Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.1. bls. 20-25
  • Þóknastu Jehóva með því að sýna góðvild

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þóknastu Jehóva með því að sýna góðvild
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað er góðvild?
  • Forðist misskilda góðvild
  • Góðvild tengd kærleika
  • Laun góðvildar
  • Metum óverðskuldaða góðvild Guðs
  • Fólk Guðs á að ástunda gæsku
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Að ástunda gæsku í óvinveittum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Gæska – eiginleiki sem birtist í orði og verki
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Láttu „lögmál góðmennskunnar“ leiða þig
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.1. bls. 20-25

Þóknastu Jehóva með því að sýna góðvild

„Hvað heimtar Jehóva annað af þér en að iðka réttvísi og elska góðvild og ganga hógvær með Guði þínum?“ — MÍKA 6:8, NW.

1. Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að Jehóva skuli ætlast til góðvildar af þjónum sínum?

JEHÓVA ætlast til þess af þjónum sínum að þeir sýni góðvild. Það ætti ekki að koma okkur á óvart. Guð er sjálfur góðviljaður við alla, jafnvel vanþakkláta og vonda. Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum um það: „Elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ — Lúkas 6:35, 36.

2. Hvaða spurningar varðandi góðvild eru íhugunarverðar?

2 Eins og Míka 6:8 lýsir yfir verða þeir sem ganga með Guði hreinlega að „elska góðvild.“ Augljóslega hefur Jehóva þóknun á því þegar þjónar hans elska góðvild og sýna hana af öllu hjarta. En hvað er góðvild? Hvaða blessun fylgir því að sýna þennan eiginleika? Og hvernig er hægt að gera það?

Hvað er góðvild?

3. Hvernig skilgreinir þú góðvild?

3 Góðvild er virkur áhugi á öðrum. Hún birtist í hjálpsemi og vingjarnlegum orðum. Að vera góðviljaður merkir að gera gott og ekkert skaðlegt. Góðviljaður maður er vingjarnlegur, mildur, samúðarfullur og viðfelldinn. Hann er örlátur og tillitssamur í viðhorfum. Segja má að góðvild sé það efni sem táknrænn klæðnaður sannkristins manns er gerður úr, því að Páll hvatti: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ — Kólossubréfið 3:12.

4. Hvernig hefur Jehóva tekið forystuna í því að sýna mannkyninu góðvild?

4 Jehóva gengur á undan með góðu fordæmi í því að sýna góðvild. Eins og Páll postuli sagði var það „er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna,“ að hann frelsaði okkur „samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja.“ (Títusarbréfið 3:4, 5) Guð hreinsar eða ‚laugar‘ smurða kristna menn í blóði Jesú með því að nota verðgildi fórnar hans í þeirra þágu. Þeir eru einnig endurnýjaðir fyrir tilverknað heilags anda, verða ‚ný sköpun‘ sem andagetnir synir Guðs. (2. Korintubréf 5:17) Að sjálfsögðu nær góðvild Guðs og kærleikur til mannsins líka til hins alþjóðlega ‚mikla múgs‘ sem hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Enn fremur eru hinir smurðu og múgurinn mikli, sem hefur jarðneska von, allir undir ‚ljúfu‘ oki Jesú. — Matteus 11:30.

5. Hvers vegna ættum við að vænta þess að þeir sem leiðast af anda Guðs sýni hver öðrum góðvild?

5 Góðvild er einnig hluti af ávexti heilags anda Guðs eða starfskraftar. Páll sagði: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Hvers ættum við þá að vænta af þeim sem leiðast af anda Guðs? Auðvitað að þeir sýni öðrum góðvild.

6. Hvernig ætti góðvild að koma öldungum og öðrum kristnum mönnum til að koma fram?

6 Góðvild er hægt að sýna á marga vegu. Við sýnum góðvild þegar við erum miskunnsöm. Til dæmis eru kristnir öldungar góðviljaðir er þeir sýna iðrunarfullum syndara miskunn og reyna að hjálpa honum andlega. Góðvild gerir umsjónarmenn þolinmóða, tillitssama, hluttekningarsama og milda. Hún kemur þeim til að ‚fara mildilega með hjörðina.‘ (Postulasagan 20:28, 29, NW) Meira að segja ætti góðvild sem ávöxtur andans að koma öllum kristnum mönnum til að vera miskunnsamir, þolinmóðir, tillitssamir, hluttekningarsamir, vingjarnlegir og gestrisnir.

Forðist misskilda góðvild

7. Hvers vegna er misskilin góðvild veikleiki?

7 Sumir líta á góðvild sem veikleika. Þeim finnst maður verða að vera harður, stundum jafnvel ruddalegur, til að aðrir virði styrkleika hans. En sagt hefur verið að „ruddaskapur sé eftirlíking hins veiklundaða á styrkleika.“ Sannleikurinn er sá að það kostar raunverulegan styrk að vera bæði góðviljaður og forðast misskilda góðvild. Sú góðvild, sem er ávöxtur anda Guðs, er ekki veiklundað undanlát gagnvart því sem rangt er. Það er misskilin góðvild sem er veikleiki og kemur mönnum til að líta fram hjá rangri breytni.

8. (a) Hvernig sýndi Elí sonum sínum linkind? (b) Hvers vegna verða öldungar að gæta þess að sýna ekki misskilda góðvild?

8 Elí æðsti prestur í Ísrael sýndi sonum sínum, Hofní og Pínehasi, linkind og agaði þá ekki, en þeir gegndu prestsembætti við tjaldbúðina. Þeir gerðu sig ekki ánægða með þann hluta fórnanna sem lögmál Guðs ætlaði þeim og létu því þjón heimta hrátt kjöt af þeim fórnum, er Ísraelsmenn færðu, áður en fitan var færð sem reykfórn á altarinu. Synir Elís áttu einnig siðlaus kynmök við konur er þjónuðu við dyr samfundatjaldsins. En í stað þess að reka Hofní og Pínehas úr embætti lét Elí sér nægja að ávíta þá mildilega og heiðraði þar með syni sína meira en Guð. (1. Samúelsbók 2:12-29) Engin furða er að „orð frá [Jehóva] var sjaldgæft á þeim dögum“! (1. Samúelsbók 3:1) Kristnir öldungar mega því ekki falla fyrir fölskum röksemdum eða láta í ljós misskilda góðvild sem gæti stofnað andlegri heilsu safnaðarins í voða. Ósvikin góðvild er ekki blind gagnvart illum orðum og verkum sem brjóta gegn stöðlum Guðs.

9. (a) Hvaða viðhorf getur hjálpað okkur að forðast að sýna misskilda góðvild? (b) Hvernig birtist styrkur Jesú gagnvart trúvilltum leiðtogum?

9 Ef við eigum að forðast misskilda góðvild verðum við að biðja um hjálp Guðs til að hafa slíkan styrk sem fram kemur í orðum sálmaritarans: „Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.“ (Sálmur 119:115) Við þurfum líka að fylgja fordæmi Jesú Krists sem gerði sig aldrei sekan um misskilda góðvild. Jesús var fullkomið dæmi um sanna góðvild. Til dæmis ‚kenndi hann í brjósti um fólk því það var hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ Þess vegna var réttsinnað fólk óhrætt við að nálgast Jesú og kom jafnvel með lítil börn sín til hans. Og ímyndaðu þér þá góðvild og hlýju sem hann sýndi er hann ‚tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau‘! (Matteus 9:36; Markús 10:13-16) Þótt Jesús væri góðviljaður var hann eigi að síður fastur fyrir gagnvart því sem rétt var í augum föður síns á himnum. Jesús lokaði aldrei augunum fyrir því sem illt var; hann hafði styrk frá Guði til að fordæma hina hræsnisfullu trúarleiðtoga. Í Matteusi 23:13-26 endurtók hann nokkrum sinnum: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Í hvert skipti tilgreindi Jesús ástæðu fyrir fordæmingu af hendi Guðs.

Góðvild tengd kærleika

10. Hvernig sýna lærisveinar Jesú trúbræðrum sínum góðvild og kærleika?

10 Jesús sagði um fylgjendur sína: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Og hver er einn þáttur þess kærleika sem einkennir sanna lærisveina Jesú? Páll sagði: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.“ (1. Korintubréf 13:4) Að vera langlyndur og góðviljaður merkir að við umberum ófullkomleika og mistök annarra eins og Jehóva gerir svo fúslega. (Sálmur 103:10-14; Rómverjabréfið 2:4; 2. Pétursbréf 3:9, 15) Kristinn kærleikur og góðvild birtist einnig er þrengingar og erfiðleikar verða á vegi trúbræðra okkar einhvers staðar á jörðinni. Kristnir menn annars staðar sýna meira en almenna „góðmennsku.“ Þeir sýna bróðurkærleika með því að gefa efnislega hluti til hjálpar slíkum tilbiðjendum Jehóva. — Postulasagan 28:2.

11. Hvað er elskurík góðvild í biblíulegum skilningi?

11 Góðvild er tengd kærleika í orðasambandinu „elskurík góðvild“ sem oft er notað í Ritningunni. Þetta er góðvild sem sprottin er af drottinhollum kærleika. Hebreska nafnorðið, sem þýða má „elskurík góðvild“ (seseð), er meira en aðeins hlýleg umhyggja. Það merkir góðvild sem bindur sig einhverjum eða einhverju tryggðar- og kærleiksböndum uns tilgangurinn tengdur henni hefur náð fram að ganga. Elskurík góðvild eða drottinholl ást Jehóva birtist á ýmsa vegu. Til dæmis birtist hún er hann frelsar og verndar þjóna sína. — Sálmur 6:5; 40:12; 143:12.

12. Hvað mega þjónar Jehóva vera vissir um er þeir biðja til hans um hjálp eða frelsun?

12 Engin furða er að elskurík góðvild Jehóva skuli draga fólk til hans! (Jeremía 31:3) Er trúfastir þjónar Guðs þarfnast frelsunar eða hjálpar vita þeir að elskurík góðvild hans er í sannleika drottinholl ást sem ekki mun bregðast þeim. Þess vegna geta þeir beðið í trú eins og sálmaritarinn gerði er hann sagði: „Ég treysti á miskunn [„elskuríka góðvild,“ NW] þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni.“ (Sálmur 13:6) Þar eð kærleikur Guðs er drottinhollur treysta þjónar hans ekki til einskis á elskuríka góðvild hans. Er þeir biðja um hjálp hans eða frelsun mega þeir treysta þessu: „[Jehóva] hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína.“ — Sálmur 94:14.

Laun góðvildar

13, 14. Hvers vegna á góðviljaður maður trausta vini?

13 Þjónar Jehóva líkja eftir honum með því að auðsýna „hver öðrum kærleika [„elskuríka góðvild,“ NW] og miskunnsemi.“ (Sakaría 7:9; Efesusbréfið 5:1) „Unun mannsins er kærleiksverk [„elskurík góðvild,“ NW] hans“ og sá sem sýnir þennan eiginleika uppsker ríkulega fyrir vikið. (Orðskviðirnir 19:22) Við skulum líta á sumt af því sem við uppskerum.

14 Góðvild gerir okkur háttvís og hjálpar okkur þannig að viðhalda góðu sambandi við aðra. Háttvís maður er tillitssamur og meinlaus í því sem hann segir og gerir og eins hvernig hann tekst á við erfiðar aðstæður. „Hinn grimmi“ kvelur sjálfan sig en „kærleiksríkur maður [og góðviljaður] gjörir sálu sinni gott.“ (Orðskviðirnir 11:17) Fólk forðast grimman mann en laðast að þeim sem sýnir kærleika og góðvild. Góðviljaður maður á því trygga vini. — Orðskviðirnir 18:24.

15. Hvaða áhrif getur góðvild haft á trúarlega sundurskiptu heimili?

15 Með eiginleikum svo sem góðvild getur kristin eiginkona laðað mann sinn, sem ekki er í trúnni, til sannleikans. Áður en hún kynntist sannleikanum og íklæddist „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans,“ var hún kannski óvingjarnleg og jafnvel deilugjörn. (Efesusbréfið 4:24) Ef eiginmaður hennar hefði þekkt vissa orðskviði hefði hann kannski tekið undir það að „konuþras er sífelldur þakleki“ og að ‚betra sé að búa á eyðimerkurlandi en með þrasgjarnri og geðillri konu.‘ (Orðskviðirnir 19:13; 21:19) En núna getur hæversk framkoma og djúp virðing kristinnar eiginkonu, ásamt eiginleikum svo sem góðvild, átt sinn þátt í að vinna mann hennar til fylgis við trúna. (1. Pétursbréf 3:1, 2) Já, það geta verið ein af launum góðvildar hennar.

16. Hvernig getum við notið góðs af góðvild sem okkur er sýnd?

16 Góðvild annarra í okkar garð getur gert okkur hluttekningarsamari og fúsari til að fyrirgefa. Ef við þörfnuðumst andlegrar aðstoðar og væri sýnd góðvild og mildi, myndi það sjálfsagt vera okkur hvöt til að koma eins fram við aðra. Við megum búast við mildi og góðvild af hálfu andlega hæfra manna því að Páll skrifaði: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ (Galatabréfið 6:1) Hinir útnefndu öldungar eru mildir og vingjarnlegir er þeir reyna að hjálpa villuráfandi trúbræðrum sínum. En óháð því hvort við höfum persónulega fengið slíka hjálp eða ekki, hvers væntir Guð af öllum sem þjóna honum? Allir kristnir menn ættu að sýna öðrum góðvild og hlýða heilræði Páls: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:32) Ef einhver hefur fyrirgefið okkur eða okkur hefur verið hjálpað vingjarnlega að ná okkur upp úr andlegum erfiðleikum, þá ætti það að sjálfsögðu að auka hæfni okkar til að fyrirgefa öðrum, sýna hluttekningu og góðvild.

Metum óverðskuldaða góðvild Guðs

17. Með því að við erum fæddir syndarar, hvaða góðvild ættum við að vera sérstaklega þakklát fyrir?

17 Þar eð við erum öll fædd syndarar og undir fordæmingu dauðans höfum við sérstaka ástæðu til að vera þakklát fyrir og líkja eftir óverðskuldaðri góðvild Jehóva Guðs. Að frelsa syndara undan fordæmingu dauðans og lýsa þá réttláta er góðvild sem er algerlega óverðskulduð. Páll, sem nefndi óverðskuldaða góðvild Guðs 90 sinnum í hinum 14 innblásnu bréfum sínum, sagði kristnum mönnum í Róm til forna: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð [„óverðskuldaðri góðvild,“ NW] hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.“ (Rómverjabréfið 3:23, 24) Við ættum sannarlega að meta að verðleikum hina óverðskulduðu góðvild sem að Jehóva Guð sýnir!

18, 19. Hvernig getum við forðast það að fara á mis við tilganginn með óverðskuldaðri náð Guðs?

18 Ef við værum vanþakklát gætum við farið á mis við tilganginn með óverðskuldaðri góðvild Guðs. Páll sagði um þetta efni: „Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð. Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum. Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð [„óverðskuldaða góðvild,“ NW] Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis. Hann segir [í Jesaja 49:8 samkvæmt Sjötíumannaþýðingunni]: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur. Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“ (2. Korintubréf 5:20-6:4) Hvað hafði Páll í huga?

19 Smurðir kristnir menn eru erindrekar í Krists stað og múgurinn mikli sendiboðar hans. Sameiginlega hvetja þeir menn til að sættast við Guð í þeim tilgangi að öðlast hjálpræði. Páll vildi ekki að neinn meðtæki óverðskuldaða náð Jehóva Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists en færi á mis við tilganginn með henni. Þannig gæti farið fyrir okkur ef við létum undir höfuð leggjast að vinna það verk sem hin óverðskuldaða góðvild hefur gert okkur hæf til. Með vinsamlegu sambandi við Guð, eftir að hafa sæst við hann, meðtökum við ekki óverðskuldaða góðvild hans til einskis ef við rækjum „þjónustu sáttargjörðarinnar. Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig.“ (2. Korintubréf 5:18, 19) Við sýnum öðrum líka mesta góðvild með því að hjálpa þeim að sættast við Guð.

20. Hvað munum við skoða í næstu grein?

20 Þjónar Jehóva nota tíma sinn og krafta til að sýna öðrum góðvild er þeir leitast við að hjálpa mönnum andlega gegnum hina kristnu þjónustu. En hvað getum við lært af dæmum úr Ritningunni um góðvild í verki? Við skulum næst athuga nokkur þeirra og íhuga aðrar leiðir til að þóknast Jehóva með því að sýna góðvild.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað er góðvild?

◻ Hvernig getum við forðast að sýna misskilda góðvild?

◻ Hvernig geta þjónar Jehóva treyst á elskuríka góðvild hans?

◻ Nefndu eitthvað af þeirri umbun sem góðvild hefur í för með sér.

◻ Hvað þurfum við að gera til að fara ekki á mis við tilganginn með óverðskuldaðri góðvild Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Góðvild gerir kristna öldunga þolinmóða, tillitssama og hluttekningarsama.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Góðvild kristinnar eiginkonu getur stuðlað að því að maður hennar snúist til fylgis við sanna trú.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Við getum best sýnt öðrum góðvild með því að hjálpa þeim að sættast við Guð.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila