Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 4.10 bls. 5-7
  • Landsmótin — ánægjulegar tilbeiðslustundir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landsmótin — ánægjulegar tilbeiðslustundir
  • Ríkisþjónusta okkar – 2010
  • Svipað efni
  • Umdæmismótin bera sannleikanum öflugt vitni
    Ríkisþjónusta okkar – 2012
  • Sérstakt tækifæri til að gleðjast og næra okkar andlega mann
    Ríkisþjónusta okkar – 2008
  • Ertu undirbúinn að sækja andlega veislu?
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
  • Þrír andlega endurnærandi dagar
    Ríkisþjónusta okkar – 2011
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2010
km 4.10 bls. 5-7

Landsmótin — ánægjulegar tilbeiðslustundir

1. Að hvaða leyti voru hátíðir Ísraelsmanna áþekkar landsmótunum sem nú eru haldin?

1 Jósef, María, börn þeirra og fleiri ferðuðust að staðaldri til Jerúsalem til að sækja hátíðirnar sem haldnar voru ár hvert. Fólk tók sér þá hlé frá daglegu amstri og einbeitti sér að andlega þættinum í lífi sínu sem var því svo mikilvægur. Hátíðirnar gáfu fólki tækifæri til að hugleiða og ræða saman um gæsku Jehóva og lögmál hans. Væntanlegt landsmót býður upp á svipað tækifæri fyrir okkur til að tilbiðja Jehóva og eiga saman ánægjulegar stundir.

2. Hvað þurfum við að gera til að búa okkur undir næsta landsmót?

2 Undirbúningur: Fjölskylda Jesú þurfti að fara fótgangandi frá Nasaret til Jerúsalem. Það voru um 100 kílómetrar hvora leið. Við vitum ekki hve mörg systkini Jesús átti en við getum gert okkur í hugarlund að svona ferðalag hefur kostað töluverðan undirbúning af hálfu Jósefs og Maríu. Hefurðu gert viðeigandi ráðstafanir til að sækja væntanlegt landsmót? Eitt af því sem þarf að gera er að tryggja sér frí frá vinnu til að geta verið viðstaddur alla þrjá dagana. Þú þarft ef til vill að útvega þér gistingu meðan á mótinu stendur. Gætirðu átt frumkvæðið að því að hjálpa trúsystkini með sérþarfir að sækja mótið? — 1. Jóh. 3:17, 18.

3. Hvernig buðu hátíðir Gyðinga upp á tækifæri til að eiga uppbyggilegan félagsskap?

3 Uppbyggilegur félagsskapur: Hátíðir Gyðinga gáfu þjónum Guðs á sínum tíma einstakt tækifæri til að eiga uppbyggilegan félagsskap við trúsyskini. Fjölskylda Jesú hefur vafalaust hlakkað til þess að hitta gamla vini og eiga ánægjulegar stundir með þeim. Hátíðirnar buðu einnig upp á tækifæri til að eignast nýja vini meðal Gyðinga og trúskiptinga meðan á hátíðunum stóð eða á leiðinni til og frá Jerúsalem.

4. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir að tilheyra sameinuðu kristnu bræðrafélagi?

4 Hinn trúi og hyggni þjónn gæti látið nægja að birta á prenti það efni sem flutt er á landsmótunum. Ein ástæðan fyrir því að haldin eru mót er sú að þá getum við hist og verið hvert öðru til hvatningar. (Hebr. 10:24, 25) Við skulum því mæta tímanlega hvern dag til að eiga ánægjulegar stundir með trúsystkinum áður en dagskrárkynnir tilkynnir að dagskráin sé að hefjast með tónlist og það sé kominn tími til að ganga til sætis. Við erum hvött til að taka með okkur nesti í stað þess að fara af mótsstaðnum í hádegishléinu til að borða. Þá höfum við tækifæri til að hitta aðra mótsgesti og spjalla saman. Hið kristna bræðrafélag, sem við tilheyrum, er gjöf frá Jehóva sem við ættum öll að vera þakklát fyrir. — Míka 2:12.

5. Hvernig getum við haft sem mest gagn af dagskránni?

5 Tækifæri til að læra: Jesús nýtti sér hátíðirnar allt frá unga aldri til að fræðast um himneskan föður sinn. (Lúk. 2:41-49) Hvernig getum við og fjölskyldur okkar haft sem mest gagn af dagskránni? Sitjum í sætum okkar meðan dagskráin stendur yfir og tölum ekki saman að óþörfu. Látum ekki farsímann trufla okkur eða aðra. Horfum sem mest á ræðumanninn og skrifum hjá okkur stutta minnispunkta. Best er að fjölskyldan sitji saman því að þá geta foreldrar séð til þess að börnin fylgist með. Á kvöldin er gott að gefa sér smá tíma til að ræða saman um það sem vakti helst athygli okkar.

6. Hvað eigum við að hafa í huga varðandi klæðaburð og útlit?

6 Snyrtilegur klæðnaður og útlit: Erlendir farandkaupmenn hafa ekki átt erfitt með að bera kennsl á fjölskyldu Jesú og aðra Gyðinga sem voru á leið til Jerúsalem að halda hátíð eða á heimleið. Ástæðan var sú að Gyðingar voru með kögur á klæðafaldinum og purpurabláan þráð fyrir ofan. (4. Mós. 15:37-41) Enda þótt kristnir menn gangi ekki í sérstökum einkennisklæðnaði erum við þekkt fyrir að vera hrein, snyrtileg og smekklega til fara. Við ættum að huga sérstaklega að klæðaburði okkar þegar við ferðumst til mótsins og heim aftur, svo og meðan á dvöl okkar stendur í bænum. Jafnvel þó að við höfum fataskipti eftir að dagskránni lýkur ættum við að vera Jehóva til sóma og bera mótsmerkið. Þannig getum við skorið okkur úr fjöldanum og komið öðrum vel fyrir sjónir.

7. Af hverju ættum við að íhuga hvort við getum unnið sjálfboðastörf í tengslum við mótið?

7 Þörf er á sjálfboðaliðum: Margir þurfa að leggja hönd á plóginn til að mótið gangi snurðulaust fyrir sig. Gætir þú boðið fram krafta þína? (Sálm. 110:3) Störfin, sem unnin eru í tengslum við mótið, eru þáttur í heilagri þjónustu okkar og eru góður vitnisburður. Forstöðumaður eins mótsstaðar var svo hrifinn af að sjá til sjálfboðaliðanna sem þrifu húsnæðið að hann skrifaði: „Mig langar til að þakka ykkur fyrir ótrúlegasta viðburð sem ég hef orðið vitni að. Ég hafði oft heyrt að vottar Jehóva væru einstakt fólk og væru orðlagðir fyrir að skila húsnæði alltaf hreinna en þeir tækju við því. Þið og söfnuður ykkar hafið gert þetta hús að enn betri stað fyrir samfélagið og notuðuð til þess viðfelldnasta hóp fólks sem við höfum nokkurn tíma kynnst.“

8. Hvernig gætu skapast tækifæri til að vitna um trúna meðan mótið stendur yfir?

8 Tækifæri til að vitna: Margir eiga eftir að veita athygli vel klæddu og snyrtilegu fólki með mótsmerki, og það getur hugsanlega vakið forvitni fólks og gefið okkur tækifæri til að segja öðrum frá mótinu. Fjögurra ára drengur tók með sér nýútgefið rit þegar hann fór á veitingastað með foreldrum sínum eftir dagskrá. Hann sýndi þjónustustúlkunni ritið og það gaf foreldrunum tilefni til að bjóða henni á mótið.

9. Hvernig leit fjölskylda Jesú á hátíðirnar sem Jehóva sá þeim fyrir og hvernig getum við gert slíkt hið sama?

9 Hátíðir Ísraelsmanna til forna voru gleðilegir viðburðir sem andlega sinnaðir Gyðingar hlökkuðu til. (5. Mós. 16:15) Fjölskylda Jesú var reiðubúin að færa miklar fórnir til að geta sótt þessar hátíðir og notið góðs af þeim. Við hugsum eins um landsmótin og lítum á þau sem gjöf frá ástríkum föður á himnum. (Jak. 1:17) Núna er rétti tíminn til að byrja að búa okkur undir þetta árlega tækifæri til að tilbiðja Jehóva með gleði.

[Rammi á bls. 6, 7]

Til minnis vegna landsmóts

◼ Dagskrártímar: Dagskráin hefst kl. 9:20 alla þrjá dagana. Þegar tilkynnt er að tónlistin hefjist ættu allir að finna sér sæti til að dagskráin geti hafist með virðulegum hætti. Dagskránni lýkur kl. 16:55 á föstudegi og laugardegi og kl. 15:40 á sunnudegi.

◼ Sæti: Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir heimilisfólk, þá sem eru okkur samferða og biblíunemendur okkar. — 1. Kor. 13:5.

◼ Hádegisverður: Við hvetjum gesti til að taka með sér nesti í stað þess að fara af mótsstaðnum til að borða í hádegishléinu. Hægt er að taka matinn með sér í lítilli tösku eða kæliboxi. Ekki er leyfilegt að vera með glerílát á mótsstaðnum.

◼ Framlög: Við getum sýnt að við kunnum að meta mótið með því að gefa frjáls framlög til alþjóðastarfsins, annaðhvort í ríkissalnum eða á mótsstaðnum.

◼ Slys og neyðartilfelli: Ef upp kemur neyðartilfelli á mótsstaðnum skal láta salarvörð vita og hann hefur þá samband við Skyndihjálp. Þá geta hæfir einstaklingar metið stöðuna, veitt viðeigandi aðstoð eða hringt í Neyðarlínuna ef þess gerist þörf.

◼ Heyrnarskertir: Í mótssalnum er ákveðið svæði með tónmöskva ætlað fólki með skerta heyrn. Þeir sem hafa viðeigandi heyrnartæki geta nýtt sér þetta. Einnig standa til boða fáein þráðlaus heyrnartól. Hljóðdeildin veitir frekari upplýsingar um þau.

◼ Upptökur: Ekki má tengja upptökutæki við rafkerfi eða hljóðkerfi hússins. Gætið þess að nota upptökubúnaðinn þannig að hann valdi ekki truflun.

◼ Ilmefni: Flest mót fara fram innandyra í húsnæði með loftræstibúnaði. Það ber vott um tillitssemi að nota sem minnst af sterkum ilmefnum, rakspírum og ilmvötnum því að þau gætu valdið þeim óþægindum sem eru með öndunarfærasjúkdóma eða þess háttar. — 1. Kor. 10:24.

◼ Fylgjum eftir áhuga: Ef við vitnum óformlega fyrir fólki yfir mótshelgina og það sýnir áhuga skulum við biðja viðkomandi um nafn og heimilisfang eða símanúmer þar sem hægt er að ná í hann. Ef við höfum ekki tækifæri til að fylgja áhuganum eftir sjálf ættum við að koma upplýsingunum á framfæri við annan boðbera sem getur haft samband við viðkomandi einstakling. Ef þú ert ekki viss um hvert þú átt að snúa þér getur ritarinn í söfnuðinum þínum aðstoðað þig. — Sjá Ríkisþjónustu okkar í febrúar 2005, bls. 7.

◼ Veitingastaðir: Ef við förum út að borða skulum við gæta þess að heiðra Jehóva með góðri framkomu okkar.

◼ Gisting: Þeir sem vantar gistingu á höfuðborgarsvæðinu meðan mótið stendur yfir geta fyllt út eyðublað og gefið upp hve margir eru í fjölskyldunni eða hópnum og hvenær þörf sé á gistingu. Eyðublaðið á að senda deildarskrifstofunni sem sendir það áfram til mótsnefndarinnar. Boðberar á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að bjóða sig fram til að taka á móti næturgestum. Margir hafa haft ánægju af því að kynnast trúsystkinum betur við þessi tækifæri. Það er mikilvægt að bæði þeir sem óska eftir aðstoð með gistingu og þeir sem vilja bjóða fram húsnæði geri það snemma svo að hægt sé að afgreiða allar fyrirspurnir tímanlega.

◼ Sjálfboðastörf: Við höfum enn meiri ánægju af því að sækja mótið ef við bjóðum fram krafta okkar til að taka þátt í þeim störfum sem vinna þarf. (Post. 20:35) Einkum er þörf á fúsum höndum við þrif og uppsetningu daginn fyrir mót og svo við frágang eftir að dagskrá lýkur á sunnudegi. Börn yngri en 16 ára geta líka lagt sitt af mörkum með því að vinna undir umsjón foreldra sinna, forráðamanns eða annarrar fullorðinnar manneskju með samþykki foreldranna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila