Láttu mikilvægu málin ganga fyrir!
Það er samkomukvöld en þú hefur nóg að gera. Hvað læturðu ganga fyrir?
SEGJUM að þú sért eiginmaður og faðir. Löngum og ströngum vinnudegi er að ljúka og þú ferð að hugsa um safnaðarsamkomuna um kvöldið. Ef þú ferð strax úr vinnunni hefurðu rétt svo tíma til að fara í sturtu, skipta um föt og gleypa í þig kvöldmatinn áður en þú ferð á samkomu. En skyndilega kemur vinnuveitandinn til þín og biður þig um að vinna yfirvinnu. Hann lofar að borga þér vel. Þú þarft á peningunum að halda.
Segjum að þú sért eiginkona og móðir. Meðan þú undirbýrð kvöldmatinn rekurðu augun í stafla af óstraujuðum fötum, og þar af nokkrum sem þarf að nota á morgun. Þú spyrð þig: ‚Ef ég fer á samkomu í kvöld hvenær hef ég þá tíma til að strauja?‘ Þú ert nýbyrjuð að vinna fulla vinnu og ert búin að uppgötva hve erfitt það er að sjá um heimilisstörfin jafnhliða því að draga björg í bú.
Segjum að þú sért í skóla. Hrúga af heimaverkefnum liggur á skrifborðinu í herberginu þínu. Þú fékkst þau flest öll í hendur fyrir nokkru en þú hefur trassað þau og núna þarf að skila nokkrum verkefnum strax. Það er freistandi að biðja um leyfi foreldranna til að fara ekki á samkomu svo að þú getir klárað heimaverkefnin.
Hvað myndir þú láta ganga fyrir: yfirvinnuna, strauvinnuna, heimavinnuna eða safnaðarsamkomuna? Hvað merkir það andlega séð að raða málum í rétta forgangsröð? Hvernig lítur Jehóva á málið?
Hvað ætti að ganga fyrir?
Stuttu eftir að Ísraelsmenn fengu boðorðin tíu stóðu þeir mann að því að safna saman viði á hvíldardegi. Það var stranglega bannað í lögmálinu. (4. Mósebók 15:32-34; 5. Mósebók 5:12-15) Hvernig hefðir þú dæmt í málinu? Hefðir þú reynt að afsaka manninn með þeim rökum að hann hefði nú þrátt fyrir allt ekki verið að vinna fyrir einhverjum munaði heldur til að sjá fjölskyldu sinni fyrir nauðsynjum? Hefðir þú bent á að mörg tækifæri gæfust allt árið til að halda hvíldardaginn og ef einhver missti af einu skipti, kannski vegna fyrirhyggjuleysis, væri auðveldlega hægt að fyrirgefa það?
Jehóva leit málið alvarlegri augum. Biblían segir: „En [Jehóva] sagði við Móse: ‚Manninn skal af lífi taka.‘“ (4. Mósebók 15:35) Af hverju tók Jehóva svona hart á málinu?
Fólkið hafði sex daga til að safna viði og sinna þörfum sínum fyrir fæði, klæði og húsaskjól. Sjöunda daginn átti að helga andlegum þörfum þeirra. En þótt ekki væri rangt að safna viði, var rangt að vinna þetta verk á þeim tíma sem átti að vera frátekinn fyrir tilbeiðslu Jehóva. Er þetta atvik ekki lexía í að hafa rétta forgangsröð nú á tímum, þó að kristnir menn séu ekki undir Móselögmálinu? — Filippíbréfið 1:10.
Eftir að hafa eytt 40 árum í eyðimörkinni bjuggust Ísraelsmenn til að fara inn í fyrirheitna landið. Sumir voru orðnir þreyttir á að borða manna, sem Guð gaf þeim í eyðimörkinni, og hlökkuðu eflaust til að breyta um mataræði. Til að hjálpa þeim að hafa rétt viðhorf þegar þeir færu inn í landið „sem flýtur í mjólk og hunangi,“ minnti Jehóva þá á „að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur . . . á sérhverju því, er fram gengur af munni [Jehóva].“ — 2. Mósebók 3:8; 5. Mósebók 8:3.
Ísraelsmennirnir þurftu að vinna mikið fyrir „mjólk og hunangi.“ Það þurfti að sigra heri, byggja hús og sá í akra. En þrátt fyrir það fyrirskipaði Jehóva fólkinu að taka frá tíma á hverjum degi til að hugleiða andleg mál. Þeir áttu einnig að gefa sér tíma til að kenna börnum sínum vegu Jehóva. Jehóva sagði: „Og þér skuluð kenna . . . börnum yðar [boðorð mín] með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ — 5. Mósebók 11:19.
Öllum karlmönnum í landinu, bæði ísraelskum og trúskiptingum, var fyrirskipað að birtast frammi fyrir Jehóva þrisvar sinnum á ári. Margir fjölskyldufeður gerðu sér ljóst að öll fjölskyldan nyti andlega góðs af slíkum viðburðum og tóku eiginkonur og börn með. En hver myndi vernda heimili þeirra og akra gegn árásum óvina meðan fjölskyldan væri í burtu? Jehóva lofaði: „Enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir [Jehóva] Guði þínum þrem sinnum á ári.“ (2. Mósebók 34:24) Ísraelsmenn þurftu að hafa trú til að treysta að þeir myndu ekki tapa efnislega ef þeir létu andleg mál ganga fyrir. Hélt Jehóva loforð sitt? Svo sannarlega!
Leitaðu fyrst ríkis Guðs
Jesús kenndi fylgjendum sínum að setja andleg gildi framar öllu öðru. Í fjallræðunni ráðlagði hann áheyrendum sínum: „Segið . . . ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ . . . Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegar nauðsynjar] veitast yður að auki.“ (Matteus 6:31, 33) Stuttu eftir dauða Jesú fylgdu nýskírðir kristnir menn þessu ráði. Margir voru Gyðingar eða trúskiptingar sem höfðu komið til Jerúsalem til að halda hvítasunnuhátíðina árið 33. Meðan þeir voru þar gerðist nokkuð óvænt. Þeir heyrðu og tóku við fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Þeir brunnu í skinninu að læra meira um nýfundna trú sína svo að þeir urðu eftir í Jerúsalem. Vistirnar gengu brátt til þurrðar en efnisleg þægindi skiptu litlu máli. Þeir höfðu fundið Messías! Kristnir bræður þeirra deildu með þeim efnislegum eigum sínum svo að allir gætu haldið áfram að rækja „trúlega uppfræðslu postulanna og . . . bænirnar.“ — Postulasagan 2:42.
Þegar tímar liðu misstu sumir kristnir menn sjónar á þörfinni fyrir reglulegan félagsskap á samkomum. (Hebreabréfið 10:23-25) Kannski sökktu þeir sér niður í efnishyggju og vanræktu andleg mál meðan þeir voru að reyna að tryggja sér og fjölskyldu sinni fjárhagslegt öryggi. Eftir að hafa hvatt bræður sína til að vanrækja ekki samkomurnar skrifaði Páll postuli: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ — Hebreabréfið 13:5.
Ráðlegging Páls reyndist vera mjög tímabær. Um það bil fimm árum eftir að Páll skrifaði bréf sitt til Hebrea var Jerúsalem umkringd af rómverska hernum undir stjórn Cestíusar Gallusar. Trúfastir kristnir menn minntust viðvörunar Jesú: ‚Þegar þér sjáið þetta, skal sá sem er uppi á þaki, ekki fara ofan og inn í húsið að sækja neitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.‘ (Markús 13:14-16) Þeir vissu að björgun þeirra réðist ekki af stöðugri atvinnu eða verðmæti efnislegra eigna heldur af hlýðni þeirra við leiðbeiningar Jesú. Þeim sem höfðu hlýtt ráði Páls og látið andleg mál ganga fyrir fannst eflaust auðveldara að yfirgefa heimili, vinnu, föt og dýrmæta persónulega muni og flýja til fjalla, heldur en þeim sem höfðu ekki slitið sig lausa frá efnishyggjunni.
Hvernig sumir láta mikilvægu málin ganga fyrir nú á tímum
Trúfastir kristnir menn nú á tímum meta mikils að eiga reglulega félagsskap við bræður sína og margir færa fórnir til að geta sótt samkomurnar. Sums staðar er vaktavinna eina fáanlega atvinnan. Bróðir nokkur býðst til að leysa vinnufélaga sína af á laugardagskvöldum, sem flestir í samfélaginu kjósa að verja til afþreyingar, ef þeir vinna vaktirnar hans á samkomukvöldum. Aðrir bræður, sem vinna vaktavinnu, sækja samkomur annars safnaðar ef vinna þeirra kemur í veg fyrir að þeir sæki sínar eigin. Þannig missa þeir næstum aldrei af samkomu. Kona í Kanada, sem sýndi nýlega áhuga, komst fljótt að raun um mikilvægi Guðveldisskólans og þjónustusamkomunnar en vinnuáætlun hennar stangaðist á við samkomurnar. Þess vegna borgaði hún samstarfsmanni sínum fyrir að vinna vaktirnar sínar til að hún gæti sótt þessar mikilvægu samkomur.
Margir sem þjást af langvinnum veikindum missa sjaldan af samkomu. Þegar þeir komast ekki í ríkissalinn hlusta þeir á dagskrána heima í gegnum símasamband eða af snælduupptöku. Þeir sýna lofsvert þakklæti fyrir andlegar ráðstafanir Jehóva fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns‘! (Matteus 24:45) Kristnir menn, sem annast aldraða foreldra sína, meta það mikils að bræður og systur bjóðist til að vera hjá foreldrunum svo að þeir geti sótt safnaðarsamkomuna.
Sýndu fyrirhyggju
Foreldrar sem eru sér meðvita um andlegar þarfir sínar hjálpa börnum sínum að meta kristnar samkomur. Almennt ætlast þeir til að börnin vinni heimaverkefnin jafnóðum og þeim er sett fyrir í stað þess að leyfa þeim að hrannast upp. Á samkomudögum vinna börnin heimaverkefnin um leið og þau koma heim úr skólanum. Tómstundir og aðrar athafnir mega ekki trufla samkomusókn.
Lætur þú sem ert eiginmaður og faðir samkomurnar ganga fyrir? Reynir þú sem ert eiginkona og móðir að skipuleggja verk þín þannig að þú getir sótt samkomurnar? Skipuleggur þú sem ert unglingur heimaverkefnin eftir samkomum eða samkomur eftir heimaverkefnum?
Safnaðarsamkoma er kærleiksrík ráðstöfun Jehóva. Við ættum að reyna til hins ítrasta að njóta góðs af þeim. Jehóva blessar þig ríkulega ef þú lætur mikilvægu málin ganga fyrir!