Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 4.12 bls. 3-5
  • Umdæmismótin bera sannleikanum öflugt vitni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Umdæmismótin bera sannleikanum öflugt vitni
  • Ríkisþjónusta okkar – 2012
  • Svipað efni
  • Þrír andlega endurnærandi dagar
    Ríkisþjónusta okkar – 2011
  • Góð hegðun er Guði til heiðurs
    Ríkisþjónusta okkar – 2013
  • Landsmótin — ánægjulegar tilbeiðslustundir
    Ríkisþjónusta okkar – 2010
  • „Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna“
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2012
km 4.12 bls. 3-5

Umdæmismótin bera sannleikanum öflugt vitni

1. Hvaða mikilvægu sannindi fengu Ísraelsmenn tækifæri til að hugleiða á árvissum hátíðum sínum?

1 Ísraelsmenn komu saman þrisvar á ári til hátíðahalda. Heilu fjölskyldurnar héldu oft til Jerúsalem til þessara hátíða þó að þess væri aðeins krafist að karlmenn sæktu þær. (5. Mós. 16:15, 16) Þar gafst tækifæri til að ræða um og íhuga mikilvæg andleg sannindi. Hvaða sannindi hugleiddu þeir? Til dæmis hve örlátur og umhyggjusamur Jehóva er og hvernig þeir gátu treyst á leiðsögn hans og vernd. (5. Mós. 15:4, 5; 5. Mós. 32:9, 10) Ísraelsmenn fengu einnig tækifæri til að hugleiða hvers vegna þeir ættu að endurspegla réttlæti Jehóva með líferni sínu þar sem þeir voru kenndir við nafn hans. (5. Mós. 7:6, 11) Umdæmismótin, sem við höldum á hverju ári, gegna svipuðu hlutverki.

2. Hvernig varpar umdæmismótið ljósi á sannleikann?

2 Dagskráin varpar ljósi á sannleikann: Á umdæmismótunum hlustum við á ræður, horfum á leikrit og sýnidæmi og hlustum á viðtöl. Allt þetta varpar ljósi á mikilvæg biblíusannindi. (Jóh. 17:17) Nú þegar hefur mikil vinna verið lögð í undirbúning fyrir mótið í sumar. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur sett saman dagskrá sem mun gefa öllum sem sækja mótið andlega fæðu á réttum tíma. (Matt. 24:45-47) Hlakkar þú til að vera viðstaddur?

3. Hvernig getum við haft sem mest gagn af dagskránni?

3 Við höfum auðvitað mest gagn af dagskránni ef við erum viðstödd allan tímann. Ef þú hefur ekki tryggt þér frí frá vinnu um mótshelgina ættirðu að tala við vinnuveitandann sem fyrst. Sjáðu líka til þess að þú fáir góðan nætursvefn fyrir hvern mótsdag svo að þú hafir athyglina í lagi. Mörgum finnst hjálplegt að hafa augun á ræðumanninn og taka niður minnispunkta. Gættu þess að farsíminn eða önnur tæki trufli ekki þig eða aðra mótsgesti. Á meðan dagskráin stendur yfir ættum við að forðast að tala, senda textaskilaboð, borða eða drekka.

4. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að hafa sem mest gagn af mótinu?

4 Á hvíldarárum komu fjölskyldur í Ísrael saman á laufskálahátíðinni til að hlusta á lög Guðs lesin. Börnin voru einnig viðstödd,til þess að hlusta á þau og læra‘. (5. Mós. 31:12) Það er ánægjulegt að sjá börnin sitja með foreldrum sínum og hlusta af athygli á mótsdagskrána. Og er ekki tilvalið að bera saman minnispunktana eftir hvern mótsdag og tala um það sem stóð upp úr? Foreldrar ættu að hafa góða umsjón með börnum sínum og unglingum, bæði í hádegishléinu og þar sem fjölskyldan gistir, í stað þess að leyfa þeim að leika lausum hala. – Orðskv. 22:15; 29:15.

5. Hvernig ber hegðun okkar sannleikanum gott vitni?

5 Hegðun okkar ber sannleikanum gott vitni: Það ber sannleikanum gott vitni þegar við hegðum okkur vel á mótsstaðnum. (Tít. 2:10) Fólk tekur eftir því þegar mótsgestir sýna af sér góða breytni hvar sem þeir koma. (Kól. 4:6) Þegar fulltrúar deildarskrifstofu nokkurrar áttu í samningum við hótel í fyrra sagði sölustjórinn þeim: „Okkur finnst frábært að hafa fólkið ykkar á hótelinu. Það er svo kurteist og vingjarnlegt. Það kemur alltaf fram við starfsfólkið með virðingu og gengur vel um.“

6. Hvernig getum við borið sannleikanum gott vitni með klæðaburði okkar yfir mótshelgina?

6 Barmmerkin, sem við berum á meðan mótið stendur yfir, gera meira en að auglýsa mótið og auðvelda öðrum mótsgestum að þekkja okkur. Þau gefa líka öðrum ákveðinn vitnisburð. Fólk tekur eftir því að þeir sem bera þessi merki eru látlausir en snyrtilegir, ólíkt þeim hirðuleysislega og ögrandi klæðaburði sem er algengur í heiminum. (1. Tím. 2:9, 10) Við ættum því að gæta sérstaklega að því hvernig við klæðum okkur þessa daga. Ef við viljum skipta um föt eftir að dagskránni lýkur og fara út að borða, ættum við ekki að vera of hversdagslega klædd því að við erum enn þá mótsgestir. Við ættum alltaf að vera snyrtileg og virðulega til fara.

7. Hvernig getum við notið góðs félagsskapar við trúsystkini okkar á mótsstaðnum?

7 Á árlegum hátíðum Ísraelsmanna nutu þeir ánægjulegs félagskapar við trúsystkini frá öllum löndum og það stuðlaði að einingu þeirra. (Post. 2:1, 5) Kærleikurinn, sem ríkir meðal þjóna Guðs, er svo sannarlega sýnilegur á umdæmismótunum. Þessi andlega paradís vekur oft hrifningu hjá þeim sem sjá til. (Sálm. 133:1) Taktu með þér nesti og njóttu þess að borða í góðum félagsskap með bræðrum og systrum á mótsstaðnum í stað þess að fara út og kaupa þér mat.

8. Hvaða ástæður höfum við til að bjóða fram krafta okkar í vinnu við mótin ef aðstæður okkar leyfa?

8 Fólk hrífst oft af því hversu vel skipulögð mótin eru, sérstaklega þegar þeim er sagt að allt sé þetta gert af sjálfboðaliðum. Gætir þú fúslega boðið fram aðstoð þína á mótinu? (Sálm. 110:3) Heilu fjölskyldurnar bjóðast oft til að vinna og kenna þannig börnunum að gefa af sér. Ef þú ert feiminn er sjálfboðavinna góð leið til að kynnast öðrum mótsgestum. Systir ein sagði: „Ég þekkti fáa aðra en fjölskylduna og örfáa vini á mótsstaðnum. En þegar ég aðstoðaði við þrifin kynntist ég mörgum bræðrum og systrum. Það var mjög skemmtilegt.“ Það gefur okkur mikla gleði að aðstoða við mótin og eignast þannig fleiri vini. (2. Kor. 6:12, 13) Ef þú hefur aldrei boðið fram krafta þína skaltu spyrja öldungana hvað þú þurfir að gera til að geta tekið þátt.

9. Hvernig munum við bjóða öðrum á mótið?

9 Bjóðum öðrum að heyra sannleikann: Eins og undanfarin ár verður gert átak í þrjár vikur fyrir umdæmismótið til að bjóða fólki að sækja það. Söfnuðir ættu að reyna að fara yfir eins mikið af safnaðarsvæðinu og hægt er með boðsmiðann. (Sjá rammann: „Hvernig bjóðum við boðsmiðann?“) Ef þú átt boðsmiða afgangs þegar mótið hefst og þú ætlar ekki að nota þá sjálfur skaltu koma með þá á mótsstaðinn. Þeir verða notaðir til að vitna óformlegan fyrir fólki yfir mótshelgina.

10. Endursegðu frásögur sem sýna að þetta átak skilar árangri.

10 Skilar þetta árlega átak árangri? Á einu umdæmismóti aðstoðaði umsjónarmaður hjón að finna sæti. Þau sögðu honum að þau hefðu fengið boðsmiða og að hann hafi vakið athygli þeirra. Þau lögðu á sig 320 kílómetra akstur til að vera viðstödd. Systir nokkur gaf manni, sem hún hitti í boðunarstarfinu, boðsmiða. Hann virtist vera forvitinn um mótið þannig að hún gaf sér tíma til að ræða við hann um boðsmiðann. Nokkrum dögum síðar sá systirin manninn ástamt vini sínum á mótinu. Þeir voru komnir með nýútgefið rit í hendurnar.

11. Hvers vegna er mikilvægt að sækja umdæmismótið?

11 Árlegu hátíðirnar, sem Ísraelsmenn héldu, voru kærleiksrík ráðstöfun frá Jehóva til að hjálpa þeim að þjóna honum „af fullkominni trúmennsku“. (Jós. 24:14) Umdæmismótin geta með svipuðum hætti hjálpað okkur að vera,trú sannleikanum og breyta eftir honum‘. Þau eru mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar. (3. Jóh. 3) Megi Jehóva blessa viðleitni allra sem elska sannleikann til að sækja mótið og hafa fullt gagn af því.

[Innskot á bls. 4]

Það ber sannleikanum gott vitni þegar við hegðum okkur vel á mótsstaðnum.

[Innskot á bls. 5]

Í þrjár vikur fyrir umdæmismótið verður gert átak til að bjóða fólki að sækja það.

[Rammi á bls. 3-6]

Til Minnis Vegna Umdæmismótsins 2012

◼ Dagskrártímar: Dagskráin hefst kl. 9:20 alla þrjá dagana. Þegar tilkynnt er að tónlistin hefjist ættu allir að ganga til sætis svo að dagskráin geti hafist með virðulegum hætti. Dagskránni lýkur kl. 16:55 á föstudegi og laugardegi og kl. 15:40 á sunnudegi.

◼ Sæti: Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir heimilisfólk, biblíunemendur eða þá sem eru okkur samferða. – 1. Kor. 13:5.

◼ Hádegisverður: Við hvetjum gesti til að taka með sér nesti í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn til að borða í hádegishléinu. Hægt er að taka matinn með sér í lítilli tösku eða kæliboxi. Ekki er leyfilegt að vera með glerílát á mótsstaðnum.

◼ Framlög: Við getum sýnt að við kunnum að meta mótið með því að gefa frjáls framlög til alþjóðastarfsins á mótsstaðnum.

◼ Slys og neyðartilfelli: Ef upp kemur neyðartilfelli á mótsstaðnum skal láta salarvörð vita og hann hefur þá samband við þá sem veita skyndihjálp á staðnum. Þá geta hæfir einstaklingar metið stöðuna, veitt viðeigandi aðstoð eða hringt í Neyðarlínuna ef þess gerist þörf.

◼ Lyf: Ef þú þarft á lyfseðilsskyldum lyfjum að halda skaltu gæta þess að hafa þau með þér á mótsstaðinn.

◼ Heyrnarskertir: Í mótssalnum er ákveðið svæði með tónmöskva ætlað fólki með skerta heyrn. Þeir sem hafa viðeigandi heyrnartæki geta nýtt sér þetta. Einnig standa til boða fáein þráðlaus heyrnartól. Hljóðdeildin veitir frekari upplýsingar um þau.

◼ Ilmefni: Flest mót fara fram innandyra í húsnæði með loftræstibúnaði. Það ber vott um tillitssemi að nota sem minnst af sterkum ilmefnum, rakspírum og ilmvötnum því að þau gætu valdið þeim óþægindum sem eru með öndunarfærasjúkdóma eða þess háttar. – 1. Kor. 10:24.

◼ Fylgjum eftir áhuga: Ef við vitnum óformlega fyrir fólki yfir mótshelgina og það sýnir áhuga skulum við biðja viðkomandi um nafn og heimilisfang eða símanúmer þar sem hægt er að ná í hann. Ef við höfum ekki tækifæri til að fylgja áhuganum eftir sjálf ættum við að koma upplýsingunum á framfæri við annan boðbera sem getur haft samband við viðkomandi einstakling. Ef þú ert ekki viss um hvert þú átt að snúa þér getur ritarinn í söfnuðinum þínum aðstoðað þig. – Sjá Ríkisþjónustu okkar í maí 2011, bls. 3.

◼ Skírn: Þar sem skírnin er tákn þess að við höfum vígst Jehóva sem einstaklingar er ekki viðeigandi að skírnþegar haldist í hendur meðan þeir skírast. Þeir eiga ekki að stilla sér upp í skírnarlauginni til myndatöku, hvorki fyrir né eftir skírnina.

◼ Sjálfboðastörf: Þörf er á fúsum höndum einkum við þrif og uppsetningu daginn fyrir mót og svo við frágang eftir að dagskrá lýkur á sunnudegi. Börn yngri en 16 ára geta líka lagt sitt af mörkum með því að vinna undir umsjón foreldra sinna, forráðamanns eða annarrar fullorðinnar manneskju með samþykki foreldranna.

◼ Gisting: Þeir sem vantar gistingu á höfuðborgarsvæðinu meðan mótið stendur yfir geta fyllt út eyðublað og gefið upp hve margir eru í fjölskyldunni eða hópnum og hvenær þörf sé á gistingu. Eyðublaðið á að senda deildarskrifstofunni sem sendir það áfram til mótsnefndarinnar. Boðberar á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að bjóða sig fram til að taka á móti næturgestum. Margir hafa haft ánægju af því að kynnast trúsystkinum betur við þessi tækifæri. Það er mikilvægt að bæði þeir sem óska eftir aðstoð með gistingu og þeir sem vilja bjóða fram húsnæði geri það snemma svo að hægt sé að afgreiða allar fyrirspurnir tímanlega.

◼ Veitingastaðir: Ef við förum út að borða skulum við gæta þess að heiðra Jehóva með góðri framkomu okkar.

[Rammi á bls. 5]

Hvernig bjóðum við boðsmiðann?

Til að geta náð til sem flestra skulum við vera stuttorð. Við gætum sagt eitthvað þessu líkt: „Góðan daginn. Mig langar til að afhenda þér boðsmiða sem verið er að dreifa um allan heim. Gerðu svo vel, hér er eintakið þitt. Þú finnur nánari upplýsingar á boðsmiðanum.“ Vertu glaðlegur og jákvæður. Um helgar ætti einnig að bjóða blöðin þegar það á við.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila