Lofum Jehóva í „miklum söfnuði“
1, 2. Hvað höfum við tækifæri til að gera á landsmótinu og hvernig getum við gert það?
1 Við höfum einstakt tækifæri til að lofa Jehóva á landsmótunum ár hvert. Okkur er eins innanbrjósts og Davíð sem söng: „Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.“ (Sálm. 35:18) Hvernig getum við tryggt að við verðum Jehóva til lofs sem sameinað fólk hans á næstkomandi landsmóti, „Hlýðni við Guð“?
2 Ein leið til að gera það er með góðri hegðun. Forstöðumaður mótsstaðar sagði: „Eftir að hafa fylgst með mótunum ykkar höfum við sagt öðrum trúflokkum, sem vilja leigja húsnæðið, að koma og sjá hvernig Vottar Jehóva halda mót þar sem fyrirkomulag þeirra er fullkomið.“ Við getum öll stuðlað að slíku lofi, sem með réttu tilheyrir Jehóva, með útliti okkar, samvinnu og hegðun. — 1. Pét. 2:12.
3, 4. Hvernig stuðlar hógværð að því að við klæðumst fötum sem hæfa kristnum mönnum bæði á mótinu og eftir dagskrána?
3 Útlit: Það krefst hógværðar að klæða okkur og snyrta þannig að það sé Jehóva til lofs. (1. Tím. 2:9) Boðunarskólabókin segir á bls. 132: „Látlausum manni er umhugað um að sýna öðrum tillitssemi og draga ekki óþarfa athygli að sjálfum sér.“ Í mörgum löndum er ósæmandi klæðnaður orðinn algengur. En Jehóva kann að meta það sem við leggjum á okkur til að vera honum til sóma sem fulltrúar hans. (Post. 15:14) Þó að mótið sé haldið í íþróttahúsi verður þar ,mikill söfnuður‘ þessa þrjá daga sem það stendur yfir. Þegar við söfnumst saman frammi fyrir Jehóva skulum við því klæða okkur með þeim virðuleika sem hæfir æðstu persónu alheimsins. — 1. Kron. 29:11.
4 Við þurfum líka að gefa því gaum hvernig við erum til fara eftir dagskrá hvers dags. Þó svo að okkur langi kannski til að klæðast þægilegri fötum þegar við stundum afþreyingu eða erum á veitingahúsi er mikilvægt að klæðnaður okkar og snyrting sómi þeim „er Guð vilja dýrka“. (1. Tím. 2:10) Viðeigandi klæðnaður ákvarðast ekki af því sem er vinsælt í heiminum. (1. Jóh. 2:16, 17) Í ritum okkar er að finna myndir sem sýna karla og konur í látlausum og snyrtilegum klæðnaði við ýmsar aðstæður. Þegar við höfum barmmerkin uppi við erum við minnt á að við erum kristin öllum stundum. — 2. Kor. 6:3, 4.
5, 6. Hvernig getum við sýnt að við berum virðingu fyrir andlegu borði Jehóva?
5 Sýndu virðingu fyrir borðhaldi Jehóva: Alheimsdrottinn hefur búið okkur veislu. (Jes. 25:6; 1. Kor. 10:21) Ef við metum mikils að fá að sitja við andlegt borð Jehóva setjum við okkur það markmið að vera viðstödd alla þrjá mótsdagana. Ertu búinn að fá frí frá vinnu og hefurðu ákveðið hvar þú ætlar að gista og hvernig þú ætlar að ferðast? Hefurðu tekið frá nægan tíma til undirbúnings og ferða þannig að þú getir verið mættur á mótsstaðinn nógu snemma til að finna sæti, eiga félagsskap við trúsystkini og lofa Jehóva ásamt þeim í söng og bæn í upphafi dagskrárinnar? — Sálm. 147:1.
6 Ef við virðum borðhald Jehóva tökum við vel eftir dagskránni og erum ekki að tala við aðra að óþörfu, borða eða rölta um gangana meðan á henni stendur. Jehóva notar hinn trúa og hyggna þjónshóp til að gefa okkur þá andlegu fæðu sem við þurfum á að halda einmitt núna. (Matt. 24:45) Við höfum ekki efni á að missa af neinu. Foreldrar ættu að sitja með börnum sínum og hjálpa þeim að hafa fullt gagn af dagskránni. — 5. Mós. 31:12.
7. Hvað erum við beðin um að gera varðandi hádegismat og hvers vegna?
7 Mælst er til þess að við komum með hádegisverð í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn í hádegishléinu til að fá okkur að borða. Það er hrósvert að flestir mótsgestir fylgdu þessum leiðbeiningum á mótinu á síðasta ári. Það væri frábært ef allir myndu gera það á þessu ári. (Hebr. 13:17) Þessi tilhögun gefur okkur gott tækifæri til að njóta uppbyggjandi félagsskapar trúsystkina okkar og stuðlar að einingu og friði sem er Jehóva til dýrðar. — Sálm. 133:1.
8, 9. Hvaða aðra leið höfum við til að lofa Jehóva á mótinu?
8 Óformlegur vitnisburður: Þegar við förum til og frá mótsstaðnum höfum við mörg tækifæri til að lofa Jehóva með vörum okkar. (Hebr. 13:15) Hvort sem við erum á veitingastað eða tölum við afgreiðslufólk skulum við leita færis á að vitna. Segjum þeim sem við hittum frá þeim dásamlegu hlutum sem við lærum á mótinu. — 1. Pét. 3:15.
9 Við horfum fram til þess með eftirvæntingu að lofa Jehóva „í söfnuðunum“. (Sálm. 26:12) Við skulum öll lofa Jehóva í sameiningu á landsmótinu „Hlýðni við Guð“.
(Rammi á blaðsíðu 5)
Til minnis
◼ Dagskrártímar: Dagskráin hefst kl. 9:30 alla þrjá dagana en þá fær kynnirinn sér sæti á sviðinu meðan inngangstónlist er leikin. Allir ættu að fá sér sæti þá svo að dagskráin geti hafist á sómasamlegan hátt. Dagskránni lýkur kl. 17:05 á föstudeginum og laugardeginum en kl. 16:10 á sunnudeginum.
◼ Sæti: Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir heimilisfólk okkar og þá sem eru okkur samferða.
◼ Framlög: Það er nokkuð kostnaðarsamt að halda landsmót. Við getum sýnt þakklæti með frjálsum framlögum okkar til alþjóðastarfsins, annaðhvort í ríkissalnum eða á mótinu. Allar ávísanir sem gefnar eru á mótinu ættu að vera stílaðar á „Deildarskrifstofu Votta Jehóva“.
◼ Heyrnarskertir: Í mótssalnum er ákveðið svæði með tónmöskva ætlað fólki með skerta heyrn. Þeir sem hafa viðeigandi heyrnartæki geta nýtt sér þetta. Einnig standa til boða fáein þráðlaus heyrnartól en hljóðdeildin veitir frekari upplýsingar um þau.
◼ Hádegisverður: Komdu með hádegisverðinn í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn til að fá þér að borða. Hægt er að hafa litla tösku með sér undir matinn. Ekki er leyfilegt að hafa glerílát eða áfengi á mótsstaðnum.
◼ Upptökutæki: Gætið þess að ónáða ekki aðra ef þið notið upptökutæki. Þau má ekki tengja við raf- eða hátalarakerfi mótsstaðarins.
◼ Myndataka: Ekki má nota leifturljós meðan á dagskránni stendur.
◼ Farsímar: Stilla ætti farsíma þannig að þeir valdi ekki truflun.
◼ Slys og neyðartilfelli: Ef upp kemur neyðartilfelli á mótsstaðnum skal láta næsta salarvörð vita og mun hann hafa samband við Skyndihjálp. Þá geta hæfir einstaklingar metið stöðuna og veitt viðeigandi aðstoð.