Jehóva gefur ofurmagn kraftarins
1 Öllum fylgjendum Jesú hafa verið falin sérstök, heilög þjónustusérréttindi — kristna þjónustan. (Matt. 24:14; 28:19, 20) En mannlegur ófullkomleiki og álag þessa heimskerfis fær okkur kannski stundum til að halda að við séum ósköp ófullkomin.
2 Þegar það gerist getum við leitað huggunar í bréfi Páls til smurðra kristinna manna í Korintu. Hann skrifaði: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum.“ (2. Kor. 4:7) Páll var öruggur: „Með því að vér höfum þessa þjónustu . . . þá látum vér ekki hugfallast.“ (2. Kor. 4:1) Það er vissulega áskorun á okkur öll, hvort sem við erum af hinum smurðu eða ‚öðrum sauðum,‘ að halda áfram að boða fagnaðarerindið og ‚láta ekki hugfallast.‘ Við þurfum styrk frá Guði sem veitir „ofurmagn kraftarins.“ — Jóh. 10:16; 2. Kor. 4:7b.
3 Það er uppörvandi að sjá að margir vottar eru kostgæfnir boðberar enda þótt þeir þurfi að glíma við hatramma andstöðu, alvarleg heilsuvandamál eða bágan fjárhag. Við þurfum öll að gera okkur ljóst að verkefni okkar að prédika hefur stuðning Jehóva. Í stað þess að leyfa kjarkleysi eða ótta að veikja þann ásetning okkar að prédika skulum við ‚styrkjast í Drottni og í krafti máttar hans.‘ — Ef. 6:10; Orðskv. 24:10.
4 Hvernig hægt er að öðlast kraft Guðs: Vertu staðfastur í bæninni og biddu um hjálp Guðs og styrk. (Rómv. 12:12; Fil. 4:6, 7) Síðan skaltu treysta því af öllu hjarta að Jehóva veiti ofurmagn kraftarins. (Orðskv. 3:5) Lestu ævisögur nútímaþjóna Jehóva í blöðunum okkar því að þær sýna að Jehóva er að hjálpa þjónum sínum nú á tímum að þola raunir. Hafðu náið samband við bræðurna í söfnuðinum og vanræktu ekki safnaðarsamkomurnar. — Rómv. 1:11, 12; Hebr. 10:24, 25.
5 Megum við gera allt sem við getum til að setja okkur í þá aðstöðu að við hljótum kraft Jehóva — þann kraft sem veitir ofurmagn og hjálpar okkur að láta ekki hugfallast í hinu þýðingarmikla starfi að boða Guðsríki.