðsynlegt að bera vitni um Guðsríki. Við erum aftur á móti sloppnir úr myrkri Babýlonar hinnar miklu og við viljum aldrei snúa þangað aftur. (Opinberunarbókin 18:2, 4) Hví ætti okkur, drottinholla þjóna Jehóva, einu sinni að langa til að fá smá nasasjón af áróðri þeirra sem hafna borði Jehóva og berja nú með orðum þá sem hjálpa okkur að taka við ‚heilnæmu orðunum‘? — 2. Tímóteusarbréf 1:13.
15. Hvaða meginregla Biblíunnar hjálpar okkur að taka viturlega afstöðu þegar við heyrum ásakanir fráhvarfsmanna?
15 Sumir geta verið forvitnir að vita hvað fráhvarfsmenn séu eiginlega að saka okkur um. En við ættum að taka til okkar meginregluna í 5. Mósebók 12:30, 31. Þar áminnti Jehóva Ísraelsmenn fyrir munn Móse hvað þeir ættu að forðast eftir að þeir hefðu rekið hina heiðnu íbúa fyrirheitna landsins burt. „Gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: ‚Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?‘ Þú skalt eigi breyta svo við [Jehóva] Guð þinn.“ Já, Jehóva Guð veit hvernig mannleg forvitni starfar. Munum eftir Evu og líka konu Lots! (Lúkas 17:32; 1. Tímóteusarbréf 2:14) Leggjum aldrei eyrun við því sem fráhvarfsmenn eru að segja eða gera. Verum heldur upptekin af því að byggja fólk upp og nærumst trúföst við borð Jehóva!
Aðeins borð Jehóva verður eftir
16. (a) Hvað verður bráðlega um Satan, illa anda hans og hið táknræna borð sem þjóðir heims hafa nærst við? (b) Hvað verður um alla menn sem halda áfram að nærast við borð illra anda?
16 Bráðlega brýst þrengingin mikla skyndilega út og nær skjótlega hámarki í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14, 16) Hún nær hástigi þegar Jehóva eyðir þessu heimskerfi og hinu táknræna borði sem þjóðir heims hafa nærst við. Jehóva kollvarpar líka öllu hinu ósýnilega skipulagi Satans djöfulsins ásamt illum andahersingum þess. Þeir sem hafa haldið áfram að nærast við andlegt borð Satans, borð illra anda, verða neyddir til að taka þátt í bókstaflegri máltíð, ekki sem gestir heldur sem aðalréttur — sér til tortímingar! — Sjá Esekíel 39:4; Opinberunarbókin 19:17, 18.
17. Hvaða blessun fellur þeim í skaut sem nærast eingöngu við borð Jehóva?
17 Aðeins borð Jehóva verður eftir. Þeir sem nærast þakklátir af því verða varðveittir og fá þau sérréttindi að matast við það um alla eilífð. Aldrei framar mun matvælaskortur af nokkru tagi ógna þeim. (Sálmur 67:7; 72:16) Þeir munu þjóna Jehóva Guði í fullkominni heilsu í paradís! Þá loksins rætast hin hrífandi orð Opinberunarbókarinnar 21:4 á stórkostlegan hátt: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Andstaða heyrir þá fortíðinni til og alheimsdrottinvald Jehóva Guðs gildir alls staðar að eilífu og velvild hans verður úthellt endalaust yfir endurleyst mannkyn í paradís á jörð. Til að öðlast þau laun skulum við öll vera staðráðin í að nærast aðeins af borði Jehóva sem svignar undan andlegri úrvalsfæðu!
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig getum við forðast að láta kenningar illra anda afvegaleiða okkur?
◻ Af hverju getum við ekki nærst farsællega bæði af borði Jehóva og borði illra anda?
◻ Hvers konar fæðu útbýta fráhvarfsmenn?
◻ Af hverju er hættulegt að vera forvitinn um ásakanir fráhvarfsmanna?
◻ Hvaða ávöxt bera fráhvarfsmenn?