Öðrum hjálpað að þjóna Guði
„Ef . . . inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður . . . leyndardómar hjarta hans verða opinberir, og hann fellur fram á ásjónu sína og tilbiður Guð.“ — 1. KORINTUBRÉF 14:24, 25.
1-3. Hvernig var mörgum í Korintu hjálpað til að öðlast velþóknun Guðs?
Á ANNARRI trúboðsferð sinni dvaldist Páll postuli í Korintuborg í eitt og hálft ár. Þar „gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði.“ Með hvaða árangri? „Margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.“ (Postulasagan 18:5-11) Þeir urðu „helgaðir . . . heilagir að köllun til.“ — 1. Korintubréf 1:2.
2 Apollós kom síðar til Korintu. Priskilla og Akvílas höfðu áður hjálpað honum og „skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg,“ meðal annars um skírnina. Þannig varð hann kristinn maður sem naut velþóknunar Guðs. (Postulasagan 18:24-19:7) Apollós hjálpaði síðan Korintumönnum sem ‚létu áður leiða sig til mállausra skurðgoða.‘ (1. Korintubréf 12:2) Þessir Korintumenn fengu biblíufræðslu á heimilum sínum og gátu auk þess lært með því að sækja kristnar samkomur. — Postulasagan 20:20; 1. Korintubréf 14:22-24.
3 Árangur þessarar kennslu var sá að margir, sem áður voru ‚vantrúaðir og fáfróðir,‘ hrifust af sannri guðsdýrkun. Það hlýtur að hafa verið mjög gleðilegt að sjá karla og konur sækja fram til skírnar og velþóknunar Guðs! Svo er enn í dag.
Hvernig hjálpa má ‚vantrúuðum og fáfróðum‘
4. Á hvaða vegu er mörgum nútímamönnum hjálpað á sama hátt og fólki í Korintu?
4 Vottar Jehóva nútímans hlýða líka boði Jesú um að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum og skíra þá.‘ (Matteus 28:19, 20) Eftir að hafa gróðursett sæði sannleikans í móttækilegum hjörtum koma þeir aftur og vökva þau. (1. Korintubréf 3:5-9; Matteus 13:19, 23) Vottar Jehóva bjóðast til að koma endurgjaldslaust vikulega til fólks og nema með því Biblíuna þannig að það geti fengið svör við spurningum sínum og lært sannindi Biblíunnar. Slíkum einstaklingum er einnig boðið að sækja samkomur votta Jehóva í næsta söfnuði, alveg eins og ‚vantrúaðir‘ á fyrstu öld sóttu samkomur í Korintu. En hvernig ættu vottar Jehóva að líta á menn sem eru að nema Biblíuna og sækja samkomur?
5. Hvaða biblíuleg ástæða er fyrir varfærni í samskiptum við ákveðna einstaklinga?
5 Við fögnum því að sjá menn nálgast Guð. Samt sem áður höfum við hugfast að þeir eru enn ekki skírðir, trúaðir einstaklingar. Við skulum líka hafa tvennt í huga sem kom fram í greininni á undan. (1) Ísraelsmenn sýndu varúð í umgengni við útlenda innflytjendur sem voru ekki umskornir trúskiptingar og bræður í tilbeiðslu, þótt þeir byggju meðal þjóðar Guðs og hlýddu sumum af lögum hennar. (2) Kristnir menn í Korintu voru á varðbergi í samskiptum sínum við ‚vantrúaða og fáfróða‘ vegna orða Páls: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti?“ — 2. Korintubréf 6:14.
6. Hvernig geta „vantrúaðir“ ‚sannfærst‘ af samkomunum og hvert er eðli slíkrar sannfæringar?
6 Enda þótt við bjóðum ‚vantrúaða og fáfróða‘ velkomna er okkur ljóst að þeir uppfylla enn ekki kröfur Guðs. Eins og Biblían gefur til kynna í 1. Korintubréfi 14:24, 25 þurfa þeir að ‚sannfærast‘ eða jafnvel vera ‚áminntir‘ (NW) af því sem þeir læra. Slík áminning eða leiðrétting felst þó ekki í því að kalla þá fyrir dómnefnd safnaðarins, því þeir eru enn ekki skírðir meðlimir hans. Það gerist á þann hátt að hinir nýju láta sannfærast um, af því sem þeir læra, að Guð fordæmi hvers kyns eigingirni og siðleysi.
7. Hvaða skref munu margir nemendur vilja stíga og hvers vegna?
7 Margir hinna óskírðu munu með tíð og tíma vilja gera meira en aðeins að sækja samkomur sem áhugasamir biblíunemendur. Ástæðan kemur fram í orðum Jesú: „Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.“ (Lúkas 6:40) Biblíunemandinn sér að kennari hans lítur á þjónustuna á akrinum sem mikilvæga og hefur ánægju af henni. (Matteus 24:14) Þegar trú þess sem er að læra sannindi Biblíunnar og sækir samkomur vex kann hann að taka til sín orðin: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar.“ (Jesaja 52:7; Rómverjabréfið 10:13-15) Þótt hann sé enn ekki skírður kann hann að langa til að tengjast söfnuði votta Jehóva sem boðberi fagnaðarerindisins.
8, 9. (a) Hvað skal gera þegar biblíunemandi vill taka þátt í opinberri prédikun? (b) Hvað munu öldungarnir tveir gera þegar þeir eiga fund með nemandanum og kennara hans? (c) Hvaða ábyrgð er nýi boðberinn að taka á sig?
8 Þegar votturinn, sem nemur Biblíuna með honum, kemst að raun um að nemandann langar til að taka þátt í þjónustunni á akrinum, getur hann rætt málið við umsjónarmann í forsæti sem mun sjá til þess að tveir öldungar haldi fund með biblíunemandanum og kennara hans. Öldungarnir fagna því þegar nýr einstaklingur vill þjóna Guði. Þeir ætlast ekki til þess að hann búi yfir sömu þekkingu og þeir sem eru skírðir og lengra komnir á vegi sannleikans; af þeim er meira krafist. Engu að síður vilja öldungarnir ganga úr skugga um að hinn nýi hafi allnokkra þekkingu á kenningum Biblíunnar og hafi samræmt líf sitt meginreglum Guðs, áður en hann tekur þátt í þjónustunni á akrinum. Það er því fullt tilefni til að tveir öldungar fundi með hinum væntanlega boðbera og vottinum sem nemur Biblíuna með honum.a
9 Öldungarnir munu skýra nemandanum frá því að hann megi skila skýrslu um starf sitt á akrinum og að útbúið verði boðberakort með nafni hans fyrir spjaldskrá safnaðarins, þegar hann er hæfur til að taka þátt í þjónustunni. Þannig birtast tengsl hans við guðræðisskipulag votta Jehóva og undirgefni hans við það. (Hið sama gildir að sjálfsögðu um alla aðra sem skila skýrslu um starf á akrinum.) Á fundinum ætti einnig að ræða um biblíulegar leiðbeiningar sem er að finna á blaðsíðu 98 og 99 í bókinni Skipulag til að fullna þjónustu okkar.b Eðlilegt er því að nemandinn eignist einkaeintak af þeirri bók þegar hér er komið sögu.
10. (a) Hvernig getur óskírður boðberi haldið áfram að sækja fram og með hvaða markmiði? (b) Hvers vegna munum við ekki framar nota nafngiftina „viðurkenndur félagi“? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
10 Sá sem uppfyllir kröfurnar sem óskírður boðberi fagnaðarerindisins hefur stigið skref í þá átt að verða ‚maður sem Guð hefur velþóknun á.‘c (Lúkas 2:14) Þótt hann sé enn ekki vígður og skírður getur hann gefið skýrslu um vitnisburðarstarf sitt ásamt þeim milljónum sem ‚boða orð Guðs‘ um alla jörðina. (Postulasagan 13:5; 17:3; 26:22, 23) Hægt er að tilkynna söfnuðinum að hann sé nýr, óskírður boðberi. Hann ætti að halda áfram að nema Biblíuna, taka þátt í samkomunum, heimfæra á sig það sem hann lærir og segja öðrum frá því. Áður en langt um líður mun hann vilja stíga það skref að láta skírast kristinni skírn og hljóta þannig velþóknun Guðs og ‚merki‘ til björgunar. — Esekíel 9:4-6.
Þeim sem stíga víxlspor hjálpað
11. Hvaða tökum tekur söfnuðurinn skírða meðlimi sem syndga?
11 Í greininni á undan ræddum við um hvernig söfnuðurinn hjálpaði skírðum kristnum manni sem drýgði alvarlega synd. (Hebreabréfið 12:9-13) Við sáum af Biblíunni að iðrist skírður syndari ekki gat söfnuðurinn þurft að gera hann rækan og síðan forðast allt samneyti við hann. (1. Korintubréf 5:11-13; 2. Jóhannesarbréf 9-11; 2. Þessaloníkubréf 2:11, 12) En hvað ber að gera ef óskírður boðberi stígur alvarleg víxlspor eða syndgar?
12. (a) Hvers vegna er óskírðum boðberum, sem syndga, einnig sýnd miskunn og veitt hjálp? (b) Hvernig má heimfæra meginregluna í Lúkasi 12:48 á það að standa reikningsskap vegna syndar?
12 Júdas hvatti til þess að smurðum kristnum mönnum, sem höfðu orðið efagjarnir eða fallið fyrir syndum holdsins, skyldi sýnd miskunn ef þeir iðruðust. (Júdas 22, 23; sjá einnig 2. Korintubréf 7:10.) Væri þá ekki enn betur við hæfi að sýna miskunn villuráfandi, óskírðum einstaklingi sem lætur í ljós iðrun? (Postulasagan 3:19) Jú, því að andleg fótfesta hans er ekki jafntraust og þess sem skírður er og reynsla hans af kristnu líferni takmarkaðri. Í sumu hefur hann kannski enn ekki tileinkað sér viðhorf Guðs. Hann hefur ekki átt biblíulegar umræður með öldungum, sem eru undanfari skírnar, og hann hefur ekki stigið það alvarlega skref sem vatnsskírn er. Enn fremur sagði Jesús að ‚hver sem mikið er gefið yrði mikils krafinn.‘ (Lúkas 12:48) Mikils er því vænst af skírðum einstaklingi sem býr að aukinni þekkingu og blessun og ber því meiri ábyrgð gagnvart Guði en sá sem óskírður er. — Jakobsbréfið 4:17; Lúkas 15:1-7; 1. Korintubréf 13:11.
13. Hvað munu öldungarnir gera til að hjálpa óskírðum boðbera sem fer út af réttri braut?
13 Í samræmi við leiðbeiningar Páls munu andlega hæfir bræður vilja hjálpa sérhverjum óskírðum boðbera sem verða á mistök óafvitandi. (Samanber Galatabréfið 6:1.) Öldungarnir gætu beðið tvo úr sínum hópi (ef til vill þá sem áttu fund með honum áður) að reyna að leiðrétta hann ef hann vill ná fótfestu á ný. Þeir myndu gera það, ekki af löngun til að ávíta hann þunglega heldur á miskunnsaman hátt og mildilega. (Sálmur 130:3) Í flestum tilvikum mun hvatning út af Biblíunni og hagnýtar tillögur nægja til að kalla fram hjá honum iðrun og koma honum aftur inn á rétta braut.
14, 15. (a) Hvað má gera ef syndarinn iðrast í einlægni? (b) Hvaða einfalda tilkynningu má gefa í sumum tilvikum?
14 Öldungarnir tveir munu leiðbeina hinum óskírða syndara á viðeigandi hátt. Í sumum tilvikum munu þeir ákveða að hinn villuráfandi skuli ekki taka þátt í Guðveldisskólanum eða ekki leyft að gefa athugasemdir á samkomum um tíma. Þeir gætu ákveðið að hann skuli ekki taka þátt í opinberri prédikun með söfnuðinum uns hann hafi tekið meiri andlegum framförum. Þegar þar að kemur geta þeir látið hann vita að hann megi nú aftur taka þátt í þjónustunni á akrinum. Ef synd hans hefur ekki komist í hámæli og ógnar ekki hreinleika hjarðarinnar er ekki nauðsynlegt að gera söfnuðinum viðvart á neinn hátt.
15 En hvað skal gera ef öldungarnir komast að raun um að einstaklingurinn iðrast í einlægni en hið ranga hefur komist í hámæli eða á eftir að gera það síðar? Í báðum tilvikum skulu þeir skýra þjónustunefnd safnaðarins frá sem mun láta lesa í söfnuðinum einfalda tilkynningu eitthvað á þessa leið: „Öldungar safnaðarins hafa fjallað um mál [nafn einstaklingsins]. Hann [hún] heldur áfram að starfa sem óskírður boðberi með söfnuðinum.“ Eins og í öllum slíkum málum getur öldungaráðið ákveðið hvort nauðsynlegt sé einhvern tíma síðar að flytja biblíuræðu með leiðbeiningum er varða þess konar rangsleitni sem framin var.
16, 17. (a) Hvaða tvennar aðstæður geta haft í för með sér tilkynningu með öðru orðalagi? (b) Hvernig myndi slík tilkynning hljóða?
16 Af og til gerist það að óskírður boðberi, sem syndgað hefur, tekur ekki kærleiksríkri hjálp. Eins getur verið að óskírður boðberi ákveði að hann vilji ekki sækja fram til skírnar og tilkynni öldungunum að hann vilji ekki láta líta á sig sem boðbera lengur. Hvað skal þá gera? Ekki er gripið til brottrekstrar slíks einstaklings sem enn hefur ekki hlotið velþóknun Guðs. Brottrekstur iðrunarlausra syndara nær aðeins til þeirra sem ‚kallaðir eru bræður,‘ eru skírðir. (1. Korintubréf 5:11) Þýðir það þá að horfa skuli í gegnum fingur við syndarann? Nei.
17 Sú ábyrgð hvílir á öldungunum að ‚gæta þeirrar hjarðar Guðs sem þeim er falin til umsjónar.‘ (1. Pétursbréf 5:2) Ef tveir öldungar, sem bjóða fram hjálp sína, komast að þeirri niðurstöðu að hinn óskírði syndari iðrist ekki og sé óhæfur til að vera boðberi munu þeir skýra honum frá því.d Ef óskírður einstaklingur segir öldungunum að hann vilji ekki lengur láta líta á sig sem boðbera geta þeir tekið ákvörðun hans góða og gilda. Í báðum tilvikum væri rétt að þjónustunefndin léti á viðeigandi stundu lesa upp tilkynningu þess efnis að „[nafn einstaklingsins] sé ekki lengur boðberi fagnaðarerindisins.“
18. (a) Hvað munu einstaklingar innan safnaðarins hafa í huga eftir slíka tilkynningu? (b) Er nauðsynlegt að forðast algerlega óskírðan einstakling sem syndgaði einhvern tíma í fortíðinni?
18 Hvernig munu meðlimir safnaðarins þaðan í frá líta á einstaklinginn? Einu sinni var hann „vantrúaður“ sem sótti samkomur. Síðan bæði vildi hann og var hæfur til að gerast boðberi fagnaðarerindisins. Svo er ekki lengur og hann tilheyrir nú aftur heiminum. Biblían krefst þess ekki að vottarnir hætti með öllu að tala við hann því hann hefur ekki verið gerður rækur.e Eigi að síður munu kristnir menn sýna varúð í umgengni við slíkan einstakling úr heiminum sem tilbiður ekki Jehóva, á líkan hátt og Ísraelsmenn gerðu í samskiptum við óumskorna útlendinga er bjuggu í landinu. Slík varúð stuðlar að því að vernda söfnuðinn gegn sérhverju ‚litlu súrdeigi‘ eða spillandi áhrifum. (1. Korintubréf 5:6) Ef einstaklingurinn lætur einhvern tíma síðar í ljós einlæga löngun til að hafið sé biblíunám með honum, og öldungarnir telja rétt að gera það, þá mun það ef til vill hjálpa honum að meta að verðleikum á ný hvílík sérréttindi það eru að tilbiðja Jehóva með þjónum hans. — Sálmur 100.
19. Hvernig geta öldungarnir einslega veitt frekari hjálp í sumum tilfellum?
19 Ef öldungarnir komast að raun um að hjörðinni stafar sérstök hætta af ákveðnum einstaklingi í þessum hópi geta þeir einslega aðvarað þá sem eru í hættu. Þessi fyrrum boðberi gæti til dæmis verið unglingur sem farið hefur út í drykkjuskap eða siðleysi. Þótt tilkynnt hafi verið að hann teljist ekki lengur óskírður boðberi kann hann að reyna að eiga áfram félagsskap við unglinga innan safnaðarins. Í slíku tilviki myndu öldungarnir tala einslega við foreldra þeirra unglinga, sem er hætta búin, og jafnvel unglingana einnig. (Hebreabréfið 12:15, 16; Postulasagan 20:28-30) Í því sjaldgæfa tilviki að einstaklingur trufli samkomur eða sé svo ofbeldishneigður að hætta stafi af mætti tilkynna honum að hann sé ekki velkominn á samkomur og að sérhver tilraun til að koma í Ríkissalinn verði skoðuð sem svo að hann sé að fara í leyfisleysi inn á eign annarra.
Ófullveðja börnum hjálpað að tilbiðja Guð
20. Hvaða hjálp geta kristnir foreldrar veitt börnum sínum og með hvaða árangri?
20 Biblían leggur foreldrum þá ábyrgð á herðar að fræða börn sín um veg sannleikans. (5. Mósebók 6:4-9; 31:12, 13) Vottar Jehóva hafa því lengi hvatt kristnar fjölskyldur til að hafa vikulegt biblíunám. Kristnir foreldrar ættu að hvetja börn sín til að sækja fram til vígslu og skírnar í því skyni að hljóta velþóknun Guðs. (Orðskviðirnir 4:1-7) Við sjáum árangurinn af því í söfnuðum okkar — hundruð þúsundir unglinga sem eru til fyrirmyndar, elska Jehóva og vilja tilbiðja hann að eilífu.
21-23. (a) Hvernig er í meginatriðum tekið á máli ófullveðja barns sem gerist sekt um rangsleitni? (b) Hvaða hlutverki gegna öldungar safnaðarins í slíku tilviki?
21 Kristnir foreldrar bera líka fyrst og fremst ábyrgð á því að aga og áminna börn sín, og setja þeim hverjar þær hömlur eða veita þeim kærleiksríka refsingu sem þeir telja nauðsynlega. (Efesusbréfið 6:4; Hebreabréfið 12:8, 9; Orðskviðirnir 3:11, 12; 22:15) Ef ungt barn, sem talið hefur verið óskírður boðberi, gerist sekt um alvarlega rangsleitni er það þó áhyggjuefni öldunganna sem ‚vaka yfir sálum‘ hjarðarinnar. — Hebreabréfið 13:17.
22 Í meginatriðum ætti að taka á slíkri rangri breytni með sama hætti og greint var frá fyrr í þessari grein. Hægt er að fela tveim öldungum að kanna málið. Þeir gætu til dæmis byrjað á því að ræða við foreldrana (eða foreldrið) um það sem gerst hefur, um það hver séu viðhorf barnsins og hvaða skref hafi verið stigin til leiðréttingar. (Samanber 5. Mósebók 21:18-21.) Ef kristnir foreldrar ráða við vandann geta öldungarnir einfaldlega fylgst með af og til og boðið fram ráð, tillögur og kærleiksríka hvatningu.
23 Stundum kemur þó í ljós í samtalinu við foreldrana að best væri fyrir öldungana að hitta hið villuráfandi barn ásamt foreldrunum. Umsjónarmennirnir munu að sjáfsögðu hafa í huga tilhneigingar og takmörk barna og unglinga og leiðbeina hinum unga, óskírða boðbera mildilega. (2. Tímóteusarbréf 2:22-26) Í sumum tilvikum kann að vera augljóst að hann er ekki lengur hæfur til að vera boðberi og ber þá að tilkynna söfnuðinum það.
24. (a) Hvað er viðeigandi fyrir foreldrana að gera ef ungt barn gerist sekt um alvarlega rangsleitni og hvernig geta þeir borið sig að við það? (b) Hver er staðan ef ófullveðja barn hefur verið gert rækt?
24 En hvað geta foreldrarnir þaðan í frá gert til að hjálpa villuráfandi barni sínu? Þeir bera enn sem fyrr ábyrgð á því enda þótt það sé óhæft til að teljast óskírður boðberi, eða jafnvel ef það er gert rækt vegna rangrar breytni eftir skírn. Á sama hátt og þeir munu halda áfram að sjá barninu fyrir fæði, klæði og húsaskjóli þurfa þeir að fræða það og aga í samræmi við orð Guðs. (Orðskviðirnir 6:20-22; 29:17) Ástríkir foreldrar geta þannig haldið biblíunám með barninu, jafnvel þótt því hafi verið vikið úr söfnuðinum.f Verið getur að það nái fyrr fótfestu á ný ef numið er með því einslega. Foreldrar geta einnig talið best að það haldi áfram að sækja fjölskyldunámið. Þótt barnið hafi farið afvega vilja þeir sjá það snúa aftur til Jehóva líkt og glataði sonurinn gerði í dæmisögu Jesú. — Lúkas 15:11-24.
25. Hvers vegna er ‚vantrúuðum‘ sýnd kærleiksrík umhyggja og áhugi nú á dögum?
25 Markmið okkar með því að prédika og kenna öðrum er að hjálpa þeim að verða hamingjusamir tilbiðjendur hins sanna Guðs. ‚Vantrúaðir og fáfróðir‘ í Korintu fundu sig knúna til að ‚falla fram á ásjónu sína og tilbiðja Guð og lýsa yfir að Guð sé sannarlega hjá okkur.‘ (1. Korintubréf 14:25) Það er okkur mikið gleðiefni að sjá sífellt fleiri koma til að tilbiðja Guð! Það er stórfengleg uppfylling þess sem englarnir lýstu yfir: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:14.
[Neðanmáls]
a Annar öldunganna ætti að tilheyra þjónustunefnd safnaðarins. Hinn gæti verið sá öldungur sem best þekkir til nemandans eða kennara hans, svo sem stjórnandi safnaðarbóknámsins.
b Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., árið 1983 (ekki til á íslensku).
c Fram til þessa hafa óskírðir einstaklingar, sem voru hæfir til að taka þátt í þjónustunni á akrinum, verið kallaðir „viðurkenndir félagar.“ Það er hins vegar nákvæmara að tala um „óskírðan boðbera,“ einkum í ljósi þess að velþóknun Guðs er háð gildri vígslu og kristinni skírn eins og Biblían gefur til kynna.
d Ef einstaklingurinn er ósáttur við þessa niðurstöðu getur hann óskað þess (innan sjö daga) að málið sé skoðað á ný.
e Áður var sneitt algerlega hjá óskírðum einstaklingum sem syndguðu en iðruðust ekki. Þótt þess sé ekki krafist lengur ætti eftir sem áður að hlýða ráðum 1. Korintubréfs 15:33.
f Koma skal fram við burtræka ættingja, sem búa utan heimilisins, í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar sem ræddar voru í Varðturninum þann 1. október 1988 bls. 28-32 og 1. janúar 1982 bls. 26-31.
Manst þú?
◻ Hvernig líta kristnir menn á ‚vantrúaða‘ sem sækja samkomur?
◻ Hvað gera öldungarnir þegar biblíunemandi vill taka þátt í þjónustunni á akrinum, og hvaða ábyrgð tekst biblíunemandinn á herðar?
◻ Hvað er gert ef óskírður boðberi drýgir alvarlega synd?
◻ Hvernig geta foreldrar og öldungar hjálpað ófullveðja barni, sem býr heima, ef það drýgir alvarlega synd?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Það er þýðingarmikið skref í átt til skírnar og velþóknunar Guðs að verða boðberi fagnaðarerindisins.